Feykir


Feykir - 11.06.2015, Blaðsíða 9

Feykir - 11.06.2015, Blaðsíða 9
22/2015 9 Raforkuverð til húshitunar er mikið hagsmunamál fyrir íbúa landsbyggðarinnar og VIÐTAL Kristín Sigurrós Einarsdóttir Sveitirnar fastar í kerfi sem þær ráða ekki við Rætt við Garðar Jónsson á Melstað í Óslandshlíð um raforkuverð í dreifbýli á dögunum reiknaði Orkustofnun út kostnað við raforku- notkun og húshitun á sambærilegri fasteign, annars vegar á nokkrum þéttbýlisstöðum og hins vegar á nokkrum stöðum í dreifbýli á ársgrundvelli, að beiðni Byggðastofnunar. Meðal þess sem fram kom í niðurstöðum Orkustofnunar var að hæsta verð í dreifbýli reyndist 47% hærra en lægsta verð í þéttbýli. Þá kom fram að á landsvísu er húshitunarkostnaður næstódýrastur á Sauðárkróki. Um svipað leyti og niður- stöðurnar voru birtar hafði Garðar Jónsson, rafvirki og ábúandi á Melstað í Óslandshlíð í Skagafirði, samband við blaðamann Feykis og sagði farir sínar ekki sléttar varðandi raforkukostnað. „Núna á dögunum komu tvö sakleysisleg bréf með póstinum, annað frá Rarik og hitt frá Orkusölunni. Innihald þessara bréfa var það að mér ber að borga fyrir aukna rafmagnsnotkun eða hækkun á rafmagni, áttatíu og átta þúsund í notkun og áttatíu og þrjú fyrir flutninginn,“ útskýrði Garðar. Hann bendir á að þetta séu rúm hundrað og sextíu þúsund sem bætast ofaná heimilsbókhaldið. „Á síðasta ári kom svipuð sending, þó heldur hærri, en skilaboðin þau sömu. – Borgaðu meira. Síðan við fluttum hingað í sveitina vorið 2007 hefur rafmagnsreikningurinn hækkað úr þrjátíu og fjögur þúsund í u.þ.b. áttatíu. Þetta er nokkuð drjúg hækkun en notkunin hefur samt verið svipuð á þessum tíma. Á þeim tíma borgaði ég fimmtán þúsund í rafmagn og hita, í 140 fermetra hús með bílskúr á Sauðárkrók,“ segir Garðar ennfremur. Garðar segist hafa borgað um sjötíu og sex þúsund á mánuði fyrir þann munað sem rafmagn sé, og eftir leiðréttingu á síðasta ári hafi heildar-kostnaðurinn farið í rúma milljón og stefni í svipaða tölu á þessu ári. Segir hann að um 80% raforkukostnaðar hjá sér vegna hita. „Hann er niðurgreiddur af ríkinu um 1,44 til 2,4 kr/kwh, og hafi það þökk fyrir. Nú mætti ætla að húsnæðið sem ég bý í væri ekki vel úr garði gert, fyrst að það kosti áttahundruð þúsund á ári að hita það upp. En svo er nú ekki, það er reyndar stórt, rúmir 200 fermetrar, nýlega endurbyggt, tvöföld einangrun í útveggjum og þaki, tölvustýrður gólfhiti, einnig höfum eytt um sjöhundruð þúsund krónum á síðustu tveimur árum í að klæða húsið og bæta einangrun, en allt kemur fyrir ekki,“ segir Garðar. Hann segist spyrja sig hvort rafmagn sé að verða eitthvað Garðar Jónsson. sem maður hefur ekki efni á að nota. „Við getum líka spurt okkur hvort að við séum ekki að eyða rafmagninu í einhverja vitleysu. En eins og ég hef bent á er húsnæðið nýlegt, hitastigið innanhúss er ekki hátt og heimilstækin eru frekar nýleg og eiga að nota eins litla orku eins og mögulegt er. Ég hef unnið sem rafvirki síðan 1995 og er meistari í þeirri grein og hef kennt upprennandi rafvirkjum síðan 2009. Ég kann öll trixin og veit hvernig á að sigla milli skers og