Morgunblaðið - 19.10.2018, Qupperneq 21

Morgunblaðið - 19.10.2018, Qupperneq 21
MINNINGAR 21 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 19. OKTÓBER 2018 Þessi glaðværi piltur, sonur Jóns Snorra míns. Ég er svo þakklát fyrir að hann komst til að halda jólin í New York í desember í fyrra með okkur og börnum mínum tveimur Mannsa og Sólveigu Evu. Þar náði ég að kynnast honum betur heldur en á hefðbundinni kvöldstund, þegar hann kom í mat annað slagið. Þeir Mannsi náðu vel saman enda á svipuðum aldri og sátu gjarnan tveir frameftir að spjalla á meðan við gamla settið fórum að sofa. Lífið getur verið svo ósann- gjarnt en við getum þrátt fyrir allt glaðst yfir því að Snorri fékk að upplifa sanna ást með Önnu sinni í mörg ár og eftir að þau skildu að skiptum þá voru þau nógu þroskuð til að geta haldið áfram að vera góðir vinir. Það er ekki gefið. Við getum líka glaðst yfir því hve vel Snorri var met- inn af vinum sínum og fjöl- skyldu, enda var hann alltaf til staðar fyrir þau. Snorri var trúr sjálfum sér og hafði hugrekki til að grípa tæki- færin, eins og þegar hann fluttist búferlum til Hollands um tíma. Suma dreymir alltaf um slíkt en framkvæma það aldrei. Hann hafði einfaldlega gaman af lífinu og naut þess fram að síðustu stundu. Elsku Snorri minn, þú fórst allt of fljótt frá okkur. Við sitjum sem lömuð eftir. Orðlaus. Við munum sakna þín. Kristín Edda. Til Snorra. Hinn 18. ágúst síðastliðinn skrifuðumst við á. Í þetta skiptið var það til að minna á og fagna átta ára vináttu okkar. Því fyrir átta árum byrjaði eltingaleikur- inn, ævintýrin, þessi dýrmæta vinátta og samband. Mér hlýnar alltaf í hjartanu þegar ágústmánuður rennur upp, þótt sólin sé tekin að lækka á himni, flæða inn minningar um okkur og okkar fallegu fyrstu þrjú orð. Ég var sautján ára menntaskólastelpa og þú tuttugu og tveggja ára kóngur á Prikinu nýbúinn að skrá þig í háskólann, þegar við byrjuðum saman 4. ágúst sumarið 2011. Ég var að listaspírast og þú í viðskipta- fræði. Allar okkar minningar, leyndarmálin og ferðalögin mun ég geyma hjá mér, fyrir okkur. Við vorum svo hamingjusöm og ástfangin. Ég er þakklát fyrir allan þann tíma sem við áttum saman og í sundur en saman. Við þroskuðumst, lærðum og hlógum svo mikið. Þú varst metnaðarfullur og fylgdir alltaf öllu hundrað pró- sent. Þú varst líka svo skilnings- ríkur, kurteis en líka stundum „algjör dólgur“. Ég mun sakna nærveru þinn- ar, bross og hláturs. Ég er svo heppin að hafa kynnst þér, verið ástfangin og lifað með þér í þess- ari miklu vináttu. Þú veist ekki hvað ég vildi óska þess að ég væri ekki að skrifa þetta hér heldur að ég væri að segja þér þetta, ulla á þig og þú á mig. Því þótt við værum hætt saman hætti ég aldrei að elska þig og sakna þín. Ég er svo þakklát fyr- ir að við minntum okkur alltaf á það þegar við hittumst í mínum heimsóknum heim og þínum til Hollands. Ég vona að þú sitjir núna með Al Pacino í Fossvoginum þar sem fyrsta plata Mac Miller hljómar í bakgrunninum og þú kominn með Optimus Prime í öllu sínu litaveldi yfir allan kálf- ann á leiðinni á Prikið þar sem strákarnir bíða eftir þér á efri hæðinni þar sem þú sest í hornið þitt. Þín