Feykir


Feykir - 25.09.2014, Blaðsíða 5

Feykir - 25.09.2014, Blaðsíða 5
36/2014 5 ÍÞRÓTTAFRÉTTIR www.feykir.is/ithrottir Sjúklegur síðari hálfleikur í Síkinu Lengjubikarinn í körfubolta : Tindastóll - Snæfell 94-67 Snæfellingar sóttu Tindastólsmenn heim sl. þriðjudagskvöld í 8 liða úrslitum Lengjubikars- ins. Leikurinn var með ólíkindum kaflaskiptur. Eftir að hafa verið ellefu stigum undir í hálfleik áttu Stólarnir rosalegan þriðja leikhluta og rúlluðu leiknum upp. Lokatölur 94-67. Stólarnir byrjuðu leikinn ekki vel og náðu aldrei takti í fyrri hálfleik. Skotin skoppuðu af hringnum og menn misstu boltann klaufalega hvað eftir annað. Staðan var 14-19 að loknum fyrsta leikhluta. Ingvi Ingvars minnkaði muninn í eitt stig, 24-25, um miðjan annan leikhluta en þá kom góður kafli hjá Snæfellingum sem komust í 26-39 eftir tvær 3ja stiga körfur frá Pálma Sigurgeirs. Ingvi kom Stólunum aftur á blað með 3ja stiga körfu en staðan í hálfleik 32-43. Tindastólsmenn komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og nú voru báðir Helgarnir komnir inn. Helgi Margeirs kom ekkert við sögu í fyrri hálfleik og nafni hans Viggósson var í tómu tjóni. En nú komu þeir Stólunum í gírinn ásamt Pétri Birgis sem átti frábæran leik. Varnarleikur Tindastóls setti leikmenn Snæfells algjörlega út af laginu. Með frábærri baráttu og geggjuðum varnarleik unnu heimamenn hvern boltann af öðrum og breyttu þeir stöðunni úr 41-50 í 58-50 – semsagt 17-0 kafli. Gestirnir vissu varla hvort þeir voru að koma eða fara, enda töpuðu þeir leikhlutanum 36-11! Þeir reyndu að koma sér aftur inn í leikinn í fjórða leikhluta en það hvorki gekk né rak hjá þeim, Stólarnir áttu svör við öllu. Síðustu mínútur leiksins fengu síðan lítt reyndari spámenn að spreyta sig og endanum vann Tindastóll 27 stiga sigur og tryggði sér sæti í undanúrslitum Lengju- bikarsins. Þar mæta Tindastólsmenn lið Fjölnis í Ásgarði í Garðabæ föstudaginn 26. september kl. 18:30. Ef Stólarnir landa sigri þar þá mæta þeir annað hvort KR eða Haukum í úrslitaleik Lengjubikarsins sem fer fram á sama stað laugardaginn 27. september kl. 16:30. /ÓAB Stig Tindastóls: Pétur 24, Helgi Rafn 19, Dempsey 16, Lewis 13, Flake 6, Ingvi 5, Viðar 4, Sigurður 3, Finnbogi og Hannes 2 hvor. Það er Höskuldur Birkir Erlingsson lögregluvarðstjóri á Blönduósi sem situr fyrir svörum í þættinum Liðið mitt að þessu sinni. Höskuldur er Manhester United maður og hefur verið það síðan hann man eftir sér. „Þegar ég var yngri var móðir mín að vinna í HENSON og hann Halldór Einarsson, kenndur við fyrrnefnt fyrirtæki, ræddi þetta við mig á sínum tíma undir fjögur augu og sagði mér að það væri aðeins eitt lið í boltanum sem að gæti eitthvað og það væri Manchester United. Það hefur ekkert breyst öll þessi ár,“ segir Höskuldur. Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Það er ljóst að eftir að Fergie fór á eftirlaun, þá dalaði liðið aðeins, en bara aðeins. Nóg samt til þess að leikmenn munu koma og fara, og svo eru mínir menn aðeins að prufa sig áfram með nýja þjálfara. Það var alltaf vitað að það yrði erfitt fyrir nýjan mann að koma í stað Sir Alex Ferguson. Ég er þeirrar skoðunar að nú séum við með góðan mann í brúnni og nú séu bjartari tímar framundan, enda er verið að kaupa og selja leikmenn í gríð og erg. Ég spái því að United nái meistaradeildar- sæti í ár, þ.e.a.s. verði í efstu fjórum sæt- unum. Ertu sáttur við stöðu liðsins í dag? -Tímabilið byrjar brösuglega hjá mín- um mönnum en ég hef fulla trú á þeim, og þeir eiga bara eftir að lyfta sér hærra á töflunni. Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Jájá, margoft. Þá sérstaklega við stuðningsmenn Liverpool. Það er sammerkt með þeim öllum að þeir eru alveg einstaklega hörundssárir og geta aldrei sætt sig við þá staðreynd að styðja lakara lið. Ég meina Michael Owen kom yfir til United til að eiga möguleika á Englandsmeistaratitli og náði því sem að hann náði aldrei með Liverpool, svo nefnt sé dæmi! Og Eric Djemba Djemba sem er einn slakasti leikmaður United fyrr og síðar, á fleiri Eng- landsmeistaramedalíur en „Slippy G“ (Steven Gerrard). Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar?-Uppáhaldsleikmaður minn með United fyrr og síðar, verð ég að segja að sé Bryan Robson. Hann er sá leikmaður sem að lengst hefur verið fyrirliði liðsins og var frábær knattspyrnumaður. Frægir knattspyrnumenn eins og David Beckham og Paul Scholes segja það sama og það litu allir upp til hans. Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Já, ég fór að sjá Manchester United – Newcastle í apríl 2005. Frábær leikur þar sem að mínir menn lentu undir en unnu svo 2-1 eftir að Wayne Rooney skoraði mark sem var kosið mark ársins í enska boltanum. Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Jájá, marga. Marga búninga, fána, trefla og allt þetta sem að fylgir! Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Það gengur mjög vel enda annað ekki liðið á mínu heimili en að Manchester United sé nr.1. Meira að segja tengdasonur minn, hann Binni Rögnvalds, heldur með United. Ég hefði aldrei samþykkt tengdason sem héldi með öðru liði. Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Þú ert að grínast er það ekki??? Uppáhalds málsháttur? „Nobody will be an unbeaten bishop“ (Enginn verður óbarinn biskup) Guðjón Þórðarson hjá Stoke! Einhver góð saga úr boltanum? -Já, þegar ég fór með son minn Erling Birki, á Old Trafford 2005 en það var fermingargjöfin hans, þá fórum við í skoðunarferð á völlinn og þegar við gengum niður ganginn þar sem að leikmennirnir ganga, og völlurinn birtist þá fraus Erling í gættinni þar sem að við horfum inn á völlinn. Ég spyr hann hvort að það sé eitthvað að, hann svarar ekki lengi vel en segir svo í hálfgerðri leiðslu: „Ég trúi ekki að ég sé hér.“ Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Já, örugglega, en man ekki eftir neinum í augnablikinu. Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Ég ætla að skora á hann Róbert Daníel Jónsson, forstöðumann íþrótta- miðstöðvarinnar á Blönduósi, sem er illa haldinn af Liverpoolveiki. Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? Er það rétt að stjórnendur Liverpool séu búnir að ráða Balotelli aðstoðarmenn til að aðstoða hann við að komast í búninginn? Höskuldur B. Erlingsson lögregluvarðstjóri á Blönduósi Aðeins eitt lið! ( LIÐIÐ MITT ) kristin@feykir.is Tap gegn deildarmeisturum Leiknis í lokaleik 1. deildin í knattspyrnu karla : Leiknir R. – Tindastóll 4-0 Keppni í 1. deild karla í knattspyrnu lauk á laugardag og sóttu Tindastólsmenn deildarmeistara Leiknis heim í Breiðholtið. Stólarnir héldu sjó næstum því fram að hálfleik en