Feykir - 01.06.2011, Side 10
10 Feykir 21/2011
Notkun hjálma og bílbelta
Í starfskynningu
Við nemendur í
starfskynningu töluðum
við Stefán Vagn Stefánsson
yfirlögregluþjón um notkun
hjálma og bílbelta. Hann
sagði að notkun bílbelta
hefði aukist í gegnum árin
en þó einn og einn noti ekki
bílbelti. Algengara er að fólk
í aftursæti noti bílbelti síður.
Sjalgæft er að þeir sem eru
á mótorhjólum og öðrum
bifhjólum noti ekki hjálma.
Ekki er skylda að nota hjálm
á reiðhjóli eftir 15 ára aldur
þó að þeir séu mikilvægur
öryggisbúnaður.
Algengasta orsökin á því
að fólk noti ekki bílbelti er
aðallega hugsunarleysi. Sumt
fólk sem ekur innanbæjar
finnst ekki taka því að setja
á sig bílbelti þó að það sé
alltaf mikilvægt að vera með
bílbelti. Sumum krökkum
finnst “töff ” að vera hjálmlaus
en það er ekki töff að slasa sig
ef maður lendir í slysi því það
getur skipt sköpum. Mikilvægt
er að tala við fólk um öryggi
með hjálm og bílbelti, að gera
það meðvitað um áhættuna.
Mikil bylting hefur orðið
í sambandi við öryggi barna
í bílum eins og barnastóla og
sessur. Sumir halda að það sé í
lagi að setja barn sem er of lágt
fyrir bílbeltið í sætið en svo
er ekki, öryggi þeirra skiptir
miklu máli og mikilvægt er að
setja barn sem er of lágt í stól
eða sessu. Ef fólk er ekki með
bílbelti á ferð er það sektað um
brot á lögum. Ef barn undir
15 ára aldri notar ekki hjálm
á reiðhjóli er það aðallega á
ábyrgð foreldra en tekið er til
greina að þau geti ekki fylgst
með barninu öllum stundum.
Mörg slys hafa orðið vegna
skeytingaleysis um notkun
bílbelta, áhættan er meiri
á banaslysum fyrir þá sem
nota ekki bílbelti. Þess vegna
er mikilvægt fyrir börn jafnt
sem fullorðna að muna eftir
þessum öryggisbúnaði og
hafa varann á í umferðinni.
/Sævar Óli Valdimarsson,
Jórunn Rögnvaldsdóttir og
Dagur Bjarki Sigurðsson.
Alþýðulist opnar
glæsilega verslun
Menning
Alþýðulist stendur fyrir sölu
á skagfirsku handverki í
Varmahlíð, í húsinu sem áður
hýsti Upplýsingamiðstöð
ferðamála og handverkssölu.
Þar er í boði allskonar handverk
en aðallega er unnið úr lopa, það
er að segja lopapeysur, húfur
og vettlingar. Einnig er unnið
úr tré, gleri, hrosshári og ýmsu
öðru. Vöruúrvalið er nokkuð
fjölbreytt enda er alveg ótrúlega
mikið í gangi í handverki og
hönnun á Íslandi.
„Í vetur munum við einnig
nota húsið til að hittast og
einnig til að halda námskeið
sem verða auglýst síðar,“ segir
Ásta Búadóttir formaður
Alþýðulistar í Skagafirði.
„Við verðum með sölubás
á Landsmóti hestamanna í
sumar, en mótið verður haldið
þann 26. júní - 3. júlí 2011, á
Vindheimamelum í Skagafirði.
Ætlum við að selja fullt af okkar
glæsilegu vörum, því að við
leggjum mikinn metnað í að
vera með vandaðar vörur.“
Aðspurð segir Ásta að
sumarið leggist bara vel í
handverksfólk. „Auðvitað vitum
við ekki hvernig reksturinn
muni ganga en það þýðir ekkert
annað en að bretta upp ermar
og leggja allan okkar metnað í
að gera þetta eins vel og hægt
er. Við vitum að Skagfirðingar
standa með okkur og halda
áfram að framleiða sínar flottu
vörur.“
Frá vinstri: Jóna Gísladóttir, Guðrún Bjarnadóttir, Helga Þórðardóttir og Ásta Búadóttir. Hér til hliðar má sjá myndir frá opnuninni.