Morgunblaðið - 25.08.2016, Síða 21

Morgunblaðið - 25.08.2016, Síða 21
MINNINGAR 21 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 25. ÁGÚST 2016 Fundum okkar Ólafar bar fyrst saman haustið 1954, en við vorum þá að hefja skóla- göngu í Melaskólanum, nánar tiltekið sjöárabekk Joð. Við tóku níu vetur, upp barnaskól- ann, gagnfræðaskólann og landspróf, uns menntaskólinn stíaði okkur í sundur, en þar var raðað í bekki eftir kynferði. Til viðbótar vorum við dans- félagar í rómuðum dansskóla Hermanns Ragnars og dönsuð- um saman til brons, silfurs og minnir mig líka gulls. Ég hafði því af þessari stúlku nokkur kynni og leit raunar jafnan á hana sem syst- ur mína, sem slík bjó hún í huga mér og sinni. Sem á raun- ar við um svo marga af æsku- félögum okkar, það er furðuleg einföldun að hver og einn sé einstaklingur, þvert á móti er- um við samsett úr samferða- fólki okkar sem verður ósjálf- rátt hluti af okkur og við af þeim. Samferðalaginu heldur áfram löngu eftir að eiginlegum samvistum sleppir, það sáum við svo glöggt í fyrravor þegar við hittumst aftur barnaskóla- bekkurinn til að heiðra kennslukonuna okkar níræða. Þá var rúmlega hálf öld síðan sum okkar höfðu hist, sem var eins og í gær, þráðurinn var tekinn upp þar sem honum sleppti, eða réttar sagt sleppti aldrei. Og þar var Ólöf ómissandi í allri skipulagningu, á sinn lát- lausa hátt með allt undir kont- ról. Leiðir okkar Ólafar skildi aldrei því við áttum sama heimavöll: bókmenntirnar þar sem við hittumst títt. Hún var minn kjörni prófarkalesari og í hvert skipti sami léttirinn að líta rithönd hennar sem bar enn svip af forskrift barna- skólakennarans góða, aukin af innra landslagi Ólafar, óbrigð- ulli málkennd og smekk. Það var einhver „nú er öllu óhætt“ tilfinning sem greip mann í hvert eitt sinn. En hún gerði meira en leið- rétta villur og betrumbæta orðalag, hún var ekki síður hollráð um efnistök og innihald. Sjálf var hún afbragðs þýðandi og afkastamikil á því sviði, upp- talning færi með plássið en ein- kunnin „Ólöf Eldjárn þýddi“ var næg ástæða til að verða sér úti um bókina. Margir muna líka eftir Ólöfu frá því hún stýrði Bóksölu stúdenta sem þá var staðsett í Félagsstofnun stúdenta við Hringbraut, á uppeldisreit hennar, Þjóðminjasafnstor- funni. Þar var hún jafnan hauk- ur í horni um allt sem laut að fróðleik, upplýsingu og útvegun bóka. Ólöf kann að hafa komið ókunnugum fyrir sjónir sem ögn fjarlæg, nánast hlédræg, en í vinahópi var hún hrókur alls fagnaðar og úthaldsgóð partímanneskja. Ég hygg að hún hafi frá fyrstu tíð búið við afar kröfuhart siðalögmál, ekki beint í skilningi siðferðis heldur sæmdar. Að láta frá sér illa unnið verk eða smekklaust var henni fullkominn ómöguleiki. Og nú hefur hún borist fregnin sem maður hefur svo lengi kviðið að heyra: að hún væri öll. Ekki er mánuður síðan við kvöddum aðra kæra bekkjar- systur, Elísabetu Halldórsdótt- Ólöf Eldjárn ✝ Ólöf Eldjárnfæddist 3. júlí 1947. Hún lést 15. ágúst 2016. Útför hennar fór fram 24. ágúst 2016. ur, en það er auð- vitað eins og hvert annað öfugmæli, maður getur ekki kvatt vini sína af því þeir eru hluti af manni sjálfum. Maður gæti eins kvatt sjálfan sig. Og Ólöf mun víst halda áfram í verk- um sínum og vin- um. Pétur Gunnarsson. Nú hallar fallegu sumri, blómin sem lifnuðu í vor og náðu þroska hverfa til foldar. Vinahópur okkar er nú minntur á að hringrás lífsins verður ekki stöðvuð, eftir sumar kem- ur haust og síðan vetur. Við fréttina að ein úr hópnum hefur kvatt er allt í einu komið haust í