Morgunblaðið - 24.07.2018, Side 19

Morgunblaðið - 24.07.2018, Side 19
19 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 24. JÚLÍ 2018 Arnþór Listaverk Þúfa Ólafar Nordal myndlistarkonu var lokuð almenningi vegna viðgerða undanfarna mánuði en nú geta vegfarendur tekið gleði sína á ný og gengið götuna til góðs. Að undanförnu hafa jarðakaup er- lendra aðila verið mikið til umræðu. Í þessum mánuði eru jafnframt 20 ár síðan þjóðlendulögin tóku gildi. En hver er staða þessara mála og er ástæða til að hafa áhyggjur af því að jarðnæði landsins verði innan fárra áratuga að miklu leyti í eigu erlendra aðila? Á þessum vettvangi munu á næstu dögum birtast tvær greinar um þetta mál eftir undirritaða þar sem reynt verður að varpa ljósi á nokkur atriði þessu tengd. Í eignarrétti manna felast marg- vísleg réttindi. Sá sem á land má t.d. veðsetja það og hagnýta með þeim hætti sem lög leyfa. Einn þáttur í eignarréttinum, sem nefna má ráð- stöfunarrétt eiganda, felst í því að eigandi lands má ráða hvort og þá hverjum hann selur land sitt. Bann við því að selja jarðir til útlendinga felur í sér takmörkun á þessum ráð- stöfunarrétti, því mögulegur kaup- endahópur slíkra jarða verður minni en ella. Þessar takmarkanir á ráð- stöfunarréttinum geta aftur á móti byggst á málefnalegum sjón- armiðum. Í því sambandi er gjarnan nefnd nauðsyn þess að halda land- inu í byggð og að ræktarland sé í landbúnaðarnotum. Sjónarmiðum um að náttúruauðlindir safnist ekki á fárra hendur hefur jafnframt verið teflt fram. Eignarhald ríkisins á landi og landsréttindum Þegar vinnu óbyggðanefndar lýk- ur má búast við að allt að 40% af Ís- landi verði þjóðlendur. Þjóðlendur eru í eigu íslenska ríkisins og er óheimilt að nýta auðlindir í þjóð- lendum nema með leyfi forsætisráð- herra. Innan þjóðlendna eru margar af helstu náttúruperlum landsins. Má þar nefna Langasjó, Þjórsárver, Þórsmörk, Hveravelli, Land- mannalaugar, Öskju, Þríhnjúkagíg og alla stóru jökla landsins. Verður að telja það mikið gæfuspor að vinna við afmörkun þjóðlendna hafi verið komin svo vel á veg þegar ferðamannastraumur til landsins tók að stóraukast fyrir nokkrum ár- um. Ella hefði ágreiningur tengdur gjaldtöku á ferðamannastöðum orð- ið mun umfangsmeiri og mögulega staðið ferðaþjónustunni sem at- vinnugrein fyrir þrifum. Til viðbótar eignarhaldi á þjóð- lendum er íslenska ríkið helsti jarð- eigandi landsins. Mun ríkið vera eigandi að u.þ.b. 450 jörðum á Ís- landi og innan þess jarðasafns eru margar landmestu jarðir landsins. Sveitarfélög eiga jafnframt stærst- an hluta þess lands sem er innan þéttbýlis, auk þess sem þau eiga nokkurn fjölda jarða í dreifbýli. Íslenska ríkið hefur einnig á allra síðustu árum fest kaup á eign- arlandi sem talið er hafa sérstaka þýðingu fyrir almenning. Vísast í þessu sambandi til kaupa ríkisins á landsvæði við Geysi í Haukadal, jörðinni Felli við Jökulsárlón og loks jörðinni Teigarhorni í Djúpavogs- hreppi. Sem dæmi um eldri að- ilaskipti má nefna kaup ríkisins á Ásbyrgi árið 1928 og Skaftafelli árið 1967. Ríkissjóður hefur á grundvelli náttúruverndarlaga, forkaupsrétt að jörðum og öðrum landareignum sem eru að hluta eða öllu leyti á nátt- úruminjaskrá. Þegar kemur að eignarhaldi auðlinda hefur ríkið við sölu ríkisjarða síðustu 100 árin iðu- lega haldið eftir tilteknum auðlind- um sem eru þá enn í eigu íslenska ríkisins. Þá hefur ríki og sveit- arfélögum frá árinu 2008 almennt verið óheimilt að framselja með var- anlegum hætti helstu orkuauðlindir í opinberri eigu á borð við jarðhita og vatnsréttindi. Samkvæmt