Anna. Snorri snerti hug og hjarta okkar með sinni góðu nærveru og einstaklega fallega brosi. Við kynntumst Snorra árið 2011 eftir að Anna dóttir okkar og hann fóru að draga sig saman á Bestu, kvöldið sem Katla hljóp og tók brúna af Múlakvísl. Næstu árin dvaldi hann löngum hér á Digranesveginum okkur til mikillar ánægju. Hann og Anna voru fallegt par og sam- hent. Snorri var alltaf boðinn og bú- inn að aðstoða við heimilishaldið og smá og stór verk í garðinum þegar hann hafði tíma til en á þessum árum var hann ýmist á kafi í námi eða vinnu. Lengi vel fannst honum þó grænmetið úr garðinum ofmetið sælkerafæði, en það breyttist hægt og rólega. Þá var Snorri uppáhaldskatta- passarinn og -kelarinn þrátt fyr- ir heiftarlegt kattaofnæmi. Ekki var heldur amalegt að tengda- sonurinn væri í sumarstarfi hjá GKG fyrstu árin okkar í golfinu, þar sem hann aðstoðaði okkur við ýmislegt og gaf góð ráð. Snorri var ljúfur, kurteis, smekkmaður á föt og glæsilegur afkomandi Snorra á Húsafelli. Hann var hinsvegar ekki mikill útilegumaður, en lét sig þó hafa það að fara með okkur á tvö ætt- armót, þrátt fyrir spár um rign- ingu og rok! Vetrarferð rétt fyrir jól eitt árið í bústað var öllu þægilegri, og þar tókst honum að sannfæra okkur um að „Die Hard“, sem hann hafði meðferðis á flakkara, væru jólamyndir. Eftir það eru Bruce og Snorri frændur í okkar huga. Eins hafði hann gaman af því að spila og ófá kvöldin sat hann með Önnu, Birni bróður hennar, frænd- systkinum og vinum við spil langt fram á nótt. Á þessum ár- um kynntumst við einnig fjöl- skyldu Snorra sem er okkur dýr- mætt, en þrátt fyrir að leiðir Önnu og hans hafi að lokum skil- ið þá var áfram mjög kært á milli þeirra og fjölskyldnanna. Minningarnar eru margar og allar góðar. Við söknum Snorra en sárust er þó sorgin yfir því að hann fái ekki áfram notið þeirrar áskorunar og þess ævintýris sem lífið er. Málfríður og Sigurður. Mann setur hljóðan þegar ungur, efnilegur og yndislegur systursonur og frændi fellur svo skyndilega frá og er okkur drengjunum mínum, umtalsefni. Í okkur er mikill tregi eins og gefur að skilja, þegar um er að ræða nákominn ættingja, sem á mikinn hluta í hjarta manns og tilveru. Snorri var hinn góði og ein- lægi gjafari, sem bjóst aldrei við neinu hinu sama á móti. Þær gjafir sem hann veitti ríkulegast af sér og virtist eiga endalaust af, var hans glaðlega og skemmtilega nærvera. Með ár- unum virtist litróf persónuleika hans, vaxa og eflast. Við vissum, að þar sem hann var, varð stund- in skemmtileg og frískandi. Hann sýndi öllu og öllum í kring- um sig einstakan áhuga og átti alltaf hressandi ráð eða tilmæli fyrir okkur að fara eftir. Af hans fundi var ávallt farið brosandi og lundin léttari. Hann sá alltaf marga fleti og sjónarhorn á mál- efnum sem voru til umræðu og gat velt mörgum steinum, þann- ig að maður fékk oft dýpri skiln- ing og skýrari. Við erum ekki viss um að Snorri hefði viljað að slaghörpur hættu að óma, eða að höf sóp- uðust burt, eins og segir í einu fegursta erfikvæði sem ort hefur verið. En við syrgjendur hans munum sannarlega standa okkar vakt í dag. Við mæðginin vottum elsku foreldrum