Morgunblaðið - 05.07.2017, Blaðsíða 20
20 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 5. JÚLÍ 2017
NLFÍ var stofnað 5.
júlí 1937 á Sauðárkróki
og er félagið því 80 ára í
dag. Til fundarins var
boðað af Birni Krist-
jánssyni, sem var fædd-
ur og uppalinn á Sauð-
árkróki en hafði um
langt árabil verið bú-
settur í Þýskalandi, þar
sem hann kynntist nátt-
úrulækningum.
Í fundargerð stofnfundarins benti
Björn á nauðsyn þess að á Íslandi
yrði stofnað félag til að ýta undir hið
merkilega brautryðjendastarf Jón-
asar Kristjánssonar læknis, sem
fyrst kynnti opinberlega kenningar
sínar um samspil heilsufars og heil-
brigðra lifnaðarhátta árið 1923 á
fundi Framfararfélags Sauðárkróks.
Líklegast var það í gamla barnaskól-
anum á Sauðárkróki, en fundir
Framfararfélagsins voru ýmist
haldnir þar eða á Hólum í Hjaltadal.
Hið nýja félag hlaut nafnið Náttúru-
lækningafélag Íslands, skammstafað
NLFÍ.
Í fyrstu stjórn félagsins var Jónas
kosinn forseti en aðrir í stjórn voru
Björn Kristjánsson, Haraldur Júl-
íusson kaupmaður, Valgarð Blöndal
póstafgreiðslumaður og Eyþór Stef-
ánsson verslunarmaður.
Tilgangurinn var að stofna félag
sem hefði það að markmiði að efla og
útbreiða þekkingu á lögmálum heil-
brigðs lífs og heilsusamlegum lifn-
aðarháttum. Áhersla var lögð á nauð-
syn þess og mikilvægi að einstak-
lingurinn bæri ábyrgð á eigin heilsu
og velferð. Sérstaklega var höfðað til
foreldra hvað börnin áhrærir. Allt frá
stofnun hafa einkunn-
arorð NLFÍ verið Ber-
um ábyrgð á eigin
heilsu.
Jónas Kristjánsson
lét af störfum sem
læknir í Skagafirði 1938
og flutti suður til
Reykjavíkur, þá 68 ára
gamall. Hann hafði
gegnt krefjandi lækn-
isstörfum í 37 ár í víð-
lendum og erfiðum
læknishéruðum, fyrst á
Fljótsdalshéraði (1901-
1911) og síðan í Skagafirði (1911-
1938). Þrátt fyrir þetta voru starfs-
kraftar hans óskertir og áhuginn fyr-
ir heilbrigðismálum landsmanna
þrotlaus. Kenningar Jónasar, sem af
mörgum voru kallaðar öfgakenningar
á sínum tíma, fólust ekki síst í því að
brýna fyrir fólki að lifa sem mest á
náttúrulegri fæðu, stunda líkams-
æfingar og gæta vel að reglubundn-
um svefnvenjum, slökun og hvíld.
Helsta áhugamál Jónasar og
náttúrulækningamanna var að koma
upp hvíldar- og hressingarhæli. Þessi
stórhuga draumur rættist árið 1955
þegar Heilsuhæli NLFÍ, nú Heilsu-
stofnun NLFÍ (HNLFÍ), var opnað í
Hveragerði. Þetta varð ekki síst fyrir
ötula forystu og dugnað Jónasar, sem
lagði nánast allar eignir sínar til
heilsuhælisins, en hann var sterkefn-
aður maður.
Árið 1955 var hægt að taka á móti
25 dvalargestum í Hveragerði en sú
tala hækkaði fljótlega í 40. Starfsem-
in hefur aukist jafnt og þétt. Í dag eru
dvalargestir að jafnaði um 130 á
hverjum tíma og biðlistar langir. Ár-
lega koma u.þ.b. 2.000 manns til dval-
ar vegna ýmiss konar kvilla. HNLFÍ
er endurhæfingar-, heilsuverndar og
kennslustofnun þar sem áhersla er
lögð á markvissa hreyfingu, hollt
mataræði, fræðslu um heilbrigða lifn-
aðarhætti, slökun og hvíld. Heilsu-
vandi einstaklingsins er skoðaður
með það í huga að líta þurfi á andlegt,
líkamlegt og félagslegt ástand í sam-
hengi. Meðferðarstefnan felur m.a. í
sér þá viðleitni að koma á og viðhalda
eðlilegum og heilbrigðum tengslum
milli einstaklingsins og umhverfis
hans og efla varnir líkama og sálar
gegn hvers konar vanheilsu og sjúk-
dómum.
