Morgunblaðið - Sunnudagur - 31.03.2019, Side 13
Guðlaug segir að rauði þráðurinn í hennar
lífi hafi verið að upplifa mikla þreytu og í dag
hafi hún skilning á því og leyfi sér að hvíla sig.
„Ég skil betur ástæðurnar að baki því í dag.
Þetta er eins og þynnka af því að vera í miklu
áreiti; það er kallað „social-hangover“ – þessi
þreyta sem kemur eftir að fara í gegnum dag-
inn þar sem maður er í stöðugum samskiptum
við fólk og innan um daglegt áreiti. Þetta er
meira átak fyrir þá sem eru á einhverfurófi,
maður verður hálfgrillaður og orkulítill.
Ég prófaði einmitt að taka ginseng þegar ég
var í skóla til að fá smá orku en það virkaði
þannig að einbeitingin varð einum of – ég gat
ekki einu sinni sónað út og sleppt því að heyra
eina setningu frá kennaranum!
En greiningin finnst mér eiginlega bara
jarðtenging, ég set hlutina í samhengi.
Ég á mína stráka og finnst þeir brjál-
æðislega skemmtilegir og hef mjög gaman af
ýmsu sem fylgir þeim, svo sem þessu bók-
staflega. Mér finnst þetta bara mjög skemmti-
leg sérkenni að hafa og finnst ekkert verra að
vera orðin staðsett þarna með þeim.“
Syndi ekki með straumnum
Hvað finnst þér þú hafa í lífinu sem kemur
sem styrkleiki frá því að vera á einhverfuróf-
inu?
„Það sem mér finnst kannski vænt um er
hæfileikinn til að geta hugsað út fyrir kassann
og sjá hlutina svolítið utan frá. Maður er ekki
alveg partur af þessari sultu sem er að hrær-
ast í pottinum. Mér finnst þessi krítíska hugs-
un oft nýtast. Nám hefur legið fyrir mér svo til
fyrirhafnarlaust, hvort sem það er gott eða
slæmt.
Í gegnum tíðina hef ég alls ekki synt með
straumnum og mér líður betur með það, ég hef
verið óhrædd við að benda á ýmislegt og segja
að eitthvað eigi ekki að vera svona og hinsegin.
Það hefur hins vegar oft ekkert komið mér
sjálfri allt of vel.“
Guðlaug heldur úti bloggi um konur á ein-
hverfurófinu, hlidstaedverold.blog, sem hún
segir sitt framlag til að breiða út þekkingu um
stúlkur og konur á einhverfurófi.
Þú hefur alveg verið opin með þína grein-
ingu frá því þú fékkst hana.
„Já. Ég hef í rauninni aldrei getað farið í fel-
ur með eitt eða neitt, það er partur af rófinu að
geta ekki verið tvöfaldur í roðinu.
Ég hugsaði þetta líka þannig að ef maður
væri úti að keyra í umferðinni, þá væri ekki
nóg að spenna eigið öryggisbelti, það þyrfti
líka að vera merkjasending. Ég hugsaði að ég
þyrfti bara að hafa einhvern fána upp úr
hausnum þannig að fólk skildi. Partur sem ég
hef heyrt um mig í gegnum tíðina er að ég sé
hrokafull, fjarræn, hlusti ekki og hafi engan
áhuga á öðrum. Þetta hefur endurómað í gegn-
um tíðina. Ég var orðin svolítið leið á því; að fá
að heyra að maður væri bara einhver hroka-
gikkur sem þyldi ekki annað fólk.
Þannig að einhverju leyti var það það og svo
bara í gegnum tíðina hef ég haft mjög mikinn
áhuga á jafnréttismálum og heilsu kvenna. All-
ar heilsufarsrannsóknir eru að megninu til
gerðar út frá karlmönnum, rannsóknir eru
gerðar á karldýrum og það miðast alltaf allt
við karla. Hjartaáföll voru lengi vel greind út
frá því sem karlar finna, meðan konur hafa allt
önnur einkenni. Öryggisbúnaður í bílum er
miðaður við karlkyns líkama. Mér finnst því að
mín saga megi heyrast.
Mig langar líka að benda á að þú getur verið
að áorka hellingi, farið út um allt og þetta get-
ur verið styrkur að vera á einhverfurófinu.“
Mikilvægt að það verði vakning
Guðlaug telur afar mikilvægt að það verði
vakning um hvernig stúlkur á einhverfurófi
sýni önnur einkenni en drengir, það verði
fræðsla í skólum og víðar.
„Ekki bara fyrir nemendur heldur kennara,
það er það fólk sem þarf að geta séð stelpurnar
en við erum svo blessunarlega ósýnilegar þar
að það hálfa væri nóg og þar eigum við oft
mjög svipaða sögu. Höfum kannski verið af-
burðanámsmenn en félagslega allt í rugli, ein-
elti, ofbelti og misnotkun,“ segir Guðlaug en
sjálf upplifði hún einelti í skóla þegar hún var
10 ára og lenti í ofbeldissambandi sem ung
kona, um tvítugt.
„Þetta er bara svolítið rauði þráðurinn í
reynslu kvenna á einhverfurófi. Ég held að
rosalega mörg af eineltismálum í skóla séu
vegna þess að krakkar geti ekki lesið hver
annan.“
Hvernig viðbrögð fékkstu þegar þú komst
fram og sagðir frá því að þú værir með Asper-
ger?
„Ég fékk mjög góð viðbrögð og það sem ég
var að vonast kannski eftir og gerðist var að
fólk, sem var að velta fyrir sér kannski eigin
ástandi eða dóttur sinnar, hafði samband. Ég
er nákvæmlega eins og ég hef alltaf verið og
hafi ég verið eitthvað galin þá er ég það líka
núna! En í dag get ég frekar sett mér og öðr-
um meiri mörk.
Mér er ofarlega í huga hversu nauðsynlegt
sjónarhorn einhverfra er samfélaginu, að við
séum við borðið þar sem ákvarðanir eru tekn-
ar. Þegar sagan er skoðuð hafa einmitt oft ein-
hverfir hugsuðir komið fram með góðar breyt-
ingar og nýjungar, verið ákveðið hreyfiafl.
Þetta finnst mér mikilvægt, sem þátttakanda í
pólitík og öðrum félagsstörfum, að tryggja
sem breiðasta aðkomu ólíks fólks. Við þurfum
á því að halda.“
Morgunblaðið/Eggert
31.3. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 13