Morgunblaðið - 26.07.2019, Page 19
sagt að enginn færi yfir í þessu
veðri en Bjössi hlustaði nú ekki á
það. Lét sko ekki „smá snjó“
stoppa sig, heldur settist upp í
Löduna og bjargaði þessu. Hon-
um leiddist heldur ekki að fá að
brasa á bílnum og á sama tíma ná
að hræða úr mér líftóruna á leið-
inni yfir heiðina.
Nú er hann horfinn frá okkur
langt fyrir aldur fram, þessi góði
maður, og eigum við eftir að sakna
húmors hans og hláturs.
Elsku Inga Magga mín, við
sendum þér og fjölskyldunni allri
okkar innilegustu samúðarkveðj-
ur. Minningin um einstaklega
traustan mann mun lifa í hjörtum
okkar um ókomna tíð.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma
um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Sigríður Rósa Valgeirs-
dóttir og fjölskylda.
Nú á miðju sumri þegar Skaga-
fjörðurinn skartar sínu fegursta
og miðnætursólin læðist yfir fjörð-
inn, þá kvaddi vinur okkar Sigur-
björn Skarphéðinsson þetta líf eft-
ir snarpa og erfiða viðureign við
illvígan sjúkdóm. Bjössi eins og
hann var alltaf kallaður og Inga
Magga kona hans byggðu sér hús
við Brennihlíð 4, beint á móti okk-
ar húsi, og áttum við þarna ynd-
islega nágranna í fjóra áratugi.
Bjössi var einstakt ljúfmenni sem
gaman var að ræða við og oft þeg-
ar við hittumst voru málin, sem
efst voru á baugi í það og það
skiptið, rædd og lausnir fundnar
að okkar mati. Stundum var sest
upp í jeppana og brunað fram á
fjöll eða vélsleðarnir teknir fram
og farið upp í Trölla eða eitthvað
annað í góðra vina hópi. Bjössi var
mikill fjölskyldumaður og átti
samhentan barnahóp sem hann
var mjög stoltur af og veittu þau
honum mikinn stuðning nú á þess-
um síðustu vikum. Ungur að árum
fékk Bjössi sér traktorsgröfu sem
hann gerði út og var það hans að-
alstarf alla tíð. Hann var gröfu-
maður af guðs náð; sama hvaða
verkefni voru lögð fyrir hann, öll
voru þau leyst með sóma. Seinna
fjölgaði vélunum og átti hann flest
tæki, sem þurfti til að vinna
smærri verk og var hann mjög eft-
irsóttur í vinnu. Hann var fljótur
að lesa í verkefnin og vann þau af
nákvæmni og frágangur var hans
sérgrein. Það varla sást að hróflað
hefði verið við jarðveginum þegar
frágangi lauk, enda Bjössi sér-
stakt snyrtimenni sem sást best á
vélunum hans, þær voru alltaf eins
og nýjar. Oft lágu leiðir okkar
saman í vinnu; hann á gröfu og ég
á vörubíl við margvísleg verkefni.
Mörg þeirra voru krefjandi, en
Bjössi hafði svör við hinum ýmsu
uppákomum og allt hafðist þetta
að lokum. Það er gott að vinna
með svona mönnum. Nú er sólin
hans vinar okkar gengin til viðar
allt of snemma, en enginn ræður
sínum næturstað. Hann var einn
hlekkur í skagfirsku lífskeðjunni
og sá hlekkur verður vandfundinn
aftur. Við kveðjum Bjössa vin okk-
ar með virðingu og þökk fyrir allt
og allt, vináttuna, samstarfið og
alla skemmtilegu samveruna í
gegnum árin, og biðjum góðan
Guð að leiða hann inn í sumarland-
ið.
Á kveðjustund er þungt um tungutak
og tilfinning vill ráða hugans ferðum.
Því kærum vini er sárt að sjá á bak
og sættir bjóða Drottins vilja og
gjörðum.
En Guðs er líka gleði og ævintýr
og góð hver stund er minningarnar
geyma.
Farðu vel, þér fylgir hugur hlýr
á ferð um ljóssins stig, og þagnarheima.
(Sigurður Hansen)
Elsku Inga Magga, Guðbjörg,
Efemía, Jón Geir og fjölskyldur.
Innilegar samúðarkveðjur á
þessum erfiðu tímum, en minning-
in um yndislegan mann mun lifa
með okkur.
Sigurbjörg (Sibba) og
Jón (Nonni).
