Morgunblaðið - 23.08.2018, Side 64

Morgunblaðið - 23.08.2018, Side 64
64 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 23. ÁGÚST 2018 Hér eru birt tvö kaflabrot úr bók- inni. Neðanmálsgreinum er sleppt. Að spila eins og karl eða kona Eitt af því sem Helga velti fyrir sér á þessum árum var hvort píanó- ið væri ef til vill hljóðfæri karl- mannsins fyrst og fremst. Flestir þekktir píanósnillingar heimsins voru þá karlar þótt til hafi verið konur í allra fremstu röð, og leikur þeirra hljómaði annað slagið í út- varpinu heima. Karlar voru í mikl- um meirihluta þeirra erlendu píanó- leikara sem héldu tónleika á vegum Tónlistarfélags- ins. Árið sem Helga fæddist, 1942, hélt enski píanóleikarinn Kathleen Long (1896–1968) þó ferna tónleika á vegum félagsins. Sú kona í flokki „heimsklassapían- ista“ sem oftast kom fram á Tónlist- arfélags og sinfóníutónleikum á námsárum Helgu var bandaríski pí- anóleikarinn Ann Schein (f. 1939). Hún kom hingað fyrst árið 1958, 19 ára gömul, og aftur 1959 og 1962, og vakti alltaf hrifningu. Svo kom hún 1969, um svipað leyti og Helga kom í fyrsta sinn fram sem semballeikari á Íslandi, og að lokum þrisvar sinnum í upphafi þessarar aldar. Eftir að hafa leikið öll verk Chop- ins í tónleikaröð árið 1980 „hægði Ann ferðina og helgaði sig að mestu fjölskyldu sinni … Frá árinu 1995 hefur hún hins vegar verið á fullri ferð …“ Þessi lýsing Morgunblaðs- ins segir í raun allt sem segja þarf um erfiðleika kvenna við að sam- ræma krefjandi listiðkun og hefð- bundið fjölskyldulíf. Aðrir píanóeinleikarar Tónlistar- félagsins úr hópi kvenna á þessum árum voru Elísabet Haraldsdóttir, 1953, Jórunn Viðar, 1955, Guðrún A. Kristinsdóttir, 1955 og 1957, Mary Louise Boehm og Þórunn Jóhanns- dóttir (síðar Ashkenazy) 1958, og hin pólska Halina Czerny-Stefanska sem hélt Chopintónleika fyrir Tón- listarfélagið í febrúar 1963, skömmu áður en Helga útskrifaðist. Fyrsta konan sem hélt píanó- tónleika á Íslandi var Anna Pjet- urss, árið 1927. Hún hafði þá nýlokið námi við Tónlistarháskólann í Kaup- mannahöfn. Einleikstónleikar henn- ar á Íslandi urðu ekki fleiri, „… margra ára vanheilsa og ýmsir aðrir erfiðleikar komu í veg fyrir, að hún fengi að njóta sín sem píanó- leikari …“ Margrét Eiríksdóttir (1914–2001) hafði útskrifast frá Tónlistarskól- anum í Reykjavík árið 1934, og átti að baki langt framhaldsnám í Lond- on og Glasgow. Hún var afburða pí- anóleikari en kom lítið fram eftir 1945. Margrét var skólastjóri Tónlistar- skólans á Akureyri frá 1946 til 1950 en þegar eiginmaður hennar, Þór- arinn Björnsson, varð skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1949 gerðist Margrét „húsfreyja þess menntaseturs“. Hún kenndi síðar lengi við Tónlistarskólann í Reykja- vík. Einn kennara hennar í Bret- landi var fyrrnefnd Kathleen Long. Jórunn Viðar (1918–2017) var langt á undan sinni samtíð meðal ís- lenskra kvenna, bæði sem píanóleik- ari og tónskáld. Guðrún A. Kristinsdóttir (1930– 2012) hafði stundað framhaldsnám í Kaupmannahöfn og Vínarborg, haldið einleikstónleika á vegum Tónlistarfélagsins og verið einleik- ari með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Keisarakonsert Beethovens 1958 og d-moll-konsert Bachs 1962. Það ár ákvað hún að einbeita sér að með- leik (sem hefur lengst af gengið undir hinu skelfilega séríslenska heiti „undirleikur“) og fór til náms í London í því skyni. Einn hæfileikaríkasti tónlistar- maður sem Ísland hefur eignast, undrabarnið Þórunn Jóhannsdóttir Ashkenazy (f. 1939), dró sig úr sviðsljósinu í upphafi sjöunda