Morgunblaðið - Sunnudagur - 07.04.2019, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - Sunnudagur - 07.04.2019, Blaðsíða 10
EINHVERFA 10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 7.4. 2019 Það er ekki nóg að finna þessar stelpur oggreina þær, úrræðin verða líka að verafyrir hendi innan kerfisins. Mín reynsla er sú að svo sé ekki. Og ef þau eru til þá standa þau ekki dóttur minni til boða.“ Þetta segir móðir sem setti sig í samband við Sunnudagsblað Morgunblaðsins eftir að hún sá fyrirsögn á forsíðu blaðsins um liðna helgi, Mikilvægt að finna stelpurnar, en þar var vísað í ungar stúlkur á einhverfurófi. Móð- irin féllst á að segja blaðinu sögu sína en kýs þó að koma ekki fram undir nafni, af tillitssemi við dóttur sína sem er fjórtán ára. Móðirin segir dóttur sína alla tíð hafa verið sérstaka. Fyrstu árin hafi þó ekki leikið grun- ur á einhverfu. „Hún var bráðger og hæfi- leikarík; byrjaði til dæmis að ganga aðeins sex mánaða. Hún hefur á hinn bóginn aldrei verið félagslynd og er ekki mikið fyrir að tjá sig,“ segir móðirin. Dótturinni gekk á hinn bóginn vel í skóla fyrstu árin og ekki bar á félagslegum erfið- leikum. Hún átti að vísu aldrei margar vinkon- ur en gekk vel í námi. Fór að líða illa í skólanum „Þegar hún kom á unglingastigið fór að síga á ógæfuhliðina. Þá fór dóttur minni að líða illa í skólanum og var orðin treg að fara þangað. Upp komu erfiðleikar en í langflestum til- vikum rekast börn sem eru á einhverfurófi illa í hóp og önnur börn hafa tilhneigingu til að ráðast á þau og leggja þau í einelti. Engin greining lá hins vegar fyrir á þessum tíma og eina ráðið sem skólastjórinn hafði þegar við bárum þetta undir hann var að færa dóttur okkar yfir í annan skóla. Það var með öðrum orðum enginn vilji til að taka á vandamálinu.“ Foreldrarnir sáu fyrir vikið ekki annan kost í stöðunni en að færa dóttur sína yfir í annan skóla – í öðru sveitarfélagi á höfuðborgar- svæðinu. Létu sig hafa það að aka henni langa leið til og frá skóla í þeirri von að henni færi að líða betur. Þetta gekk ágætlega til að byrja með. Eftir fyrsta veturinn í nýja skólanum fór þó aftur að bera á erfiðleikum en þá fór dóttirin, sem orðin var þrettán ára, sjálf að hafa orð á því að hún væri frábrugðin öðrum börnum. Það varð til þess að farið var með hana í grein- ingu, þar sem bráðabirgðaniðurstaða var sú að hún væri með ódæmigerða einhverfu sem gjarnan kemur fram á unglingsaldri. „Þegar hér er komið sögu var hún orðin þunglynd. Hún átti engar vinkonur lengur og dró sig inn í skel,“ segir móðirin. Áttu ekki rétt á þjónustu Viðbrögð foreldranna voru að leita til læknis sem lagði til sérhæfða sálfræðimeðferð. „Okk- ur var ráðlagt að hafa samband við yfirmann heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og sækja um slíka þjónustu. Til að byrja með fengum við engin svör en síðan hafnaði yf- irmaður heilsugæslunnar beiðni okkar skrif- lega,“ segir móðirin. Næsta skref var að óska eftir venjulegum sálfræðingi til að kanna hvort það skilaði ein- hverjum árangri og féllst heilsugæslan á þá til- högun. Sálfræðingurinn gafst þó upp eftir nokkur skipti, bar við skorti á sérþekkingu og vísaði í staðinn á BUGL. Þetta var í lok nóvember á seinasta ári. Að sögn móðurinnar tók BUGL málið til skoðunar en komst að þeirri niðurstöðu að dóttirin ætti ekki rétt á sérhæfðri sálfræðimeðferð þar fyrr en fullnaðargreining lægi fyrir. „Þetta voru mikil vonbrigði enda ástandið orðið mjög alvarlegt. Dóttir mín var hætt að mæta í skólann og undanfarna fjóra mánuði hefur hún lokað sig af inni í herbergi. Hún vill ekki lifa. Bara deyja. Slík er vanlíðan hennar. Eins og gefur að skilja getum við ekki skilið hana eina eftir heima. Dóttir mín er mjög þunglynd og talar varla við okkur foreldrana.