Norðurslóð - 15.12.2005, Blaðsíða 5

Norðurslóð - 15.12.2005, Blaðsíða 5
Norðurslóð - 5 Sendibréf til Vesturheims árið 1890 s sex blöðum Norðurslóðar 2000 og 2001 er sagt frá búferlaflutningum Svarfdæl- inga til Vesturheims í kring um 1880. Einn Svarfdælingurinn var Þorsteinn Þorsteinsson (1825- 1912) kenndur við Upsir. Hann var bóndi, fræðimaður og ekki síst smiður, var meðal ann- ars yfirsmiður við byggingu Vallakirkju 1861. Hann flutti til Kanada árið 1889, þá 64 ára, ásamt syni sínum og hans fjöl- skyldu og andaðist í Winnipeg 1912. Árið 1890 skrifaði Gísli Jóns- son (1869-1964) verðandi kirkju- smiður og bóndi á Syðra-Hvarfi og seinna á Hofi, bréf til Þor- steins, sem við birtum hér til gam- ans. Þar segir hann helstu fréttir úr dalnum frá þessu ári sem liðið er síðan Þorsteinn flutti vestur. Gísli er 21 árs þegar hann ritar bréfið og vinnur á búi föður síns. Hann tók við búinu 1898 og fluttist í Hof 1904. Nefndir eru í bréfinu ýmsir bændur og búalið í Svarfaðardal og er verðugt verkefni lesendum að átta sig á þeirn. En í lok bréfs er nefndur „Steini þinn“. Þar er átt við Þorstein Þ. Þorsteinsson. Hann var sonur Þorsteins við- takanda bréfsins, sem átti hann með Aldísi Eiríksdóttur frá Uppsölum eftir að hann sleit samvistir við Jórunni konu sína. Þorsteinn yngri ólst upp á Syðra- Hvarfi sem fósturbróðir Gísla, tíu árum yngri. Hann sigldi sjálfur til Ameríku 1901 og gerð- ist þar rithöfundur og ritstjóri. Annar Steini er nefndur í sömu vendingu og mun líklega átt við Þorstein Þorkelsson barnakenn- ara með meiru á Syðra-Hvarfi sem nefndist gjarnan „aumingi" vegna bæklunar sinnar. Syðra-Hvarfi 17. apríl 1890 Guð gefi þér allar stundir góðar og betri en eg kann að biðja. Innilegustu hjartans þakkir fyrir allt gott undanfarið og þar á meðal bréfið frá 1. og 10. september í fyrra meðtekið á jóladaginn sama ár með góðum skilum. Þó að eg pári þessar línur verða þær fréttafáar því margir skrifa þér, og það sem við hefur borið síðan þú fórst, það hrekkur ekki handa öllum. Sumarið eftir að þú fórst var mjög gott og heyfengur og nýting í góðu lagi, en mjög reynast heyin létt. Þann 18. sept- ember í haust gerði talsverðan snjó. Við hér í sveit vorum svo heppnir að vera búnir að ganga fjallgöngur okkar, en þann snjó tók upp aftur og varð alauð jörð en mjög óstillt. Stórrigningar, ofsaveður og hríðarél skiptust á en jörð var þíð fram á vetur, því til dæmis að taka sléttaði ég þúfur tæpan mánuð af vetri og er það víst fádæmi hér í sveit. I vetur hefur verið mjög óstillt og talsverður snjór komið, en tekið vel á milli. Nú er grátt yfir alll og hríðarkuldi, lítil fönn í byggð en mikil til fjalla. Eins og áður er getið var gras- vöxtur góður næst liðið sumar víðast hvar, en fremur var þó snöggt hér eins og vant er, eink- um engið. Við fengum 200 hesta af útheyi úr heimalandi og 130 hesta af töðu. Næstliðið sumar og haust var talsvert unnið að jarðabótum hér í sveit einkum þúfnasléttum. Við hér sléttuðum 180 ferhyrningsfaðma. Góð upp- skera var á næpum og rófum í sumar eð var en víða skemmdust þær fyrir vankunnáttu og mátti segja um það eins og fleira að ekki er minni vandi að gæta fengins fjár en afla þess. Hér fengust 6 tunnur af rófum og 3 af kartöflum, ekki skemmdist hér neitt til muna. Fáir hafa dáið hér síðan þú fórst, Gunnar í Efstakoti og Guðrún móðir Kristjáns sem hér var dóu í haust, Hallgrímur gamli á Hámundarstöðum og Ástríður á Krossum. Áttunda desember í vetur dó séra Páll í Viðvík, frú séra Zophaníasar orti sálm eftir séra Pál og legg eg hann hér innan í, því eg hugsaði að þú hefðir skemmtun af að sjá hann. Það er ákveðið að halda héraðshátíð á sumri komanda í minningu þess að 1000 ár eru liðin síðan Helgi magri nam fyrst fjörðinn. Forstöðunefndin vill að hrepparnir leggi fjárstyrk til hátíðarinnar. Hér í hreppi var efnt til tombólu í þeim tilgangi, hana á að halda áTjörn á sumar- daginn