Morgunblaðið - 23.12.2015, Blaðsíða 18
18 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 23. DESEMBER 2015
Komið í verslun okkar og sjáið úrvalið
Opið kl. 11-18 alla virka daga
ENJO fyrir jólahreingerninguna
Reykjavíkurvegi 64, Hfj, s. 555 1515, enjo.is
• Engin kemísk efni
• Ódýrara
• Tímasparnaður
• Umhverfisvænt
• 6 x hreinna - betri þrif
• Vinnuvistvænt
• Minni vatnsnotkun
Tækni í þína þágu
hitataekni.is
Bjóðum upp á fjölbreyttan
búnað svo sem loftræsingar,
hitakerfi, kælikerfi, rakakerfi
sem og stjórnbúnað
og stýringar.
Smiðjuvegur 10, 200 Kópavogur - Sími 588 60 70 - hitataekni@hitataekni.is
SVIÐSLJÓS
Björn Jóhann Björnsson
bjb@mbl.is
„Horft til baka má segja að við getum
verið ánægð með að hafa náð þessum
aldri. Það er ekki einfalt í þessari at-
vinnugrein, þar sem skipst hafa á
skin og skúrir, en menn hafa haldið
þrautseigir áfram,“ segir Jón Eðvald
Friðriksson, framkvæmdastjóri
FISK Seafood á Sauðárkróki, en fyr-
irtækið fagnar 60 ára afmæli í dag. Á
Þorláksmessu 1955 tók forverinn til
starfa, Fiskiðja Sauðárkróks, en upp-
haflegir eigendur
voru Kaupfélag
Skagfirðinga og
Sauðárkróks-
kaupstaður.
FISK Seafood
hefur orðið til
með kaupum á
eða samruna
nokkurra félaga á
undanförnum
áratugum. Félög-
in eru Fiskiðja
Sauðárkróks, Hraðfrystihús Grund-
arfjarðar, Útgerðarfélag Skagfirð-
inga, Skjöldur og Skagstrendingur.
Meira fyrir söng en tertur
Fyrirtækið hélt upp á tímamótin
með því að bjóða upp á tvenna af-
mælis- og jólatónleika í menningar-
húsinu Miðgarði sl. sunnudag. Íbúar
héraðsins gátu fengið ókeypis miða
eins og húsrúm leyfði og samanlagt
sóttu hátt í 800 manns tónleikana.
Fram komu söngvararnir Þór Breið-
fjörð og Valgerður Guðnadóttir,
Karlakórinn Heimir og fjöldi ann-
arra tónlistarmanna úr Skagafirði og
víðar að. Skipulagning tónleikanna
var í höndum Áskels Heiðars Ás-
geirssonar.
„Við ákváðum að halda upp á þetta
með veglegum tónleikum í aðdrag-
anda jóla, Skagfirðingar eru líka
miklu meira fyrir söng en rjómatert-
ur,“ segir Jón Eðvald, léttur í bragði,
en FISK Seafood hefur jafnan lagt
mikið til samfélagsins. Fyrirtækið er
í dag í eigu Kaupfélags Skagfirðinga,
rekur landvinnslu á Sauðárkróki og
Grundarfirði og gerir út þrjá togara;
Arnar HU, Málmey SK og Klakk SK,
auk togbátsins Farsæls SH. FISK
hefur einnig fjárfest í nokkrum öðr-
um fyrirtækjum tengdum sjávar-
útvegi, sem talin eru upp hér til hlið-
ar. Samanlagt hjá þessum
fyrirtækjum starfa um 270 manns til
sjós og lands.
1.800 milljóna hagnaður
„Gæfa fyrirtækisins gegnum tíðina
hefur verið gott starfsfólk, bæði í
landvinnslunni og á skipunum, sem
starfað hefur hjá okkur í langan tíma.
Þetta er auðurinn í fyrirtækinu,“
segir Jón Eðvald en FISK heldur að-
alfund sinn í dag, fyrir rekstrarárið
2014-2015, þ.e. síðasta fiskveiðiár.
Hann segir tímabilið hafa komið
ágætlega vel út og rekstrarafgangur
sé svipaður og kvótaárið þar áður,
eða um 1.800 milljónir króna eftir
skatta. Er félagið nánast skuldlaust.
„Kaupfélagið hefur verið sterkur
bakhjarl þegar upp hafa komið
hremmingar. Reksturinn er sér-
stakur að því leyti að margir koma að
eignarhaldinu, þó að þetta sé rekið
sem hlutafélag og með sérstakri
stjórn. Ef þú leggur inn hundrað kall
í kaupfélagið þá ertu þar með orðinn
meðeigandi. Hagsmunir fyrirtæk-
isins eru samofnir samfélaginu og
þetta verður til þess að við tökum
ekki of mikla áhættu. Þetta hefur þá
kosti að arðurinn verður eftir í hér-
aðinu.“
FISK Seafood hefur á seinni árum
ráðist í ýmsar fjárfestingar og breyt-
ingar. Á síðasta ári var byggt nýtt
1.500 fermetra fiskþurrkunarhús á
Sauðárkróki, ný afskurðarvél var
keypt frá Marel, Málmey var breytt
úr frystitogara í ferskfisktogara með
uppsetningu á fullkomnu kælikerfi
og nýr ferskfisktogari er í smíðum í
Tyrklandi sem mun leysa Klakk af
hólmi og fá nafnið Drangey. Fjárfest-
ingar síðasta rekstrarárs námu um
1,5 milljörðum króna. Að sögn Jóns
er vonast til að fá nýja skipið afhent í
ársbyrjun 2017. Það mun kosta um
2,5 milljarða króna en um þriðjungur
var greiddur við undirskrift samn-
ings, afgangurinn við afhendingu.
