Feykir


Feykir - 06.06.2013, Síða 9

Feykir - 06.06.2013, Síða 9
22/2013 Feykir 9 Guðný Axelsdóttir á Sauðárkróki Get ekki farið í saumaklúbb með vinnufélögunum Þegar vinnufélagar mínir sáu að á mig hafði verið skorað að rita pistil í Feyki fóru þeir strax að fabúlera um hvað ég ætti að skrifa. Ég sagðist vera alveg hugmyndasnauð. „Nú liggur það ekki alveg ljóst fyrir?“ sagði einn þeirra. „Ha, er það?“ svaraði ég alveg tóm. „Já auðvitað skrifar þú um hvernig það er að vera kona á karlavinnustað.“ Meiningin var auðvitað: „Þú skrifar bara um okkur.“ Ég gat nú ekki farið að valda þeim vonbrigðum, þannig að hér verða sögð nokkur orð um hina úrræðagóðu Veitumenn. Ég hef nú unnið hjá Skagafjarðarveitum í rúmlega fjögur ár. Þetta hefur verið afskaplega skemmtilegur tími þó að ég sakni þess stundum að geta ekki farið í saumaklúbb með vinnufélögunum. Menn eru ekkert að hittast skipulega utan vinnutíma og þá sjaldan það gerist, er bara dottið hressilega í það á verkstæðinu. Ekkert pjatt og engir makar. Þetta á jú að vera gaman. Ef ég hefði ekki þekkt konurnar þeirra allra áður, þá hefði ég haldið að þeir væru allir óskaplega illa giftir. (Fyrirgefiði strákar ef ég kjafta frá einhverju). Þegar ég byrjaði voru þeir eitthvað feimnir og buðu mér að taka hann Palla minn með á Litlu jólin, en kannski vantaði þá bara gítarleikara... Þetta eru reyndar afar skemmtilegar uppákomur og best að vera undir það búin að þær geti staðið lengi. Kaffitímarnir eru kapítuli útaf fyrir sig. Á vinnustaðnum eru átta sérfræðingar í öllum mögulegum málefnum. Þeir hafa skoðun á öllu og öllum og allir vita best. Mér finnst með ólíkindum að ekki sé leitað eftir kröftum þeirra við að leysa landsmálin, sveitarstjórnarmálin, efnahagsmálin og öll hin málin. Kannski veit fólk ekki af þessum hæfileikum þeirra, en því er þá komið á framfæri hér með. Svo er því auðvitað haldið hátt á lofti hversu heppin ég sé að vinna á karlavinnustað og losna við stanslaust suðið í þessum kellingum sem allt þykjast vita. Kvenna- vinnustaðir eru eins og allir vita undirrót alls ills, því þar sem tvær konur koma saman þar er vesen. Og ég sem hafði nánast eingöngu unnið á kvennavinnustöðum fram að þessu og kannaðist ekki við nein vandræði, var snarlega kveðin í kútinn. Ég veit reyndar ekki til þess að nokkur þeirra hafi unnið á kvennavinnustað eða með konum yfirleitt, en þeir eru jú sérfræðingarnir og maður mótmælir þeim ekki svo glatt. En hvað um það, þetta er afskaplega samheldinn vinnustaður og kallarnir mínir eru hver öðrum ljúfari. Þeir eru afskaplega bóngóðir og fúsir að gefa ráð við hverju sem á bjátar. Ég er heppin að eiga þá að. - - - - - - Ég skora á bróður minn Þorstein Axelsson að taka við áskorendapennanum. ÁSKORENDAPENNINN UMSJÓN kristin@feykir.is INGIBERGUR GUÐMUNDSSONN SKRIFAR Sýning Héléne Magnússon í Heimilisiðnarsafninu Lesið í prjón Á sunnudaginn var sumarsýning Heimilisiðnaðar- safnsins á Blönduósi, Lesið í prjón, formlega opnuð, af fulltrúa bandaríska sendi- ráðsins á Íslandi, Jamilla Attaoui. Elín S. Sigurðar- dóttir, forstöðumaður safnsins, ávarpaði gesti og Ásdís Guðmundsdóttir söng nokkur lög við undirleik Sorin Lazar. Fjöldi gesta lagði leið sína til að skoða sýninguna, sem vakið hefur verðskuldaða athygli. Sýningin er í tengslum við útgáfu bókar Héléne Magnus- son, Icelandic Handknits,í Bandaríkjunum. Á sýningunni er að finna þær 25 flíkur sem eru í bókinni. Annars vegar eru þær