Feykir - 11.10.2012, Blaðsíða 8
8 Feykir 38/2012
Spjallað við kvikmyndagerðarnema í FNV um
fjörið á bak við tjöldin við tökur myndarinnar Hross
„Mesta furða að
enginn hafi slasast“
Mikið hefur verið að gera í
kvikmyndageiranum á Króknum
undanfarnar vikur en nemar
í kvikmyndagerð hjá FNV og
Skottu kvikmyndafjelagi fengu að
vera í verklegu námi á tökustað
myndarinnar Hross eftir Benedikt
Erlingsson. Blaðamaður Feykis leit
við í kennslustund hjá hópnum á
dögunum og spjallaði við þau um
ævintýrin sem þau upplifuðu á
tökustað.
Að sögn Árna Gunnarssonar, fram-
kvæmdastjóra Skottu og kennara í
kvikmyndagerð við FNV, hófust tökur
myndarinnar í Borgarfirði, nánar til-
tekið í Hvítaársíðu við Húsafell, þann
13. ágúst og var því fengið leyfi fyrir
því að hefja kennslu viku fyrr en aðrir
áfangar við skólann. Tökur stóðu yfir til
22. september og lauk þeim í Skagafirði,
á Sauðárkróki og Hofsósi. Verkefnið var
hluti af tveimur áföngum sem kenndir
eru í kvikmyndagerð við FNV, þ.e. Á
tökustað og Heimildarmyndagerð.
Nemendurnir unnu sem sjálfboðaliðar
á „setti“ og fengu þar að leiðandi góða
innsýn í starfið og vinna nú að gerð
heimildarmyndar sem sýnir hvað
fór fram á bak við tjöldin við gerð
myndarinnar.
Alls tóku tíu nemendur þátt frá FNV;
þau Kjartan, Jóna Salvör, Halldór, Beggó,
Matti, Aðalheiður, Hjördís Helga, Linda
Rós, Gísli Felix og Kolli. Bjarni Dagur,
nemandi í 10. bekk í Grunnskólanum
Austan vatna, fékk einnig að fljóta með
en hann er mikill áhugamaður um
kvikmyndagerð og bað um að fá að taka
þátt. Nemendurnir voru á tökustað í
tveimur tvískiptum hópum, þrjár vikur
í senn. „Nokkrir voru beðnir um að
vera lengur en Beggó var sá eini sem var
laus og var því viku lengur,“ sagði Árni.
Dagarnir á tökustað voru langir en þeir
hófust kl. 8 á morgnanna og tökur stóðu
yfir til kl. 18. Eftir það átti eftir að ganga
frá og koma sér heim, sem var oftar en
ekki á milli kl. 19-20.
Gekk á ýmsu
Nemendurnir töldu upp nokkur
verkefni sem þeir höfðu fyrir höndum
á tökustað en þau voru mjög fjölbreytt.
„Við gerðum allt sem þurfti að gera,
vorum alhliða runnerar. Við vorum í
gaff og gripp deildinni en þá vorum
við að stilla upp fyrir myndatökur og
að aðstoða með áhöld, s.s. ljós, krana,
standa o.s.frv.,“ útskýrði Beggó. „Svo
vorum við líka í að hella upp á kaffi
og aðstoða með hádegismatinn,“ bætti
Jóna við. Nemendurnir voru í nokkrum
deildum, sumir voru í leikmyndadeild
og þá voru þeir að undirbúa tökustaði
en sú vinna fór jafnan fram degi fyrr.
„Við Matti vorum aðallega í
leikmyndadeild og þá
voru við t.d. í að setja
upp girðingar, mála
glugga og girðingar,
búa til grafir og fleira,“
sagði Halldór. Þá
voru nemarnir einnig
fengnir til að sjá um
hesta og samkvæmt
lýsingum gat þar
gengið á ýmsu.
