Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Blaðsíða 28

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Blaðsíða 28
28 Ljósmæðrablaðið - júlí 2017 Soffía og Maja mamma hennar uppspretta visku og þekkingar Á síðasta ári var tekið í notkun nýtt og glæsilegt færnisetur Hjúkrunarfræðideildar í Eirbergi. Af því tilefni gafst kostur á að endurnýja að hluta til tækjakost deildarinnar til færniþjálfunar og hermikennslu. Námsbraut í ljósmóðurfræði hefur lengi vantað vandaðar æfingadúkkur til að nýta við þjálfun og kennslu nema í almennum handbrögðum við fæðingu, sem og sérhæfðari handbrögðum við frávik í fæðingu. Úr mörgu var að velja og voru kennarar námsbrautarinnar sammála um að freista þess að fá keyptar æfingadúkkur úr silikoni sem líkja mun betur eftir raunverulegum gangi fæðingar en eldri æfingadúkkur hafa gert. Íslenskar ljósmæður hafa fengið að kynnast slíkum dúkkum á ráðstefnum erlendis og hrifist mjög af þeim námstækifærum sem þær bjóða upp á. Um áramót bárust námsbrautinni síðan æfingadúkkurnar sem frá framleiðanda voru kallaðar „Soffía og mamma hennar“. Æfingadúkkurnar hafa þegar verið notaðar til að kenna ljósmæðranemum á fyrsta ári almenn handtök við fæðingu og spangarstuðning og ljósmæðranemar á öðru ári hafa fengið að spreyta sig á flóknari handtökum við axlarklemmur og sitjandafæðingar. Einnig hafa ljósmæður sem sinna klínískri kennslu og sí- og endurmenntun starfandi ljósmæðra fengið að þjálfa sig í notkun æfingadúkkanna. Þær mæðgurnar rötuðu meira að segja á fréttamiðla Háskólans og Ríkisútvarpsins, en við þau tækifæri var eftir því tekið að móðurdúkkan hafði komið nafnlaus í okkar hendur og hafði enn ekki verið fundið sómasamlegt nafn. Stúlkubarnið litla, hún Soffía, kom til okkar fullnefnd og fékk að halda því nafni sem framleiðendur hennar völdu henni, enda valið ekki af verri endanum. Nafnið Soffía fær merkingu sína úr forngrísku, en þar þýðir það viska eða þekking. Flestir þekkja þessa merkingu orðsins úr samsetta orðinu yfir heimspeki, philosophie, sem þýðir vinur viskunnar. Við treystum því að Soffía litla muni bera nafn með rentu og vera uppspretta visku og þekkingar. Það þótti ekki úr vegi að leita móður Soffíu litlu nafns á svipuðum slóðum. Svo skemmtilega vill til að ein þekktasta ljósmóðir sögunnar er móðir Sókratesar, sem sjálfur er talinn einn af feðrum vestrænnar heimspeki. Þegar hann lýsti störfum sínum líkti hann sér gjarnan við móður sína þar sem hans hlutverk væri að vera ljósmóðir þekkingarinnar. Sjálfur hefði hann litla þekkingu fram að færa en hjálpaði samferðamönnum sínum að fæða þá þekkingu sem þeir byggju yfir. Nafn móður Sókratesar, Phaenarete, er ekki sérlega þjált í íslenskum munni en það þýðir merkilegt nokk „sú sem færir ljósinu dyggð sína.“ Almenna heitið yfir ljósmóður í Grikklandi á þessum tíma var hins vegar „maia“, og því þótti kjörið að okkar nýfengna móðir þekkingarinnar fengi íslenska nafnið Maja. Við óskum ljósmæðrum til hamingju með viðbótina og vonumst til að þær mæðgur Soffía og Maja, viskan og ljósmóðirin, muni færa bæði nemum og ljósmæðrum nýja og gamla þekkingu um ókomin ár. Berglind Hálfdánsdóttir Tekið á móti undir styrkri leiðsögn yfirljósmóðurinnar. Handtökin kennd. Félag brjóstagjafaráðgjafa á Íslandi í samstarfi við Ljósmæðrafélag Íslands heldur námskeið um brjóstagjöf föstudaginn 27. október 2017 frá kl. 8:30 – 16:00 á Nauthól. Fyrirlesari verður Catherine Watson Genna sem er sjálfstætt starfandi brjóstagjafaráðgjafi í New York. Hún er hjúkrunarfræðingur BSc. og brjóstagjafaráðgjafi IBCLC. Námskeiðið verður í formi fyrirlestra og vinnusmiðju og mun nýtast ljósmæðrum í heimaþjónustu og á sængulegudeildum, brjóstagjafaráðgjöfum og hjúkrunarfræðingum í ungbarnavernd. NÁMSKEIÐ UM BRJÓSTAGJÖF

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.