huganum, Ólöf vinkona okkar og félagi varð að láta undan í baráttu við illvígan sjúkdóm. Helmingur vinahópsins átti það sameiginlegt að vera í námi við arkitektaskóla Listaaka- demíunnar í Kaupamannahöfn á árunum 1966-77, hinn helm- ingurinn makar. Þar kynntust flest okkar og bundust ævilöng- um vinaböndum. Hópurinn var ekki allur á sama tíma heldur komu og fóru og kynntust á þessum árum. Ólöf var maki eins úr hópnum og kom út 1968, þá með Stefáni Erni ásamt syni þeirra Kristjáni Andra. Í þessu umhverfi kynnt- umst við flest Ólöfu, sem þá var að hefja nám í ensku við Kaupmannahafnarháskóla. Hún sagði okkur síðar að hún hefði ekki alveg verið sátt við að stunda nám í ensku og enskum bókmenntum í Kaupmannahafnarháskóla en látið sig hafa það. Hún var alltaf sú yfirvegaða og skarpsýna þegar mál voru rædd. Nákvæm og vel lesin og hefur æði oft hjálpað okkur hinum með bæði texta og þýð- ingar. Stúdentabyltingin sem hófst vorið 1968 í París barst á örskotsstund um allan hinn vestræna heim. Unga fólkið velti fyrir sér nýjum tækifær- um og nýrri hugsun þar sem stóru hagsmunirnir voru hags- munir heildarinnar. Þessi um- brotatími þjappaði okkur ungu námsmönnunum á Dönsku Listaakademíunni og mökum þeirra saman. Við urðum virkir þátttakendur í bygginga- og skipulagsumræðu í Danmörku og á Íslandi. Á árunum 1971-72 var heimili Ólafar og Stefáns á Kollegigaarden á Nörrebro miðpunktur hópsins. Þar sátum við mörg kvöld og skrifuðum greinar í dagblöð um skipulags- og byggingamál á Íslandi. Þarna voru engar tölvur, ekk- ert Google og ekkert „copy og paste“. Greinaskrif þessi hefðu ekki verið möguleg án aðkomu Ólafar, sem hafði fullkomin tök á íslenskri tungu og tjáning- arformi. Gengið var frá hand- ritinu og það póstlagt. Nokkr- um dögum síðar birtust greinarnar, stundum mynd- skreyttar með teikningu Stef- áns Arnar af okkur höfundun- um. Minningar um góða konu og traustan vin fljúga hratt í gegnum hugann. Ólöf var af- kastamikill þýðandi fjölda bóka og mismunandi, sem sýnir vel hæfileika hennar í glímu við ólíka texta. Þá var hún ritstjóri hjá bókaútgáfu og stýrði Bók- sölu Stúdenta um árabil. Ekk- ert hefur truflað einlæga vin- áttu okkar í nær hálfa öld annað en maðurinn með ljáinn sem hefur nú höggvið skarð í hópinn í þriðja sinn. Árlega hefur hópurinn hist á aðvent- unni og í seinni tíð hefur verið bætt við grillsamkomu á sumri og er ein slík nýafstaðin. Ólöf hafði uppi áform um að mæta, en heilsa hennar kom í veg fyr- ir það. Við vottum Stefáni Erni, Kristjáni Andra og Davíð, Stef- áni Halli og Ágústi og fjöl- skyldum okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning Ólafar Eld- járn. Fyrir hönd vinahóps nem- enda við Akademíuna í Kaup- mannahöfn 1967-1977. Einar E. Sæmundsen og Hilmar Þór Björnsson. Það er með miklum söknuði og virðingu sem við kveðjum í dag góða vinkonu okkar, Ólöfu Eldjárn. Leiðir okkar lágu fyrst sam- an að ráði þegar við fluttum til Kaupmannahafnar árið 1970 þar sem Ólöf og Stefán Örn voru fyrir og myndaðist með okkur góður vinskapur sem haldist hefur síðan. Fljótlega eftir að við fluttum aftur til Ís- lands að loknu námi höguðu at- vikin því svo að við eignuðumst sitt hvorn helminginn af par- húsi við Öldugötu þar sem við bjuggum saman í tæp 25 ár. Við þetta bættist svo að árið 1993 gengum við ásamt fleira góðu fólki til liðs við Hjörleif Stefánsson og Sigrúnu systir Ólafar við uppbyggingu og rekstur Amtmannshússins á Arnarstapa og stofnuðum síðar Stapafélagið um rekstur húss- ins. Ólöf sinnti þar alla tíð störfum