Feykir


Feykir - 20.08.2015, Blaðsíða 9

Feykir - 20.08.2015, Blaðsíða 9
31/2015 9 Úr Skörðum í Lýtingsstaðahrepp Skörðin voru ekki framtíðin. Björn og Halldóra fluttust þaðan alfarin að Starrastöðum í Mælifellssókn og bjuggu þar til 1875. Það ár gerðist elsti sonurinn bóndi á Skíðastöðum í Neðribyggð og fluttu foreldrar hans þangað, því Björn vefari var kominn að leiðarlokum. Þar hefur hann viljað ljúka lífsvefnum sínum í skjóli elsta sonarins, en það fór á annan veg. Sonurinn tók sig upp 1876 og sigldi til Vesturheims, einn af hundruðum Skagfirðinga sem það gerðu næstu áratugina. Björn andaðist ári síðar, 56 ára gamall. Honum auðnaðist ekki að eiga sporin sín á Reykjavöllum, það kom í hlut konu hans átta árum síðar, og tveggja yngstu sonanna. Halldóra lifði mann sinn í tíu ár. Vesturferðir voru í mikilli sókn. Úr Lýtingsstaðahreppi einum fóru alls 222 hreppsbúar til Vesturheims. Fyrsti hópurinn þaðan fór 1873 og sá síðasti 1904. Land og þjóð bjó við erfiðar aðstæður eins og annálar greina frá. Hafísinn lá fyrir landi, tíðin var rysjótt, harðir vetur komu í röðum og kláðapestin lagðist á búféð. Þessi harðneskja raskaði fleiru en ekkjuna Halldóru gat órað fyrir. Sonurinn Björn Jón varð bóndi í Fremri-Svartárdal í Goðdalasókn 1875-1881, kvæntist og eignaðist þar þrjú börn. Björn bróðir hans gerðist vinnumaður hjá honum. Þar var einnig 25 ára vinnukona, frá Einarsstaðasókn í Suður- Þingeyjarsýslu, að nafni Guðrún Jóhannesdóttir Reykdal (1855-1929). Þá var ekkjan Halldóra skráð húsmóðir í Ölduhrygg, nágrannabæ Fremri-Svartárdals, 1878-1879, en yngsti sonurinn, Andrés, tók eftir það við búskapnum. Góður samgangur hefur verið á milli þessara grannbæja því þau Guðrún og Andrés tóku saman, hófu sambúð og giftust og bjuggu í Ölduhrygg til 1883. Nú fór að styttast í Reykjavelli. Foreldrar Guðrúnar J. Reykdal voru Jóhannes Magnússon (1830-1890) frá Hrísdal í Saurbæjarhreppi og Ásdís Ólafsdóttir (1831-1905), yfir- setukona, frá Efsta-Samtúni í Kræklingahlíð. Þau bjuggu lengst af í Reykjadal í Suður- Þingeyjarsýslu en þaðan kemur Reykdals-nafnið. Sest að á Reykjavöllum Árið 1883 fluttu þau öll, Halldóra, synirnir þrír og fjölskyldur að Hafgrímsstöðum í Tungusveit. Þaðan fóru búferl- um 1885 Halldóra og yngstu synirnir, Björn og Andrés, með eiginkonu og tvö börn, að leigujörðinni Reykjavöllum. Þá var Halldóra sjötug. Hún andaðist á Reykjavöllum tveim- ur árum síðar, árið 1887. Árið þar á eftir, 1888, var örlagaríkt því þá sigldu báðir bræður Andrésar í kjölfar elsta bróðurins yfir hafið til Vesturheims. Árið 1890 er Andrés 33 ára skráður húsbóndi á Reykjavöllum með kvikfjárrækt, Guðrún er húsfreyja 34 ára, ásamt þremur börnum, en þá var Guðrún (1889-1955) fædd og á fyrsta ári. Þau Andrés og Guðrún eignuðust Reykjavelli að fullu árið 1904. Af tíu börnum þeirra komust sjö upp, eitt þeirra fór til Vesturheims með Birni Jóni. Tvær dætur bjuggu alla sína ævi á Reykjavöllum, þær Halldóra Steinunn, sem varð 94 ára, og Guðrún bústýra þar. Síðasta kynslóð ábúenda á Reykjavöllum Guðrún J. Reykdal missti mann sinn 1905 en bjó áfram með börnum sínum á nýkeyptri jörðinni. Guðrún dóttir hennar giftist 1919 Pálma Sigurði Sveinssyni (1883-1967) frá Mælifellsá. Foreldrar hans voru Sveinn Gunnarsson (1858- 1937), bóndi á Mælifellsá og víðar, og Margrét Þórunn Árnadóttir (1855-1928), frá Borgarey í Vallhólma. Guðrún og Pálmi eignuðust sex börn, fimm komust upp. Næstyngstur var Andrés Pétur (1930-2015) síðasti ábúandi fjölskyldunnar á Reykjavöllum. Af systkinum Péturs eru á lífi Áslaug Rósa Pálmadóttir (f. 1925) og Sveinn Skagfjörð Pálmason (f. 1933). Reykjavallahjónin, Guðrún og Pálmi, bjuggu í gamla bænum, sem stóð fjarri sýsluveginum, þar til þau reistu sér myndarlegt steinhús rétt við veginn árið 1950. Þar áttu þau nokkur góð ár og nutu þess að fá fólkið sitt í sumarheimsóknir. Guðrún andaðist 1955, 66 ára. Pálmi bjó áfram á Reykjavöllum með Pétri og Halldóru mágkonu sinni. Hann andaðist 1967 og hvíla þau hjón í Mælifellskirkjugarði ásamt fleiri ættmennum og þar var einnig síðasti Reykjavallabóndinn kvaddur hinstu kveðju. Pétur á Reykjavöllum varð skráður bóndi frá 1952 og einn eigandi frá 1985. Hann eignaðist fimm börn með tveimur sambýliskonum en auðnaðist ekki að fá arftaka að búinu og seldi jörðina 2012. Hann veiktist alvarlega og andaðist 23. janúar sl. Undirrituð vísar til minningargreinar sem birtist í Morgunblaðinu 31. janúar sl.