Skólavarðan - 01.09.2004, Side 15
15
unglingar gæti ekki öryggis í kynlífi þegar
þeir byrja að stunda það og töldu brýnast
að fjalla um kynlífið almennt, getnaðar-
varnir, tíðahringinn, kynsjúkdóma og varn-
ir, sálrænt gildi kynlífs og hvað umhverfis-
þættir gefi ósanna mynd af kynlífi.
Ólafur Grétar sagði að til stæði að
fylgja fræðslunni Hugsað um barn eftir
með frekari rannsóknum. Hugmyndin er
sú að dr. Sigrún Júlíusdóttir prófessor í
félagsráðgjöf muni hafa yfirumsjón með
rannsókn sem á að gera meðal þeirra sem
taka þátt í verkefninu Hugsað um barn og
fylgja þeim eftir í fimm ár. ÓB-ráðgjöf og
Cynthia Lisa Jeans í Félagi íslenskra skólafé-
lagsráðgjafa munu standa saman að þess-
ari rannsókn til að meta árangur af verk-
efninu hér á landi.
Smáraskóli ýtir úr vör.
Verkefnið hefur verið reynt með af-
bragðs árangri víða í Bandaríkjunum,
Ástralíu og Bretlandi. Halden í Noregi var
fyrsti bærinn sem hrinti því í framkvæmd
þar í landi. Þar tóku fyrst 310 ungmenni úr
þremur árgöngum þátt í verkefninu, reynd-
ar í vikutíma í senn. Kerstin Gustafsson ljós-
móðir sagði að fyrir þann tíma hefðu 10%
stúlka yngri en 18 ára orðið barnshafandi
og helmingur þeirra farið í fóstureyðingu.
Í Strupe-skóla í Halden hefði engin stúlka
orðið barnshafandi eftir að hafa tekið þátt
í verkefninu Hugsað um barn en hún bætti
við að nemendurnir gætu vel hugsað sér
að eignast börn seinna.
Í viðhorfskönnunum í Ástralíu kom í ljós
að hluti nemenda áleit sig tilbúinn til að
eignast barn og ala önn fyrir því þegar þau
voru á aldrinum 15-17 ára og æskilegur ald-
ur til að eignast fyrsta barn væri 22ja ára.
Eftir að hafa tekið þátt í Hugsað um barn
taldi enginn nemenda sig tilbúinn að eiga
barn og æskilegasti aldur til að eignast
fyrsta barn fór uppí 24 ár!
Aðstandendur og stjórnendur margra
grunnskóla hér á landi hafa lýst yfir áhuga
á því að bjóða upp á fræðsluna Hugsað um
barn í 8. bekk í skólum sínum. Í Smáraskóla
í Kópavogi fara tveir fyrstu hóparnir í gang
byrjun september og sagði Valgerður Snæ-
land Jónsdóttir að sér þætti frábært að
til væri svona hugmyndaríkt fólk. Hún og
hennar fólk álitu það vera einstakt tæki-
færi að fá að prófa þetta verkefni. „Ég er
þess fullviss að Hugsað um barn mun hafa
mikil áhrif til góðs, bæði á foreldra og ung-
linga,“ sagði Valgerður að lokum.
GG
SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 4. ÁRG. 2004
Fræðslan Hugsað um barn byggist á hugmyndinni að læra með því
að gera. Dúkkan kallast einfaldlega „barnið“, en hver þátttakandi
gefur„barninu sínu“ nafn að vild. Dúkkunni er stýrt með innbyggðri
tölvu og líkist mjög alvöru barni. Hún hreyfir sig líkt og ungbarn,
grætur, hjalar, gerir í bleiu og heimtar mat hvenær sem er sólar-
hringsins.
Verkefnið felst í því að unglingarnir, strákar sem stelpur, fá dúkku
með sér heim yfir helgi og fá að upplifa kvaðir foreldrahlutverksins í
þann tíma. Á föstudagsmorgni er komið með dúkkurnar og fylgihluti
þeirra í skólann. Nemendurnir sem taka þátt sitja þá tvær kennslu-
stundir hjá hjúkrunarfræðingi sem undirbýr þá undir helgina. Þeir
fá sérstakt tölvuarmband á úlnliðinn sem ekki er hægt að færa milli
einstaklinga. Armbandið hefur að geyma skynjara og þegar því er
beint að dúkkunni skráir það umönnunina sem hún hefur hlotið.
Tölvubúnaðurinn fer í gang um kvöldmatarleytið þennan dag svo að
tryggt sé að nemendur komist heim með dúkkuna áður en verkefnið
fer í gang. Það fylgir töluvert dúkkunni eins og óhjákvæmilega fylgir
raunverulegu barni, en það er bílstóll, bleiur, pelar og fatnaður.
Í tvo sólarhringa eru nemendurnir í hlutverki foreldra og verða að
sinna öllum þörfum dúkkunnar, á nóttu sem degi. Umönnun lýkur
um kvöldmatarleytið á sunnudegi til að „ungu foreldrarnir“ fái not-
ið hvíldar og fái nægan svefn áður en þeir mæta í skólann á mánu-
dagsmorgni. En þá er prentuð út skýrsla um samskiptin sem vistuð er
í minni dúkkutölvunnar.
Sjá nánar:
www.obradgjof.is/index2.htm
barnemix.no/Data_mix/realcare_baby.php
Áslaug Brina Ólafsdóttir, Margrét Marín Arnardóttir,
Þórdís Njálsdóttir og Valgerður Snæland Jónsdóttir undir
búa unglingana undir að hugsa um barn.
Stephanie A. Rowe á námskeiði með íslenskum
skólahjúkrunarfæðingum.
KYNFRÆÐSLA