Feykir


Feykir - 23.08.2012, Blaðsíða 4

Feykir - 23.08.2012, Blaðsíða 4
4 Feykir 31/2012 ( ÁSKORENDAPENNINN ) berglindth@feykir.is Allir eiga sér drauma, er það ekki annars? Um það syngur alla vega Kántrý kóngurinn Hallbjörn Hjartarson í lagi sínu: Allir eiga drauma. Sumir eiga sér stóra drauma, og vita fyrir víst, að þeir munu aldrei rætast. Þeir eru bara þannig, sko draumarnir. Aðrir eiga sér drauma sem þeir vita að ekkert mál er að láta rætast, það er bara spurning hvenær og þannig var það með mig. Ég var búin að eiga minn draum lengi ... Draumurinn var að fara til Hesteyrar við Hesteyrarfjörð, sem er einn Jökulfjarðanna á norðanverðum Vestfjörðum. Hvers vegna Hesteyri af öllum þeim undurfögru stöðum, sem finna má á okkar einstaklega fallega landi. Ástæðan var þessi!!!! Fyrir allmörgum árum var ég að grúska í gömlum bréfum, sem nafna mín Sigurlaug Á. Stefánsdóttir frá Kambakoti átti. Þar rakst ég á bréf frá föður mínum Hermanni Þórarinssyni frá Hjaltabakka, sem hann skrifar henni þann 9. september 1940. Var hann staddur á Hesteyri og vann þar í síldarbræðslunni, sem áður var norsk hvalstöð. Kvöldúlfur hafði keypt hvalstöðina og breytt í síldarbræðslu. Faðir minn hafði verið við nám í Göttingen í Þýskalandi eftir stúdentspróf og komið heim í aðdraganda stríðsins. Ólafur Thors hafði verið föður mínum stoð og stytta á námsárunum og fékk hann vinnu á Hesteyri fyrir hans tilstuðlan. Í bréfinu kom fram að móðir mín væri komin til hans í stutta heimsókn, en þau voru pússuð saman 15. júlí 1940 (svo einkennilega vildi til að tengdaforeldrar mínir giftu sig einnig 15. júlí, en árið 1938.) Svo rakst ég aftur á bréfið í byrjun júní og hóf að ræða um hvað mig væri búið að dreyma lengi um að fara til Hesteyrar. Í byrjun júlí sagði maðurinn minn allt í einu við mig: „Eigum við ekki að skella okkur í brúðkaupsferð til Hesteyrar? Þá hættir þú vonandi að tuða um Hesteyri.“ En vel á minnst, þessi maður hefur iðulega gleymt þessum brúðkaupsdegi okkar, sem er líka 15. júlí, en nú áttum við 45 ára brúðkaupsafmæli. Ég tók hann á orðinu og fékk hann 10 plúsa fyrir að muna loksins eftir deginum. Ég hafði strax samband við góðan vin á Ísafirði og benti hann mér á Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar og Læknishúsið á Hesteyri. Við pöntuðum ferðina með bátnum, en gistingu var hvergi að fá. Allt löngu pantað. Þá var bara að taka fram kúlutjaldið. Það kostaði auka farangur auk tjaldsins, bæði dýnu og sængurföt. Bakpokinn var tekinn með fyrir fatnað og kælibox fyrir matvæli. Nafna mín hafði orð á því að gaman væri að sjá okkur gömlu hjónin burðast með allan þennan farangur. Við lögðum af stað 13. júlí strax eftir vinnu og fórum sem leið liggur vestur. Stoppuðum á Hólmavík og fengum okkur smá næringu og héldum þaðan til Ísafjarðar. Gistum á tjaldsvæðinu, þar sem allt gistirými var upppantað. Hávaða rok var þegar við lögðumst til svefns og ekki var manni mínum rótt er hann hugsaði til sjóferðarinnar næsta morgun (hann er drullu sjóveikur karlinn). En fljótt skipast veður í lofti. Þegar við vöknuðum var komið blanka logn (skælbros á mínum) og glampandi sólskin sem hélst út alla helgina. Við fórum og náðum í miðana og héldum niður á bryggju. Sjóferðin var stórkostleg. Tók aðeins rúman klukkutíma. Útsýnið draumi líkast. Við sátum bergnumin og héldumst í hendur. Þegar við komum til Hesteyrar hægði báturinn ferðina og stoppaði við ból utan við flotbryggjuna. Það var fjara og ekki hægt að komast að bryggjunni. Urðum við að fara í gúmmítúttu til að komast í land. Nú brosti minn breitt þegar ég sagði: „Halló, er meiningin að ég fari á þessu í land?“ Já, var svarið og þarna klöngraðist ég niður í gúmmítuðruna og sat rétt við mótorinn. En allt gekk þetta að óskum og við gengum á land á draumastaðinn. Hlynur (maðurinn) fann strax göngustíg að tjaldsvæðinu enda eini stígurinn í þá áttina. Við hlóðum á okkur farangrinum og drusluðumst af stað. Ég var í þungum þönkum þegar maðurinn minn kallaði: „Hvar ert þú eiginlega?