MINNINGAR 19
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 26. JÚLÍ 2019
✝ Ásdís ÍshólmÓlafsdóttir
fæddist á Selfossi 7.
október 1968. Hún
lést 19. júlí 2019 á
líknardeild Land-
spítalans.
Foreldrar henn-
ar eru Ólafur Ís-
hólm Jónsson, f. 1.
ágúst 1939, og
Katrín Erla Gunn-
laugsdóttir, f. 8.
júní 1946. Systur Ásdísar eru:
Auður, f. 11. maí 1967, maður
hennar er Guðlaugur Stefánsson,
f. 14. október 1965, börn þeirra
eru Aníta, f. 6. mars 1987, og
Stefán Ragnar, f. 19. mars 1991;
Dagný Björk, f. 25. júlí 1973,
maður hennar er Gunnar Bragi
Þorsteinsson, f. 21. október 1971,
börn þeirra eru Þorsteinn Freyr,
f. 8. ágúst 2001, Birkir Óli, f. 29.
maí 2006, og Erla Margrét, f. 29.
maí 2006; Elfa Íshólm, f. 28. júní
1976, maður hennar er Halldór
Halldórsson, f. 19. nóvember
1971, synir þeirra eru Elfar Ísak,
f. 2. apríl 2002, og Jón Reynir, f.
11. desember 2009;
Harpa Íshólm, f. 7.
júlí 1987, maður
hennar er Gissur
Kolbeinsson, f. 13.
desember 1986,
dætur þeirra eru
Freyja Mjöll, f. 26.
nóvember 2009, og
Birta Sif, f. 23.
ágúst 2014.
Eftirlifandi eig-
inmaður Ásdísar er
Ólafur Gunnar Pétursson, f. 4.
mars 1967, en hún giftist honum
8. júlí 1995. Börn Ásdísar og
Ólafs eru: 1) Andrea Katrín, f. 17.
mars 1994. 2) Ólafur Íshólm, f. 8.
maí 1995. 3) Andri Snær, f. 25.
desember 2000. Fyrir átti Ólafur
dótturina Auði Sólrúnu, f. 14.
apríl 1986, sambýlismaður henn-
ar er Magnús Níels Sigurðsson, f.
14. maí 1987.
Ásdís starfaði hjá ÁTVR mest-
an hluta starfsferils síns, síðustu
ár sem launafulltrúi.
Útför hennar fer fram frá Sel-
fosskirkju í dag, 26. júlí 2019,
klukkan 13.
Elsku Ásdís mín. Fallega og
góða systir mín með stóra hjartað.
Náttúrubarnið. Allt mitt líf hefur
þú verið mér við hlið, alltaf til
staðar, alltaf hlý og góð. Til þín
gat ég alltaf leitað. Fyrst sem litla
systirin sem leit svo upp til þín,
skvísunnar með ljósu lokkana.
Seinna sem vinkona og jafnstóra
systirin (fyrir utan sentimetrann
sem þú áttir aukalega). Við gátum
talað um allt og ekki neitt. Ólíkar
en samt líkar. Þegar mér leið sem
verst var svo gott að tala við þig,
jafnvel þótt þú værir á sama tíma
að glíma við þín erfiðu veikindi. Þú
skildir mig og hvattir mig áfram.
Tíminn sem við fengum saman
var alltof stuttur. Við áttum eftir
að gera svo ótalmargt saman en
sem betur fer höfum við gert ótal-
margt saman. Minningarnar eru
svo dýrmætar og í sorginni og
tómarúminu er huggun að geta
leitað í minningabankann.
Ég er óendanlega þakklát fyrir
að hafa fengið að verða samferða
þér í mín 43 ár. En það er svo sárt
að þurfa að kveðja þig, elsku Ás-
dís.
Hæstur Drottinn himnum á,
heyr þá bæn og virtu,
lofaðu mér að leggja frá
landi í sólarbirtu.
(Ólína Jónasdóttir)
Elska þig.
Þín
Elfa.
Elsku fallega og ljúfa Ásdís
mín, það er svo sárt að kveðja þig.
Ég og mín fjölskylda eigum svo
ótal margar fallegar minningar
um þig og tímann okkar saman;
tímann sem átti að verða svo
miklu lengri, við áttum eftir að
gera svo margt. Minningarnar
ylja og kalla fram bros og hlátur.
Við erum búin að skoða margar
kostulegar myndir og við brosum í
gegnum tárin.