gjaldkera af mikilli festu, mátulegu aðhaldi og miklum sóma. Ólöf hafði skoðanir á hlut- unum, stóð fast á þeim og rétt- lætiskennd var henni í blóð borin. Það var gott að leita til hennar, hún var úrræðagóð, hafsjór af fróðleik og alltaf tilbúin til að hjálpa. Aðalvett- vangur hennar tengdist bók- menntum og þar var aldrei komið að tómum kofanum. Ólöf var mjög sérstök mann- eskja með óvenjulega og djúpa kímnigáfu sem ekki var allra að skilja enda hafði hún stundum á orði að enginn skildi húm- orinn hennar. Ólöf var miðjan í nánustu fjölskyldu þeirra Stefáns Arnar og nú hafa strákarnir misst mikilvæga stoð og styttu. Við sendum Stefáni Erni, sem hefur staðið eins og klett- ur við hlið Ólafar í veikindum hennar, Kristjáni Andra, Davíð, Stefáni Halli og Ágústi Breka innilegar samúðarkveðjur. Guðrún I. Gunnarsdóttir, Stefán Thors. Ólöf er fallin frá, Ólöf besta vinkona mín. Óstöðvandi flóð góðra minn- inga kemur upp í hugann, frá barna- og gagnfræðaskólaárun- um þegar við hittumst eftir skóla, gjarna á lóð Þjóðminja- safnsins, stundum í stærri hópi HSK-vinanna tíu og væri heið- skírt reyndum við stundum að átta okkur á legu og heitum himintunglanna. Minningar frá MR-árunum þar sem við sátum öll fjögur árin hlið við hlið í öft- ustu röð A-bekkjar og pískr- uðum, kannski óhóflega á stundum. A.m.k. hringdi Ólöf í mig eftir skóla einn daginn þegar ég hafði legið tvo daga í flensu og tilkynnti mér alvar- legri röddu að veikindi mín væru bara sjálfsblekking, hrein lífsblekking. Einn kennarinn hafði í skól- anum þennan sama morgun ávítað mig, sem var fjarver- andi, og sagt: „Þegið þér, El- ínborg“ og kennarar hefðu ávallt rétt fyrir sér, þeim gæti ekki skjátlast. Ég hefði sem sagt verið í skólanum þennan morgun án þess að átta mig á því. Og auðvitað brustum við báðar í hláturskast eftir þessa opinberun. Þau voru mörg hlát- ursköstin á þessum tíma. Ótal góðar minningar frá há- skólaárunum, t.d. þegar Ólöf kom að heimsækja mig til Suð- ur-Frakklands og við fetuðum í fótspor Rómverja á þeim slóð- um. Og seinna þegar við fórum í heimsókn til Þórarins bróður hennar og Unnar til Svíþjóðar. Og enn seinna frá árlegum heimsóknum okkar Evu dóttur minnar í húsið á Arnarstapa, minningar sem aldrei gleymast. Ólöf var góð kona, drengur góður eins og fornmenn orðuðu það. Hún var skarpgreind, stál- minnug, trygglynd, umhyggju- söm og skyldurækin en þó var húmorinn aldrei langt undan. Hún var víðlesin og margfróð, mikilvirkur þýðandi og mjög vandvirk við öll þau verkefni sem hún tók að sér. Heilsteypt manneskja. Henni var mjög annt um fjöl- skyldu sína. Mér er enn minn- isstætt þegar við skólafélagarn- ir í MR fórum í fræga selsferð og upplifðum þar mikinn hrekk því við trúðum öll að kjarn- orkustyrjöld væri skollin á og að við ættum einungis stutta stund eftir ólifað. Viðbrögð skólafélaga minna voru ólík en Ólöf hafði mestar áhyggjur af yngsta systkini sínu, Ingólfi, hvernig honum liði. Fjölskyldan var henni mik- ilvægust í lífinu. Stebbi, syn- irnir tveir Kristján og Hallur og svo seinni árin bættust tengdasonurinn Davíð og ömmudrengurinn Ágúst í hóp- inn. Þeir voru „karlarnir mínir“ eins og hún komst sjálf að orði. Rétt eins og henni var umhug- að um yngri systkin sín á ung- lingsárunum var hún seinna vakin og sofin yfir velferð sona sinna og þar stóðu hún og Stef- án, lífsförunautur hennar, sam- an vel að verki. Ólöf sýndi aðdáunarvert æðruleysi, eins og hennar var von og vísa, þegar hún fyrst greindist með krabbann fyrir mörgum árum og ég og fleiri