Fréttir - Eyjafréttir

Útgáva

Fréttir - Eyjafréttir - 21.12.2016, Síða 33

Fréttir - Eyjafréttir - 21.12.2016, Síða 33
33Eyjafréttir / Miðvikudagur 21. desember 2016 Orri Harðarson hóf feril sinn sem tónlistarmaður og árið 1993 fékk hann Íslensku tónlistar- verðlaunin sem nýliði ársins fyrir plötu sína Drög að heimkomu. Hann lét fyrst að sér kveða sem rithöfundur þegar hann skrifaði Alkasamfélagið, sem fjallar um viðbrögð við alkóhólisma, og 2014 kom hann með fyrstu skáldsögu sína. Það var Stund- arfró sem fékk mikið lof. Nú tveimur árum síðar koma Endurfundir sem staðfesta að Orri Harðarson er kominn til að vera sem rithöfundur. Bókin er leiftrandi skemmtileg og vel skrifuð en einnig hrífandi lýsing á manni sem reynir að fóta sig í lífinu. Orri las upp úr henni á Safnahelgi í haust. Sagan gerist á Akranesi við aðstæður sem Eyjamenn þekkja vel. Hér birtist kafli úr bókinni. Saga útgáfa gefur út. Rútan nemur staðar við æpandi rautt frystihúsið. Ég veit ekki hversu lengi það fær að vera þannig. Við samrunann í vor var ákveðið að mála öll hús hins nýja hlutafélags í einum og sama ljósa litnum. HB mun þá harmónera við hitt frystihúsið. Fölhvítan Heima- skaga. Á milli þeirra stingur brúnleit og lágreist Axelsbúðin í stúf líkt og olnbogabarn sem neitar að láta sig hverfa. Sumt breytist sem betur fer aldrei. Þangað fer ég oft í kaffi- pásum og fæ mér ískalt kók úr fagurrauðum forláta kæli. Og súkkulaði með. Í síðustu viku var útrunnið Toffee Crisp á sérstökum afslætti. Annars tekur maður yfirleitt Prins póló. Fleiri en eitt. Afgreiðslumennirnir klæðast bláum sloppum. Það er traustvekjandi. Stendur fyrir fagmannlega nálgun. Ekki veitir af. Þeir höndla með allt milli himins og jarðar. Eins og Ebbi krunk um árið. Verst hvað hann var örlátur, karlgreyið. Og fávís. Fattaði ekki að peningar eru hreyfiafl alls. Mér hefur lánast að leggja aðeins fyrir í sumar. Jafnframt hef ég greitt mánaðarlega af nýju skuldabréfi sem Baukurinn sansaði. Undir það féllu allar syndir Ameríkuævintýris. Aftur skrifaði pabbi undir, nú með Esjubrautina að veði. Það var léttir að gera upp við LÍN og koma loks skuldum undir einn hatt. En staðan er þröng eftir sem áður. Hefur í sjálfu sér ekkert breyst. Vistarbundinn og átthagafjötraður aumingi, enn í foreldrahúsum. Á ekkert betra skilið eftir endalausa afleiki í tilverunni. Mamman hafði trú á syninum Mamma lagði reyndar hart að mér að sækja um kennaranámið fyrir haustið. Hún sagði meira að segja að þau pabbi væru reiðubúin að borga af skuldabréfinu meðan ég kæmi undir mig fótunum í Reykja- vík. Síðan gæti ég vafalaust fengið einhverja vinnu þar með skólanum og látið ný námslán duga fyrir leigu og mat. Ég lagði ekki í það. Höfuðstaður- inn freistar ekki frekar en fyrri daginn. Mig hryllir enn við hvers kyns skólagöngu eftir klúðrið úti í New York. Þá var tilhugsunin um kvöldvaktir við þjónustustörf eða umönnun vangefinna lítt spennandi. Maður er yfirhöfuð hvorki bógur né boðlegur í annað en heilalausa dagvinnu. Tolldi ekki einu sinni á leigunni nema í þrjá mánuði. Lúlli rak mig eftir að upp komst um ítrekaðar ferðir mínar út á Fóló. Mig svengdi jú stundum á síð- kvöldum. Ég fór samt ekki yfir ef einhver var inni á leigunni. Og aldrei stóð hún opin án eftirlits nema í nokkrar mínútur í senn. Það gat ekki verið hundrað í hættunni. En helvítið hún Marsibil var alltaf úti í glugga og færði þá samvisku- samlega til bókar hverja einustu sjoppuferð. Hún var víst komin upp í einhver fimmtán skipti þegar Lúlli féllst loks á að yfirheyra