“ Foreldrarnir voru ekki tilbúnir að gefast upp á kerfinu og leituðu næst til félagsþjónust- unnar í sveitarfélaginu sínu og óskuðu eftir niðurgreiðslu vegna sérhæfðrar sálfræðiþjón- ustu. „Þetta er dýr þjónusta og við höfum ein- faldlega ekki efni á henni. Félagsmálastjóri hafnaði þessari beiðni hins vegar með þeim rökum að lagaheimild væri ekki fyrir hendi. Ef það er rétt þá er verið að mismuna dóttur minni vegna þess að ég veit að börn með ann- ars konar vanda hafa fengið þessa þjónustu.“ Þetta varð til þess að móðirin fór að velta fyrir sér hvort þunglynd börn sem ekki eru með truflandi hegðun séu almennt látin sitja á hakanum í kerfinu. Í lok febrúar lá fullnaðargreining á dóttur- inni fyrir og samkvæmt henni er hún meira einhverf en talið var í fyrstu. Einhverfan er þó meira inn á við; stúlkan er til dæmis ekki með mikla áráttuhegðun eins og algengt er með börn á þessu rófi. Síðan er liðinn rúmur mánuður án þess að neitt hafi gerst. Móðirin ræddi við Sjónarhól, ráðgjafarmiðstöð fyrir sérstök börn, en fékk þau svör þar að hún væri búin að reyna allt. Ekki væri um annað að ræða en að bíða eftir þjónustu hjá BUGL. Biðin gríðarlega erfið „Þessi bið hefur reynst okkur gríðarlega erfið. Dóttir okkar er þunglynd en enga hjálp virðist vera að fá. Hún er góð námsmanneskja og fyrir vikið er vont fyrir hana að missa svona mikið úr skóla. Ég hef reynt að leggja fyrir hana verk- efni heima en hún sér ekki tilganginn með því að leysa þau. Það sé hvort eð er engin framtíð. Þunglyndi getur verið lífshættulegur sjúkdóm- ur og álagið á okkur foreldrana hefur verið mikið. Við erum hrædd um dóttur okkar. Og erum örugglega ekki einu foreldrarnir í þeirri stöðu. Til hvers að finna þessar einhverfu stúlkur og greina þær ef ekki á að hjálpa þeim?“ Niðurstaða móðurinnar eftir samskiptin sem á undan eru gengin er sú að félagsþjónustan í sveitarfélaginu hennar vilji ekki hjálpa henni. „Mín tilfinning er sú að þetta sé happa-glappa eftir því í hvaða sveitarfélagi maður býr. Sum eru eflaust betri en önnur hvað þetta varðar.“ Þá kemur til kasta BUGL. „Við bíðum enn eftir þjónustu þar. Þar virðast veikindin vera metin eftir ákveðinni kríteríu og manni sýnist BUGL helst taka við börnum sem passa inn í tiltekinn kassa. Þrátt fyrir alvarleg veikindi er hún ekki í forgangi. Börn með truflandi og ógn- andi hegðun ganga fyrir; ef vandinn er inn á við mætir barnið afgangi. Þessu hefði ég ekki trú- að að óreyndu.“ Hana grunar að kynin sitji ekki heldur við sama borð. Strákar sem líður illa sýni oft og tíðum meiri reiði en stelpurnar og fái fyrir vik- ið fyrr athygli frá kerfinu. „Á meðan vandi stúlkna birtir sig á annan hátt, þá er vandi þeirra ekkert minni.“ – Ertu orðin örvæntingarfull? „Örvænting er ekki rétta orðið. Ég er upp- gefin, þetta er svo lýjandi. Það má eiginlega segja að heilsugæslan, félagsþjónustan og BUGL hafi hundsað heilsufarsvanda dóttur minnar, útilokað hana frá því að fá hjálp, fyrir þær sakir að hún passar ekki inn í kerfið þeirra vegna einhverfunnar, passar ekki inn í níð- þröngu boxin. Hún á ekki rétt á ókeypis sál- fræðiaðstoð af því að þessir aðilar eru ekki með sálfræðing sem hefur sérþekkingu á þessu sviði. 