Fréttir - Eyjafréttir


Fréttir - Eyjafréttir - 19.12.2012, Blaðsíða 17

Fréttir - Eyjafréttir - 19.12.2012, Blaðsíða 17
° ° Í tilefni af 85 ára afmæli Sig- mundar Andréssonar, 20. ágúst 2007, fannst Óskari syni hans tími til kominn að taka saman helstu punkta úr ævi og starfi hans. Fyrir níræðisafmælið, þann 20. ágúst 2012, var textinn lagfærður og endurbættur. Stöku viðbótum, nýjum sögum og upp lýsingum var komið inn og hér er niðurstaðan. Óskar stóð við þetta og útkoman var skemmtileg bók þar sem farið er yfir ævi og feril Sigmundar eða Simma bakara eins og við þekkjum hann. Simmi var einn þeirra sem setti svip á mannlífið í Vestmannaeyjum og lét til sín taka á ýmsum sviðum. Fyrst og fremst var hann þó bakari og rak Magnúsarbakarí í áratugi. Eyjafréttir fengu leyfi Óskars til að birta nokkra kafla úr samantekt hans sem að hluta eru bréf sem Simmi hefur skrif að börnum og barnabörnum og notað til þess blað og penna. Í formála segir Óskar: „Vonandi verður þessi samantekt til þess að varpa betra ljósi á ævi og starf Sig- mundar og fjölskyldu hans. Með þessum rituðu orðum verður lesandi vonandi örlítið fróðari um persónuna Sigmund Andrésson, sögu hans en þó sérstaklega um þann mann sem hann hefur að geyma,“ segir Óskar og nefnir líka bréfin. „Þau eru vel geymd. Sömuleiðis vil ég þakka fyrir skemmtileg og uppbyggileg bréf sem hann hefur sent börnum höfundar og fjölskyldu. Án þessara heimilda hefði þessi samantekt verið fátækleg. Samantektin er ekki tæm - andi og það er ekki hægt að útiloka að það hafi einhverjar villur slæðst inn í rit þetta en þær verða vonandi fyrirgefnar.“ Hetjan okkar Sigmundur ólst upp á Eyrarbakka til 9 ára aldurs en árið 1932 meiddist hann eftir að hafa dottið af hestbaki og lá í þrjú og hálft ár á Landsspít - alanum í Reykjavík. Þessi tími hlýtur að hafa haft áhrif á ungan dreng svo fjarri foreldrum sínum en þau kom - ust ekki oft í heimsókn. „Pabbi kom þegar hann var á leið til Siglufjarðar á vorin og er hann kom heim á haustin, og mamma bara einu sinni á ári. Það voru engir peningar fyrir fargjaldi...“ Móðir hans deyr síðan rúmum tveimur árum eftir að hann leggst inn á spítala. Hann hefur örugglega óskað þess að sjá foreldra sína oftar og það hefur vafalítið oft þurft mikinn kraft og hörku til að halda út svo langan tíma einn á spítala. Þessi ár hafa eflaust haft djúp áhrif á Sig- mund, mótað hann að einhverju leyti og viðhorf hans til lífsins. Hann lærði að treysta á sjálfan sig, njóta líðandi stundar og að það er ekki allt sjálfsagt í lífinu. Kannski hefur hann lært þar að hugsa: Ég verð að standa mig og sýna hvað í mér býr. Eftirminnilegustu jólin „Það var þegar ég var svona sex til átta ára gamall. Þá var mamma búin að gera allt hreint og á aðfangadag tók hún bala og þvoði okkur öllum og færði í hrein föt, kannski nýja sokka eða skyrtu sem var jólagjöfin. Og við máttum alls ekki koma inn í baðstofu fyrr en búið var að skreyta jólatréð og gera allt klárt. Svo var búinn fínn matur og rétt fyrir 6 var síðan stofan opnuð og þá hvítur dúkur á borðum og lítið jólatré á kommóðunni og búið að kveikja á því og líka kerti á borðinu. Öll komin í sparifötin og nú var sest að borðum. En