Fiskprótein á markað
Fyrirtækið hefur lagt meiri
áherslu á landvinnslu, í því skyni að
hámarka afurðanýtingu. Auk breyt-
inga á togurunum var fjárfest í þró-
unarfyrirtækinu Iceprotein, sem er
með starfsemi í Verinu á Sauðár-
króki. Þar er verið að þróa þorskpró-
tein yfir í fæðubótarefni og að sögn
Jóns Eðvalds er von á fyrstu afurð-
um Iceprotein á neytendamarkað
hér á landi í næsta mánuði.
„Við sjáum mörg tækifæri í því að
taka þátt í svona rannsóknar- og þró-
unarvinnu. Með þessu skapast ný
tæknimenntuð störf. Það er gott að
fá ungt fólk inn í greinina með ný við-
horf. Við höfum einnig verið að gefa
okkar starfsfólki tækifæri til að
mennta sig,“ segir Jón Eðvald en
FISK Seafood hefur stutt við fisk-
tækninám í samstarfi við Fisktækni-
skóla Íslands, Farskólann og Fjöl-
brautaskóla Norðurlands vestra á
Sauðárkróki. Tuttugu starfsmenn
ljúka náminu í vor en verkefnið hlaut
nýverið verðlaun Fræðslumiðstöðvar
atvinnulífsins.
Ljósmynd/Unnur Gottsveinsdóttir
Tónleikar Karlakórinn Heimir, undir stjórn Stefáns R. Gíslasonar, ásamt einsöngvaranum Þór Breiðfjörð.
Buðu öllum á tónleika
á 60 ára afmælinu
Forveri FISK Seafood hóf rekstur á Þorláksmessu 1955
Fiskiðjan Höfuðstöðvar FISK Seafood á Eyrinni á Sauðárkróki.
Dótturfélögin
» FISK Seafood á nokkur dótt-
urfélög tengd útgerð og fisk-
vinnslu.
» Hólalax starfrækir bleikju-
eldi í Hjaltadal og á Sauð-
árkróki. 95% hlutur FISK.
» Iceprotein er þróunarfyrir-
tæki á Sauðárkróki. 100%
hlutur FISK.
» Hólmadrangur rekur rækju-
verksmiðju á Hólmavík. 50%
hlutur FISK.
» Reykofninn á Grundarfirði
stundar veiðar og vinnslu á
sæbjúgum. 100% hlutur FISK.
» Náttúru fiskirækt ehf. er
með bleikjueldi í Þorlákshöfn.
100% hlutur FISK.
Jón Eðvald
Friðriksson
Ljósmynd/Gunnar Rögnvaldsson
Miðgarður Tónlistarmenn og tónlistarstjórar að tónleikum loknum.
Batamiðstöðin á Kleppi var opnuð
formlega í gær. Keppendur í hjól-
reiðakeppninni WOW Cyclothon í
sumar söfnuðu 21.728.250 krónum til
styrktar uppbyggingu miðstöðv-
arinnar. Söfnunarfénu verður varið
til að byggja upp aðstöðu til hreyf-
ingar á Kleppi og til að ráða íþrótta-
fræðing til að leiða verkefnið.
Fram kemur í tilkynningu að
batamiðuð þjónusta sé vel á veg
komin á Kleppi og sé Batamiðstöðin
einn liður í að bæta þá þjónustu.
Batamiðstöð er tilraunaverkefni
til þriggja ára og krefst þess að
ráðnir séu tveir íþróttafræðingar
auk þess sem þarf að byggja upp að-
stöðu til hreyfingar á Kleppi.
Rafn Haraldur Rafnsson íþrótta-
fræðingur var fenginn til að leiða
verkefnið en vonast er til að það skili
sér í bættum lífsstíl með lækkun á
kostnaði fyrir notendur sjálfa, t.d.
lækkun á lyfjakostnaði og fyrir sam-
félagið í heild.
„Öll þekkjum við hve fjölþætt
vægi hreyfingar er fyrir almenna
heilsu fólks og andlega vellíðan. Á
það einnig við um fólk með geðrask-
anir. Reynslan sýnir að einstakl-
ingar með geðklofa sem stunda lík-
amsrækt eiga oft auðveldara með að
hafa stjórn á einkennum sjúkdóms-
ins,“ er haft eftir Maríu Einisdóttur,
framkvæmdastjóra geðsviðs Land-
spítala, í tilkynningunni.
Klippt á borða Batamiðstöðin var opnuð formlega á Kleppi í gær.
Batamiðstöðin opn-
uð formlega á Kleppi
22 milljónir söfnuðust í hjólreiðakeppni