hans, móðurömmu, systkinum, mökum og litlu systrabörnunum hans, sem hann ræktaði svo yndislega í alla staði, okkar einlægustu samúð. Fordæmin mörgu og góðu, sem Snorri sýndi, munu verða okkar leiðarstef og heiður að fara eftir. Vertu kært kvaddur, elsku Snorri okkar. Kristín Björg Knútsdóttir, Þórhallur Arnberg Sigur- jónsson og Tryggvi Klemens Tryggvason. Í dag kveðjum við vin okkar Snorra hinstu kveðju. Með sorg í hjarta minnumst við nú allra góðu stundanna sem börnin okkar, og við öll, áttum með Snorra og fjölskyldu hans. Glókollarnir okkar, þau Snorri, Stefán Björn og Ásta, fæddust öll á sama árinu og urðu strax bestu vinir. Við brosum aðeins í gegnum tárin og rifjum upp fyrstu ferð þeirra þriggja með okkur í Sel- vík, þegar Ásta sat og horfði með aðdáun á þessa drengi sem voru rétt búnir að læra að ganga. Eldri börnin þrjú, Tryggvi, Bjarni og Hildur, voru stoð og stytta hinna yngri, gættu þeirra og voru fyrirmyndir í öllu. Mörg urðu þau matarboðin, ferðirnar í sumarbústaði og Selvík að ógleymdri ferðinni í Kerlingar- fjöll og úr þessu öllu varð ein- stakur vinskapur. Uppátækin voru af ýmsu tagi eins og þegar drengjunum leiddist og þeir ákváðu að ganga í næstu sjoppu, nokkurra kílómetra leið. Ekki gekk minna á þegar vinirnir týndust í Hallormsstaðarskógi eða röltu niður að Álftavatni og Tryggvi hljóp á eftir þeim. Við munum góðan dreng með stóra spékoppa, brosið sitt bjarta og tindrandi augun og þökkum fyrir allar samveru- stundirnar. Okkar innilegustu kveðjur, elsku Sigga, Jón Snorri, Tryggvi og Hildur. Við vonum að þið finnið styrkinn til að komast í gegnum þessa erfiðu tíma. Kristín, Gunnar, Margrét, Pétur, Bjarni, Stefán Björn og Ásta. Þegar ég heyrði af því að Snorri væri farinn var ég alveg viss um að þetta hlyti að vera misskilningur, það gat ekki verið að það væri verið að tala um Snorra vin minn: Snorra fyrsta vin minn í Fossvoginum. Snorra sem kom á náttfötunum yfir til mín snemma á laugardögum til þess að horfa á Afa í sjónvarpinu þegar við vorum lítil eða kom til mín í mat þegar við vorum orðin eldri. En þetta er víst raunveru- legt. Síðastliðin ár vorum við ekki í miklu sambandi en töluðum stundum um að hittast og rifja upp gamla tíma yfir kaffibolla. Þó svo að sambandið hafi ekki verið mikið voru tengslin alltaf fyrir hendi. Ég er þakklát fyrir allar minningarnar sem ég á, sorgin væri eflaust ekki til staðar ef það væri ekki fyrir þær. Í grenndinni veit ég um vin, sem ég á, í víðáttu stórborgarinnar. En dagarnir æða mér óðfluga frá og árin án vitundar minnar. Og yfir til vinarins aldrei ég fer enda í kappi við tímann. Sjálfsagt þó veit hann ég vinur hans er, því viðtöl við áttum í símann. En yngri vorum við vinirnir þá, af vinnunni þreyttir nú erum. Hégómans takmarki hugðumst við ná og hóflausan lífróður rérum. „Ég hringi á morgun,“ ég hugsaði þá, „svo hug minn fái hann skilið,“ en morgundagurinn endaði á að ennþá jókst milli’ okkar bilið. Dapurleg skilaboð dag einn ég fékk, að dáinn sé vinurinn kæri. Ég óskaði þess, er að gröf hans ég gekk, að í grenndinni ennþá hann væri. Sjálfur, ef vin þú átt góðan í grennd gleymdu’ ekki, hvað sem á dynur, að albesta sending af himnunum send