Fréttir - Eyjafréttir - 29.06.2016, Blaðsíða 12
12 Eyjafréttir / Miðvikudagur 29. júní 2016
Við förum upp hleinina austan á,
Pálsnefinu gárar á.
Þessi leið, alveg greið.
Söngvatn í flösku hringlar dátt,
Rommvikan að hefjast brátt.
Landrover á kútinn fer.
Ég verð alveg heltekinn
þegar fuglarnir bjóða mig velkominn
í Ellirey,
því ég heima á hér með þeim.
Frá Bunkanum
er fagurt að sjá daginn rísa.
Úr Háubælunum
kvakar dátt svartfuglsvísa.
Úr Höskuldshelli gráturinn
löngu horfinn er.
Á Bóli er gengið frá kostinum.
Farm’ af víni og oblátum.
Lífsins brauð, flaska rauð.
Í Skribbanum er gjarnan veiðin best,
metið verður slegið fyrir rest.
Hamfletta, ét’etta
Bak við fjöllin
„Á árunum 1953 til 1979 var rekið í
Breiðuvík uppeldisheimili fyrir
drengi á aldrinum 14 til 18 ára en
þar voru aðalega drengir á aldrinum
10 til 14 ára,“ segir Hafdís Víglunds-
dóttir um lag sitt Bak við fjöllin.
„Í kastljósaþættinum 7. febrúar
2007 sagði fyrrum vistmaður frá
dvöl sinni þar og að hann hafi orðið
fyrir ofbeldi og kynferslegri
misnotkun. Margir aðrir fyrrum
vistmenn í Breiðuvík fylgdu í
kjölfarið á Kastljósþættinum og
höfðu sömu sögu að segja um
slæman aðbúnað og andlegt og
líkamlegt ofbeldi. Einn af þeim var
pabbi minn og þetta lag er samið
fyrir hann og alla þá drengi sem þar
voru,“ segir Hafdís sem sjálf syngur
lagið.
Lítið fótspor í fjörusandinn
gengur móti hvössum vindinum.
Hann stendur og starir út á hafið.
Hann er einn, einn í heiminum.
Saklaus hendi
inn í illsku hvarf.
Með hörðum vendi
lífsbarinn hann var.
Hvar varstu þá,
þegar vofan fór á stjá.
Falin röddin á bak við fjöllin.
Angist í blökkuholinu.
Flaug burt sálin, tregatárin.
Auðmýktur, þá stóðst þú aftur upp.
Saklaus hendi
inn í illsku hvarf.
Með hörðum vendi
lífsbarinn hann var.
Hvar varstu þá,
þegar vofan fór á stjá.
Horfnir tímar
Helgi Rasmussen Tórshamar samdi
lagið Horfnir tíma og hann og
Sævar Helgi Geirsson sömdu
textann. „Lagið er í stíl Ásgeirs
Trausta með kántríbrag, róleg og
falleg ballaða,“ segir Helgi um lagið
og textann. „Textinn fjallar um
æskuna, Týr og Þór, gellustandið,
sprangið, Blaðaturninn og það sem
lífið snerist um þegar við vorum
peyjar. Svo taka við lífsins raunir og
við tökum það líka fyrir í textanum.
Við lágum á laginu í mörg ár eða
þangað til að Gísli heyrði það og
ákvað að setja það á plötu.“
Sævar Helgi syngur lagið.
Oft ég einn við gluggann hékk,
og horfði á fólkið sem að framhjá gekk.
Bæjarmyndin fyrir augum bar,
allt frá rónum upp í snobbaðar
kellingar.
Beint á móti stóð Alkahóll.
Þar var þétt setinn
drykkjumannsins stóll.
Gúmmíkallinn sprændi í brók,
og þéttingsfast um flöskuhálsinn
gamli tók.
Horfin stund, horfnir tímar
og eftir situr minningin.
Og minningin aftur lifnar
er um tímann reikar hugurinn.
Rígur var milli Týr og Þór,
og draumur eyjapeyjanna
var ógnar stór.
Oft var blóð, sviti og tár
þegar í Löngulá var tekist á.