Stefna NLFÍ hefur ávallt verið sú
að auka og efla þátt hugtakanna heil-
brigði og heilsuvernd í umræðu og
verkum og víkja frá hinni einlitu
sjúkdómaumræðu. NLFÍ forðast
kennisetningar sem ekki standast
vísindalega gagnrýni. Hófsemi í líf-
erni og skilningur á heildstæðum
lausnum læknisfræðinnar, heilbrigt
líferni í víðum skilningi verður um
ókomna framtíð meginhlutverk fé-
lagsins auk umhverfisverndar.
Sívaxandi offita og ótal sjúkdómar
henni samfara auk fjölda félagslegra
vandamála er og verður að óbreyttu
stærsta heilsufarsvandamál næstu
ára og áratuga með ófyrirsjáanlegum
afleiðingum. Hér er ekki aðeins við
yfirvöld að sakast heldur bera for-
eldrar ekki síður mikla ábyrgð.
Kröfur nútímans eru með þeim
hætti að það heyrir nánast til undan-
tekninga ef báðir foreldrar þurfa ekki
að vinna myrkranna á milli til að end-
ar nái saman. Næringarsnauður
skyndibiti og „ruslfæði“ er því oft sú
næring sem látin er duga. Börnin
alast upp í þessum vítahring og eru
fljót að tileinka sér þessa „matar-
menningu“ með tilheyrandi gos-
drykkjaþambi og sælgætisáti sem
foreldrar þeirra innleiða, oft með
ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Á meðan megináhersla íslensks
heilbrigðiskerfis er á viðgerðarþjón-
ustu og skyndilausnir, í stað þess að
fjárfesta til framtíðar, m.a. á þann
hátt að stórauka fjárframlög í fyrir-
byggjandi aðgerðir, t.a.m. með stór-
aukinni fræðslu í grunnskólum, verð-
ur lítil breyting til batnaðar.
Árið 1946 skrifaði Jónas Krist-
jánsson læknir m.a. eftirfarandi í
fyrsta tölublað Heilsuverndar, sem
var tímarit náttúrulækningamanna;
„Til að skapa heilbrigt og dugandi
þjóðfélag, þarf andlega og líkamlega
heilbrigða þegna. Undirstaða heil-
brigðinnar eru réttir lifnaðarhættir
og rétt fræðsla. En heilsurækt og
heilsuvernd þarf að byrja, áður en til
sjúkdóms kemur, áður en menn
verða veikir. Í þessu starfi þurfa allir
hugsandi menn að taka þátt, allir
góðir synir og dætur fósturjarðar
vorrar verða að telja það sína helg-
ustu skyldu að vernda heilsu sína
ættjörðinni til handa. Og takmark
allra þarf að vera það, að deyja frá
betri heimi en þeir fæddust í.“
Ekki þarf að orðlengja að Jónas
Kristjánsson var langt á undan sinni
samtíð. Einhverra hluta vegna hefur
hann ekki fengið að njóta þeirra elda
sem hann tendraði og er löngu tíma-
bært að þar verði breyting á, en Jón-
as lést árið 1960, þá 89 ára að aldri.
Á þessum tímamótum vil ég nefna
að unnið er að heimildarmynd, eða
raunar þremur heimildarþáttum fyr-
ir sjónvarp, um Náttúrulækninga-
félag Íslands, Jónas Kristjánsson
lækni og Heilsustofnun NLFÍ í
Hveragerði. Heimildaöflun hefur
staðið yfir árum saman og er unnið að
fjármögnun verkefnisins, sem á eftir
að ganga upp með góðra manna
hjálp.
Berum ábyrgð á eigin heilsu!
Eftir Gunnlaug K.
Jónsson » Allt frá stofnun hafa
einkunnarorð NLFÍ
verið Berum ábyrgð á
eigin heilsu.
Gunnlaugur K. Jónsson
Höfundur er forseti NLFÍ og for-
maður rekstrarstjórnar HNLFÍ.
Ljósmynd/Kristján C. Magnússon
Tímamótastarfsemi Náttúrulækningafélag Íslands var stofnað í gamla
læknishúsinu á Sauðárkróki, Sauðá, 5. júlí 1937. Myndin gæti verið tekin
1950-1960.
