Morgunblaðið - 02.03.2019, Side 18
ÚR BÆJARLÍFINU
Björn Björnsson
Sauðárkróki
Margt er gott og jákvætt að gerast
í Skagafirði þessa dagana, einmuna
góð tíð þó svolítið blási stundum og
snjólétt, allt frá áramótum, svo að
framkvæmdamenn hafa hvergi þurft
að slá af, hvorki við byggingar né
annað það sem gera þarf.
Þessa dagana er Leikfélag
Sauðárkróks að hefja æfingar á
frumsömdu Sæluvikuverkefni fé-
lagsins, Fylgd, leikriti með söngvum
eftir Guðbrand Ægi Ásbjörnsson,
sem jafnframt er leikstjóri. Öll lög og
söngtextar verksins eru samin af
höfundum sem á einhvern hátt
tengjast Skagafirði, utan tvö sem áð-
ur hafa heyrst. Að sögn Sigurlaugar
Dóru Ingimundardóttur, formanns
félagsins, taka um 20 leikarar þátt í
uppfærslunni, nokkrir nýliðar auk
marghertra reynslubolta á sviði, en
alls koma um 50 manns að sýning-
unni. Áætluð frumsýning er 28. apríl
nk.
Slökkvilið Sauðárkróks tók
nýlega við nýrri pólsk-sænskri bif-
reið í flotann, og segir Svavar Atli
Birgisson slökkviliðsstjóri að um
gjörbyltingu sé að ræða í tækjakosti
liðsins. Fyrir átti slökkviliðið ellefu
þúsund lítra tankbíl, níu manna þjón-
ustubíl, körfubíl auk tveggja sjúkra-
bíla.
Eldri bíl sem sá nýi leysir af
hólmi hefur verið lagt, enda kominn
til ára sinn og ekki búinn til átaka
svo sem þurfa þótti.
Slökkviliðið hefur 22 menn á út-
kallslista á Sauðárkróki, fimm í
Varmahlíð og fjóra á Hofsósi og hafa
þeir yfir að ráða minni slökkvibílum.
Fjórir eru fastráðnir á slökkvistöð á
Sauðárkróki og annast þar almenn
störf, eldvarnaeftirlit, sjúkraflutn-
inga og fleira. Svavar segir nýja bíl-
inn gjörbreyta öryggi og vinnuað-
stöðu slökkviliðsmanna enda sé hér
um að ræða eins vel búinn bíl og
mögulegt er. Sagði Svavar að með-
alútkallstími liðsins frá stöð væri um
fimm mínútur. Verð hins nýja bíls er
um 60 milljónir króna.
Á vegum sveitarfélagsins er
nú hafin vinna við gerð nýs deili-
skipulags fyrir hafnarsvæðið vegna
verulega aukinna umsvifa við höfn-
ina, ekki hvað síst vegna mikillar
aukningar á löndunum fiskiskipa,
aukningar á komum flutningaskipa
og síðast en ekki síst væntanlegrar
komu nokkurra smærri skemmti-
ferðaskipa á næsta ári.
Þá er að hefjast hönnunarvinna
á viðbyggingu við leikskólann Glað-
heima á Sauðárkróki og um það bil
er að ljúka hönnun nýs leikskóla á
Hofsósi, sem vænta má að hafist
verði handa við á þessu ári. Er bygg-
ingin í tengslum við Grunnskólann.
Framkvæmdir við nýbyggingu
Byggðastofnunar eru að sigla af
stað, gengið hefur verið frá jarðvegs-
skiptum í grunni og fara fram-
kvæmdir af stað á næstunni. Þá er
áfram unnið við síðari áfanga við-
gerða og endurbyggingar sundlaug-
arinnar og má segja að þegar lokið
verður muni nánast um nýja laug að
ræða.
Opnuð hafa verið tilboð í efni
nýrrar hitaveitulagnar frá Hofsósi
að neðstu bæjum í Hjaltadal og
fækkar nú ört þeim svæðum í Skaga-
firði sem ekki njóta hitaveitu.