þá fór að síga á ógæfuhliðina og þegar upp var staðið höfðu Leiknismenn gert fjögur mörk án þess að Stólarnir næðu að svara fyrir sig. Það er kannski óþarfi að nefna það en heimamenn voru sterkari aðilinn allan leikinn og Tindastólsmenn hugsuðu fyrst og fremst um að verja mark sitt og koma í veg fyrir slæman skell. Það leit lengi út fyrir að Stólarnir kæmust í kaffipásuna með markið snoturt en Ingvi Hrannar varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark á 44. mínútu. Í síðari hálfleik héldu heimamenn uppteknum hætti og sköpuðu sér nokkur færi. Fannar Þór Arnarsson kom þeim í 2-0 á 60. mínútu og Matthew Horth bætti þriðja markinu við á 77. mínútu. Magnús Már Einarsson setti enda- punktinn við frábært sumar hjá Leiknismönnum þegar hann kom þeim í 4-0 á 85. mínútu. Tindastóll endaði því keppnistímabilið með fjögur stig í 22 leikjum sem er auðvitað alveg hræðilegt. Liðið gerði 15 mörk en fékk á sig 71 sem segir þá sögu að margir leikir töpuðust stórt – þó geta menn kannski huggað sig við að engin stórslys urðu líkt og hjá Völsungi í fyrra. Eins og áður hefur komið fram í lýsingum á leikjum Stólanna þá var það vitað áður en keppni hófst í sumar að það yrði á brattann að sækja hjá Tindastóli. Það varð síðan ekki til að bæta stöðuna að nokkrir lykilmenn hafa átt í meiðslum og þá hefur heppnin heldur ekki fylgt liðinu innan vallar. Það er þó ekkert annað í stöðunni núna en að kyngja vonbrigðum sumarsins og vonandi stefna menn að því að koma sterkir til leiks næsta sumar og komast aftur á sigurbraut. Upp á topp með Tindastól! /ÓAB Njarðvíkingar lagðir í parket Lengjubikarinn í körfubolta : Tindastóll - Njarðvík 76-69 Tindastóll og Njarðvík mættust í ágætum körfu- boltaleik síðastliðið föstu- dagskvöld en þetta var síðari leikur Tindastóls í riðlakeppni Lengjubikarsins. Leikurinn var lengstum jafn og spennandi þó svo að Stólarnir hafi ávallt verið skrefinu á undan gestunum. Lokatölur urðu 76-69. Leikurinn fór ágætlega af stað. Njarðvíkingar komust yfir í eina skiptið í leiknum, 9-10, en Viðar Ágústsson og Darrel Lewis gerðu næstu körfur leiksins fyrir Stólana og staðan 20-17 að loknum fyrsta leik- hluta. Í hálfleik var staðan 37-27 en varnarleikur Tindastóls var til mikillar fyrirmyndar í öðrum leikhluta. Tindastólsmenn héldu sjó í síðari hálfleik og þrátt fyrir góða spretti hjá Loga Gunnarssyni þá tókst gestunum aldrei að ógna forskoti Tindastóls af neinni alvöru. Lokatölur 76-69. Styrkleiki Stólanna lá í fráköstunum í þessum leik en liðið tók 54 fráköst á meðan Njarðvíkingar tóku aðeins 30. Öll þessi fráköst skiluðu líka góðum körfum í teignum. /ÓAB Stig Tindastóls: Lewis 26, Flake 16, Dempsey 14, Helgi Rafn 8, Pétur 7, Helgi Margeirs 3 og Viðar 2. Markviss sigur Skotfimi : Markviss Hið árlega kvennamót í leirdúfuskotfimi, SKYTTAN, var haldið á skotsvæði Skotfélags Reykjavíkur um helgina. Skotfélagið Markviss á Blönduósi átti tvo keppendur og sigruðu þær hvor sinn flokk. Alls voru tólf konur sem tóku þátt að þessu sinni, þar af sjö í nýliðaflokk. Snjólaug María Jónsdóttir frá Skotfélaginu Markviss á Blöndúósi sigraði A flokkinn eftir harða baráttu og Jóna Phuong Thúy Jakobsdóttur sigraði nýliðaflokkinn örugg- lega. Næsta kvennamót mun svo fara fram á Blönduósi næsta haust. /KSE

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.