Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Blaðsíða 9

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Blaðsíða 9
9Ljósmæðrablaðið - júlí 2017 auglýsingum fyrir blaðið ákvað að hætta því þar sem hún er flutt til Svíþjóðar. Skrifstofa Ljósmæðrafélagsins, Áslaug og Birgit, tóku þetta verkefni að sér og hefur það gengið alveg ágætlega. Höfum við svo hjálpast að við að pakka blaðinu. Fylgjan var gefin út árið 2015 til tveggja ára svo ekki var hún prentuð í fyrra. Ekki hefur verið tekin ákvörðun hvort hún verður gefin út aftur. Ekki eru allar ljósmæður sáttar við þessa breytingu og greinilegt að ljósmæðrum þykir vænt um Fylgjuna sína. Skýrsla sjóðanefndar Rannsóknar- og þróunarsjóður greiddi höfuðstól sinn inn á Þórdísarsjóð samkvæmt aðalfundarsamþykkt frá árinu 2016. Sjóðurinn er enn að veita styrki sem þegar var búið að úhluta, frestur var veittur um eitt ár til að klára þau verkefni sem áttu inni styrki áður en honum er lokað. Ekki munu berast frekari tekjur inn á þennan sjóð nema vaxtatekjur. Búist verður við því að reikningi verði lokað og sjóður gerður upp í nóvember 2017. Úthlutað var einum styrk úr Minningarsjóði Jóhönnu Hrafnfjörð (MJH) að upphæð 59.000 krónum. Fleiri umsóknir bárust en einungis ein umsókn reyndist styrkhæf úr sjóðnum. Eftir úthlutunarfund í nóvember 2016 voru haldnir nokkrir fundir í nóvember og desember. Fór sjóðanefnd í að breyta úhlutunarreglum MJH-sjóðsins. Það var gert því reglurnar virtust ekki nógu skýrar og hnitmiðaðar og ollu misskilningi við umsóknir um styrki úr sjóðnum haustið 2016. Þess vegna setur sjóðanefnd nú inn tillögur að breytingum á reglum MJH á 98. aðalfundi LMFÍ 2017. Skýrsla siðanefndar Í siðanefnd eru Birna Gerður Jónsdóttir, formaður, Anna Rut Sverrisdóttir, Guðrún Halldórsdóttir, Til vara: Gróa Margrét Jónsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir, eldri. Siðanefndin hefur ekki fengið erindi á sitt borð frá síðasta aðalfundi. Skýrsla Norðurlandsdeildar LMFÍ Aðalfundur Norðurlandsdeildar var haldinn að Draflastöðum í Fnjóskadal 26. maí 2016. Fjórtán félagar mættu til fundar. Hefðbundin aðalfundarstörf fóru fram, þar sem skipti urðu á gjaldkera félagsins en stjórn situr að öðru leyti óbreytt. Núverandi stjórn skipa: Birgitta Níelsdóttir, formaður, María Egilsdóttir, varaformaður, Hrafnhildur Ævarsdóttir, gjaldkeri, Ingibjörg H. Jónsdóttir, ritari og María Bergþórsdóttir, meðstjórnandi. Einn félagi lést á árinu. Freydís Laxdal ljósmóðir lést í febrúar 2016 og var hennar minnst á fundinum. Einn nýr félagi bættist í hópinn. Í maí 2016 voru því 42 félagar á skrá í Norðurlandsdeildinni. Önnur mál sem rædd voru á fundinum voru meðal annars aðkoma Norðurlandsdeildar að haustþingi Læknafélags Akureyrar í október 2016. Þema þingsins var kvensjúkdómar og fæðingahjálp og stefnt var að því að fá sem flestar ljósmæður til að vera með fyrirlestra. Vakin var athygli á því að árið 2018 yrði Norðurlandsdeildin 50 ára. Málfríður Þórðardóttir og Sigfríður Inga Karlsdóttir sögðu frá ferð sinni á Norðurlandaráðstefnu ljósmæðra í Gautaborg í maí 2016. Tæptu þær á nokkrum áhugaverðum fyrirlestrum sem þær sátu. Sigfríður Inga sagði síðan frá því að til umræðu væri við Háskólann á Akureyri að bjóða ljósmæðrum að 30 einingar af þeirra námi yrði metið til meistaranáms eins og gert er nú við Háskóla Íslands. Að fundi loknum snæddum við þriggja rétta matseðil að hætti staðarhaldara og fengum Vilhjálm B. Bergmann skemmtikraft sem fór með gamanmál í söng og undirspili öllum til ómældrar ánægju og veltust ljósmæður um af hlátri á köflum. Auk aðalfundar voru tveir stjórnarfundir haldnir á árinu. Fyrir utan það, fara samskipti stjórnar talsvert fram með tölvupóstum eða í gegnum facebook messenger. Norðurlandsdeildin kom síðan að nokkru leyti að skipulagningu haustþings Læknafélags Akureyrar í samvinnu við lækna Fæðingardeildar Sjúkrahússins á Akureyri, sem báru þungann af því að ákveða efni og útvega fyrirlesara. Þrjár ljósmæður fluttu fyrirlestra á þinginu og voru stéttinni að sjálfsögðu til mikils sóma. Norðurlandsdeildinni var gefinn doppler til að hafa í heimafæðingatösku deildarinnar. Það voru kvenfélögin Hjálpin og Iðunn í Eyjafjarðarsveit, Tilraun