Þessar síðustu vikur og dagar
sem við fengum saman eru mér
svo dýrmæt. Þú varst svo mikið
veik og kvalin, en alltaf varstu
meðvituð um allt og með allt á
hreinu, fylgdist vel með öllu og
skaust inn alls kyns gullkornum
sem komu sér misvel fyrir okkur
sem sátum hjá þér. Við spjölluð-
um um heima og geima, þú borð-
aðir kökur og kruðerí sem ég kom
með og við fórum út í sólina sem
skein svo skært og fallega. Frið-
urinn úti var engu líkur og dag-
arnir sem við áttum saman á líkn-
ardeildinni voru svo mildir og
fallegir, alveg eins og þú. Þessar
stundir tek ég með mér áfram út í
lífið og ég stend við það sem ég
lofaði þér.
Eftir að þú kvaddir grétu himn-
arnir með okkur en sólin var fljót
að senda geislana sína í gegn.
Þannig er það elsku stóra systir
mín, fyrirmynd í svo mörgu og
einn mesti nagli sem ég hef þekkt.
Ég veit að það birtir upp á ný og
nú eigum við fallegasta engilinn,
engil sem passar upp á okkur og
fylgir okkur í því sem við gerum.
Hvíldu í friði.
Þín systir,
Dagný Björk.
Þú varst okkur gleðigeisli,
góða barn, um liðna tíð,
eins og blóm á björtu vori,
er brosti móti sólu hlíð.
En vetur kom og voðinn kaldi
vafði um okkur heljar mund
sorgin skar og sárin blæddu
að sjá þig líða að hinstu stund.
(Guðrún Jóhannsdóttir)
Í dag kveð ég Ásdísi mína kæru
frænku, sem lést eftir harða bar-
áttu við krabbamein.
Ég hef þekkt Ásdísi frá því að
ég man eftir mér, við erum systk-
inadætur og fæddumst með viku
millibili. Við ólumst upp í miklu
nábýli með foreldrum og systkin-
um. Aðeins þrjú hús voru á milli
æskuheimila okkar og því oft
hlaupið yfir til að leika. Það voru
alltaf opnar dyr hvenær sem var
bankað, hvort sem það var heima
hjá mér eða á heimili Ásdísar.
Þetta voru áhyggjulaus bernsku-
ár enda hverfið fullt af börnum og
var dögunum eytt í að vera úti að
leika. Leikvöllurinn var Stekk-
holtið og húsagarðarnir í kring. Ef
við vorum inni að leika fórum við
mjög oft í Ólalögguleik eða spil-
uðum og áttum góða tíma saman.
Við Ásdís vorum saman í bekk í
10 ár og fórum svo í FSu þar sem
við útskrifuðumst saman og fór-
um í útskriftarferð.
Eftir það hittumst við ekki eins
oft, hún fluttist til Reykjavíkur en
ég bjó áfram á Selfossi, en sterki
frænkustrengurinn slitnaði aldrei.
Síðustu mánuði hittumst við oftar.
Ásdís var bjartsýn og ætlaði að
sigrast á meininu en henni var
engin vægð sýnd. Það var ekki
annað hægt en dást að því hversu
hugrökk hetja hún var og hvað
fjölskyldan hennar var samhent í
þessu ósanngjarna stríði.
Þau hjónin voru búin að kaupa
sér hús á Selfossi og stóð til að
flytja í það á árinu. Því miður náði
Ásdís því ekki.
Elsku fjölskylda, ykkar missir
er mikill og sár.
Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.
Drottinn minn faðir lífsins ljós
lát náð þína skína svo blíða.
Minn styrkur þú ert mín lífsins rós
tak burt minn myrka kvíða.
Þú vekur hann með sól að morgni.
Faðir minn láttu lífsins sól
lýsa upp sorgmætt hjarta.
Hjá þér ég finn frið og skjól.
Láttu svo ljósið þitt bjarta
vekja hann með sól að morgni.
Drottinn minn réttu sorgmæddri sál
svala líknarhönd
og slökk þú hjartans harmabál
slít sundur dauðans bönd.
Svo vaknar hann með sól að morgni.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)
Sigríður Erlingsdóttir.
Elsku besta Ásdís mín. Þú
varst mér svo góð og skemmtileg
frænka.
Þú varst mér góð fyrirmynd
með því að vera alltaf svo góð við
okkur í fjölskyldunni og varst svo
dugleg að hreyfa þig.
Ég á svo margar minningar um
okkur saman en ég hefði viljað
skapa fleiri minningar með þér.
Mér fannst alltaf svo gaman að
vera með þér, t.d. þegar við hjól-
uðum Jaðarinn saman, fórum í
útilegur, vorum inni í skála, í
Kaupmannahöfn, þegar öll fjöl-
skyldan hittist og svo margt fleira.