endurgerðar í sömu mynd, eftir flíkum sem til eru í safninu og hins vegar flíkur sem Héléne hefur hannað með innblæstri frá gömlum flíkum. Héléne segir innblásturinn augljósan, enda hafi Elín safnvörður strax séð hverjar fyrirmyndirnar voru þegar hún skoðaði verk Héléne. Með bókinni segist hún vilja varpa ljósi á ýmsar íslenskar prjóna- hefðir, svo sem vettlingahefð og sjalahefð. Einnig eru 10 matar- uppskriftir ásamt almennum fróðleik um íslenskar kindur og íslenska ull í bókinni. Þannig er hún í raun kynning á íslenskri prjónahefð og íslenskri menn- ingu. Elín S. Sigurðardóttir, forstöðumaður Heimilis- iðnaðarsafnsins, ritar formála að bókinni og skrifar um sögu safnsins, svo og bókarkafla um Halldóru Bjarnadóttur. Héléne segist hafa prjónað nánast alla ævi, en þegar hún var komin í Listaháskóla Íslands hafi hún þurft að finna sér rannsóknarefni og urðu gamlir íleppar og gamalt íslenskt prjón fyrir valinu. Í kjölfarið skrifaði hún bókina Rósaleppaprjón í nýju ljósi sem kom út árið 2006 og síðan þróuðust mál þannig að hún hélt áfram að stunda og rannsaka prjón. Það var áhugi Héléne á landinu sem upphaflega dró hana hingað í frí. Nokkrum mánuðum seinna flutti hún til landsins, eignaðist íslenskan mann, Skúla Magnússon, og eiga þau þrjár dætur. Frá 2009 hefur Héléne unnið með prjón í ýmsu formi. Hún heldur úti vefsíðunni prjónakerling.com, sem er fyrsta íslenska prjónavefritið. Þar selur hún uppskriftir af prjónaflíkum, ásamt nýju prjónabandi, Love story, sem hún er að þróa úr íslenskri ull í sauðalitunum, og er mýkra og fíngerðara en annað band sem fáanlegt er úr íslenskri ull. Bandið er framleitt erlendis þar sem þær vélar sem eru til hér á landi ráða ekki við fram- leiðsluna. Þá stendur Héléne fyrir gönguferðum í samstarfi við íslenska fjalleiðsögumenn, sem hún lýsir sem óviðjafn- anlegu tækifæri til að kynnast ólíkum prjónaaðferðum í hópi fólks frá mismunandi löndum þar sem prjónið verður tungumálið, eins og fjallað var um í Landanum á RÚV sl. sunnudag. Ferðirnar eru vinsælar og fer hún 6-7 ferðir á sumri og segir áhuga Íslendinga á ferðunum vera að aukast. Héléne hefur mikið dálæti á Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi og segir það eitt besta safn af íslensku hand- prjóni, þar sem munirnir eru alltaf aðgengilegir og því varð það fyrir valinu við gerð bókarinnar. Ljósmyndir, sem Héléne tók í fyrstu heimsókn sinni á safnið fyrir rúmum tíu árum, nýttust við útgáfu bókarinnar, og gáfu henni yfirsýn yfir muni safnsins. Héléne hefur skrifað ýmsar greinar um íslenska prjónahefð og því hafði bandaríski útgefandinn samband við hana sem fulltrúa Íslands til að rita þessa bók. Bókin sem er hluti af ritröð um prjónahefð í ýmsum löndum sem ber yfirskriftina „Knitting around the world“. Myndatökur fóru fram á Íslandi í janúar í fyrra, en hún kom út í Bandaríkjunum í lok mars. Prentuð voru 10 þúsund eintök sem nú eru uppseld en bókin verður fáanleg í bóka- og prjónabúðum vítt og breitt um Evrópu. Frönsk útgáfa er væntanleg í febrúar 2014 og vonast Héléne til að íslensk útgáfa verði fáanleg innan tíðar. Sýning Héléne er sú tíunda í röð árvissra sumarsýninga sem hafa verið settar upp síðan sýningarhúsnæðið var tekið í notkun, og verður hún opin á opnunartíma safnsins í allt sumar. /KSE Elín afhendir Héléne og Jamillu gjöf frá safninu. Sýningargestir nutu veðurblíðunnar.

x

Feykir

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.