Fréttir - Eyjafréttir - 29.06.2016, Side 20
20 Eyjafréttir / Miðvikudagur 29. júní 2016
Hlöðver Guðnason, eða Hlöbbi
Guðna eins og hann er oftast
kallaður var rétt að verða 16 ára
þegar gosið í Heimaey hófst og
bjó í foreldrahúsum á Búa-
staðarbraut 1, þessa örlagaríku
nótt.
,,Við áttum heima á Búastaðabraut-
inni, ca 700 metra frá upphafi
eldgossins. Þetta var alveg mögnuð
nótt og sennilega hefur engin nótt
verið eins afdrifarík fyrir mig og
okkur Eyjamenn. Kvöldinu hafði ég
eytt með vinum mínum niður í bæ.
Við Kalli Sveins löbbuðum saman
heim og sátum svo góða stund á
spjalli á horninu á Búastaða- og
Helgafellsbraut. Veðrið var fínt og
væntanlega höfum við verið að
spjalla um tónlist, fótbolta og
enskuprófið daginn eftir. Pabbi og
mamma voru í afmæli hjá Þórsteinu
ömmu sem átti 69 ára afmæli og bjó
hjá Óla og Maddý við endann á
Búastaðabrautinni. Ágústa systir
var að passa hjá Stjána og Emmu
enda öll Þingholtsættin í afmælinu
og flestir í landi vegna veðurs
daginn áður.
Kvöldið fór svo í að koma Óla og
Victori í svefninn og lesa svo undir
enskuprófið.”
Helgafellið ljómaði
í gullnum litum
Hlöbbi segir að fljótlega eftir að
heim var komið hafi farið að bera á
hristingi og einhverjum skjálftum.
,,Ég var uppi á efri hæðinni og
bræðurnir voru sofandi niðri. Ég
man eftir þremur stórum skjálftum
og hafði áhyggjur af hansahillunum
mínum sem voru fyrir ofan rúmið
mitt og að það gæti hrunið úr þeim.
Stærsti kippurinn kom rétt rúmlega
kl 01:00 um nóttina. Ég var með
opið fyrir útvarpið hjá mér og var
að hlusta á Radio North Sea sem
var aðal músíkstöðin hjá mér.
Fréttirnar kl 01:30 um nóttina voru
aðallega um Lyndon B. Johnson
forseta USA og hafði hann fengið
hjartaáfall og verið fluttur á
sjúkrahús. Sennilega er ég búinn að
hlusta á tvö lög eftir fréttirnar að ég
heyri hljóð eins og bíll sé að keyra
upp Birkihlíðina. Hugsaði og hélt
að þetta væri vörubíll en alltaf
hækkaði hljóðið. Var farinn að bíða
eftir því að hann myndi skipta um
gír. Áfram hélt hávaðinn og það
endaði með því að ég fór framúr
rúminu til að kíkja út. Sá ekkert úr
suðurglugganum í herberginu mínu
þannig að ég fór og kíkti út um
norðurgluggann í holinu. Horfði ég
þá yfir Ásaveginn og með Heima-
klett á bakvið. Fannst skrítin gullin
birta vera yfir öllu og á Heimakletti
og þessi hávaði var orðinn tölu-
verður og skrítinn titringur undir
öllu. Fór síðan yfir í herbergið mitt
aftur og kíkti út um gluggann sem
er með útsýni upp í Helgafell.
Helgafellið ljómaði í gullnum lit og
svo þegar ég leit í austur eftir
Búastaðabrautinni sá ég að eldgos
var byrjað.”
Stórkostlegasta sjón sem ég
hef upplifað
Hlöbbi segir þessa sjón hafi verið
eitthvað það stórkostlegasta sem
hann hafði upplifað. ,,Ég var svo
hissa að ég hef sennilega verið
bergnuminn í nokkrar mínútur áður
en ég gat nokkuð gert. Loksins
þegar ég náði að rífa mig frá þessu
var að koma Victori og Óla í föt og
okkur út úr húsinu. Það var ekki
mikil hræðsla hjá okkur en ég vildi
koma okkur frá eldgosinu og fara
niður í bæ. Þegar við erum komnir
út á stétt koma pabbi og mamma
keyrandi heim. Þarna stóð ég með
bræðurna og útvarpið mitt.
Pabbi og mamma höfðu tekið
bryggjurúnt eftir afmælið og voru á
leiðinni heim þegar þau sjá
bjarmann austur frá og héldu að það
væri kviknað í einhverju húsi. Pabbi
keyrði upp á Nýjabæjarbraut til að
skoða þetta betur og þau sjá þá að
eldgos er að byrja og jörðin að rifna
upp.”
Einn skellti á mig hurðinni
,,Við brunuðum vestur á Illugagötu
til Stjána og Emmu þar sem Ágústa
var að passa.