áður las pabbi jólaguðspjallið, svo var voða góður hvítur grautur með saft út á. Þegar búið var að borða þá var sungið Í Betlehem er barn oss fætt. Ekki var hægt að ganga kringum jólatréð því það var bara ekki pláss til þess. Þá voru gjafirnar teknar upp sem voru nú ekki margar eða miklar miðað við seinustu árin. Eitthvað til að fara í frá pabba og mömmu, kannski peysa eða skór. En ég man þó eftir því að Guðjón bróðir pabba sendi okkur alltaf enhverja harða pakka, og voru það kannski tindátar, pílubyssa eða bílar handa okkur Jóni, en Þura fékk brúðu sem hægt var að vagga. En bílarnir voru það flottasta og ég man að við fengum fjöl og lögðum hana á þröskuldinn fram í eld hús og reynd um með okkur hvor dreif betur. Svo var súkkulaði um kvöldið og einhverjar fínar kökur með. Og við fengum að hafa kerti. Annars var nú plássið ekki stórt, þessi eina baðstofa með tveimur rúmum sitthvorumegin. Pabbi og mamma sváfu í öðru en við bræðurnir í hinu. Þura svaf svo í litlu rúmi fyrir aftan þau. Okkur var nú alltaf boðið vestur í Læknishús, en mamma hafði komið sem vinnukona með þeim Gísla Péturs syni og Aðalbjörgu Jakobs - dóttur en mamma og hún voru systradætur. Þar var alltaf fullt af fólki og húsið svo stórt og fínt að maður bara varð undrandi. Mikið sungið og gengið kringum jólatré með lifandi kertum og pokum á sem sælgæti var í. En það var nú svo að aldrei man ég eftir því að pabbi færi þangað og ég man það og hugsa oft um það seinna hvað mömmu hefur þótt það sárt að hafa hann ekki með. Ég veit ekki hvers vegna þetta var en minnir þó að það hafi verið eitthvað út af brun - anum sem varð hjá læknishjón unum skömmu eftir að þau komu til Eyrar- bakka. Og svo var líka mikill stétta- munur og hann þver, eins og kannski fleiri. En svo fórum við öll alltaf til afa og ömmu norður að Litlu-Háeyri og þau komu til okkar.” Sigmundur fer til Vest mannaeyja og kynnist Dóru Hönnu „Ég kom hér til Vestmannaeyja hinn níunda janúar 1946 klukkan 8 að morgni, með M/S Laxfossi í hinu fegursta veðri. Nærri alveg logn og hiti um frostmark, örlítill snjór á fjöllum og í hlíðum. Tildrögin að komu minni hingað voru þau, að ég var að læra til brauðgerðar hjá Lárusi Lars Andersen, bakarameistara á Eyrarbakka. Lárus hafði verið einn vetur í bakaríinu hjá Magnúsi Bergs - syni, bakarameistara og fallið vistin vel og margt að læra og sjá, því þetta var stórt og vandað bakarí. Á Eyrar- bakka var allt minna og smærra í sniðum, enda það bakarí eitt af elstu bakaríum landsins, stofnað 1884 og var á sínum tíma frægt fyrir sín góðu rúgbrauð um aldamótin. Nú hafði samist svo hjá okkur Lárusi að hann kæmi mér í læri hjá Magnúsi og myndi ég vinna þar síðasta hálfa námsárið mitt og tæki þar próf. Þar ætti ég að geta lært það sem til þurfti að verða frambærilegur sveinn að námi loknu. Og nú þennan morgun, eftir til - vísun, gekk ég upp að Hótel Berg en þar bjó Magnús og var bakaríið í kjall aranum. Það var líka hótel. Ég barði nú að dyrum og til dyra kom ung, fall eg og fönguleg stúlka. Ég bauð góðan dag og spurði eftir Magnúsi. Hún segir hann vera við, en spyr um leið: Ert þú maðurinn sem átt að byggja ofninn? Ég neita því en segist vera lærlingurinn