“ – „Ég er hérna,“ kallaði ég og hann sá hvönnina hreyfast og reiknaði með því að þar færi kella. Þarna fær nefnilega allur gróður að vaxa óáreittur og var hvönnin mannhæða há (sko miðað við mig). Sigurlaug Þóra Hermanns skrifar frá Blönduósi Að láta drauminn rætast Þegar á tjaldsvæðið kom skelltum við upp tjaldinu og var það rétt við kirkjugarðinn. Góðir grannar. Kyrrðin var dásamleg og fegurð staðarins ólýsanleg, sama hvert litið var. Þegar við höfðum náð áttum fengum við okkur smá næringu og ákváðum síðan að fara í gönguferð að gömlu síldarbræðslunni á Stekkseyri. Þetta var staðurinn sem faðir minn hafði unnið á. Það var ca. 20 mín. gangur þangað. Auðvelt yfirferðar og ósnortin fegurð. Þegar við náðum að rústunum settumst við niður og létum hugann reika, til þess tíma er þarna var ys og þys og allt í uppgangi. Nú standa rústirnar einar eftir. En þvílík mannvirki hafa verið þarna. Á Hesteyri er gömul húsaþyrping sem er vel við haldið og minna þau öll á þorpið sem stóð í blóma fram á miðja sl. öld. Það má segja að Hesteyri sé anddyri Hornstrandafriðlandsins en margar gönguleiðir liggja þaðan. Hesteyri upplifði sína bestu tíma fyrir um 100 árum, en 1952 yfirgaf síðasti íbúinn þorpið. Á Hesteyri standa enn 10 hús sem eru eingöngu notuð sem sumarhús. Það er eingöngu hægt að komast þangað sjóleiðina. Í bakaleiðinni komum við í Læknishúsið og fengum okkur tesopa og gómsætar pönnukökur.Við sátum úti og röbbuðum dálitla stund við heimamenn er sátu þarna úti í góða veðrinu. Frábært og notalegt fólk. Áður en við gengum til náða um kvöldið ákváðum við að ganga í hina áttina meðfram ströndinni, í áttina að Sléttu. Það var blanka logn og náttúran skartaði sínu fegursta. Meðfram ströndinni var stórgrýti og í baka leiðinni sagði maðurinn að best væri að fara upp á bakkann og ganga á jafnsléttu. Ég elti að sjálfsögðu og þegar hann steig upp bakkann tók hann dansspor sem minntu mig á Sæma rokk. Hann hafði stigið í holugeitungagabú. Þvílíkur dans. Þarna fékk hann nokkrar glæsilegar stungur. En honum til happs hafði ég af kvenlegu hyggjuviti tekið með mér ofnæmistöflur og verkja og kláðastillandi áburð. Hann setti þetta í sig og á og var þokkalega fljótur að jafna sig. Við settumst síðan niður á bekk og nutum dásemdanna sem náttúran hafði að bjóða. Sko, umhverfið meina ég. Þarna eru engin vélknúin faratæki, bara hjólbörur til að flytja þyngstu hlutina, þannig að kyrrðin er algjör. Svona er það þá að láta drauminn rætast hugsaði ég. Stórkostlegt. Um morguninn vöknuðum við við gaggið í tófunni. Borðuðum morgunmatinn. Löbbuðum um og fengum okkur aftur te og pönnsur í Læknishúsinu. Heimferðin gekk að óskum. Bæði alsæl. Þegar við komum á bryggjuna á Ísafirði var bara eitt eftir. Smella kossi á eiginmanninn og þakka honum fyrir að láta drauminn minn rætast. Frá Hesteyri eigum við dásamlegar minningar sem geymast og hægt verður að hlýja sér við í ellinni. Í guðanna bænum látið ykkur dreyma ... og látið svo draumana rætast … Bjórhátíðin að Hólum í Hjaltadal verður haldin laugardaginn 8. september frá 15 til 19 Helstu bjórframleiðendur landsins mæta á svæðið og kynna fjölbreytt úrval gæðabjóra. Kosið verður um besta bjórinn og keppt í kútaralli. Miðar verða seldir á www.midi.is frá 20. ágúst og kosta 4.500 kr. Athugið að miðar verða EKKI til sölu við innganginn. Aldurstakmark 20 ár. Hægt er að panta gistingu hjá Ferðaþjónustunni á Hólum í síma 455-6333 eða með því að senda tölvupóst á netfangið booking@holar.is. Nánari upplýsingar: Sjá Fésbókarsíðu Bjórseturs Íslands. 8. sept. 2012 Gamla síldarbræðslan á Stekkseyri. Mynd: SÞH

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.