Morgunblaðið - 22.11.2018, Síða 9
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 22. NÓVEMBER 2018 9FRÉTTASKÝRING
stök staðsetning, og í mikilli nánd við helstu
menningarstofnanir, og borgarlífið í heild. Auk
þess ertu með lifandi atvinnulíf við höfnina fyrir
augunum alla daga,“ segir Sveinn og bendir á
líkindin við Akers bryggju í Osló.
Við göngum út á vinnupall á norðanverðu hús-
inu og horfum niður í einskonar port milli íbúða-
kjarnanna, sem skiptast í tvennt. Þar er þak-
garðurinn að mótast, en hann verður
útivistarsvæði fyrir íbúa Austurhafnar. „Þegar
við fengum verkefnið breyttum við hönnuninni
töluvert mikið,“ segir Sveinn og bendir á bil á
milli húsanna þar sem hægt er að horfa út á
Hafnartorgið. „Þetta er mjög stór breyting og
skiptir miklu fyrir íbúðirnar og garðinn, því með
þessu fáum við bæði aukið útsýni í suður og
meiri birtu inn í garðinn og á milli húsanna.“
Sveinn segir að þó svo að í bilinu sem búið var
til með þessari breytingu hafi upphaflega átt að
vera íbúðir hafi ekki mjög mörgum fermetrum
verið fórnað.
Eitt af því sem að sögn Sveins er einstakt við
íbúðirnar er að innangengt verður í þær flestar
beint úr lyftu. Þá verður endanleg lofthæð með
betra móti, eða 2,7 metrar. Hiti verður í öllum
gólfum og engir frístandandi ofnar. Auk þess
verður öllum íbúðum skilað fulllýstum og með
Lutron „smart home“-stýringum.
Sveinn bendir á að göngustígur muni liggja
frá Geirsgötunni og meðfram íbúðarhúsinu, eft-
ir svokölluðu Reykjastræti. Göngustígurinn
mun liggja áfram meðfram hótelinu og að
Hörpu, en einnig er hægt að taka beygju inn í
sundið milli hótelsins og íbúðanna, og ganga þar
í gegn og út á hafnarbakkann.
Hafnarbakkamegin verður neðsta hæðin lögð
undir verslana- og veitingarekstur, en fast-
eignafélagið Reginn festi kaup á því húsnæði
öllu. Ekki liggur fyrir enn hvaða rekstur mun
koma í þau bil, en gagnkvæmur skilningur er
um það á milli aðila að sögn Sveins, að þar verði
gæðin í fyrirrúmi.
Spenntur að sjá viðtökurnar
Mikið verður lagt í ytra byrði hússins, með
fallegum og margvíslegum klæðningum að sögn
Sveins, sem koma til með að brjóta upp heildina.
„Við klæðum húsið með standandi kopar, álplöt-
um með zink áferð, mjög stórum sléttum flísum,
sjónsteypu og steinflísum.“
Gert er ráð fyrir að sala íbúðanna hefjist fljót-
lega. Segist Sveinn vera spenntur að sjá hverjar
viðtökurnar verða, en það er fasteignasalan
Miklaborg sem heldur utan um söluna. „Við
munum bjóða upp á ólíka stærðarflokka af íbúð-
um. Um 20% íbúðanna eru á bilinu 50-100 fer-
metrar, 34% íbúðanna eru á bilinu 100-150 fer-
metrar og svo eru hin 46% sem eftir standa á
bilinu 170-360 fermetrar.“
Sveinn segir að fjórar stærstu íbúðirnar verði
á bilinu 300-360 fermetrar. „Þetta eru þakíbúð-
irnar. Að okkar mati er einstakt að bjóða upp á
íbúðir af þessari stærð í miðbæ Reykjavíkur.
Um 30% íbúðanna eru annars á bilinu 170-210
fermetrar. Þessar mörgu stóru íbúðir sem við
erum að bjóða eru að okkar mati hluti af sér-
stöðu þessa verkefnis.“
Þá segir Sveinn að nálægðin við Edition-
hótelið, Hörpu, veitingastaði, kaffihús og versl-
anir á reitnum sé mikill kostur fyrir íbúðirnar,
og íbúar geti nýtt sér þá þjónustu sem þar verð-
ur í boði.