báru í þessum málum en hugmyndabankinn er að verða tómur, kannski hann þurfi slitastjórn eins og hinir bankarnir,“ leggur Garðar til. Ósáttur við forgangsröðun Melstaður er á köldu svæði og hitaveita því ekki í boði þó aðeins séu átta kílómetrar í hús sem eru hituð með heitu vatni. Þar sé húshitunarkostnaður á mánuði fimmtán til tuttugu þúsund en ekki sextíu til sjötíu þúsund. Þannig þurfi þrjú til fjögur hús til að ná sama kostnaði. „Þessi sveit er reyndar á áætlun með hitaveitu, það er sumarið 2019, önnur svæði voru sett framar, svæði með sumarhúsum og hótelum, einstaklingar sem geta borgað sig fram fyrir röðina. Er það réttlætanlegt?“ spyr Garðar og segist verða búinn að borga nokkrar milljónir í húshitunarkostnað þegar loksins komi að hans sveit. „Allt vegna þess að ég get ekki lagt pening í púkkið eða er ekki nógu frekur til að atast í Skagafjarðarveitum. Kostnað-urinn sem við berum er ekki einsdæmi hér í sveit, hérna er frekar þétt byggð og stór býli, reiðhallir og söfn með stóru húsnæði, þessar upphæðir þekkjast því víðar en hér á bæ. Fjótt á litið finnst manni réttlætanlegt að leggja hitalögn á þessu svæði, stutt er á milli bæja og línan bein. En einhverstaðar hefur það verið reiknað út að önnur svæði séu kostbærari.“ Garðar veltir fyrir sér hvernig það geti staðist þegar „hver spikgreifinn á fætur öðrum talar um hvað orka hér landi sé ódýr og við verðum að dæla inn stórfyrirtækjum eða að byggja upp iðnað til að nota þessa ódýru orku,“ segir hann. „Fyrirtækjum sem borga einn þriðja af kílówattstundinni á móti almenningi. Einnig er talað um að flytja út orku, það er svo mikið til af henni að við verðum að reyna að koma streng til Evrópu. Ef að þeim hugmyndum verður hækkar raforka til heimila um þriðjung og það færi þá að nálgast tvær milljónir sem við erum að borga til húshitunar hér. Ekki finnst mér sú pólitík efnileg og reyndar alveg fráleit.“ Garðar segir þingmenn marga hafa gengið fram og talað um að leiðrétta verði hús- hitunarkostnað í dreifbýli en telur að það einskorðist við nýja þingmenn og fljótt brái af þeim. „Þeir falla í form hinna eldri og reyndari, virðast vera uppteknari af því að rífast hver við annan um ekki neitt eða slást um síðustu tertusneiðarnar í mötuneytinu. Þetta mál hefur verið á dagskrá í nokkur ár og er frekar vinsælt kosningaloforð en einhvernvegin virðist það týnast á Austurvelli,“ getur hann sér til um. „Ég er ekki að biðja um einhverja töfralausn, ég er að biðja um réttlæti, réttlæti fyrir mig og mína sveitunga, fyrir mig og börnin mín. Það er ekki nóg að berja sér á brjóst og tala um kosti sveitanna, gæði landsins og fjölbreytileika. Sveitirnar eru fastar í kerfi sem þær ráða ekki við, landsbyggðin ber kostnað sem er ekki réttlætanlegur. Ef samfélag á að þróast verður það að vera samkeppnishæft, við verðum að vera samkeppnishæf við aðrar byggðir. Við verðum að geta byggt upp og þróast, sveitin verður að geta hitað upp húsin sín og lýst þau upp,“ sagði Garðar Jónsson, rafvirki á Melstað að lokum.Melstaður í Óslandshlíð. MYND: KÁRI GUNNARSSON

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.