er sannur og einlægur vinur. (Höf. ók.) Elsku Sigga, Jón Snorri, Tryggvi og Hildur, ykkur sendi ég mínar innilegustu samúðar- kveðjur. Snorri var sannur vinur. Jónína úr Brautarlandinu. Það er skrýtið að hugsa til þess að ástkær vinur okkar, Snorri, sé fallinn frá. Á margan hátt var hann miðjan í vinahópn- um. Hann bauð alla velkomna og hafði gott lag á að láta öllum líða vel. Traustari, áreiðanlegri og ljúfari mann með einstakt hjartalag er erfitt að finna. Snorri var með góða nærveru og alltaf tilbúinn að ræða málin í góðra vina hópi, deila ævintýrum og rifja upp skemmtilegar sögur. Hann hafði gaman af að segja frá því sem var að gerast í kring- um hann og við elskuðum að hlusta. Snorri hafði ákveðnar skoðan- ir á mönnum og málefnum, var gagnrýninn en þá ávallt á skemmtilegan hátt. Hann gat oft verið málglaður og þá þannig að hann hreif aðra með. Hann var fljótur að fyrirgefa ef gengið var fram af honum, átti auðvelt með að setja sig í spor annarra og hafði sterka réttlætiskennd. Hann var með gullhjarta. Ef einhver vinanna hafði ekki verið í miklum samskiptum við Snorra í lengri tíma voru endur- fundir ávallt eins og maður hefði hitt hann síðast í gær. Hann var vinur vina sinna. Hlátur hans var smitandi og var hann alltaf tilbúinn að samgleðjast vinum sínum þegar stórar stundir komu upp í lífi þeirra. Í matseld eldaði hann hag- kvæmt og einfalt, nema þegar einn af ófáum hittingum með vinahópnum átti sér stað. Þar stóð hann ætíð grillvaktina og grillaði ekki hvað sem er. Hann vildi bara það besta fyrir vini sína. Síðasta ævikvöldi vinar okkar var varið í spjall, hlátur, dans og karókísöng. Honum varð á orði við æskuvin sinn hve ánægður með lífið og tilveruna hann væri, og hversu björtum augum hann horfði fram á veginn. Einkenn- andi brosið og hláturinn hans Snorra var allsráðandi og þeir vinirnir skemmtu sér vel þetta kvöld. Engan grunaði það sem fram undan var. Eftir sitjum við hljóð- ir en þakklátir fyrir þann góða vin sem við áttum allir í Snorra. Við munum halda minningu hans á lofti um aldur og ævi. Við sendum fjölskyldu Snorra okkar innilegustu samúðar- kveðjur. Fyrir hönd vinahópsins, Gunnar Dagbjartsson. Þeir sem deyja eru ekki horfnir. Þeir eru aðeins komnir á undan. Skilnaðarstundin er dag- ur samfunda í himnasal. Ólýsanleg var sú tilfinning og sorgin mikil er Fannar sonur okkur tilkynnti andlát Snorra æskuvinar síns. Snorri hafði orð- ið bráðkvaddur þá um nóttina. Það er sárt að missa þá sem okk- ur þykir vænt um, það vitum við sem eftir lifum. Við settumst hljóð. Hvernig mátti þetta verða? Ungur maður tekinn frá fjölskyldu og vinum langt fyrir aldur fram. Fráfall Snorra er svo óraunverulegt. En sagt er að við ráðum ekki staf- rófi lífsins og bókstafnum sem okkur er úthlutað fáum við ekki ráðið heldur. Sorgin er mikil og sársauka- full. Ástvinamissir er eitt erfið- asta áfallið sem við verðum fyrir og það er engin auðveld leið að halda áfram. Við verðum að finna hugrekki til að lifa með sorginni. Snorri var vinum sínum mikil- vægur. Söknuðurinn er mikill. Vinahópur hans er þéttur og sitja nú allir eftir ráðvilltir og sorgmæddir. Snorri var glaðlegur, einlægur og með