mig. Niðurlæging á vídóleigu Eitthvert kvöldið kom hann á náttsloppnum með upphitaða kjötsúpu í boxi og spurði hvort ég vildi ekki nærast svolítið. Þau hjónin hefðu verið að velta því fyrir sér hvort ég yrði aldrei svangur á vaktinni og vildu sýna lit með því að gauka að mér einhverju í gogginn. Í beinu framhaldi spurði hann hvort ég hefði aldrei freistast til að skilja leiguna eftir mannlausa og skreppa út í sjoppu. Þetta gerði hann í grunsamlega gamansömum tón og án þess að minnast á persónunjósnir konu sinnar. Viðbrögð mín gátu vart orðið yfirdrifnari. Ég fórnaði höndum og fussaði. Sagðist hálfglottandi aldrei geta hugsað mér að tefla á tvær hættur með það sem væri mér kærast í lífinu. Hann ætti að vita það manna best hve mikils ég mæti þessa leigu. Lúlli tók niður gleraugun, alvarlegur í bragði. – Ertu alveg viss í þinni sök, lagsmaður? Ég þóttist ekki eiga eitt aukatekið. Eins og mamma. Lýsti síðan yfir sárum vonbrigðum með svona tilhæfulausar aðdróttanir. Sagðist bara ekkert botna í þessu. – Það sást til þín, rumdi Lúlli. Þá ákvað ég að sýna lit og þykjast skyndilega muna eftir því að hafa rétt einu sinni skotist út í sjoppu. Það hefði varla tekið meiri tíma en venjuleg klósettferð. Þess utan hefði Mundi móðurbróðir verið staddur inni á leigunni og lofað að líta til með öllu meðan ég skryppi frá. Lúlli mændi sjóndöprum augum á mig, vonsvikinn að sjá. – Jæja, lagsmaður. Það nær þá ekki lengra. Þú þarft ekkert að klára þessa vakt hérna. Ég verð að láta þig fara, andvarpaði hann og setti gleraugun aftur upp. – Eins og ég kunni vel við þig, Ágúst. Meðal-Jón Sjaldan hef ég skammast mín eins mikið. Og síðan ekki þorað inn á leiguna. Fór bara eins og hver annar tækifærissinni að skipta við þá nýrri og stærri þar sem apótekarasonur úr Reykjavík ræður ríkjum. Jón Magnússon. Ómaklega uppnefndur Meðal-Jón. Hann er að vísu fremur líflaus karakter. Grannleitur, fölur og lyfjalegur til augnanna. Hjáróma röddin eins og af Veðurstofunni. Svo hefur maðurinn nákvæmlega ekkert vit á bíó-myndum. Þeir Lúlli eiga það sameiginlegt. Leiga gamla mannsins hafði samt sjarma. Karakter líkt og karlinn sjálfur. Myndbandaútgerð Meðal- Jóns er algjörlega laus við slíkt, með drapplituðum gólfdúk, iðnaðarhvítum veggjum og verksmiðjuköldum álrekkum undir ræmurnar. Innan um mannhæðarháa kæliskápa stendur sviplaus vofan í afgreiðslunni, grá og guggin við L-laga búðarborð úr gleri. Að utan rímar öskugrátt steinhúsið ágætlega við litleysið innra. Fellur og fullkomlega að umhverfinu. Stuðar vart nokkurn sem vanur er draugalegu stóriðjubákninu í grenndinni. Verra með nafnið á leigunni, neonlýst ofan við útidyrnar. Draumalandið. Reyndar má skilja það á aðra vegu en ætlast er til. Og þá fyrst meikar það sens. Annars er náttúrlega draumur að geta keypt nammi um leið og maður nær sér í spólu. Verst að Lúlli skyldi ekki átta sig á því. Hjá Meðal-Jóni hefði ég aldrei þurft að bregða mér frá. Úrvalið er ærið. Ég þori samt ekki fyrir mitt litla líf að sækja þar um vinnu. Allt spyrst út á Akranesi. Samtaka hendur halda bónusnum uppi Ég er kominn í frystihúsið og held beinustu leið upp til að stimpla mig inn. Stafræn klukkan segir 07:53. Sjö mínútur til stefnu. Þá fer allt á fullt. Samtaka hendur halda bónusnum uppi. Hér er ekkert rúm fyrir liðleskjur. Þú ferð ekki í símann eða á klósettið nema erindið sé nánast sögulega brýnt. Eitt sinn varð barnsfæðing uppi. Sveinn sagði mér að Bára hans Gulla í Blikkinu hefði ekki mátt vera að því að bregða sér frá. Þetta var löngu fyrir mína tíð. Og