Gellað var í vagnana,
og seldar í húsin fyrir aurana.
Við Blaðaturninn hittumst þar,
áður en leiðin lá í Sprönguna.
Gítararleikarinn
„Lagið er samið fyrir um sjö árum,
mjög árla morguns í Eyjum,“ segir
Ágúst Óskar Gústafsson, læknir um
lagið sitt, Gítarleikarinn. „Lag og
texti komu fljótt, en ég nostraði
síðan í langan tíma við viðlagið og
hljómaganginn þar. Guðmundur
Davíðsson og Gísli Stefánsson gera
þessu mjög góð skil. Í stuttu máli
fjallar lagið um að gleyma sér inni í
þjóðhátíðartjaldi í gítarspili, sem er
stórkostlega gaman, en aðrir hlutir
eins og ástin eru þó mikilvægari og
mikilvægt að gleyma sér ekki í
gleðinni.“
Guðmundur Davíðsson syngur
lagið.
Einn ég er á fótum
því ekkert svar mér barst.
Í söng með öðrum snótum,
ég sá ei hvar þú varst.
Ég gleymdi mér í gleði
og gaf þér ekki gaum.
Ef ást þín er að veði,
ég þrái okkar draum.
Ég þrái okkar draum.
Því það er svo margt
sem við getum gert
og tíminn mun leiða í ljós.
Ef þú verður mín
mun ég verða þinn
uns ævin á enda er.
En þegar þögnin kemur
og þú ert ekki hér,
þá vildi ég öðru fremur
vera einn með þér.
Já, vera einn með þér.
Við ystu voga
„Samstarf okkar Gauja hófst þegar
hann lét mig hafa textann af því
sem síðar varð þjóðhátíðarlagið
1997, Þú veist hvað ég meina mær,“
segir Sigurjón Ingólfsson um lag
þeirra, Við ystu voga.
„Fyrir nokkrum árum ákvað ég að
leita aftur til Gauja þegar mig
vantaði texta til að gera lag við.
Gaui lét mig hafa texta sem hann
hafði gert fyrir nokkuð löngu síðan,
eða á sjöunda áratugnum. Þar sem
innihald textans er á ljúfu nótunum
þá kom ekkert annað til greina en
að hafa lagið í sama stíl.
Ég kláraði lagið haustið 2010 og
fékk Sæþór Vídó til að búa til demó
af því. Kláraði hann það virkilega
vel og nógu tímanlega til að ég gæti
gefið Gauja lagið í jólagjöf, jólin
2010. Geirmundur nefndi það
einhvern tímann að textarnir hans
Gauja væru það ljóðrænir að lögin
kæmu án mikillar fyrirhafnar og ég
er ekki frá því að það sé rétt hjá
honum. Textarnir eru mjög vel
gerðir en Gaui hefur kannski meiri
orðaforða en gerist og gengur og
því þarfnast sum orð og orðatiltæki
stundum skýringar. Hér er niðurlag
textans „Við ystu voga“:
„Allt var bundið óskum nýjum
allt var fagurt, kyrrt og rótt.
Meðan okkur örmum hlýjum
ástin vafði þessa nótt.“
Það er varla hægt að orða þetta
betur,“ segir Sigurjón.
Sæþór Vídó syngur lagið.
Einn ég sit við ystu voga
andblær strýkur hlein og sker,
hugans bestu leiftur loga
liðnar myndir birtast mér,
minning helgar vonir vekur
vonir sem að fæddust hér,
enginn frá mér aftur tekur
allt það sem er bundið þér.
Hvað sem annars af því hlýst,
enn ég læt mig dreyma.
Ástum þínum eitt er víst,
aldrei mun ég gleyma.
Himins stjörnur skinu skærar
skuggar misstu fengin völd,
fátt var tveggja fundi kærar
földum lyftu draumsins tjöld,
allt var bundið óskum nýjum
allt var fagurt, kyrrt og rótt.
Meðan okkur örmum hlýjum
ástin vafði þessa nótt.
Aftur með þér
„Lagið sjálft er 14 ára gamalt og
eitt af mörgum sem ég samdi stuttu
eftir að ég hafði fengið hjómborð í
afmælisgjöf frá fjölskyldu minni.