Fyrstu viðbrögð
undirritaðs við lestur á
frétt og skýrslu, sem
vitnað er til þar sem
lagt er til að hefja ætti
tilraunarekstur á
litlum sjúkraþyrlum
hér á landi, var undr-
un.
Er verið að leggja til
að stíga skref áratugi
aftur í tímann? Af rúm-
lega tveggja áratuga reynslu hjá
Landhelgisgæslu Íslands á rekstri á
sjúkraþyrlu í þessum stærðarflokki
(TF-SIF) varð það fljótlega ljóst að
þyrla af þessari stærð var vanbúin
að vélarafli og getu til að standast
náttúruöflunum snúning hér á landi.
Válynd veður og tíð ísingarskilyrði
leiddu af sér að iðulega var verið að
dansa línudans við örlögin og báru
menn til þess gæfu að læra af
reynslunni og skipta yfir í öflugri
þyrlur sem hafa getu til að fljúga við
ísingarskilyrði og í þeim veðurham
sem oft ríkir hér á landi.
Vitað var að ef annar hreyfill þess-
arar litlu þyrlu bilaði í hangflugi í lít-
illi hæð yrði nær undantekninga-
laust að búast við nauðlendingu á
landi eða í sjó og þau urðu einmitt
örlög þessarar þyrlu að nauðlenda
þurfti henni á sjó eftir að annar
hreyfillinn missti afl, til allrar lukku
við góð veðurskilyrði.
Ég held að fáir myndu t.d. mæla
því bót að leggja til að fara aftur í
litlar sjúkraflugvélar
eins og notaðar voru
hér á árum áður, s.s.
Piper Aztec eða
Chieftain í stað þeirra
öflugu sjúkraflugvéla
sem nú eru notaðar af
því að þær þættu ódýr-
ari í rekstri en væru að
öðru leyti vanbúnar til
starfans.
Í áðurnefndri
skýrslu er svo lagt út af
að einungis sé einn
flugmaður á þessum
litlu þyrlum sem ætti að fljúga að
nóttu sem degi jafnvel í blindflugi og
með nætursjónauka. Það ætti ekki
að þurfa að fjölyrða um aukið öryggi
þess og reynslu að tveir flugmenn
fljúgi saman eins og gert er hjá
Landhelgisgæslunni og í þeim
sjúkraflugvélum sem reknar eru hér
á landi því betur sjá augu en auga og
hefur undirritaður reynslu af hvoru
tveggja.
Það þarf ekki að fara í langt
sjúkraflug til að geta þeirra öflugu
þyrlna sem Landhelgisgæslan hefur
yfir að ráða og koma í góðar þarfir, í
næsta nágrenni höfuðborgarsvæð-
isins í Esjunni hefur iðulega ekki
veitt af öllu því afli og getu sem þess-
ar þyrlur hafa til að standast nið-
urstreymi og ókyrrð hlémegin vinds
af fjallinu og oft enginn afgangur
verið. Iðulega þegar farið er í
sjúkraflug á þyrlu breytast að-
stæður og veður á skömmum tíma
og þar sem að búist var við tiltölu-
lega auðveldu verkefni breyttist það
skyndilega í meiri háttar aðgerð,
verður þá ekki skipt um hest í miðri
á.
Það er mín skoðun að ef fjármunir
liggja á lausu til að eyða í tilrauna-
rekstur á litlum þyrlum þá væri
þeim fjármunum betur varið í að efla
þyrlurekstur Landhelgisgæslunnar
sem hefur verið fjársveltur um ára-
bil og byggja á þeirri rúmlega 50 ára
reynslu sem þar er fyrir hendi í
rekstri á sjúkra- og björgunarþyrl-
um hér á landi. Fjármunum þessum
væri vel varið í að efla og stytta við-
bragð þyrlnanna og löngu er orðið
tímabært að endurnýja þær þyrlur
sem nú eru í notkun.
Í þessu samhengi má benda á að
við síðustu fjárlagagerð hjá ríkinu
var farið fram á 300 milljóna króna
aukafjárveitingu til þess að Land-
helgisgæslan gæti haldið sjó í sínum
rekstri en þeir fjármunir lágu ekki á
lausu kannski vegna þess að stórfé
vantar í rekstur heilbrigðiskerfisins
og byggingu nýs sjúkrahúss.
Það sem að mínu mati er verst við
áðurnefnda skýrslu er að skýrslu-
höfundur finnur hjá sér þörf til að
gera lítið úr störfum nokkurra í
áhöfn þyrlna Landhelgisgæslunnar
sem er að mínu mati óverðskuldað
og verður að líta á það sem högg fyr-
ir neðan beltisstað.