frá Eyrarbakka, sem á að ljúka námi hér í bakaríinu. En þannig var mál með vexti að von var á manni til þess að byggja nýjan bakaraofn. En þessi stúlka var Dóra Hanna Magnúsdóttir, og hafði heyrt að von væri á manni til þess að byggja ofn, en ekki heyrt á það minnst að von væri á ein - hverjum lærlingspeyja utan frá Eyrarbakka í bakaríið. Iðnskólapróf og brúðkaup En það kom líka annað á daginn. Þar sem ég hafði heldur ekki lokið námi að fullu í iðnskóla þá varð ég að fara strax í skólann hér, sem var kvöld- skóli. Ég hafði nú ekkert lært í bók- færslu. Ég fór nú í skólann og Halldór Guðjónsson skólastjóri benti mér strax á að ég þyrfti að fá tilsögn í henni svo ég gæti fylgst með, og sagði mér að ég skyldi reyna að tala við Sigurjón nokkurn Kristinsson í Hvíld því hann hefði nýlokið námi við Verslunarskóla Íslands. Hann ynni við að hreinsa föt í fyrirtæki sínu við Skólaveg og héti Straumur. Ég fór þangað og tók Sigurjón mér vel en sagðist bara hafa svo mikið að gera að hann hefði engan tíma aflögu. En hann benti mér á að dóttir Magnúsar hefði líka verið í Versl un - ar skólanum og það ættu að vera hæg heimatökin ef hún fengist til þess? Ég fer nú heim á Hótel Berg þar sem ég hafði bæði fæði og húsnæði. Tal - aði við sömu stúlkuna sem hafði tekið á móti mér og sagði henni mín vandræði. Hún tók nú heldur dræmt í það en sagðist þó skyldi að stoða mig eftir því sem hún hefði vit á. Sú kennsla og aðstoð er ég fékk þarna hjá þessari ungu og myndar- legu heimasætu mína fyrstu daga hér í Eyjum hafa mér og okkur báðum dugað vel fram að þessu. Ég verð þó að viðurkenna það að ég hafði ekki haft mikinn áhuga á bókfærslu þar til nú, að það snarbreyttist því þetta urðu einhverjir skemmtilegustu tímar, sem ég hef nokkurn tíma haft í bókfærslu og tímarnir oft ansi fljótir að líða, og enginn námsleiði, aðeins tilhlökkun til þess næsta. Og þeir urðu upphafið að okkar hjónabandi sem hefur nú vel dugað fram á daginn í dag. En er ég fer að hugsa til þeirra þá minnir mig nú samt að það hafi ekki alltaf verið talað um debit og kredit. Það var stund um aukaatriði. En ég stóðst prófið í skólanum með prýði og átti hún sinn stóra þátt í því. Við giftum okkur svo 2. október 1947.” Um þau segir Óskar: „Hjónaband Sigmundar og Dóru Hönnu hefur verið farsælt og yndislegt að upplifa hvernig samband þeirra og vinátta Eyjafréttir / Miðvikudagur 19. desember 2012 17 Simmi Bakari – Strákur af Eyrabakka sem sett hefur svip á bæinn: Stundum verður debit og kredit aukaatriði :: Kennslustundir í bókfærslu urðu upphafið að hjónabandi Sigmundar Andréssonar og Dóru Hönnu Magnúsdóttur :: Hann stóðst prófið í skólanum með prýði og átti hún sinn stóra þátt í því :: Þau giftu sig svo 2. október 1947 :: Ráku Magnúsarbakarí í áratugi Sigmundur Andrésson fæddist þann 20. ágúst árið 1922 í Nýja Bæ á Eyrarbakka. Foreldrar hans voru Andrés Jónsson (18.10.1896 – 21.11.1978) fæddur á Litlu Háeyri á Eyrarbakka og Kristrún Ólöf Jóns- dóttir (22.05-1881- 22.09.1934) fædd í Reykjahlíð, Skútustaðahreppi í S-Þingeyjarsýslu. Eiginkona Sigmundar er Dóra Hanna Magnúsdóttir en þau giftu sig 2. október 1947. >>

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.