fyrsta. Björn á Atlastöðum minnkar Bréfritarinn, Gísli Jónsson á Hofi. við sig í vor og býr eftirleiðis á fjórðaparti af jörðinni en Árni á Hæringsstöðum flytur sig þang- að. I Hæringsstaði fer Bergur á Þorleifsstöðum, í Þorleifsstaði fer Jón sonur Björns á Hóli. Jón Þorvaldsson á Hofi hættir að búa en þangað fer Þorfinnur á Hrísum, í Hrísa fer Björn sonur Arnþórs á Moldhaugum. Fleiri byltingar eru en ekki ráðnar á þessu vori svo eg muni. Nú er Árni í Dæli að kaupa þann helming sem Þórður átti af Dæli, hann á að kosta 800 krónur. Líka ætlar Þórður að kaupa Hnjúk og á hann að kosta 2.500 krónur. Verslunin var ögn líflegri þetta ár en að undanförnu, ull fór á 70 aura og peningaekla ekki eins og að undanförnu. Fjármarkaður var haldinn í Hofs- réttinni í haust,féð seldist heldur vel, veturgamalt á 12 krónur til jafnaðar, geldar ær á 14 krónur og sauðir á 16 til 18,25 og mest Viðtakandi bréfsins, Þorsteinn Þorsteinsson á Upsum. allt borgað í gulli út í hönd. 198 sauðum var haldið í hóp og var svo boðið í þá. Christian Haf- stein var hæstbjóðandi, nefni- lega 18,25 fyrlr hvern. Það voru 7 merkur vegnar af gulli sem hann snaraði út fyrir hópinn. Nafni minn í Gröf biður kær- lega að heilsa þér og óskar að þér líði sem best á þessu þínu ævikveldi. Nafni þinn og Jóhann skrifa þér víst þráðum. Steini þinn skrifar þér líklega ekki í þetta sinn. Hann var búinn að læra 12 kafla og var hættur að læra fyrir páska en er nú alltaf að lesa upp. Allir hér eru við góða heilsu nema pabbi, hann er alltaf mjög lasinn. Nú fyrir skemmstu kom Thyra sína fyrstu ferð hér inn á fjörðinn líka kom kaupskipið Ingibjörg, báðar með mikið af vörum og ekki urðu þær varar við ís. Þá er nú mál að hætta þessu. Allir biðja innilega að heilsa þér. Guð og gæfan veri með þér ævinlega. Þess óskar Gísli Jónsson Júlíus Daníelsson Sögur af Vestur- kjálkanum III Ekki einleikið Þetta byjaði allt með sprengingunum í Elliskriðunni Maður er nefndur Hallgrímur Kristjáns- son. Hann bjó í Ytra Garðshorni frá 1894 til 1920. Eftir aldamótin 1900 reisti hann hlöðu við fjárhús í suðvesturhorni túns- ins. Á þeim tíma byggðu menn bæi og útihús úr torfi og grjóti. Hentugt hleðslu- grjót lá þó ekki alltaf á lausu og stundum var erfitt að afla þess. Altítt var að gríðarstórir steinar væru sprengdir til að fá viðráðanlegt hleðslu- grjót. Hallgrím bónda vantaði grjót í hlöðuvegginn. Hann fór suður og upp í Elliskriðu, en svo heitir grýttur teigur ofan fjallgirðingar, suður við merkin milli Garðshornsbæjanna. Gengur bóndi um grundina og velur líklegt hleðslugrjót; staðnæmist við gríðarstóran, gráan stein, sem stendur einn og sér í hallinu; hugsar að þá sé borgið hlöðuveggjunum þegar búið sé að sprengja grásteininn. Þegar Hallgrímur kemur heim hefur hann orð á því að hann sé búinn að fá nóg veggjaefni í hlöðu og hafi afráðið að fá Olaf barnakennara Jónsson á Ytra- Hvarfi til að sprengja grásteininn. Olafur var þaulvanur slíku. Nóttina eftir bar í drauma Guðrúnar, dóttur Hallgríms og Pálínu, að henni þykir til sín komi myndaleg kona, mjög áhyggjufull og sorgmædd. Kveðst hún eiga heima í Grásteini, kvaðst hafa orðið þess áskynja að það eigi að sprengja bæinn sinn í tætlur. Biður hún Guðrúnu fyrir Guðs skuld að afstýra slíku fári, ella muni illt af hljótast. Daginn næsta segir Guðrún drauminn og sárbiður föður sinn að þyrma steinin- um. Hún talaði fyrir daufum eyrum. Guðrúnu dreymdi huldukonuna a.m.k. í þrígang, en svo fór að Grásteini var tor- tímt, efnið fært heim að hlöðustæðinu og brotin notuð í veggina. Sóttist verkið vel. Dag nokkurn þegar veggir voru nær full- hlaðnir og verkmenn héldu til vinnu eftir miðdegismatarhlé, brá þeim illa í brún þegar þeir litu yfir sviðið. Norðurstafninn var hruninn inn í tóft- ina. Ekki lét Hallgrímur bóndi sér þetta að kenningu verða, heldur hlóð stafninn upp á nýjan leik. Bar nú ekkert frekar til tíð- inda út af