trúðum því statt og stöðugt að hún hefði komist yfir sjúkdóm- inn. Enn meira æðruleysi sýndi hún síðasta árið þegar kom í ljós að hann tók sig upp aftur og ekki varð við neitt ráðið. Ég votta systkinum Ólafar, þeim Þórarni, Sigrúnu og Ing- ólfi og fjölskyldum þeirra, svo og Stebba, Krulla, Davíð, Halli og Ágústi mína dýpstu samúð. Elínborg Stefánsdóttir. Árið 1990 var Ólöf Eldjárn ráðin forlagsritstjóri hjá Máli og menningu, og átti eftir að starfa hjá fyrirtækinu, og síðar Eddu útgáfu, til ársins 2007. Raunar hófust kynnin mun fyrr því margar af úrvalsþýðingum Ólafar komu út undir merkjum Máls og menningar, auk þess sem hún starfaði sem fram- kvæmdastjóri hjá fyrirtækinu fyrri hluta ársins 1984, þá í launalausu leyfi frá Bóksölu stúdenta sem hún rak af mynd- arskap um langt skeið. Ráðning Ólafar reyndist mikill happafengur. Hún rit- stýrði einkum fræðiritum og fagbókum af ýmsu tagi, oft mjög umfangsmiklum verkum. Henni lét vel að hafa marga þræði í hendi sér og gæta þess að hvergi hlypi snurða á. Óhætt er að fullyrða að hún var í hópi allra færustu fagbókaritstjóra hérlendis, einstaklega vandvirk og metnaðarfull. Hún var kröfuhörð við sjálfa sig og ætlaðist jafnframt til að aðrir legðu sig fram. Þeir sem unnu með Ólöfu lærðu að temja sér fagmennsku í vinnubrögð- um. Ólöf lét sér líka alla tíð annt um þá höfunda og þýðendur sem hún vann með, vildi veg þeirra sem mestan og talaði ætíð máli þeirra, enda ávann hún sér hylli og vinskap ákaf- lega margra sem áttu samleið með henni í útgáfuvafstrinu. Ólöf gat verið þung á bár- unni ef henni misbauð eitthvað og hún tók mistök mjög nærri sér, en hún átti líka ákaflega auðvelt með að gleðjast og fagna og sem betur fer urðu gleðistundirnar margar. Vinna á bókaforlagi gengur iðulega fyrir sig í törnum og oft koma upp aðstæður þegar kalla verð- ur alla upp á dekk til að ljúka verkefnum á réttum tíma. Við slíkar aðstæður er ómetanlegt að geta leitað til fólks eins og Ólafar, sem var víkingur til vinnu. Við urðum ríkari af kynnum við Ólöfu og kveðjum hana með miklu þakklæti. Stefáni Erni og ástvinum Ólafar öllum færum við innilegar samúðarkveðjur. Vertu nú kært kvödd, elsku- leg. Árni Kr. Einarsson, Halldór Guðmundsson, Sigurður Svavarsson. Við tókum tal saman undir húsvegg sólríka sumarnótt í Flatey fyrir einum fimmtán ár- um. Innandyra hélt hljómsveitin Súkkat uppi fjörinu og á borð- um voru dýrindis sjávarkrásir úr Breiðafirðinum. Við vissum að við ættum ýmislegt sameig- inlegt og það var enginn skort- ur á umræðuefnum hvorki þá né síðar. Fjölskyldur okkar fléttast sögu lýðveldisins og svo hafði Ólöf verið með elstu syst- ur minni í Dagnýjarbekknum öll Melaskólaárin. Þær höfðu meira að segja verið saman í leynifélagi en það hafði allt gerst allt löngu áður en ég kom í þennan heim enda þær að byrja í gaggó um það leyti sem ég fæddist. Sumarnóttina í Flatey rædd- um við minnst um þetta en þeim mun meira um bókmennt- ir. Mörgum árum síðar hitt- umst við á ný. Sitjum saman til borðs í afmælisveislu, fylgjumst með uppákomum og hlustum á ræður. Af skyndilegri hvatvísi spyr ég Ólöfu hvort hún vilji lesa yfir handrit að bók sem ég ætlaði að senda til útgefanda sem fyrst. Nokkrum dögum síðar var ég komin með hand- ritið aftur í hendur. Því fylgdu góðar ábendingar og mikil hvatning sem hefur fylgt mér æ síðan. Hún las yfir handritin mín, samgladdist innilega þegar vel gekk og var einstök þegar á reyndi. Þá sjaldan við hittumst eða töluðum saman í síma var alltaf eins og við hefðum alltaf þekkst. Yfirborðsmennska