Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Blaðsíða 30

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Blaðsíða 30
30 Ljósmæðrablaðið - júlí 2017 Ég hef um talsvert skeið haft óútskýrðan áhuga á breytingaskeiðinu. Ég segi óútskýrðan því sjálf er ég reynslulaus enn sem komið er af einkennum þessa lífsskeiðs, en bíð spennt (eða ekki) eftir því hvernig það velur að fara með mig – eða öllu heldur hvernig ég vel að fara með það. Kannski stafar áhugi minn á breytingaskeiði kvenna af þeirri staðreynd að löngum hefur það verið svolítið tabú, sveipað dulúð og jafnvel sætt fordómum. Litið var á breytingaskeiðið sem sjúkdóm sem þyrfti að lækna og pískrað í skúmaskotum um pirraðar, kynkaldar og sveittar kellingar. Ekki nema von að þetta lífsskeið hafi verið kvíðvænlegt í hugum margra kvenna og er það jafnvel enn. Sem betur fer er umræðan að opnast og fólk að verða upplýstara um þetta eðlilega tímabil í lífi kvenna. En þó allar konur fari í gegnum þetta skeið, þá er ljóst að upplifun kvenna af því er mjög ólík og á meðan sumar eru undirlagðar af einkennum finna aðrar vart fyrir neinu. Í námi mínu til diplómagráðu í jákvæðri sálfræði og kynfræði við Háskóla Íslands læddist breytingaskeið inn í verkefnin hjá mér. Ég hef orðið margs vísari meðal annars með lestri fræðiefnis og rannsókna og ætla að deila broti af því hér. Algengustu einkenni sem konur á breytingaskeiði tjá sig um eru svefntruflanir, hitakóf, skapsveiflur, verkir, breytt kynlöngun og vitrænar breytingar eins og gleymska og einbeitingarskortur. Sum þessara einkenna má rekja að einhverju leyti til hormónabreytinga, önnur ekki. Vitrænar breytingar hefur til að mynda ekki verið hægt að rekja til hormónabreytinga og svefntruflanir og verki aðeins að hluta til. Flest einkenna breytingaskeiðsins má hins vegar tengja líðan eins og kvíða, depurð, streitu og verra mati á eigin heilsu, en ekki hefur verið unnt að tengja þessi einkenni hormónabreytingum. Ljóst er að hugarfar og viðhorf kvenna til breytingaskeiðsins skiptir máli, því konur sem líta neikvætt á öldrunarbreytingar og finnst heilsan hafa versnað, upplifa meiri streitu. Því þarf að veita heildræna meðferð og taka tillit til félagslegra þátta og sögu hverrar konu í vali á meðferð, í stað þess að einblína á breytingaskeiðið eitt og sér eða stakt einkenni þess. Breytingaskeiðið er nefnilega ekki eingöngu líffræðilegt tímabil hormónabreytinga, heldur marka tíðahvörf oft tíma mikilla breytinga í lífi kvenna, bæði sálrænna og félagslegra. Á sama tíma og konur kveðja frjósemi sína og aldurinn færist yfir eru börnin jafnvel að fljúga úr hreiðrinu og nýr kafli hefst í lífi konunnar með auknum tíma og rými. Margar konur fara í víðtæka sjálfskoðun, gera upp fortíðina og huga að framtíðinni. Á þessu lífsskeiði er oft hvati til staðar fyrir sjálfsrækt og breytingar. Með þessa hugsun að leiðarljósi ákvað ég að taka breytingaskeiðið fyrir í lokaverkefni mínu í jákvæðri sálfræði. Lokaverkefnið var að búa til námskeið sem bar titilinn „Aukin lífsfylling á breytingaskeiði - með inngripum jákvæðrar sálfræði“. Markmiðið með námskeiðinu var meðal annars að opna huga og efla trú kvenna á eigin getu til að takast á við breytingaskeiðið með það að leiðarljósi að styrkja þær og hvetja í átt að aukinni vellíðan, hamingju og lífsfyllingu. Inngrip jákvæðrar sálfræði eins og núvitund, hreyfing, að iðka þakklæti, efla jákvæðar