70% þeirra sem er á einhverfurófinu glíma við þunglyndi og flestir verða fyrir ein- elti. Heilsugæslan, félagsþjónustan og BUGL gera ekki ráð fyrir þessum hópi, varðandi sál- fræðiþjónustu. Þetta er skýr endurspeglun á stöðu einhverfra í þjóðfélaginu, það er ekki gert ráð fyrir þeim, þeim er ýtt til hliðar og þau hundsuð. Hér er það kerfið sjálft sem beitir eineltinu, því að hundsun og útilokun er ein birtingamynd eineltis og oft sú sárasta. Ég er búin að tala við alla sem ég hef getað náð í varðandi þetta mál; talað mig hása, sent tölvupósta, legið í símanum, hjá heilsugæsl- unni, félagsþjónustunni, BUGL, ráðuneyti, bæjarstjórn, nefndu það. Niðurstaðan er sú sama í hvert sinn, engin vill gera neitt, einhver annar á að gera það.“ Ljósmynd/ColourBox „Dóttir mín vill ekki lifa!“ Móðir fjórtán ára stúlku á einhverfurófi segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við kerfið. Dóttir hennar hefur lokað sig af vegna þunglyndis í fjóra mánuði en ennþá hefur engin aðstoð borist, hvorki frá Heilsugæslunni, félagsþjónustunni né BUGL. Móðirin hefur áhyggjur af framtíð dóttur sinnar enda hefur hún lýst því yfir að hún vilji ekki lifa lengur. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is ’Til hvers að finna þessareinhverfu stúlkur og greinaþær ef ekki á að hjálpa þeim? Sunnudagsblaðið leitaði til BUGL eftir viðbrögðum og óskuðu Dagbjörg Sig- urðardóttir, yfirlæknir BUGL, og Helga Jörgensdóttir, deildarstjóri göngudeild- ar BUGL, eftir því að fá að svara fyr- irspurn blaðsins skriflega. Í svari þeirra segir: „Varðandi svör við fyrirspurnunum er rétt að taka fram að starfsmönnum Landspítala er óheimilt að tjá sig um málefni einstakra barna eða fjölskyldna þeirra. Svör okkar eru því almenns eðlis og leitast við að skýra þjónustuferil BUGL og samvinnu við önnur þjón- ustukerfi er varða börn og ungmenni. Barna- og unglingageðdeild (BUGL) er 3ju línu sérfræðistofnun sem veitir sérfræðiþjónustu börnum og unglingum með flókinn og samsettan geðrænan vanda og/eða alvarleg geðræn einkenni. Mikil samvinna er við heilsugæslur og önnur þjónustukerfi s.s. barnavernd og þjónustumiðstöðvar með reglulegum samráðsfundum. Börn koma til þjónustu á BUGL annars vegar með tilvísun frá öðrum þjónustustigum eftir að frum- greining hefur farið fram og ljóst er að málið þurfi sjúkrahúsþjónustu. Hins vegar ef um er að ræða bráð mál er þeim sinnt strax eða með forgangi. Um leið og beiðni berst til BUGL fer fagteymi strax yfir hana m.t.t. úrvinnslu. Biðtími þar til barn/ungmenni er sam- þykkt inn á biðlista BUGL getur því verið frá nokkrum dögum og stundum upp í ár. Nokkrar skýringar geta legið að baki mislöngum tíma í forvinnslu beiðna. Ef öll forvinna/greiningar fylgja með til- vísun og inntökuteymi BUGL metur þörf á þjónustu fer barnið strax á biðlistann. Þessi tími lengist ef upplýsingar vantar um fyrri þjónustu/frumgreiningar og al- mennt ef vantar upplýsingar um barnið og fjölskylduna. Frumgreiningar eiga stundum eftir að fara fram hjá viðeig- andi aðilum í fyrstu eða annarri línu þjónustunnar og stundum þarf að kalla eftir frekari greiningum eða upplýs- ingum. Þetta á við ef inntökuteymið met- ur barnið ekki í þörf fyrir bráðaþjónustu. Um þessar mundir er biðlisti eftir þjónustu göngudeildar BUGL um þrír mánuðir, forgangsraðað er eftir bráð- leika eins og á öðrum deildum sjúkra- hússins. Þess ber að geta að BUGL kem- ur að auki að málum u.þ.b. 900 barna á ári í gegnum samráðsteymi BUGL og heilsugæslustöðva. Þar eru tekin fyrir mál barna sem þurfa ekki endilega sjúkrahússþjónustu heldur þjónustu frá nærumhverfi með stuðningi frá BUGL. Teymisstjórar BUGL veita foreldrum góðfúslega upplýsingar um stöðu mála á biðlista ásamt upplýsingum og ráðgjöf varðandi önnur úrræði á meðan beðið er. Bráðateymi BUGL sinnir bráðamálum, metur bráðleika, svarar fyrirspurnum og veitir viðeigandi þjónustu.“ Um þriggja mánaða bið

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.