Ég veit að þú munt vaka yfir
mér og ég sakna þín.
Ég elska þig endalaust.
Þín frænka,
Erla Margrét.
Í dag kveðjum við einstakan
samstarfsmann og dásamlega vin-
konu. Ásdís á stóran sess í hjarta
okkar sem höfum unnið með
henni og skiptir þá ekki máli hvort
samstarfið hafi varað í þau 26 ár
sem hún vann hjá ÁTVR eða
styttra, enda átti Ásdís einstak-
lega gott með að ná til fólks með
sinni hæglátu en ákveðnu fram-
komu.
Fyrirtæki sem fá að njóta
starfskrafta fólks eins og Ásdís
var, eru einstaklega heppin. Hún
naut sinna verkefna, var alltaf
tilbúin að leggja meira á sig fyrir
fyrirtækið, tók alltaf þátt af heil-
um hug í þeim verkefnum sem
henni voru falin og var alveg sér-
staklega samviskusöm og jákvæð
í sinni vinnu.
Samstarfsfólk sem fær að njóta
samveru fólks eins og Ásdís var er
enn heppnara. Það var eitthvað
sérstaklega gott við að vinna við
hlið Ásdísar og fá tækifæri til þess
að læra af henni. Hún var sönn
fyrirmynd í öllu sem hún tók sér
fyrir hendur, hvort sem það voru
verkefni í vinnunni, allt það sem
tengdist dásamlegu börnunum
hennar, hjólreiðar og ekki síst
hetjuleg barátta hennar og æðru-
leysi gagnvart síðasta verkefni
hennar í þessu lífi.
Ásdís var einstaklega góð
manneskja sem bar hag allra fyrir
brjósti. Hún var vakin og sofin yf-
ir börnunum sínum og því sem
þau tóku sér fyrir hendur. Hún
var endalaust stolt af þeim enda
full ástæða til, þau eru öll alveg
einstaklega vel heppnaðir einstak-
lingar sem við höfum fengið að
kynnast í gegnum leik og störf hjá
ÁTVR.
Það kom eins og þruma úr heið-
skíru lofti þegar við heyrðum af
því að Ásdís hefði greinst með
krabbamein. Hvernig er það hægt
að manneskja sem er heilbrigðið
uppmálað, lifir eins hollustusam-
legu lífi og hægt er, hreyfir sig og
hugsar vel um heilsuna, greinist
með slíkan sjúkdóm og nær ekki
að sigrast á honum? Hún barðist
hetjulega eins og hennar var von
og vísa og tókst á við áföllin af
miklu æðruleysi.
Það verður tómlegt á mann-
auðssviðinu, í umræðuhópum um
íþróttir og úrslit helgarinnar, í
hjólahópnum okkar, á viðburðum,
já svo víða á vinnustaðnum okkar
við fráfall Ásdísar.
Við þökkum fyrir ómetanlegt
samstarf, ómetanleg kynni og
ómetanlegan vinskap í gegnum
tíðina. Við vorum heppin að njóta
þeirra forréttinda að þekkja elsku
Ásdísi.
Yndislegri fjölskyldu Ásdísar
og vinum vottum við okkar inni-
legustu samúð.
F.h. samstarfsfélaga og vina
hjá ÁTVR,
Guðrún Símonardóttir.
Að tilheyra hópi, eins og t.d.
saumaklúbbi, sem hittist reglu-
lega, deilir lífsreynslu og þar sem
hver hvetur aðra til dáða er ómet-
anlegt. Hvernig þessir hópar
byggjast upp og verða til er mis-
jafnt en yfirleitt er tilgangurinn
að vera til staðar hver fyrir aðra. Í
okkar „saumaklúbbi“ hefur ekki
farið mikið fyrir hannyrðum en
þeim mun meira fyrir spjalli um
alla heima og geima, samkennd,
hvatningu og kræsingum.
Þessi hópur er svolítið héðan og
þaðan, meðlimir hafa komið og
farið og jafnvel komið aftur en
tengingin hjá flestum er Hellu-
þorp. Flestar kynntust Ásdísi á
framhaldsskólaaldri í gegnum
nám eða atvinnu, aðrar síðar. Í
gegnum tíðina höfum við fylgst
hver með annarri mennta sig,
koma undir sig fótunum, eignast
börn og standa í fasteignakaup-
um. Við hittumst, hlógum og end-
urnærðumst í félagsskap hver
annarrar.