„Svo eru það öryggismálin. Það verður að-
gengisstýring fyrir hverja íbúð, og ekki verður
hægt að komast inn í anddyri stigaganganna
nema með aðgangskorti.“
Sveinn segir að almennt séð sé forsvars-
mönnum Austurhafnar mest í mun að vænt-
ingar væntanlegra kaupenda standist. „Þess
vegna er nostrað við smáatriðin, og fyrir vikið er
mikið um sérsmíði í húsinu, hvort sem er í minni
íbúðunum eða þeim stærri.“
Nostur við smáatriði og vönduð sérsmíði mun
einnig sjást í anddyrum húsanna, þar sem fólk á
að fá sömu tilfinningu og fæst inni í íbúðunum
sjálfum. „Allur frágangur miðar að því að þetta
verði ekki þessi dæmigerði hvítmálaði hrái
stigagangur.“
Enn eitt sem er sérstakt við íbúðirnar að sögn
Sveins er sú staðreynd að sérstakt baðherbergi
fylgir hverju einasta svefnherbergi í flestum
íbúðunum. Að auki er eitt gestaklósett í lang-
flestum íbúðunum.
Morgunblaðið/Hari
aupenda standist
”
Hótelið og íbúðirnar
ásamt bílakjallara eru
í heildina um 37.000
fermetrar.
Mikael Jóhann Traustason, byggingarstjóri verkefnisins, segir aðspurður að framkvæmdin
hafi gengið að mestu leyti vel. „Það hafa komið smá hnökrar, einkum þegar framkvæmda-
hraðinn fór fram úr framleiðslu teikninganna, en við höfum náð að halda sjó. Við erum nánast
að skila verkefninu öllu á áætlun, þrátt fyrir talsverða tímapressu. Við töldum á tímabili að
framkvæmdatíminn gæti hnikast til um einn til tvo mánuði, en það virðist ekki ætla að ger-
ast.“
Spurður að því hvort eitthvað óvænt hafi komið upp á á byggingartímanum segir hann svo
ekki vera, þó að aðstæður hafi verið óvenjulegar og unnið hafi verið ríflega átta metra fyrir
neðan sjávarmál. „Það var fyrirséð að það var mismunandi jarðvegsgrundun, ef við berum
saman Hafnartorgið og Austurhöfnina. Í Austurhöfn var grafið niður á fast, fyllt í og búin til
gerviklöpp til stuðnings á móti stálþilinu sem liggur meðfram Austurbakkanum og einnig
vegna grundunar. Að auki eru byggingarnar í Austurhöfn festar í klöppina með bergankerum
til að halda þeim niðri. Í Hafnartorgi var hinsvegar búinn til púði úr bögglabergi á fyrirliggjandi
fyllingu.“
Bergankering kallast það að sögn Mikaels þegar borað er niður í klöpp, „ankerið“ er graut-
að með múrblöndu allt að tíu metra niður í klöppina, og sett á það álag. „Það eru þrettán
bergankeri í húsinu sem taka þátt í að halda húsunum niðri svo þau fljóti ekki upp.“
Mikael segir að gaman hafi verið að taka þátt í verkefninu. „Það er gaman að stoppa upp í
hrunholuna,“ segir Mikael og brosir, og á þar við grunnurinn hafi staðið opinn frá hruni.
Gaman að stoppa upp í hrunholuna
Horft á bílastæðin sem eru átta metra neðan sjávarmáls. Bílakjallarinn verður sá stærsti á landinu.
Hafnarbakkamegin verða verslanir og veitingastaðir, en fasteignafélagið Reginn á öll þau rými. Enn
er óvíst hverjir koma í þessi þjónusturými, en gæðin munu verða í fyrirrúmi.
Horft úr Austurhöfn og yfir á Marriot Edition-hótelið með Hörpu í baksýn. Nálægðin við hótelið er
bónus að mati Sveins. Bráðum hefst einnig bygging höfuðstöðva Landsbankans á reitnum.