* Sem lokaorð um 127 ára langa búsetu sömu fjölskyldunnar á Reykjavöllum er gaman að geta þess að yngsta dóttir Herdísar frá Reykjavöllum festi kaup á spildu af jörðinni (4,4 ha) sem frístundareit, svo að með sanni má segja að fimmti ættliður (og afkomendur) eigi þar áfram sín spor og vonandi um langa og gifturíka framtíð. Skráð á Akranesi í maí og júní 2015, Þórunn Erla Sighvats, frá Reykjavöllum í móðurætt. * Í undirskrift minningargreinarinnar stendur systkinin frá Stöðinni, Aðalgötu 11, Sauðárkróki, sem eru börn Herdísar Pálmadóttur frá Reykjavöllum, en áréttað að þau stóðu ekki öll að minningargreininni. Heimildir: Byggðasaga Skagafjarðar, II. og III bindi, Íslendingabók, Manntöl, Skagfirskur annáll 1847-1947 og Vesturfaraskrá 1870-1914. Pálmi S. Sveinsson og Guðrún A. Valberg. Landsbankinn allra landsmanna? Forsvarsmenn Landsbankans hafa gefið það út að líklega verði fyrirhugaðri byggingu á höfuðstöðvum slegið á frest. Ástæðan er sú að margir hafa tjáð sig um málið og gagnrýnt fyrir- hugaða byggingu. Það er vel að forsvarsmenn Landsbankans séu að draga í land en er nóg að fresta málinu? Það þarf að breyta um grunnstefnu Það er ekki nóg að stjórnendur Landsbankans hafa hrakist undan varðandi byggingar á nýjum höfuðstöðvum. Í fram- haldinu þarf að boða til hluthafafundar þar sem þessi áform eru endanlega slegin út af borðinu og lóðin margrædda verði síðan seld hæstbjóðanda. Í framhaldinu ætti banki „allra“ landsmanna að setja af stað vinnu sem miðar að því að endurskipuleggja starfsemi bankans með það að leiðarljósi að nýta á sem hagkvæmastan hátt þær fjölmörgu byggingar sem bankinn á víðsvegar um landið. Ég er sannfærður um að ítarleg skoðun á þessari blönduðu leið myndi sýna fram á hagkvæmni samanborið við að byggja risastórar höfuð- stöðvar á dýrustu lóð landsins. Það þarf líka að taka almenna upplýsta umræðu um það í samfélaginu af hverju Landsbankinn ákvað að velja marg-umrædda leið í stað þess að lækka veita hagstæðari kjör til almennings. Rekstur útibús í 100-150 ár Á undanförnum árum höfum við fylgst með því hvernig Landsbankinn hefur jafnt og þétt verið að fækka útibúum einmitt í nafni hagræðingar. Á árinu 2012 var t.d. með einni aðgerð ákveðið að loka nokkrum útibúum og áætlaður meðalsparnaður samkvæmt fréttum frá bankanum var 50 milljónir á hvert útibú. Ef Landsbankinn færi hag- kvæmari leið varðandi nýjar höfuðstöðvar þá hefði verið hægt að halda opnu einhverju af þeim fjölmörgu útibúum sem bankinn lokaði í nafni hagræðingar í 100-150 ár. Var verið að skerða þjónustu vítt og breitt um landið til að safna fyrir útborgun í nýjar höfuð- stöðvar á dýrustu lóð landsins? Er nema von að margir spyrji sig hvort menn séu algerlega úr sambandi við raunveruleik- ann? Störf án staðsetningar – kröfuhafar standa sig betur en Landsbankinn Landsbanki, banki allra lands- manna, ætti að hafa forystu í því að nýta ljósleiðaravæðingu landsins í stað þess að þjappa öllu á eina dýra lóð í 101 Reykjavík. Það á að skoða hagkvæmni þess að efla þær starfsstöðvar sem bankinn á í einhverjum glæsilegustu bygg- ingum hvers byggðalags. Landsbankinn breytir úti- búum í orlofsíbúðir fyrir starfs- fólk líkt og gert var rétt fyrir hrun á Ísafirði. Ætli það hefði ekki verið mögulegt að halda úti starfsemi á Ísafirði í stað þess að breyta útibúinu í orlofshúsnæði fyrir starfsfólk úr Reykjavík? Af hverju horfir Landsbank- inn ekki til þess sem áunnist hefur í fjarvinnslu. Ég hygg að Arion Banki, banki kröfuhaf- anna væri ekki að notfæra sér fjarvinnslu á Siglufirði nema af því væri hagkvæmni. Sú starf- semi hófst árið 2000 og hefur reynslan verið mjög jákvæð allar götur síðan. Meðan Landsbankinn er eign almennings þá á al- menningur allt í kringum landið fullan rétt á því að bankinn leitist við að uppfylla sitt gamla slagorð „banki allra landsmanna“. Ásmundur Einar Daðason Alþingismaður Framsóknarflokksins AÐSENT ÁSMUNDUR EINAR DAÐASON SKRIFAR

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.