Morgunblaðið - 18.11.2016, Qupperneq 22
22 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 18. NÓVEMBER 2016
H
ot Yoga er frábær líkamsrækt
fyrir karlmenn segir Helena
Dögg Þórhallsdóttir, einkaþjálf-
ari og jógakennari hjá Reebok
Fitness, en hún kennir bæði í
Holtagörðum og á Tjarnarvöllum. „Jóga er
líka svo miklu meira en bara líkamsrækt því
það felur í sér andlegan ávinning ekki síður
en líkamlegan. Maður tengir saman líkam-
ann, hugann, tilfinningarnar og maður nær
betri fókus á núið, og núvitundin verður
meiri. Hot yoga er því eitthvað sem ég
myndi lýsa sem „hugleiðslu á hreyfingu“ því
það kemst í rauninni ekkert annað að hjá
mér þegar ég er á dýnunni. Sama hvað ég er
að kljást við hverju sinni þá er ég bara akk-
úrat þarna. Það er það besta við jóga al-
mennt – það kemur þér í augnablikið og þú
lærir að vera í núinu, og njóta þess. Í fram-
haldinu er ég miklu betur búin til að takast
á við hvaða verkefni sem kunna að bíða
mín.“
Hitinn og rakinn skipta máli
Helena Dögg ákvað sjálf að prófa hot
yoga fyrir forvitni sakir á sínum tíma en
ákvað að tveimur árum liðnum að hana lang-
aði að fara hreinlega í jógakennaranám.
Taka þetta alla leið, eins og sagt er.
„Það var besta ákvörðun sem ég hef tekið.
Mér hefur aldrei liðið jafnvel og eftir námið.
Ég er frekar skeptísk á allan þann ávinning
sem manni er lofað með alls konar líkams-
ræktarkerfum en þarna fékk ég allt sem ég
vonaðist eftir og rúmlega það. Öndunin, sem
við vinnum mikið með í hot yoga, hefur gríð-
arlega mikið að segja. Þegar við náum stjórn
á andardrættinum getum við hægt á hug-
anum og veitt okkur um leið djúpa slökun.“
Hot yoga er tiltölulega nýtt af-
brigði að hinu ævaforna jógakerfi og kem-
ur fram á sjónarsviðið um síð-
ustu aldamót og einn helsti munurinn þar
er að jógað er iðkað við hátt hitastig, eða um
37-40°C, þar sem rakinn er að sama skapi
mikill.
Flestir hafa einhverja hugmynd um það
hverju jógaiðkun skilar þeim
sem á hana leggur stund. En hverju bætir
hitinn og rakinn við?
„Rakinn gera það að verkum að
maður svitnar mjög mikið í salnum meðan
á tímanum stendur. Hitinn gerir það aftur á
móti að verkum að við náum betri árangri í
tímunum því vöðvarnir hitna fyrr og hitna
betur. Þeir verða mýkri og þar af leiðandi
komumst við ennþá fyrr í jógastöðurnar.“
Karlmenn jafnvel í meirihluta
Nú gætu einhverjir haldið sem svo
að þetta æfingakerfi hljómi ekki ýkja
spennandi og reyni tæplega á, samanborið
við hlaupabrettið og lóðin. Þetta er alrangt –
um það getur undirritaður vottað af eigin
reynslu. fyrir einhverjum vikum sam-
þykkti greinarhöfundur sem sagt að fara
með eiginkonunni í tíma en óttaðist hálft í
hvoru að vera eini karlmaðurinn. Þær
áhyggjur reyndust alls óþarfar því talsvert
var af karlmönnum í tímanum. Og aldrei
hefur svitinn bogað af mér sem þá. Helena
brosir við og tekur undir þetta. „Ég kenni
tvisvar í viku í Holtagörðum og þar eru
herrarnir hreinlega í meirihluta. Og það á
öllum aldri, allt frá ungum og upp í eldri
menn sem mæta í hvert einasta
skipti. Strákarnir eru sem sagt farnir að
hópast í tímana enda hentar hot yoga öllum,
sama á hvaða aldri þeir eru og hversu mikla
eða litla hreyfingu þeir hafa stundað áður.
Það skiptir engu því hver og einn getur
fundið sinn stað við hæfi í jógastöðunum.“
Karlarnir eru líka að átta sig á því
að þetta er alvöru líkamsrækt, um
leið og hugurinn er ræktaður. „Það er líka
mjög mikill misskilningur, oftast hjá karl-
mönnum, að það þurfi ekki styrk í jóga.
Þvert á móti eykst styrkurinn gífurlega í
jóga sem og úthaldið sem þarf til að halda
stöðunum í ákveðinn tíma. Regluleg iðkun
styrkir líkamann og eykur út-
haldið verulega. Líkamsstaðan
batnar og fólk verður meðvitaðra um
hana. Maður fer að þekkja líkamann og
skilja hann betur.“
Andlega hliðin fer heldur ekki varhluta af
ávinningnum sem hlýst af ástunduninni, eins
og Helena útskýrir. „Rannsóknir hafa sýnt
að jóga og hugleiðsluiðkun geta dregið úr
kvíða, depurð og verkjum, og bætt svefninn
töluvert. Það hlýst ekkert nema gott af jóga-
iðkun“
Minni hætta á meiðslum
Helena Dögg bætir því við að engin hætta
sé á höggálagi eins og getur
gerst við hlaup né heldur annars
konar álagsmeiðsl eins og sumir hafa upp-
lifað ef þeir fara fram úr sjálfum sér við lyft-
ingar á lóðum.
„Þú ert bara með líkamann einan
að vopni, og notar hann.“
Þegar iðkendur mæta í fyrsta sinn
má vera að sum heitin á jógastöðum séu
þeim framandi og þeir viti ef til vill ekki al-
veg hvað á að gera næst. Helena segir þetta
minnsta áhyggjuefnið. „Það eru ótalmargar
síður á netinu sem sýna og útskýra allar
mögulegar jógastöður svo auðvelt er að
glöggva sig á hlutunum fyrirfram, ef vill.
Það er líka minnsta málið að mæta bara
beint í tíma því fólk kemst undantekning-
arlaust upp á lagið með þetta, fljótt og vel.
En með því að gúggla „yoga postures“ þá
má sjá þetta allt saman. Svo má líka rúlla
dýnunni út heima hjá sér og taka nokkrar
stöður á milli hóptímanna hjá okkur.“
jonagnar@mbl.is
LÍKAMSRÆKT OG HEILSA
Með líkamann einan að vopni
Það er herramanna háttur að halda sér í formi og flestir höfum við eytt allnokkrum tíma við hlaup eða lyftingar. En hvað ef ein-
hver benti þér á líkamsrækt þar sem þú hreyfir þig ekki af fermetranum sem þú ert staddur á og lyftir engu nema sjálfum þér?
Svoleiðis er nefnilega til, og það sem meira er, þú munt óumflýjanlega svitna meira en nokkru sinni. Velkominn í hot yoga.
Morgunblaðið/RAX
Augnablikið Hot yoga er því eitthvað sem ég myndi lýsa sem „hugleiðslu á hreyfingu“ því það kemst í rauninni ekkert annað að hjá mér þegar ég er á dýnunni. Sama hvað ég er að kljást við
hverju sinni þá er ég bara akkúrat þarna. Það er það besta við jóga almennt – það kemur þér í augnablikið og þú lærir að vera í núinu, og njóta þess,“ segir Helena Dögg.