Skólavarðan - 01.09.2004, Blaðsíða 3

Skólavarðan - 01.09.2004, Blaðsíða 3
3 FORMANNSPISTILL SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 4. ÁRG. 2004 Ég er grunnskólakennari og er stoltur af því. Frá því ég hóf kennslu fyrir u.þ.b. 30 árum hefur margt breyst í starfi kennara. Þá var kennslan aðalatriðið en nú hefur verið bætt inn verkefni á verkefni ofan þannig að kennslan, undirbúningur og úrvinnsla er að verða aukaatriði. Í kjarasamningi FG og viðsemjenda frá 2001 segir að meginhlutverk kennarans sé kennslu- og uppeldisfræði- legt starf með nemendum; - veita þeim innblástur og handleiðslu í þekkingarleit þeirra. Raunin er sú í dag að kennarar leggja á sig ómælda vinnu umfram vinnuskyldu til að geta sinnt kennsl- unni með sóma. Því má segja að metnaðarfullir kennarar verði nokkurs konar „samviskufangar“ í vinnunni. En fá þeir greitt fyrir þessa aukavinnu? Nei, því fer fjarri. Þessi breyting á kennarastarf- inu kallar á breytingu á vinnutímaskilgreiningunni. Þetta gengur viðsemjendum okkar illa að skilja og því er nú svo komið að kenn- urum er misboðið. Þess vegna hafa þeir boðað til vinnustöðvunar 20. september ef ekki hefur samist fyrir þann tíma. Þessi vinnu- deila snýst ekki einungis um launin heldur einnig um vinnutím- ann. Til að samningar takist verða sveitarfélögin að kosta meiru til og auka fjárveitingar sínar til grunnskólans. Miklar væntingar voru til síðasta kjarasamnings sem þó var mjög umdeildur enda færðum við þar miklar fórnir til að hækka grunnlaunin og að margra mati voru launahækkanir þá of dýru verði keyptar. Um slíkt má deila en eitt er víst að hefðu menn séð fyrir hvernig samningurinn reyndist í framkvæmd, hefði hann ver- ið kolfelldur. Kerfisbreyting sú sem samningurinn kveður á um hefur ekki reynst sem skyldi. Markmið hennar var m.a. að draga úr miðstýringu og auka sjálfstæði skóla. Raunin hefur því miður orðið önnur. Miðstýring hefur ekki minnkað og túlkun samnings- ins hefur reynst flókin og valdið deilum og sundrung. Í samningaferlinu núna hefur okkur lítið miðað fram á við enda viðsemjendur ákveðnir í að hlusta hvorki á né heyra það sem við höfum fram að færa. Að þeirra mati er samningurinn full- kominn og engin þörf að breyta í honum stafkrók. Í þessu ferli höfum við sífellt þurft að eyða tíma og orku í að fást við óheilindi viðsemjenda. Nægir þar að nefna rangar glærur á heimasíðu SÍS sem sagðar voru sameiginleg sýn samningsaðila, rangan saman- burð á vinnutíma danskra og íslenskra kennara og fleiri upp- hlaup og rangfærslur. En hver eru laun kennara? Byrjunarlaun 24 ára grunnskóla- kennara, sem er nýútskrifaður úr námi, eru um 160 þúsund krón- ur á mánuði. Grunnlaun 30 ára kennara með umsjón eru 170 -180 þúsund og meðalgrunnlaun stéttarinnar eru um 219 þúsund á mánuði. Markmið samninganefndar FG liggja ljós fyrir. Við viljum að kennarastarfið sé metið að verðleikum. Við viljum hækka laun grunnskólakennara þannig að þau verði sambærileg við laun ann- arra háskólamenntaðra hópa opinberra starfsmanna. Við viljum jafna kennsluskyldu í grunnskólum við kennsluskyldu í framhalds- skólum í áföngum og lengja undirbúningstímann. Til að nálgast þessi markmið höfum við lýst því yfir að við séum tilbúin að loka samningi með innan við 35% kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin ef samið verði fyrir 20. september. Ágætu félagar. Framundan er átakatími og því mikilvægara en nokkru sinni að við stöndum saman og hvikum ekki frá settu marki í baráttunni fyrir bættum kjörum. Markmið okkar með nýjum kjarasamningi er að gera kennarastarfið að aðlaðandi og eftirsóknarverðu ævistarfi. Árangur okkar í starfi jafnast fyllilega á við það besta sem gerist í nágrannalöndunum en í skýrslu frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands kemur fram að háskólanám grunnskólakennara skilar þeim engum arði! Þessu verður að breyta til betri vegar, að öðrum kosti verður kennarastarfið ekki eftirsóknarvert. Við eigum ekki að líða fyrir það að sveitarfélögin sömdu af sér þegar grunnskólinn var fluttur frá ríki til sveitarfélaga. Sýnum og sönnum að við erum stétt þar sem einn berst fyrir alla og allir fyrir einn. Við erum grunnskólakennarar og erum stolt af því. Finnbogi Sigurðsson Háskólanám grunn- skólakennara skilar engum arði! Finnbogi Sigurðsson

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.