ára- tugarins. Elísabet Haraldsdóttir (1930– 2002), sem lærði hjá föður sínum, Haraldi Sigurðssyni, hélt fyrstu ein- leikstónleika sína á Íslandi 16 ára gömul, árið 1947. Hún kom aftur til landsins árið 1953 og spilaði þá bæði á píanó og klarínettu. Að sjálfsögðu var ekki hægt að lifa af píanóleik eingöngu á Íslandi og vafamál að Helga eða aðrir pí- anónemendur hafi nokkuð velt því fyrir sér. Tónlistarnám hennar sner- ist um ást á listinni en aldrei um hagnýt markmið. Hún fann sig vel í píanónáminu – og hefði sjálfsagt vel getað hugsað sér að starfa sem pí- anóleikari og kennari í Reykjavík. Píanókennarar hennar frá 14 ára aldri voru allir karlmenn og margt bendir til að hún hafi á Þýskalands- árunum verið farin að velta fyrir sér hvernig hún gæti nálgast píanóleik- inn á sínum eigin forsendum sem einstaklingur og kona. Theopold tjáði Helgu að menn þyrftu „að hafa mikinn kjark til þess að leika á pí- anó“ sem Helga hefur ef til vill skilið sem vísun í „karlmannleg“ gildi pí- anóspils. Snemma árs 1964 virtist Helga vera búin að finna nýja leið – sem píanisti. Hún fór á útskrift- artónleika ungrar konu í Detmold í febrúar 1964 og segist í bréfi aldrei hafa heyrt eins „sjarmerandi“ spil. Hingað til hafi hún haldið að konur gætu aldrei orðið góðir píanistar. Nú sé hún búin að skipta algerlega um skoðun. Enginn karl geti spilað eins og þessi kona. Hún sé nú „alveg óð og uppvæg“ og „alveg hætt við að reyna að spila sem karlmaður“. Hér er ung kona í uppreisn og reiðir hátt til höggs. Síðar á ævinni hafnaði Helga öllum greinarmun á leik karla og kvenna enda rétt að varast alhæfingar í þessu samhengi. Tónlistin ristir djúpt í mannssálina, kafar niður fyrir vitund um karlkyn eða kvenkyn. Það er ómögulegt að greina hvers kyns flytjandi er út frá stíl. Það er þá í öllu falli áunninn stíll: Menn geta hugsanlega ákveðið að spila „kvenlega“ eða „af karl- mannlegum þrótti“. Þessi lýsing- arorð eru reyndar engan veginn heppileg í tónlistarlegu samhengi. Karlmenn hafa ekki einkarétt á hörkunni né konur á mýktinni. Fyrstu sembaltónleikar Íslandssögunnar Það er nú einu sinni svo, að til dæmis Bach samdi ekki píanó- músik … Fyrstu sembaltónleikar Íslands- sögunnar voru haldnir í Norræna húsinu fimmtudagskvöldið 4. sept- ember 1969 kl. hálf-níu. Úti var vestankaldi og súld, skyggni lélegt. Helga tók sal hússins á leigu fyrir 300 krónur (sem náði ekki andvirði þriggja aðgöngumiða!) en þetta var ekki eini kostnaðurinn við tón- leikana. Það þurfti að prenta tón- leikaskrá og aðgöngumiða og aug- lýsa í Útvarpinu og Morgunblaðinu. 108 miðar voru seldir á 125 krónur, samtals 13.500 krónur. Norræna húsið var troðfullt og það hefði verið hægt að endurtaka tónleikana, sem Helga gerði þó ekki í Reykjavík heldur fór með sembalinn sinn norð- ur á Akureyri og spilaði í Borgar- bíói. Einir velsóttir tónleikar gáfu því nokkuð í aðra hönd. 125 gamlar krónur í september 1969 svara til um 1.300 króna árið 2017. Heildar- miðasala væri því nú um 140 þúsund krónur. Hér í bókinni er lítið fjallað um peninga. Í þessu samhengi er aftur á móti rétt að benda á mikilvægi Norræna hússins í íslensku tónlist- arlífi. Húsið var vígt í ágúst 1968, ári fyrir tónleika Helgu. Það hefur síðan staðið tónlistarmönnum opið gegn vægu gjaldi, jafnvel ókeypis. Hér eru það norrænir fjármunir sem koma Íslendingum til góða. Norræna húsið þarf einfaldlega ekki á leigutekjum að halda til að standa undir rekstri. Til samanburðar má geta þess að leigan í Háteigskirkju var í lok september sama ár 2.000 krónur, miklu hærri upphæð en í Norræna