fallega framkomu. Nær- vera hans var þægileg og fallega brosið hans aldrei langt undan. Minning um góðan dreng lifir, hún býr innra og gleymist aldrei. Stiklur frá liðnum tíma birtast okkur. Þau augnablik sem við áttum með Snorra verða eilíf í minningunni sem lifir áfram. Á yngri árum gisti Snorri oft hjá Fannari og voru þá gjarnan tölvuleikirnir í fyrirrúmi. Góðar minningar eigum við fjölskyldan með Snorra þegar við fórum með honum í sumarbústað eða til Ítalíu. Hann naut sín vel í ferð- inni ásamt syni okkar. Ferðalög um hin ýmsu héruð Ítalíu, ítalsk- ur ís og pitsur. Hláturinn var aldrei langt undan og mikil spenna að fá að prufa að aka vespu. Við munum sakna hláturs Snorra og kveðjum góðan dreng með söknuði og þakklæti fyrir samfylgdina. Sorgin er mikil og sendir fjöl- skylda okkar, foreldrum hans, systkinum, vinum og öðrum að- standendum dýpstu samúðar- kveðju. Mannsandinn líður ekki undir lok, minning um góðan dreng lifir í hjarta og minni. Líkt og sólin sem virðist ganga undir, en alltaf heldur áfram að lýsa. Aðalheiður, Sveinn og fjölskylda. Nú er hann Snorri dáinn eru orð sem pabbi sendi mér og syst- ur minni í tölvupósti. Þá höfðum við vitað í sólarhring að svo væri en ég trúði því ekki. Þessi orð festust í höfðinu, bergmáluðu og stafirnir á skjánum staðfestu raunveruleikann, eins óraun- verulegur og hann er. Orð búa nefnilega yfir krafti og orð breytast eftir því hverjir eru hjá þér, hverjir nota orðin, hvernig og hversu oft. Nöfn eru einmitt líka orð. Þau eru orð sem, eins og fyrir töfra, eiga ör- litla hlutdeild í manneskjunni. Og þess vegna er þessi setning svo erfið. Nöfnin, þessi orð ást- vina okkar eru þau sem skipta okkur mestu máli því í þeim finnum við örlitla snertingu. Í orðinu hans má finna örlítinn hlut af honum. Snorri. Fyrir átta árum byrjaði orðið Snorri að taka breytingum í huga mínum, og tíðni þess varð meiri og meiri. Þegar ég heyrði fyrst af Snorra var ég ekki par ánægður. Einhver eldri maður sem var byrjaður að hitta systur mína. Hann var hennar fyrsti al- vörukærasti og ég tók honum ekki beinlínis opnum örmum. Fyrst um sinn vakti orðið Snorri því efasemdir og tortryggni í huga mínum. En smátt og smátt tók ég Snorra í sátt. Það var gott að tala við hann og að fá hann í heimsókn. Hann var mikið fyrir lúxus og þægindi sem stangaðist stundum á við hætti fjölskyldunnar okkar á Digranesveginum sem elskar að fara í útilegur í rigningu eða að vinna í garðinum. Snorri kom í matarboð, þakkaði fyrir sig ítrekað og fékk sér alltaf salat þrátt fyrir að honum fyndist það vont. Hann tók því öllu með opnum huga öfugt við mig sjálfan hvað hann varðaði. Fljótlega fór ég því að finna til hlýju við að heyra orðið hans. Þegar ég heyrði það tengdi ég það við fallega nærveru í kjall- aranum sem kúrði með Snúði þrátt fyrir heiftarlegt katta- ofnæmi, horfði þar á bíómyndir, seríur um glæpamenn í Banda- ríkjunum og var hitapoki systur minnar sem er alltaf aðeins kalt undir sænginni. Með orðum smíðum við heim- inn í kringum okkur, staðfestum raunveruleikann og búum til myndir í höfðinu. Og setningar sem innihalda orðið hans eru fallegar, eru mikilvægar. Þegar ég heyri Snorri þá