Ég var þá sendur í nærliggjandi hús
á Illugagötunni til að vekja upp fólk
og láta vita að eldgos væri hafið.
Það voru mismunandi viðbrögð við
því að maður væri að vekja upp
fólk um miðja nótt. Einn skellti á
mig hurðinni og bað mig vinsam-
legast að hætta þessu bulli með
eldgos. Það þurfti smá hörku í að
halda áfram að banka og dingla á
bjöllunni og fá manninn vinsam-
legast til að kíkja austur fyrir húsið.
Það var mikið þakklæti þá. Það var
ótrúlegt að sjá hvað eldsprungan
hafði teygt sig í báðar áttir til suðurs
og svo til norðurs á nokkrum
mínútum. Það var mikill ótti hjá
fólki sem sá þetta frá Illugagötunni
og sumir héldu að einhverjir hefðu
farist. Man sérstaklega eftir einni
konu sem lá á Illugagötunni og
hágrét og hélt að stór hluti af
austurbænum hefði farist.”
Við sigldum inn í nóttina í átt
að óvissunni
Hlöbbi segir að fólk hafi fljótt áttað
sig á því að það þyrftu allir að
yfirgefa Eyjuna.
,,Við pabbi fórum saman upp á
Búastaðabraut til að ná í skó og föt.
Þá nötraði allt í húsinu og skalf og
gríðarlegur hávaði, og ekki laust við
að maður væri töluvert skelkaður.
Við fórum síðan niður á bryggju og
um borð í Berg Ve. Man sérstaklega
vel eftir siglingunni út úr höfninni
og öskunni sem féll niður. Gos-
sprungan var komin niður undir sjó
og örugglega var komið smá
neðansjávargos utan við Klettinn.
Skipið var fullt af fólki og frekar
leiðinlegt í sjóinn. Ég hékk uppi í
og við stýrishúsið enda ekkert vit í
að vera niðri í borðsal þar sem allt
var orðið þéttsetið og farið að bera
á sjóveiki. Kvöldið endaði aftur á
skut og þar sátum við saman
þögulir ég og Raggi „Gull“
Jóhannesar. Við reyndum að spá í
framtíðina. Það var ótrúleg sjón að
sigla frá Vestmannaeyjum við
þessar aðstæður og horfa á
gossprunguna yfir Eiðið. Við
sigldum inn í nóttina í átt að
óvissunni.”
Húkkuðum okkur far til Eyja
á þriðja degi gosins
Tíminn á meðan á gosinu stóð var
erfiður að Hlöbba sögn. ,,Pabbi var
allan tímann í Eyjum að vinna í
mötuneytinu á Gagnfræðaskólanum
enda mikið björgunarstarf í gangi
og fjöldinn allur að sjálfboðaliðum
og fólki á vegum Almannavarna.
Við Halli Geir húkkuðum far
með Strandferðaskipinu Heklu til
Eyja 25. jan á þriðja degi gossins úr
Þorlákshöfn og upplifði ég nokkra
daga við að tæma hús og sækja
búslóðirnar hjá ömmu, Óla og
Maddý og hjá Kristni Páls og svo
heima. Ég náði í plötusafnið mitt
sem mér þótti mjög vænt um. Hitti
Snorra Hafsteins sem fór með okkur
í jeppabíltúr um austurbæinn þar
sem við horfðum á skelfilegar
afleiðingar eldgossins og brennandi
hús. Hitti Tóta í Turninum og Lauga
á Búr sem voru að tæma sjoppurnar.
Þetta var mjög skrýtið og fáránlegar
aðstæður.”
Ótti, flækingur og óöryggi
Fjölskylda Hlöbba var á flækingi til
að byrja með. En síðan fluttust þau
öll í Hafnarfjörðin, þar sem Hlöbbi
sótti skóla í Laugalæk í Laugar-
dalnum.
,,Þetta var mikið óöryggi og
stanslaus flækingur og ótti við að
fara aldrei aftur til Vestmannaeyja.
Fréttirnar af gosinu í frekar miklum
hasarstíl og ýjað að því að ekki yrði
búandi þarna meira og Eyjan gæti
sprungið og fl. Fyrir mig voru þetta
mikil viðbrigði, flest allir vinirnir
og árgangurinn sundurtættur um allt
landið og höfuðborgarsvæðið og
samskiptin lítil. Mér fannst ekki
gaman að þurfa að vakna kl 06:30
til að fara í strætó niður í Laugarlæk
í skólann og eyða 2-3 klukkustund-
um í strætó við það að koma og fara
í skólann. Eitthvað sem tók 10
mínútur í Eyjum. Því síður að búa
með nágranna í blokk sem sífellt
kvartaði undan hávaða. Var hálf
ættleiddur til Gísla og Viggý enda
mikið með Jónasi Gísla þetta árið á
Selbrekkunni.”