„Sumir lentu í því
að halda við girðingu
í þrjá tíma,“ sagði
Halldór og benti á
Kjartan, hinir hlógu.
„Já, þeir gleymdu mér
víst, fóru bara í mat,“
bætti Kjartan við og
brosti. Þar sem myndin
var að mestu tekin
utandyra gátu tökur
farið fram við misjöfn
veðurskilyrði. „Eitt
sinn vorum við látin halda girðingu í
rigningu og skítakulda og svo endaði
það með því að Beggó datt í ána,“ sagði
Jóna. „Já, það var skítkalt,“ bætti Beggó
við. Einnig sögðu þau mestu furðu
að enginn hafi slasast við tökurnar
en flestir leikarar myndarinnar duttu
af baki og nefna þau t.d. Kjartan
Ragnarsson, Ingvar Sigurðsson,
Charlottu Bøving og Sigríði Maríu
Egilsdóttur. „Steinn Ármann datt að
vísu ekki af baki en hesturinn hans
steig út af málningarpalli við skipshlið
í Sauðárkrókshöfn og hann þurfti að
skutla sér á eftir honum,“ bætti Beggó
við.
Aðspurð um hvað þeim þótti
skemmtilegast við þessa reynslu nefndu
þau nokkur atriði en þá var helst nefnt
að setja upp krana fyrir myndavélina
og undirbúningurinn fyrir atriðin.
„Og vera með Sigga, eða Sigurði Óla, í
leikmyndinni. Hann var alltaf klæddur
í leðurjakka og með kúrekahatt. Flottur
og skemmtilegur karl,“ sögðu þau. Öll
voru þau sammála um að þau hefðu
lært mjög mikið og haft gaman af.
Spennandi verkefni
framundan
Ekki var tekið við nýnemum í
kvikmyndagerð sl. haust vegna anna
en til stendur að taka inn nema
eftir áramót og samkvæmt Árna
er útlit fyrir að áfram verði mikið
að gera í kvikmyndabransanum.
Þá segir hann Sindra Kjartansson,
framkvæmdarstjóra myndarinnar,
hafa verið ánægðan með frammistöðu
nemana og næsta vor ætlar hann að
bjóða næsta hóp nema í kvikmyndagerð
við FNV að taka þátt í næsta
kvikmyndaverkefni hans, sem verður
tekið upp á Patreksfirði í apríl og maí á
næsta ári. „Svo ætlar Baltasar Kormákur
að taka upp Hollywood mynd á Íslandi
og fjallar hún um slys sem gerist á
Mount Everest en hann hefur boðið
nemum frá FNV að koma og kynnast
vinnubrögðum á setti í alþjóðlegri
stórmynd,“ sagði Árni en ráðgert er að
sú mynd verði tekin upp á Vatnajökli
vorið 2013. „Bróðir Sindra, Sigurjón
Kjartansson, einn af forsvarsmönnum
nýs sjónvarpsmyndaframleiðslufyrir-
tækis sem er í eigu Baltasars og Lilju,
sagði það ekki útilokað að kvik-
myndagerðarnemendur við FNV fái
að kynnast upptökum á þeim vettvangi
líka,“ bætti Árni við.
Samið var við Friðrik Þór Friðriks-
son og Benedikt Erlingsson að gera
heimildarmynd um gerð myndarinnar
Hross og nú eru nemarnir á fullu við að
klippa þau myndskeið sem þau tóku á
tökustað. Það eru því augljóslega nóg af
spennandi verkefnum framundan hjá
kvikmyndagerðarnemum í FNV. /BÞ
Nemar í kvikmyndagerð sem voru á setti Hross. Efri röð f.v.: Beggó, Jóna Salvör, Linda Rós, Aðalheiður, Kjartan og Árni Gunn-
arsson. Neðri röð f.v.: Hjördís Helga, Halldór og Matti. Á myndina vantar Gísla Felix, Kolla og Bjarna Dag.