Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Blaðsíða 39

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Blaðsíða 39
39Ljósmæðrablaðið - júlí 2017 Á dögunum gafst íslenskum ljósmæðrum tækifæri til að sækja eitt af hinum vinsælu Gynzone námskeiðum í Reykjavík og á Akureyri undir stjórn dönsku ljósmóðurinnar og frumkvöðulsins Dr. Söru Kindberg. Það var upplifun í sjálfu sér að eyða deginum með þessari kraftmiklu konu sem hefur augljóslega einstakt lag á því að leiðbeina öðrum á þann hátt að flókin verkefni verða yfirstíganleg og spennandi áskorun. Henni tókst ekki bara að kenna reynsluboltum ný trikk og skátaforingja að hnýta nýja hnúta, heldur kvað hún líka kjaftforustu ljósmæðurnar í kútinn með beittum húmor sínum og kostulegum frásögnum. Sara er klínískur sérfræðingur í viðgerðum á spangarrifum eftir fæðingu. Fyrir níu árum síðan stofnaði hún Gynzone sem byrjaði sem vefsíða með kennsluefni, myndböndum og upplýsingum um nýjustu rannsóknir á sviðið spangarviðgerða en er í dag fyrirtæki sem vinnur að því með fjölbreyttum hætti að auka fagmennsku og gæði í öllu því sem við kemur spangaráverkum, viðgerðum og heilsu kvenna í því samhengi. Þau útbúa metnaðarfull kennslumyndbönd, halda námskeið og kenna í ljósmæðra- og læknadeildum út um víðan völl við miklar vinsældir. Árið 2011 var Sara heiðruð fyrir störf sín og útnefnd kvenfrumkvöðull ársins í heimalandi sínu. Það var fróðlegt að heyra hvernig unnið er að hámarka gæði þjónustunnar og hæfni starfsfólksins á sjúkrahúsinu í Árósum þar sem Sara starfar. Þar er öllum konum boðið að koma í eftirskoðun nokkrum dögum eftir fæðingu og ef rifur hafa gróið illa eða verið saumaðar á rangan hátt saman er þeim boðið að láta lagfæra viðgerðina. Rannsóknir sýna að með því að gera við rifurnar á fyrstu vikunum eftir fæðingu eru líkurnar á árangursríkri viðgerð mjög miklar eða um 90%, en eftir að þrjár vikur eru liðnar eru aðeins helmingslíkur á góðum árangri. Sara leggur líka áherslu á að það sé nauðsynlegt að við lærum af mistökunum sem við gerum og í Árósum er því bæði ljósmæðrum og læknum sem hafa endurtekið gert mistök boðið upp á frekari þjálfun og eftirfylgni og þannig unnið markvisst að því að styðja við starfsfólkið og auka þannig gæði þjónustunnar. Óvísindaleg könnun undirritaðrar leiddi í ljós að ljósmæðurnar voru hæst ánægðar með daginn og bæði nýútskrifaðar og þær sem eru flestum hnútum kunnugar lærðu eitthvað nýtt og skerptu á mikilvægum atriðum. Frábært námskeið í alla staði. Við bendum áhugasömum á að hægt er að nálgast upplýsingar um Gynzone og þeirra starf á heimasíðu þeirra: www.gynzone.net. Rut Guðmundsdóttir Ljósmæður á saumanámskeiði Kennararnir frá Danmörku. Lærdómurinn á fullu.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.