tilfinningar og að kynnast styrkleikum sínum og nota þá, hafa sýnt ítrekuð jákvæð áhrif á vellíðan og hamingju fólks auk þess að draga úr depurð og þunglyndi. Mig langaði að sjá hvort þessar aðferðir gætu hjálpað konum að takast á við einkenni breytingaskeiðsins, en þar sem jákvæð sálfræði er ungt fag, hafa áhrif þessara aðferða lítið verið rannsökuð fyrir þennan sértæka hóp kvenna. Þó komst ég að því að átta vikna hefðbundin núvitundarþjálfun virðist bæta lífsgæði kvenna á breytingaskeiði, draga úr streitu og bæta svefn auk þess sem hún hjálpar konum að takast á við einkenni hitakófa. Það sem mér fannst áhugavert var að hitakófin mældust ekki minni en fyrr, heldur virtust konur ná að takast betur á við þau en áður. Það sýnir að hugarfar og viðhorf skipta ekki síður máli hér en þegar tekist er á við önnur verkefni í lífinu. Jákvæð sálfræði býður upp á ótal jákvæð inngrip, sem eru til þess fallin að breyta hugarfari og hegðun og bæta líðan og lífsgæði. Inngripin þarf þó að stunda reglulega og þá koma eiginleikar eins og sjálfsstjórn og þrautsegja að góðum notum, en það eru styrkleikar sem þjálfa má upp á ýmsan hátt. Í námi mínu í kynfræði (sexology) lék mér forvitni á að vita hvort breytingaskeiðið hefði áhrif á kynlöngunina og hvort hún hryndi niður eftir miðjan aldur. Ég fann með lestrinum að konur sem mældust með lægra magn estrógens og testósterón tjáðu minni kynlöngun. Aðrir þættir sem hafa neikvæð áhrif á kynlöngun eru streita, depurð og kvíði, en það eru einmitt einkenni sem margar konur á breytingaskeiði finna fyrir. Margar konur þjást af þurrki í leggöngum á þessum tíma, en þurrkurinn einn og sér virðist ekki hafa áhrif á kynlöngun. Hins vegar getur þurrkur valdið sársauka við samfarir, sem aftur getur dregið úr kynlöngun og kynferðislegri ánægju. Það að eiga maka getur haft neikvæð áhrif á kynlöngun þar sem ástríða getur minnkað í langtímasamböndum. Þegar vaninn taki við dragi það úr kynsvörun kvenna og hafi meiri áhrif en sjálft breytingaskeiðið. Þrátt fyrir minni kynferðissvörun þá lýsir stór hluti kvenna á breytingaskeiði yfir kynferðislegri ánægju sem er sterklega tengd við lífsgæði og parsambandið, samskipti, tilfinningalega nánd, virðingu, samheldni og ást. Kynferðisleg ánægja eykst einnig með góðu sjálfsáliti og frumkvæði í kynlífi. Áhugi minn á blessuðu breytingaskeiðinu kemur sér oft vel í starfi mínu við krabbameinsleit á Leitarstöðinni. Þar hitti ég margar konur sem eru að takast á við ólík einkenni og hafa þörf fyrir að tjá sig og fá upplýsingar. Margar þeirra kvarta undan hitakófum, svefntruflunum og þreytu. Enn fleiri tala um þurrk og sársauka í leggöngum. Kynlíf heyrir aðeins sögunni til meðal sumra þeirra og einhverjar hafa jafnvel aldrei heyrt talað um sleipiefni. Margar konur spyrja út í fæðubótaefni, hormóna eða önnur ráð við einkennum. Upplýsingar virðast vera af skornum skammti og þörf er á aukinni umræðu, fræðslu og ráðgjöf. Hér getum við ljósmæður sætt færis og víkkað starfssvið okkar enn frekar. Við höfum góða menntun og erum sérfræðingar í barneignarskeiði kvenna. Er ekki kominn tími á okkur ljósmæður að verða líka sérfræðingar í breytingaskeiði kvenna? Ég býð allar áhugasamar ljósmæður velkomnar að smitast af breytingaskeiðsáhug abakteríunni. Blessað breytingaskeiðið tækifæri fyrir ljósmæður? Steinunn Zóphaníasdóttir, ljósmóðir

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.