þessu er óþarft að taka undir þær fullyrðingar sem stundum heyrast að útlendingar geti keypt upp stóran hluta Íslands eða orkuauðlinda landsins. Stað- reyndin er sú að stór hluti lands og landsréttinda er í eigu íslenska rík- isins og annarra opinberra aðila. Samkvæmt 40. gr. stjórnarskrár- innar er óheimilt að selja fasteignir ríkisins nema samkvæmt sérstakri lagaheimild. Ef ráðherra tekst að afla slíkrar heimildar með lögum er honum skylt, á grundvelli laga um opinber fjármál, að selja eignina í opnu söluferli þar sem leggja skal m.a. áherslu á gagnsæi, jafnræði og hagkvæmni. Sambærilegar skyldur hvíla á ráðherra við sölu ríkisjarða. Jafnvel þótt landið sjálft sé selt er ráðherra eftir sem áður óheimilt að selja helstu auðlindir með landinu. Af þessu leiðir að staða íslenska rík- isins sem landeiganda er afar sterk og gildandi löggjöf er þannig úr garði gerð að hún veitir ríkinu úr- ræði til að bregðast við aðilaskiptum að landi sem hefur sérstakt gildi fyrir almenning. Þarf að bregðast við yfirráðum erlendra aðila í veiðifélögum? Á hinn bóginn er ekki þar með sagt að löggjöfin sé hnökralaus. Í tilviki kaupa erlendra aðila á hefð- bundnum bújörðum verður vart ætl- að að þeir telji sig hafa sérstaka hagsmuni af ræktarlandi, enda sýna dæmin að áhugi þeirra snýr fyrst og fremst að jörðum sem hafa yfir að ráða lax- og silungsveiðiréttindum. Að lögum er ekkert því til fyr- irstöðu, umfram það sem leiðir af al- mennum takmörkunum um eign- arhald erlendra manna að fasteignum hér á landi, að einstök veiðifélög komist að fullu undir yf- irráð erlendra aðila. Erlendum að- ilum nægir raunar að eignast meiri- hluta atkvæðisréttar í veiðifélaginu, því almennt gildir sú regla í slíkum félögum að meirihlutinn ræður og minnihlutavernd er fremur fábrotin, þó að einhver sé. Samkvæmt lögum um lax- og sil- ungsveiði er óheimilt að kaupa veiði- réttinn einan og sér og verður því almennt að kaupa land sem liggur að viðkomandi veiðivatni til þess að öðlast veiðirétt. Landbúnaðarhags- munir búa fyrst og fremst að baki þessu banni og má segja að tvenns konar rök hafi verið fyrir því færð. Annars vegar hefur verið talið að það rýri landgæði landbún- aðarjarðar um of ef veiðiréttur er skilinn sérstaklega frá henni og hins vegar að hagkvæmni búrekstrar sé betur tryggð þegar land og land- gæði eru á sömu hendi. Ólíklegt er að þeir sem stóðu fyrir þessari laga- setningu fyrir tæpri öld hafi áttað sig á því að bannið kynni að leiða til uppkaupa á jörðum. Þeir erlendu aðilar sem aðeins hafa áhuga á lax- og silungsveiðiréttindum verða hins- vegar vegna bannsins að kaupa við- komandi jarðir þó svo óvíst sé að þeir hafi nokkurn áhuga á því að kaupa landið sérstaklega. Að okkar mati kunna að vera úr- ræði til að bregðast við þessari stöðu sérstaklega, m.a. með breyt- ingum á lögum um lax- og silungs- veiði, og koma í veg fyrir að aðilar nái yfirráðum í veiðifélögum án þess að eiga fasta búsetu á viðkomandi svæði. Í síðari grein undirritaðra verður nánar rætt um eignarhald lands og þau úrræði sem koma til greina til að bregðast við aðilaskiptum og uppkaupum á landi. Jarðakaup erlendra aðila Eftir Guðjón Ármannsson og Víði Smára Petersen » Óþarft að taka undir þær fullyrðingar … að útlendingar geti keypt upp stóran hluta Íslands eða orkuauð- linda landsins. Stað- reyndin er sú að stór hluti lands og landsrétt- inda er í eigu íslenska ríkisins og annarra op- inberra aðila. Víðir Smári Petersen Höfundar eru hæstaréttarlögmenn á LEX. Guðjón Ármannsson

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.