hugsa ég um þegar Snorri gerði með okkur stéttina. Þegar við fjölskyldan og Snorri sáum stjörnuhröpin í bú- staðnum. Snorri með okkur á jólunum. Snorri okkar. Snorri er orð sem er fallegt bros, umburð- arlyndi fyrir vitleysisganginum í lítilli fjölskyldu. Snorri er orð góðmennskunnar. Líkt og stéttin sem hann hjálpaði til við að leggja á hlut í garðinum, fallegan skika sem hægt er að sitja á í kvöldsólinni, þá á Snorri fallegt horn í hjarta mínu. Takk Snorri fyrir tímann, vertu sæll. Ég finn þig í orðinu. Birnir Jón Sigurðsson. Í dag kveðjum við góðan fé- laga sem kallaður var frá okkur fyrirvaralaust. Andlát Snorra er okkur öllum mikið áfall og skilur eftir tómarúm og spurningar um lífið og tilveruna. Snorri hóf störf hjá EY árið 2014 sem starfsmaður á endur- skoðunarsviði og starfaði hjá EY bæði í Hollandi og hér heima fram á sinn síðasta dag. Hann var ávallt boðinn og búinn að miðla af reynslu sinni og aðstoða okkur hin sem vorum skemmra á veg komin. Hann var einnig óhræddur við að tjá skoðanir sínar og sjónarmið við þá sem höfðu meiri reynslu með yfirveg- uðum hætti og það var eiginleiki sem var mikils metinn. Snorri bjó yfir mikilli þekkingu og drif- krafti sem gerði hann að vinsæl- um og eftirsóknarverðum starfs- krafti. Hann var ekki hræddur við að ögra úreltum hugsunar- hætti og leita lausna í fræðun- um. Snorri hafði beittan húmor og var yfirleitt hrókur alls fagnað- ar, hvort sem það var í eða utan vinnu. Hann var virkur í fé- lagslífi EY og sá fljótt um að skipuleggja viðburði fyrir starfs- fólkið, sem vakti mikla lukku. Hann var mjög skemmtilegur karakter, hafði sterkar skoðanir á flestöllu, hvort sem það var jólaskraut sem var of nálægt borðinu hans eða pressukaffið sem hann fékk sér daglega. Hon- um fannst einfaldlega mikilvægt fyrir vinnustaðarmenninguna að láta aðeins í sér heyra, en þó var alltaf stutt í grínið. Snorri bjó yfir þeim eiginleika að hann átti auðvelt með að ná fólki á sitt band og var engin undantekning á því innan EY. Hann var einstaklega vel liðinn af samstarfsfólki sínu og átti marga góða vini hjá EY. Við sjáum ekki bara á eftir frábærum samstarfsfélaga held- ur einnig einstökum vini. Við þökkum Snorra fyrir sam- verustundirnar og góð kynni og vottum fjölskyldu hans og að- standendum okkar dýpstu samúð. F.h. samstarfsfólks hjá EY, Hildur Pálsdóttir. Elsku Anna og fjölskylda Snorra. Við, fjölskylda Önnu, erum harmi slegin yfir skyndilegu og ótímabæru fráfalli elsku Snorra. Hann kom inn í fjölskyldu okkar og hefur verið hluti af henni frá 2011 þegar þau Anna Diljá, bróðurdóttir, frænka og barna- barn, kynntust. Við vorum af- skaplega heppin að kynnast þessum fallega öðlingi og skemmtilega og gegnumheila strák sem lýsti alltaf upp um- hverfi sitt. Hann féll sannarlega vel inn í okkar litlu fjölskyldu og áttum við ógleymanlegar stundir saman. Það er óbærilegt að hugsa til þess að hann sé ekki lengur á meðal okkar. Við kveðjum Snorra með sár- um söknuði og sendum fjöl- skyldu hans og Önnu Diljá og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur. Guðrún, Áslaug og Þórður, Þóranna og fjölskyldur.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.