Fór í hreinsunargengið um
sumarið
,,Hugurinn var stanslaus við
Eyjarnar. Við vinirnir Kalli Sveins,
Halli Geir, Bjartey Sigurðar og
Halla Svavars stálumst til Eyja á
tuðru um páskana, sigldum frá
Þorlákshöfn á föstudeginum langa í
kringum 20. apríl. Mikil ævintýra-
ferð. Síðan var ég kominn á
Emmuna hjá Stjána um sumarið og
alltaf vorum við við Eyjarnar. Síðan
komst ég í hreinsunargengið í
vaktavinnu um sumarið og fram í
lok ágúst. Þá vorum við mest að
hreinsa við Túngötuna og það
svæði. Þetta var mikið ævintýri og
oft mikið fjör hjá okkur í hreinsun-
argenginu og mjög sérstakar
aðstæður hjá okkur í Eyjum. Á
meðan var ég í litlu sambandi við
fjölskylduna, pabbi í Eyjum og
mamma í Reykjavík. Var þá mikið
uppi á Saltabergi og þar var
stanslaus gestagangur í kringum
Súlla. Þá vorum við mikið sama
Siggi Óla á Stapa og Halli Geir og
mikið brallað. “
Aðstæðurnar í Eyjum erfiðar
fyrst eftir gos
Fjölskylda Hlöbba fluttist svo til
Eyja í október 1973 en þá var
Hlöbbi byrjaður í Flensborgarskóla
og búinn að vera rúman mánuð.
,,Fyrir mig var þetta ágætt og var
búinn að vera mikið í Eyjum um
sumarið. Það var gott að fá flesta
vinina og skólafélagana en
aðstæðurnar voru erfiðar í Eyjum.
Öll þjónusta löskuð og fyrirtækin
að koma sér fyrir aftur eftir þessar
hamfarir og allt frekar draugalegt.
Mörg hús yfirgefin og lítil lýsing og
svart yfir að líta. Það vantaði mikið
af fólki sem kom ekki aftur og
árgangarnir eins og 56 – 57- 58 þar
sem ég þekkti marga voru mjög
tvístraðir. Samt gaman og gott að
finna samtakamáttinn um að hreinsa
og byggja aftur upp Eyjarnar. Við
gátum ekki flutt á Búastaðabrautina
enda allt á kafi í ösku og húsin illa
farin. Við fluttum nokkrum sinnum
í Eyjum, en fluttum svo að lokum
upp á Smáragötu 1975. Á þessum
tæpum tveim árum fluttum við 9
sinnum. “
Á goslokum finnur maður
Eyjahjartað slá
Í dag býr Hlöbbi í höfuðborginni en
segist alltaf reyna að mæta á
goslokahátíð á hverju ári og stefnir
að því að láta sjá sig ár. ,,Þetta er
svo skemmtileg hátíð og eiginlega
ómissandi. Þarna finnur maður
Eyjahjartað slá. Vera kominn heim
til Eyja og upplifa mannlífið og
þessa einstöku Eyjastemmingu.” En
er eitthvað sem mætti fara betur
þegar kemur að þessari hátíð ?
,,Það er mjög mikilvægt að passa
upp á að halda og sýna þeim
virðingu sem byggðu Eyjuna upp
aftur. Það mætti einnig vera meira
sýnilegt hverjir hjálpuðu okkur og
gáfu aðstoð til uppbyggingar og
hjálpar og svo mætti draga betur
upp þær hetjur sem fóru í gegnum
þessa erfiðu 6-10 mánuði eins og
mæðurnar sem voru fjarri með
fjölskyldurnar og biðu á hliðar-
línunni í ótta um hver framtíðin
væri með Vestmannaeyjar. Síðan
var það ekki allra að flytja til baka.
Örugglega erfitt fyrir þá sem misstu
allt. Við þurfum að passa upp á
sögurnar og upplifanir þeirra sem
þarna voru. Eftir 20-30 ár verða
ekki margir á lífi sem upplifðu
þessa tíma” segir Hlöbbi að lokum.
Hlöðver Guðnason :: Erfiðir tímar tóku við :: Fjölskyldan var mikið á flækingi til að byrja
með :: Ótrúleg sjón að sigla frá Eyjum gosnóttina :: Hjartað slær alltaf í Eyjum
Enginn nótt verið eins
afdrifarík fyrir Eyjamenn
SædÍS EVa BirGiSdÓTTir
seva@eyjafrettir.is
Hlöbbi ásamt eiginkonu sinni Ólöfu Svövu.
Æskan í Eyjum var Hlöbba góð.