Grásteinsmálinu í hans búskap- artíð í Ytra-Garðshorni. Árið 1920 fór Hallgrímur byggðum út í Syðra-Holt og bjó þar til elli. Árnór Björnsson frá Hrísum kom í Ytra-Garðshorn og bjó þar í eitt ár. Gott nágrenni hefur alltaf verið á milli og er svo enn. Nú er það einu sinni að Arnór bóndi þurfti að bregða sér til Akureyrar, brýnna erinda. Lagði hann eldsnemma upp, enda meira en áratugur í það að bílar færu að ganga við Eyjafjörð. Júlíus bóndi í Syðra-Garðshorni tók að sér að sjá um gegningar fyrir Arnór þennan dag. Júlíus gefur á garðann í húsunum, gengur svo út og snerlar aftur dyr. Hann er ekki fyrr búinn að því en að norðurveggur húsanna hrynur inn í krá. Ekki man skrif- ari hvort skaðar urðu á kindunum. Eftir Arnór Björnsson fer Haraldur Stefánsson að búa á jörðinni. Hann var maður framkvæmdasamur og hugkvæm- ur. Hann málaði framhliðina á fjárhúsun- um rauða og frá því hétu þau Rauðu húsin í munni okkar Syðra-Garðshornsbarna. Líður nú og bíður þangað til 7. janúar 1947. Þann dag gerði suðaustan fárviðri með slíkum eindæmum að elstu menn jöfnuðu við kirkjurokið 1900. Jón Gísla- son bóndi á Hofi sagði skrifara að þegar hann kom frá gegningum í fjárhúsunum eftir hádegið hefði nálega ekki verið stætt í ofsanum. Fremur var snjólétt og frost- laust. Sér Jón að út og upp í Vallafjalli er eitthvað óvenjulegt á seyði, fyrirbæri sem nálgast með ógnarhraða. Þetta var vindsveipur eða hvirfilbylur sem snérist í kringum sjálfan sig og sogaði hvað- eina lauslegt upp og þaut áfram sem kólfi væri skotið. Strókurinn fór á milli bæjanna í Brautarholti og Gröf eins og honum væri stýrt, næst yfir dalsána og dældi þar upp vatni, þá upp Kjóeyrarnar, Skakkabakkann og aftur yfir dalsána, svo á milli Þinghúss og íbúðarhússins í Syðri Grund (Blakksgerði), þá í stefnu á Ytra- Garðshorn,sneiddi framhjá íbúðarhúsinu þar og fór beint á Rauðu húsin. Lyfti járn- þökum af þeim og hlöðunni örlagaríku eins og loki af potti. ,Lokið‘ sundraðist á augabragði í minni einingar sem vind- sveipurinn þeytti suður og upp í fjall. Bræðurskrifara,Jóhann ogBjörn,voru þá heima í jólafríi frá skóla og staddir í stofunni í Syðra Garðshorni. Barst á að utan hark mikið og skruðningar í gegnum veðurhvininn. Fóru þeir að skyggnast um hvað í efni var og sáu skæðadrífu af braki bera við loft á vesturhimni, en stór þakhluti skall til jarðar með gný miklum. Hvarf flakið jafnharðan út í buskann. Daníel bóndi í Syðra-Garðshorni var við gegningar við fjárhús suður á túni og staddur þar úti meðan ósköpin nálguðust. Þóttist hann eiga fótum fjör að launa er hann slapp inn í fjárhúsin. Magnús Gunlaugsson, góður þegn, var þá vetrarmaður í Syðra-Garðshorni og var nú í fjóshlöðu að taka til kvöldgjöfina handa kúnum. Sagði hann síðar að hann hefði ekki orðið hræddari á æfinni en þegar hann heyrði skurrið og djöfulgang- inn þetta síðdegi. Brakið úr Rauðu húsunum barst alla leið suður á Steindyragil og jafn- vel fram á Þverárdal. Fá ár eru síðan skrifari rakst á ryðgaðar þakplöturefsur í mýrum í Bakkafjalli. Ekki er þess getið að skemmdir hafi orðið á öðrum mann- virkjum í Svarfaðardal þennan dag. Haraldur í Ytra-Garðshorni hressti við Rauðu húsin og hafði kindur sínar þar þau tvö ár sern hann átti eftir að búa. En sagan er ekki öll. Haustið 1949 fóru tvö börn um 10 ára aldur að sækja hestana á bænum, fjóra að tölu, og létu þá tvo og tvo í kró í Rauðu húsunum. Einn af þessum hest- um var reiðhestur Haraldar bónda, grá meri, góður gripur. Nú slysaðist svo til að Grána fór ekki í sína venjulegu kró og lenti svo með öðrum hesti en hún var vön. Líklega hefur hrossunum ekki lynt saman, nema að næsta morgun þegar átti að láta hrossin út fannst Grána hálsbrotin uppi á garða á naunum niðri í sauðfjár- baðkeri sem þar var. Það ber ekki allt upp á sama daginn, sögðu gömlu bændurnir í Svarfaðardal.

x

Norðurslóð

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.