Litlar sjúkraþyrlur?
Eftir Jakob
Ólafsson » Iðulega þegar
farið er í sjúkraflug
á þyrlu breytast
aðstæður og veður
á skömmum tíma og
þar sem að búist var
við tiltölulega auðveldu
verkefni þá breyttist
það skyndilega í meiri
háttar aðgerð.Jakob Ólafsson
Höfundur er flugstjóri hjá
Landhelgisgæslu Íslands.
Kostnaður sem
fylgir rekstri fangelsa
er fólki ofarlega í huga
ef marka má um-
ræðuna um betrun
fanga. Bent hefur verið
á að fangelsisvist gæti
jafnvel virst eftirsókn-
arverð fyrir aldraða,
öryrkja og fólk í lægst
launuðu störfunum
vegna þess hve bágbor-
in staða þeirra hópa oft
er, sérstaklega nú á hinum síðustu og
verstu tímum. Auðvitað ætti enginn
að líða skort og í sameiningu eigum
við að stefna að lausnum í þessum
málum sem og öðrum velferðar-
málum, og betrun fanga er hluti
lausnanna.
Afbrotafólki fylgir mikill kostn-
aður, bæði innan fangelsisveggja og
utan. Það er ekki bara kostnaður þeg-
ar búið er að fangelsa fólk heldur hef-
ur allur skaði sem hann gerir á með-
an hann gengur laus bein áhrif á
samfélagið í heild. Sá skaði er fjár-
hagslegur, líkamlegur og andlegur.
Það sem við hljótum að þurfa að
stefna að í sameiningu er að hafa öfl-
ugt betrunarkerfi svo skila megi fólki
sem betri þegnum út úr fangelsum í
samfélagið aftur. Enga sérkunnáttu
þarf til þess að sjá það að maður sem
hefur fengið betrun og aðstoð við
menntun mun gagnast samfélaginu
með greiðslum í formi skatta og við-
haldi á stöðugleika samfélagsins.
Við getum sagt sem svo að í sam-
félaginu séu tannhjól sem knýja sam-
félagið áfram. Ef tennur brotna í
tannhjólunum virkar ekkert að
geyma þær ofan í skúffu og telja þær
ónýtar, við þurfum að laga tannhjólið
svo allt geti gengið betur. Til eru
menn í fangelsi sem vilja bæta sig,
bæta upp fyrir mistök sín og eiga eðli-
legt líf og eins og sagan hefur sýnt sig
þá er það oft svo að þeir
sem fá hjálp eru líklegir
til að hjálpa öðrum. Við
höfum ekki efni á því að
spara í þessum mála-
flokki og við getum ekki
lengur haft fangelsi sem
geymslur fyrir einstak-
linga sem eru brotnir á
líkama og sál bara til
þess að skila þeim í
verra ástandi út aftur.
Þetta er ekki spurn-
ing um hvort verið sé að
gera gott fyrir einstak-
linga sem hafa brotið af sér og eiga
skilið refsingu. Við verðum líka að
horfa á þetta í stærra samhengi, út
frá samfélaginu en ekki einstak-
lingnum. Samfélagið á ekki skilið að
inni í fangelsi séu settir andlega veik-
ir einstaklingar sem án aðstoðar
hrakar og svo eftir x-langan tíma sé
þeim sleppt út í samfélagið til ykkar,
verri en áður. Gott væri ef einstak-
lingur sem barðist við námsörðug-
leika, flosnaði upp úr skóla, varð
utangátta, leiddist út í afbrot og end-
aði í fangelsi fengi aðstoð við nám á
meðan hann er frelsissviptur í
geymslu ríkisins. Því þetta er stað-
reynd margra afbrotamanna. Margir
eru þeir menn innan fangelsins sem
vilja bæta sig og laga og þetta er ekki
spurning um hvort þeir eiga það skil-
ið að fá aðstoð við að bæta sig heldur
á samfélagið sem líður fyrir glæpi
þeirra það skilið – þið eigið það skilið.
Tannhjól
samfélagsins
Eftir Guðmund
Inga Þóroddsson
Guðmundur Ingi
Þóroddsson
» Við höfum ekki efni á
því að spara í þess-
um málaflokki og við
getum ekki lengur haft
fangelsi sem geymslur.
Höfundur er formaður Afstöðu,
félags fanga á Íslandi
formadur@afstada.is
Atvinna