Skólavarðan - 01.10.2008, Blaðsíða 24

Skólavarðan - 01.10.2008, Blaðsíða 24
24 SKÓLAVARÐAN 6.TBL. 8. ÁRG. 2008 Sigurður Helgason – hinsta kveðja Sigurður Helgason fæddist 2. mars 1930 og ólst upp í Borgarfirði. Að loknu kennara- og íþróttakennaraprófi stundaði hann framhaldsnám í Osló og Minneapolis. Sigurður var kennari og skólastjóri uns hann gekk til liðs við Fræðslumálaskrifstofu og síðar mennta- málaráðuneytið. Auk setu í ýmsum nefndum á vegum ráðuneytisins og í samninganefnd ríkisins starfaði Sigurður alla tíð mikið að íþrótta- og æskulýðsmálum og var meðal annars hvatamaður að stofnun skólabúða á Íslandi á Reykjum í Hrútafirði. Hann var fjölhæfur íþróttamaður, varð Íslandsmeistari í badminton, frjáls- um íþróttum og sundi, söngmaður góður og mikill náttúruunnandi og fuglaáhugamaður, hafði yndi af stangveiðum og stundaði fiskirækt og skógrækt. Með fyrri konu sinni, Ólöfu Láru Ágústsdóttur, eignaðist Sigurður soninn Ágúst Heiðar, rafvirkja, f. 1954. Með seinni konu sinni, Soffíu Kristjánsdóttur, eignaðist hann dæturnar Álfheiði, háskólanema, f. 1982 og Helgu Guðrúnu, húsasmíðanema, f. 1984. Sonarbörn Sigurðar eru þrjú og eitt barnabarnabarn. Útför Sigurðar fór fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík þann 3. nóvember sl. Eiríkur Jónsson formaður KÍ og Elna Katrín Jónsdóttir varaformaður KÍ rituðu minningarorð og kveðju frá Kennarasambandinu sem birtust í Morgunblaðinu þann dag og eru endurbirt hér. Ég vil með nokkrum orðum minnast góðs vinar og sam- ferðamanns, Sigurðar Helgasonar, sem nú er látinn. Kynni mín af Sigurði ná yfir um það bil hálfa öld en mín fyrsta minning um hann tengist því þegar ég sem lítill drengur var að leita að fuglshreiðrum í hálsinum fyrir ofan Reykholt í Borgarfirði. Ástæðan fyrir þessari leit minni var sú að Sigurður, sem jafnan kom í Reykholt á vorin, stundaði á þessum árum þá iðju að merkja fuglsunga. Mér fannst mikið til þessa ábyrgðarstarfs koma og man að ég hlakkaði alltaf til að hitta Sigurð enda var hann einstaklega barngóður og þægilegur maður. Atvikin höguðu því þannig að sambandið milli okkar slitnaði aldrei því á unglingsárum mínum hittumst við oft á vettvangi íþróttanna, ég sem keppandi og hann sem stjórnarmaður í Frjálsíþróttasambandi Íslands. Síðan tók við samstarf á vettvangi skóla- og samningamála þegar Sigurður var orðinn starfsmaður menntamálaráðuneytisins. Í öllum sínum störfum ávann Sigurður sér virðingu samferðafólksins enda óhætt að segja að réttsýni hans og fagmennsku hafi engin takmörk verið sett. Mörg voru þau úrlausnarefni sem við hjá Kennarasambandi Íslands þurftum að leita með til Sigurðar meðan hann starfaði í ráðuneytinu, bæði fagleg málefni og mál sem tengdust framkvæmd kjarasamninga, en Sigurður sat um árabil í samninganefnd ríkisins. Ég minnist þess ekki að nokkurn tíma hafi komið upp mál sem ekki var reynt að leysa á farsælan hátt þannig að báðir aðilar væru sáttir með niðurstöðuna. Sigurður var mannasættir sem ávallt lagði sig allan fram um að ná sem réttlátastri niðurstöðu og það taldist til tíðinda ef ekki tókst að leysa mál án aðkomu dómstóla ef hans naut við. Við sem störf- uðum hjá Kennarasambandi Íslands á árum Sigurðar í menntamálaráðuneytinu minnumst hans með hlýhug, þökk og virðingu. Framlag hans til skólamála á Íslandi var ómetanlegt og fyrir það er mér bæði ljúft og skylt að þakka. Ég vil að leiðarlokum, bæði persónulega og fyrir hönd Kennarasambands Íslands, þakka Sigurði samfylgdina og órofa tryggð og vináttu. Eftirlifandi eiginkonu, afkomendum og öðrum ástvinum sendi ég innilegar samúðarkveðjur og bið algóðan Guð að blessa minningu Sigurðar Helgasonar. Eiríkur Jónsson. Fyrir um tuttugu árum kynntist ég Sigurði Helgasyni. Leiðir okkar lágu saman vegna starfa hans í menntamálaráðuneytinu en minna starfa fyrir kennarasamtökin. Atvikin höguðu því svo að við unnum saman að ýmsum verkefnum um langt árabil, bæði á sviði faglegra mála og kjaramála en Sigurður var lengi viðriðinn kjarasamninga kennara og vann þar mikilvægt starf sem iðulega fólst í því að sameina fagleg sjónarmið þeim kjaralegu, að leiða saman fólk í samræðum og að leysa ágreiningsmál. Sigurður var afar vel til slíkra starfa fallinn. Hann var í senn fylginn sér og sveigjanlegur, skarpskyggn á hvað þurfti til að leysa mál en um leið þolinmóður og úthaldsgóður. Framar öðru var hann þó góður maður sem var létt um að sýna öðru fólki samúð og samhygð og hafði ríka réttlætiskennd. Sigurður átti auðvelt með að umgangast fólk sem bæði var ólíkt að skapferli, á ólíkum aldri og úr ýmsum áttum, var einkar alþýðlegur í framgöngu og hafði ríka kímnigáfu. Mér er það minnisstætt hversu vel honum fórst það úr hendi að leiðbeina okkur sem yngri voru án þess að gera lítið úr okkur en ekki síður kurteisin og ljúfmennskan sem við máttum víst taka okkur til fyrirmyndar. Ég held að við höfum alltaf öll litið á Sigurð sem einn af okkur, hvort sem við vorum launamanna megin eða vinnuveitenda megin við kjarasamningaborðið og segir það mikið um hæfileika hans til þess að setja sig í spor annarra og til þess að sjá bæði vandamál og lausnir á þeim með augum ólíkra aðila. Ég veit að ég tala fyrir munn margra félaga og sam- starfsmanna í kennarastétt þegar ég þakka Sigurði Helgasyni samstarfið að leiðarlokum og votta fjölskyldu hans samúð. Elna Katrín Jónsdóttir. MINNINGARORÐ

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.