sjálfsagt fært í stílinn. En sagan undirstrikar alvöru málsins. Pásurnar eiga að dekka flestar mannlegar þarfir. Fyrst kemur sjö mínútna sígópásan. Sérstaklega var reiknað út hversu lengi menn væru að reykja. Því næst hálfrar stundar langur kaffitími. Þá situr fólk á skrafi í borðsalnum og grípur jafnvel í spil. Fljótlega tekur Rás eitt yfir og kvenfólkið stendur upp til að taka þátt í morgunleikfimi Halldóru Björnsdóttur. Klukkustundu síðar er önnur örstutt pása. Síðan hádegishlé. Þá halda sumir aftur upp í borðsal og setja kannski eitthvað í örbylgjuna. Flestir vilja þó frekar heim í mat. Enn aðrir fara á rúntinn og fá sér eina eða tvær með öllu í Hafnar- sjoppunni. Ég er einn þeirra. Á reyndar ekki bíl en get oftast reitt mig á tvo úr hópi samstarfsmanna minna. Handarkrikamorðinginn Báðir eru einstæðingar á svipuðum aldri og ég. Alltaf á rúntinum. Annar þeirra er Handarkrikamorð- inginn, heldur betur glaður að sjá mig í slorinu. Enn veit ég ekki alveg hvort ánægjan er gagnkvæm. Í öllu falli var áhugaverðara að endurnýja kynnin við hinn náungann. Kostulegan Tóta fæðingarhálfvita. Hann hef ég líka þekkt lengi. Við vorum að vísu aldrei félagar. Meira svona málkunnugir. Tóti er árinu yngri og af efnalitlu fólki á Presthúsabrautinni. Harlem Akraness, steinsnar frá háskalegri Ægisbraut sem einhvern andstyggi- legan janúarmorgun unglingsáranna fór næstum öll undir sjó. Húsin í Harlem sluppu flest fyrir horn. En í eigin götu eirði Ægir konungur fáu. Sagan segir að þennan hrollkalda morgun hafi Fæðingarhálfvitinn hlaupið út á nærbuxunum einum fata til að bjarga seðlaveski sem hann hafði stolið frá móður sinni og falið bak við Vélaleigu Birgis. Kom svo að tómum kofanum. Horfnum, öllu heldur. Sjórinn jafnaði húsið við jörðu. Í fjárþröng hafði Tóti hugsað sér umbun fyrir að finna veskið á förnum. Þannig var hann ævinlega að skapa tilefni til að bæta tíma- bundið stöðu sína í flárri veröld. Lái honum hver sem vill. Verst hvað það lukkaðist yfirleitt illa. Var skyndilega orðinn sjóveikur Eftir misheppnað ár í fjölbrautinni, þar sem Fæðingarhálfvitinn varð ítrekað uppvís að ritgerðastuldi og allra handa falsi, fékk hann pláss á Höfðavíkinni AK-200. Þá var loks hægt að afla einhverra tekna fyrir alvöru þó að líkamlegt erfiðið væri honum skiljanlega ekki að skapi. Sjóhraustur með afbrigðum lék hann á als oddi meðan siglt var á miðin. Sagði brandara og hafði uppi alls kyns skemmtiatriði í mess- anum, áhöfninni til óblandinnar gleði. Tóti gat nefnilega verið hrókur alls fagnaðar og vildi raunar ekkert fremur. Trúðshlutverkið var hans leið til að falla í kramið. Þegar fiskveiðar hófust urðu nýfengnar vinsældir fljótt að engu. Tóti þóttist skyndilega orðinn sjóveikur og lá ýmist fyrir eða dvaldi löngum stundum inni á ólæstu salerninu. Þaðan heyrðust gjarnan skelfileg hljóð uppkasta og eitt sinn svo lengi að áhyggjufullur skipstjórinn ákvað að athuga með drenginn. Hann lauk upp dyrum og fann þá opinmyntan Fæðingarhálfvitann í miðri óhljóðaroku en annars mestu makindum með teppi milli sitjanda og klósettloks. Og klámblað í hendi. Ævareiður skipstjórinn rak hann á staðnum, fyrst út á dekk en litlu síðar alveg úr starfi. Þetta djöfulsins fífl væri bara fyrir. Einelti Ég hef alltaf vorkennt Tóta. Og aldrei fengið mig til að taka undir uppnefnið í heyranda hljóði. Veit ekki einu sinni hvernig það kom til. Það var tæpast til sérstakrar aðgreiningar frá öðrum Tótum hér í bæ. Enginn þeirra stígur beinlínis í vitið. En einhverra hluta vegna hefur karlgreyinu verið