Ætlunin var að semja þjóðhátíðar-
lag í anda eins af uppáhalds
þjóðhátíðarlögum okkar mömmu
,,Síðasti dansinn” eftir Árna
Johnsen og varð útkoman fallegt,
rólegt og melodískt lag sem ég gat
vel séð fyrir mér að fólk gæti
vaggað sér við í brekkunni á
þjóðhátíð. Hluti af textanum kom
um leið og ég samdi lagið en ég
hafði verið að skoða gamlar
fjölskyldumyndir frá þjóðhátíð og
séð þar fullt af fólki sem ýmist var
látið, flutt af eyjunni eða ég hafði
einfaldlega ekki séð í mörg ár. Mig
langaði því að semja texta um þær
hugsanir sem fóru í gegnum kollinn
á meðan ég skoðaði þessar myndir.
En eins og gengur og gerist
kynnumst við flest fullt af fólki á
þessari frábæru hátíð sem við sjáum
kannski ekki aftur fyrr en á næstu
þjóðhátíð…já eða jafnvel aldrei
aftur,“ segir Helena Pálsdóttir en
textann samdi hún með móður
sinni, Kolbrúnu Hörpu Kolbeins-
dóttur.
„Þannig eigum við mörg hver
minningar um skot, ást eða vinskap
sem kviknaði á þjóðhátíð í Eyjum.
Textinn fjallar sem sagt um stúlku
sem er að velta fyrir sér hvað hafi
orðið um unga manninn sem hún
hitti eitt sinn á þjóðhátíð. Mamma,
Kolbrún Harpa, hjálpaði mér svo að
klára textann og fínpússa hann.
Textinn fellur sjálfsagt ekki öllum
í geð enda tókum við okkur það
listræna frelsi að þessu sinni að
hunsa reglur um stuðla og höfuð-
stafi. Þeir sem heyrt hafa lagið, hafa
hinsvegar ekki verið að láta það
neitt trufla sig hingað til, heldur
einungis hrifist af fallegri mel-
odíunni og haft á orði hversu vel
þau þekki sig í textanum. Það er
nóg fyrir okkur.
Við mamma höfum samið fjöldann
allan af lögum og textum sem
einungis hafa heyrst á fjölskyldu-
mótum já og auðvitað verið sungin í
Vatnsdalstjaldinu á þjóðhátíð. Við
fögnum því þessu frábæra framtaki
Gísla Stefáns og félaga að safna
saman nokkrum af ótal mörgum
,,skúffuskáldum” sem leynast hér í
Eyjum og gefa út efnið þeirra. Gísli
Stefáns hafði samband við mömmu
í fyrra og bað hana um lag á plötu
sem hann væri að fara að gefa út
sumarið 2016.
Eina sem við fengum að vita var
að lögin á plötunni yrðu öll eftir
Eyjamenn og að þau yrðu útsett í
kántrístíl. Við vorum fljótar að
ákveða hvaða lag yrði fyrir valinu
úr sameiginlegum sjóði okkar
mömmu en ég skal viðurkenna að
ég var pínu stressuð yfir að lagið
myndi tapa sjarma sínum þegar það
væri komið í kántríbúning. Það
reyndist óþarfa stress því þegar ég
heyrði fyrstu útgáfuna af laginu, án
söngsins, kolféll ég fyrir útsetning-
unni, fékk hreinlega gæsahúð af
hrifningu. Lagið hefur svo bara
orðið flottara í hvert sinn sem Gísli
hefur bætt við fleiri hljóðfærum og/
eða röddum. Hann er ótrúlega
mikill fagmaður og þeir sem með
honum starfa. Lagið er sungið af
Kristínu Ingu Jónsdóttur og unnusta
hennar Elíasi Fannari Stefnissyni og
ekki annað hægt en að hrósa þeim í
hástert fyrir flutninginn.