Þorkell Þorsteinsson, settur
skólameistari Fjölbrautaskóla Norð-
urlands vestra, sagði að nú í fyrstu
viku mars yrði væntanlega undirrit-
aður samningur milli FNV og Keilis
vegna flugkennslu á Alexand-
ersflugvelli. Gert er ráð fyrir að
samningurinn gildi frá undirskrift og
til ársloka. Að jafnaði munu verða
hér nokkrir tugir flugnema og a.m.k.
4 flugkennarar og sér FNV þeim fyr-
ir gistingu og kennsluhúsnæði ef
þurfa þykir. Þessa dagana eru hér
þrjár flugvélar og hafa verið í nokkr-
ar vikur, og er notalegt að heyra í
þessum vélum hátt yfir bænum, eftir
að allt áætlunarflug til Sauðárkróks
var blásið af.
Allt er þetta nú aldeilis ágætt,
en hinsvegar er annað sem ekki er
eins gott og ánægjulegt, en það er að
tveir framkvæmdastjórar fyrirtækja
í fremstu röð hafa látið af störfum.
Forstjóri FISK Seafood gekk út úr
fyrirtækinu eftir, að sagt er, átaka-
fund í stjórn, en hinum var sagt upp
símleiðis og honum tjáð að hans væri
ekki þörf í vinnu næsta dag.
Jón Eðvald Friðriksson tók við
útgerðarfyrirtækinu á erfiðum tíma,
þegar ef til vill var ekki hvað bjartast
framundan en hefur síðan þá gert
FISK Seafood að einu öflugast og
þekktasta sjávarútvegsfyrirtæki
landsins.
Doktor Hólmfríður Sveins-
dóttir tók við forystu í nýju há-
tæknifyrirtæki á vegum Matís og KS
og undir hennar stjórn var var stofn-
að fyrirtækið Protis, sem vaxið hefur
ört og hafa bæði fyrirtækið og Hólm-
fríður hlotið fjölda viðurkenninga
fyrir rannsóknarstörf og framleiðslu
fyrirtækisins.
Um brotthvarf þessara tveggja
burðarása, hvors í sínu fyrirtæki,
ríkir þögn, og finnst hinum almenna
borgara að honum séu skuldaðar
réttar og afdráttarlausar skýringar á
þessum gjörningum.
En þrátt fyrir allt þá eru Skag-
firðingar bjartsýnir og þó að ýmsir
sem svartsýnastir eru segi að blíð-
viðri komi alltaf í bakið á manni, – þá
er ekki á þá hlustað. Verkföll leysast
eftir kjarabaráttu þó harðvítug sé og
vor kemur að liðnum vetri, jafnvel
snjóþungum, – og er þá ekki allt
gott?
Morgunblaðið/Björn Björnsson
Bylting Svavar Atli Birgisson slökkviliðsstjóri hjá nýju slökkvibifreiðinni, sem gjörbreytir öryggi og vinnuaðstöðu.
Blíðviðri í Skagafirði en blikur eru á lofti
18 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 2. MARS 2019
Til sölu er lögbýlið Suðurgafl í Bláskógabyggð á Geysissvæðinu.
Um er að ræða fasteignina Suðurgafl sem er sunnan við þjónustumiðstöðina á Geysi.
Á 3,7 ha. lóð stendur 106 m2 holsteinshús landnr. 167102 og fastnr. 222-4956 sem byggt var 1973
ásamt 33,8 fm geymslu/bílskúr en bæði þarfnast viðhalds. Eigninni fylgir land sem er 3,7 ha að stærð.
Því fylgir einnig tæplega 60 ha. spilda í svokölluðum almenningi sem er á einu stærsta samfellda
mýrlendissvæði í uppsveitum Árnessýslu, óraskað af framræslu og á Náttúruminjaskrá. Einnig fylgir
eigninni hlutdeild í landi í óskiptri sameign í Haukadalsheiði en óvíst er um landmerki á því svæði.
Eigninni tilheyrir jarðhiti skv. Fasteignaskrá.
Skoðun á eigninni er eftir samkomulagi.
Allar nánari upplýsingar eru veittar hjá ÍsMál Lögmannsþjónustu á netfanginu ismal@ismal.is
eða í síma 620 7500.
Fjárfestingartækifæri á Geysissvæðinu