strítt frá blautu barnsbeini. Oftar og meira en öðrum Akurnesingum. Það var eftir fótboltaæfingu í fimmta flokki sem ég fyrst sá hversu illa var með hann farið. Þrír strákar héldu honum háskælandi niðri meðan fjórði pissaði framan í hann. Enginn okkar hinna skarst í leikinn. Einhverjir stöldruðu við og hlógu að aðförunum en ég var einn þeirra sem litu undan og létu sig hverfa. Áður hafði maður heyrt eitt og annað. Eitthvað satt, annað ýkt eða logið. Fræg er sagan af því þegar amma hans og afi komu heim úr utanlandsferð og færðu níu ára gömlu barna-barninu Súperman- búning að gjöf. Þau bjuggu þá á þriðju hæð í blokkinni við hliðina á Villu. Skipti engum togum að Tóti skellti sér alsæll í búninginn og beint út á svalir með fyrirsjáan- legum afleiðingum. Til allrar hamingju lenti hann á grasi. Slapp með handleggsbrot og heilahristing. Af almannarómi mátti ráða að brotið væri sýnu alvarlegra. Hitt gæti varla gert svo mikið til nema síður væri. Egill ekki-lögga Tóti er systursonur Egils ekki-löggu og álíka ólánlegur. Marflatur í framan eins og frændinn. Öllu renglulegri þó. Og alltaf með hor. Eflaust hefur ekki verið auðvelt að vaxa úr grasi með Egil sem fyrirmynd. Þeir voru gjarnan saman á rúntinum í denn. Á Svörtu-Maríu. Bæjarbúum til áhorfs og aðhláturs. Það var samt ekki alls kostar ónýtt að tengjast Agli. Margur pörupiltur- inn óttaðist Ekki-lögguna sem oft skakkaði leikinn þegar Tóti litli komst í hann krappan. Síðar komst þó föðurbróðirinn á snoðir um almennan óheiðarleika og vafasamt atferli frænda síns. Það var laganna verði áfall þótt sjálfskipaður væri. Steininn tók svo úr þegar Fæðingar- hálfvitinn falsaði ávísanir í nafni frænda síns. Þá fékk Ekki-löggan endanlega nóg og sór af sér augljós venslin. Við Tóti erum tvíeyki í vélasaln- um. Hann afhausar en ég flaka. Þorsk, ýsu eða ufsa. Svo koma dagar á karfavél. Þá raða ég þeim rauða í hólf meðan hann stendur vaktina neðan við; fylgist með flökunum renna í gegn og grípur til goggsins ef fiskurinn festist. Mér finnst bara fínt að vinna með Fæðingarhálfvitanum. Hann heldur sig yfirleitt á mottunni undir vökulum augum verkstjórans. Missir sig sjaldnast út í einhverja vitleysu. Eins gott. Dagdraumar við flæðilínu Ábyrgð okkar er mikil. Flæðið inn á línuna þarf að vera jafnt og stöðugt. Hvorki má tæmast né fyllast uppi í vinnslusal, annars verða kelling- arnar snarvitlausar. Og bónusinn fellur. Þetta er hárfín jafnvægiskúnst. Dagdreyminn á ég til að detta út. Tóti er mér enginn eftirbátur í þeim efnum. Stundum sést hann í hrókasamræðum við sjálfan sig uns sælubros færist skyndilega yfir ólánlegt andlitið. Þá er minn maður kominn með einhverja stórkostlega hugmynd. Hagnaðarvon, venju samkvæmt. Iðulega verða þær vonir hans að engu. Í ferlinu er alltaf eitthvað sem klikkar. Tóti er rétt rúmlega tvítugur en löngu kominn á sakaskrá. Hann sat einhverja mánuði af sér syðra og er nú á skilorði, skilst mér. Hlaut dóm fyrir fjársvik og skjalafals. Sagan segir raunar að síðast hafi Fæðingarhálfvitinn reynt að greiða dómsekt með falsaðri ávísun. Æ, þetta er samt meinleysisgrey. Við Halli höfum allavega gaman af því að hanga með honum í pásum og svona. Ýkjusögurnar og óraunhæf áformin eru kærkomin tilbreyting frá baknagi og barlómi annarra hér í húsinu. Tóti er krydd í tíðindalausa tilveruna. Fær mann til að hlæja og gleyma. Slíkt er ómetanlegt í einmanalegum heimi þar sem ástin á sífellt erindi við aðra. Kafli úr bók Orra Harðarsonar: Endurfundir

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.