Ég hafði heyrt og séð þau áður
syngja í myndbandi á netinu og
fannst raddirnar þeirra hljóma alveg
hrikalega vel saman. Ég hafði því
samband við Fannar og þau slógu
til. Við hefðum ekki getað fengið
flottari söngvara til að syngja lagið
okkar því þau fara einstaklega vel
með það. Við hlökkum líka rosalega
mikið til útgáfutónleikanna sem
verða um goslokahelgina enda
höfum við ekki heyrt nema örfá af
hinum lögunum af plötunni. Það
verður því spennandi að fá að heyra
loks öll lögin og hvetjum við alla
Eyjamenn og gesti þeirra til að
mæta og njóta með okkur hinum,“
sagði Helena.
Kristín Inga og Elías Fannar
syngja lagið.
Hvar ertu núna, hvar ertu í dag?
Þú sem söngst með mér
þetta ljúfa lag.
Með stjörnur í augunum
söngstu svo létt,
um stórfenglegt bálið á Fjósaklett.
Um kórinn besta sem
í brekkunni söng,
bjarmann frá varðeld’
er logaði um kvöld.
Sló töfrandi ljóma yfir andlitið þitt,
ég fékk að halla þér í fangið mitt.
Mig langar að upplifa allt
aftur með þér.
Aftur þér hlýja í fanginu á mér.
Horfa í augu þín brosmild og hlý,
hönd þína leiða um Dalinn á ný.
Um ókomin ár vil ég dvelja hjá þér,
á eyjunni fögru sem ól þig af sér.
Sjá flugelda springa
já, glitra sem foss,
fá kannski hjá þér einn dýrlegan koss.
Dætur dalsins
Það er síðan Þjóðhátíðarlagið 1977
„Dætur dalsins“ sem lokar plötunni
með miklum krafti. Sigurður
Óskarsson samdi lagið og Snorri
Jónsson textann.
„Við Siggi Óskars hittumst á götu í
sumarbyrjun og auðvitað barst
þjóðhátíðin og þjóðhátíðarlag í tal.
Við ákváðum að senda inn lag og
texta. Um kvöldið var Siggi tilbúinn
með lag og kom því til mín. Ég
hnoðaði saman texta svona í anda
þjóðhátíðarinnar og við vorum
búnir að skila þessu inn kvöldið
eftir“ sagði Snorri um tilurð lagsins.
„Ég skal alveg viðurkenna að það
hefði mátt leggja meiri vinnu í þetta
og snurfunsa það til en þrátt fyrir
fljótaskriftina unnum við. Textinn
fjallar um draum ungu strákanna á
sjónum um fallegu Eyjaskvísurnar
sem fylltu Dalinn þessar ágúst
nætur. „Þá dreymir um Dalinn og
dæturnar, dansinn og björtu
næturnar.“ Texti og lag eru auðlærð
og að ég held að stöffið sé vel
brúklegt til söngs í tjöldum,“ sagði
Snorri að lokum.
Sonur Sigurðar, Óskar flytur lagið
eins og honum er einum lagið.
Þó víða um heiminn liggi leið,
ber ljúfa ágústnóttin seið.
Hún fyllir alla ferskri þrá,
því dætur Dalsins Ejaskeggjar dá.
Okkar Herjólfsdal,
þennan fagra fjalla sal.
Þar er fjör og líf,
er fögnum við þar saman þjóðhátíð.
Sama hvert menn sigla um sjá,
er sjómannshjartað flutt af þrá.
Þá dreymir Dalinn og dæturnar,
ástina og bjartar næturnar.
Og sjómenn bátum sigla heim,
það sýður þrá í mönnum þeim.
Þeir þrá með svanna að svífa í dans,
syngja um Dalinn fagra og dætur hans.
Diskurinn verður fluttur í heild
sinni á útgáfutónleikum í Höllinni
á föstudagskvöld. Aðgangur er
ókeypis og opnar húsið kl. 20.00.
Helgi Rasmussen Tórshamar.
Sævar Helgi Geirsson
Ágúst Óskar Gústafsson.
Helena Pálsdóttir.
Sigurjón Ingólfsson.
Snorri Jónsson.
Kolbrún Harpa Kolbeinsdóttir.
Guðjón Weihe.
Sigurður Óskarsson.
Hafdís Víglundsdóttir.