var ekki til í Ólöfu Eldjárn. Hún kom til dyranna eins og hún var klædd, vönduð, vandvirk menningarkona. Fljúgandi greind, gríðarlega vel lesin og hafði húmor sem stundum gat orðið skemmtilega kaldhæðinn. Þegar við kynntumst hafði Ólöf helgað sig þýðingum og ég veit að framlag hennar á því sviði er mikið. Hún lagði sig alla í það sem hún gerði, bar djúpa virðingu fyrir starfi sínu og var vand- virk með afbrigðum við öll verk, stór sem smá. Á síðasta ári kom út í þýð- ingu hennar bókin Meistari allra meina, ævisaga krabba- meins eftir Siddhartha Muk- herjee. Stórvirki upp á nær 600 síð- ur og einkar flókið í þýðingu. „Þetta er afar fróðleg bók en merkilega skemmtileg,“ sagði Ólöf þegar hún rétti mér bók- ina að gjöf. Það er von mín að framlagi Ólafar til íslenskrar menningar verði gerð verðug skil með tíð og tíma. Það er innan við ár síðan hún sjálf greindist með krabbamein. Hún mætti erfiðum veikindum af einstöku æðruleysi, talaði af hreinskilni um hlutina eins og þeir voru en frábað sér „aum- ingjaskap eða vorkunn“. Ég verð ævinlega þakklát fyrir stundina sem við áttum saman í sumar, við hlógum mikið en töl- uðum líka um það sem biði hennar. Hún sagðist vera þakklát fyrir líf sitt og ekki óttast dauðann en sakna þess vissu- lega að eiga ekki lengri tíma með ástvinum sínum. Þegar ég spurði hana hvort hún fyndi fyrir biturleika yfir því að hafa fengið banvænan sjúkdóm svar- aði hún: „Hvers vegna ekki ég eins og hver annar?“ Eiginmanni hennar Stefáni Erni, sonum, tengdasyni, son- arsyni og ástvinum öllum sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðj- ur. Blessuð sé minning Ólafar Eldjárn. Sólveig Pálsdóttir. Vinkona okkar og bekkjar- systir, Ólöf Eldjárn, hefur nú horfið yfir á annað tilverustig en við sitjum eftir með safn góðra minninga um stórbrotna og merkilega konu. Við fylgd- umst að gegnum Melaskóla, Hagaskóla og Menntaskólann í Reykjavík, en leiðir skildu er kom að háskólanámi. Sam- bandið hélst þótt fundum fækk- aði, þar sem við vorum ekki lengur á sama stað í frímín- útum og leiðin heim úr skóla var önnur en forðum. Ólöf var ákaflega vandvirk og samviskusöm, las mikið og var fjarska vel að sér á öllum sviðum. Tungumál voru henni hugleikin enda málamanneskja góð og hún ritaði mjög góðan stíl sem sjá má af fjölmörgum þýðingum hennar á erlendum bókum. Hún var skemmtileg og hafði góða kímnigáfu sem hún beitti óspart, en einnig gat hún staðið fast á sinni meiningu sem hún efalaust hefur þurft í starfi sínu sem verslunarstjóri, ritstjóri og þýðandi. Ólöf var mikill vinnuhestur og liggur mikið og gott lífsstarf eftir hana þar sem góð mála- kunnátta og ritfærni hafa notið sín vel. Oft gleymum við að okkur er gefinn tiltekinn tími á þessari jörð og við sjáum ekki fyrir þegar aðstæður breytast, ger- um ráð fyrir að allt sé eins og var. Við gerum því ráð fyrir að vinir okkar séu alltaf til staðar og bregður þegar þeir eru kall- aðir brott í miðjum leik. Þeir verða ekki samferða lengur og aðeins hlýjar minningar um góðar stundir eru okkur hugg- un er við kveðjum með söknuði okkar góðu vinkonu og skóla- systur. Við vottum Stefáni Erni og fjölskyldu dýpstu samúð okkar á erfiðri stund. Fyrir hönd bekkjarsystra 6-A árið 1967, Ella B. Bjarnarson og Hanna Hjördís Jónsdóttir. • Skattaleg ráðgjöf • Skattauppgjör dánarbús og erfingja • Erfðafjárskýrslugerð • Önnur þjónusta Spekt ehf. • S. 587 7600 • Borgartúni 3 jon@spekt.is • petur@spekt.is Þjónusta við dánarbússkipti

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.