húsinu – en þó ekki há, að minnsta kosti ekki miðað við stærð kirkjunnar. Auðvitað var ekki um annað að ræða en að byrja á Bach, rétt eins og á tónleikunum um vorið í Gardn- er-safninu og efnisskráin er reyndar nákvæmlega sú sama: Bach, Moz- art, Händel, Scarlatti. Þetta lýsir praktískri varkárni Helgu. Það var engin ástæða til taka þá áhættu að spila ný verk á þessum tónleikum, jafnvel þótt hún hefði haft heilt sumar til að æfa. Næg áhætta fólst í því að kynna sembalinn til sögunnar á heilum tónleikum. Það var eig- inlega ómögulegt að spá í viðtök- urnar og þetta gat farið hvernig sem var. Tónleikarnir vöktu mikla athygli og fjórir gagnrýnendur fjölluðu um þá í blöðunum. Íslensk dagblöð voru opinber eða óopinber málgögn stjórnmálaflokka, ólík að efni og út- breiðslu, en öll sinntu þau menning- arumfjöllun með fréttaflutningi við- tölum við listamenn og gagnrýni um verk þeirra. Unnur Arnórsdóttir pí- anókennari skrifaði um þessar mundir í Tímann. Stefán Edelstein, skólastjóri Barnamúsíkskólans, skrifaði í Vísi. Tvö ung tónskáld voru gagnrýnendur á þessum árum, Þorkell Sigurbjörnsson á Morgun- blaðinu og Leifur Þórarinsson á Þjóðviljanum. Enginn dómur birtist í Alþýðublaðinu um tónleikana. Það segir sig sjálft að það er auð- veldara að vekja athygli í fámenninu á Íslandi en í bandarískri stórborg. Þar hélt Helga tónleika eins og hver annar, tilkynningar komu í frímerk- isstærð í langri runu í atburðadálk- um blaðanna, engin gagnrýni birtist – því að bandarískir gagnrýnendur koma ekki á tónleika algjörlega óþekkts einleikara – en aðsóknin var góð, líkt og í Norræna húsinu. Á Ís- landi var þetta aftur á móti sögu- legur viðburður. Þegar Helga hins vegar sest við hljóðfærið og hefur leikinn, þá skiptir þetta engu máli. „Mikilvægi“ tónleikanna hefur ekki áhrif á spilamennskuna. Áheyrand- inn í Norræna húsinu heyrir það sama og áheyrandinn í Boston, þótt annar hafi tekið þátt í sögulegum viðburði en hinn hafi rölt fyrir til- viljun á tónleika í vorblíðunni í Massachusetts. Í þessu samhengi ætlar höfundur að gagnrýna eigið orðalag! – um tónleikana sem „vöktu mikla at- hygli“. Þetta orðatiltæki er ofnotað í menningarumræðunni. „Að vekja mikla athygli“ er yfirleitt sett í beint samband við að viðburður eða at- höfn hafi tekist vel. Tilnefningar, út- nefningar og verðlaunaveitingar eru líka tíundaðar sem mælikvarði á mikilvægi tiltekins viðburðar eða einstaklings. Þá er horft fram hjá þeirri staðreynd að viðburðir sem vekja enga athygli og eru ekki til- nefndir til eins eða neins geta verið jafngildi stórfréttar, listrænn sigur og einstök upplifun. Saga Helgu Ingólfsdóttur Í bókinni Helguleikur – saga Helgu Ingólfsdóttur og Sumartónleika í Skálholtskirkju, sem bókaforlagið Sæmundur gefur út, segir Kolbeinn Bjarnason frá semballeikaranum Helgu Ingólfsdóttur (1942-2009), Sumartónleikum í Skálholtskirkju og sögu barokktónlistar á Íslandi. Í bókinni er rakið hvernig Helga Ingólfsdóttir breytti hugmyndum manna um barokktónlist en var jafnframt öflugur túlkandi nýrrar tónlistar. Bókinni fylgja sex hljómdiskar með leik Helgu. Morgunblaðið/Árni Torfason Brautryðjandi Helga Ingólfsdóttir, semballeikari og stofnandi og listrænn stjórnandi Sumartónleika í Skálholti. Myndin er tekin fyrir tónleika í Salnum í byrjun apríl 2004, næstsíðustu einleikstónleika hennar. Á efnisskránni voru m.a. verk eftir Hafliða Hallgrímsson, Elínu Gunnlaugsdóttur, Oliver Kentish og Karólínu Eiríksdóttur. Nú finnur þú það sem þú leitar að á FINNA.is

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.