í Svarfaðardal og Hlín á Grenivík sem gáfu fé til kaupanna. Norðurlandsdeildin hélt sinn árlega aðventufund 23. nóvember. Átján félagar mættu til fundar. Kom Soffía Einarsdóttir sjúkraþjálfari á fundinn og hélt fræðslu um grindarbotninn og mikilvægi þjálfunar hans. Hún sagði frá ýmsu í sínu starfi en hún hefur meðal annars sérhæft sig talsvert í meðferð þvagleka og vandamála á grindarbotni eftir barnsburð. Lesnar voru frásagnir af ljósmæðrum frá árunum 1910-1930 sem sinntu fæðandi konum um jól og áramót í íslenskri vetrarveðráttu eins og hún getur verið verst. Skipst var á jólapökkum og að sjálfsögðu var kroppurinn nærður með dýrindis kræsingum. Skýrsla Ljósanna Starfsemi deildarinnar breytist lítið milli ára. Eftir áramótin 2016 bættust 15 nýjar Ljósur í hópinn. Fyrir aðalfundinn 19. október síðastliðinn voru send út 249 fundarboð þannig að okkur fer fjölgandi í deildinni. Starfsmaður á skrifstofunni ásamt formanni LMFÍ hafa aðstoðað við að bæta á póstlista þeim ljósmæðrum sem verða sextugar á árinu og búa á Íslandi. Ljósmæðrafélagið hefur borið kostnað af ljósritun og póstsendingum. Það hefur reynst mjög vel að leita til félagsins með ýmislegt sem viðkemur starfsemi deildarinnar og sömuleiðis er starfsfólk BHM í Borgartúni afar hjálplegt. Starfsemi deildarinnar er svipuð frá ári til árs. Einn almennur fundur var haldinn í mars og aðalfundurinn í október. Haldnir voru þrír stjórnarfundir, en upplýsingaflæði innan stjórnar fer mikið gegnum síma og tölvu. Eins og allir vita verður Ljósmæðrafélagið 100 ára 2. maí 2019. Á aðalfundi félagsins 2015 lagði Sigríður Sía Jónsdóttir fram áhugaverða tillögu um að kanna hvort hægt væri að merkja þá fæðingarstaði í Reykjavík og jafnvel nágrenni þar sem fæðingar fóru fram á tuttugustu öldinni. Formaður félagsins fór þess á leit við stjórn Ljósanna að kanna þetta og í þeirri umræðu kom fram sú hugmynd að merkja frekar staðinn þar sem félagið var stofnað, það er að Laugavegi 20 eða 20b í Reykjavík. Voru þessar hugmyndir ræddar á vorfundi og var það mál okkar að kanna þá hugmynd frekar. Haft var samband við Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar og tillagan tekin fyrir þar. Þessi hugmynd þótti áhugaverð hjá borginni og vorum við í stjórn boðaðar að Laugavegi 20 eða 20b þar sem líklegt er að félagið hafi verið stofnað. Þar áttum við fund með fulltrúa frá Skipulagsráði (Hildi Gunnlaugsdóttur) og útskýrðum hvernig við höfðum hugsað okkur útfærsluna. Hugmyndin var að setja steinhellu 50x50 cm með merki og nafni Ljósmæðrafélagsins, nýja merkinu, í gangstéttina við Laugaveg 20 og undir merkinu stæði Stofnað 2. maí 1919. Borgin er búin að svara þessu og samþykkja að sjá um vinnuna við að setja helluna niður, en Ljósmæðrafélagið þarf að borga fyrir gerð hellunnar. Stjórn Ljósanna er að kanna verð hjá steinsmiðjum í Reykjavík og er búin að fá tilboð frá Steinsmiðju S.Helgasonar upp á 84.ooo kr. Næsta skref er að kynna þetta fyrir stjórn Ljósmæðrafélagsins sem fyrst. Vorferðin var farin 1. júní og var ferðinni heitið um Snæfellsnes í blíðskaparveðri. Metþátttaka var, gott skipulag í alla staði og fékk ferðanefndin mikið hrós fyrir góðan undirbúning. Ferðanefndina skipuðu: Guðrún Guðbjörnsdóttir, Svanborg Egilsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir. Samkvæmt reglum deildarinnar er hvert kjörtímabil 2 ár. Úr stjórn áttu að ganga Halldóra Ásgrímsdóttir og Ásta Lóa Eggertsdóttir. Þær gáfu báðar kost á sér áfram og voru kosnar einróma með miklu lófaklappi. Utan formlegra starfa í Ljósudeild er fastur liður að fara í Perluna í kaffi fyrsta miðvikudag hvers mánaðar, en sá fundur er opinn öllum ljósmæðrum óháð því hvort þær eru skráðar í deildina eða ekki. Vegna framkvæmda í Perlunni síðan í haust hafa þessar samverustundir fallið niður og þurfum við að finna okkur annan stað sem fyrst. Einnig er orðin hefð fyrir því að fara saman út að borða á aðventunni. Að þessu sinni var farið á veitingastaðinn Skrúð á Hótel Sögu og var góð mæting, milli 40-50 ljósmæður. Skemmtu allar sér konunglega, frábær matur og mikil gleði. Ljósudeildin heldur áfram að eflast og stækka með hverju ári.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.