Ásdís var svo stolt af börnunum
og Óla sínum. Útivera, jeppaferðir
og íþróttir voru sameiginleg
áhugamál fjölskyldunnar og vissi
Ásdís ekkert betra en að hjóla eða
bralla eitthvað úti við. Svona
dagsdaglega fór ekki mikið fyrir
Ásdísi, hún var ljúf og góð og vildi
öllum vel. En þegar kom að fjöl-
skyldunni var hún ljónynja og vei
þeim sem gerði á hlut fjölskyldu
hennar. Þá skaut hún út klónum.
Ein sagan sem fékk að fljóta í
klúbbnum okkar var þegar ein-
hver stal hjólinu hans Andra. Ás-
dís var að koma úr sturtu og fékk
þær fregnir að einhver hefði tekið
hjólið rétt í þessu. Hún rauk út
berfætt og hljóp niður götuna á
eftir þjófinum og að sjálfsögðu
fann hún hjólið þó að þjófurinn
væri á bak og burt.
Ásdís var töffari og það sást
glöggt í veikindunum sem hún
tókst á við í tæp tvö ár. Lífið er svo
ósanngjarnt á köflum. Ásdís hugs-
aði vel um heilsu sína og var í raun
heilsuhraustust af okkur öllum.
Að hún skyldi fá þennan ömurlega
sjúkdóm skömmu eftir að hafa
hjólað hringinn í kringum landið í
WOW cyclothon er einfaldlega
ósanngjarnt! En Ásdís lét veik-
indin ekki aftra sér frá því að lifa
og njóta. Hún eyddi allri þeirri
orku sem ekki fór í sjúkdóminn í
að ferðast með fjölskyldunni bæði
innanlands og utan og náði að
skapa margar góðar minningar.
Hún kom og hitti okkur vinkon-
urnar ef sjúkdómurinn gaf færi á
og það var gott að hitta hana og
finna að hún gat ennþá spjallað og
hlegið. Veikindin voru eins og
rússíbani, það gekk vel og illa á
víxl, stundum bjartsýni og svo
komu slæmu fréttirnar rétt eftir
að ákvörðun um að flytja á Selfoss
var tekin og ekkert fékkst við ráð-
ið. Við erum ekki ennþá búnar að
meðtaka það að Ásdís sé farin,
sorg og reiði takast á í hjarta okk-
ar og það verður erfitt og skrítið
að hittast án hennar. En minning
hennar mun lifa með okkur og eitt
erum við sammála um og það er
að reyna eftir bestu getu að til-
einka okkur hugsunarhátt Ásdís-
ar; að lifa og njóta á meðan tími er
til, að lifa lífinu núna.
Guð styrki ykkur í sorginni
elsku Óli, Andrea Katrín, Óli Ís-
hólm, Andri Snær og Auður Sól-
rún, þetta eru erfiðir tímar en við
vonum að þið finnið styrk í öllum
góðu minningunum.
Þorbjörg, Guðlaug (Gulla) Y.,
Guðlaug (Gulla) K., Þórunn,
Þóranna, Hugrún og Guðrún.
Ásdís Íshólm
Ólafsdóttir
HINSTA KVEÐJA
Elsku Ásdís.
Takk fyrir að hekla fyrir
mig dúkkuteppið, þú varst
alltaf svo góð við mig.
Kær kveðja,
Birta Sif.
Elsku Ásdís.
Þú varst alltaf svo góð
við mig og það var alltaf svo
gaman að hitta þig. Ég
sakna þín mjög mikið.
Freyja Mjöll.
Elsku Ásdís. Það var
alltaf gaman að fara í pöss-
un eða í heimsókn til þín.
Það eiga allir góðar, fyndn-
ar eða skemmtilegar minn-
ingar um og með þér. Það
eiga allir myndir af þér og
með þér. Maður gat alltaf
leitað til þín. Þú varst alltaf
svo blíð og góð.
Ég elska þig.
Jón Reynir.
Nú kveðja þig vinir með
klökkva og þrá
því komin er skilnaðarstundin.
Hve indælt það verður þig aftur að sjá
í alsælu og fögnuði himninum á
er sofnum vér síðasta blundinn.
(Hugrún)
Elskuleg vinkona er horfin á
braut en ég kynntist Lísu því mið-
ur ekki fyrr en á efri árum. Við
eyddum báðar okkar ævistarfi
hvor á sínu landshorninu og
kynntumst ekki fyrr en við vorum
búnar að skila því. Við náðum
strax svo vel saman, á hverju
hausti keyptum við fjóra miða í
bæði leikhúsin en stundum var
einu sinni ekki nóg og fórum við til
dæmis þrisvar sinnum á Ellý og
fannst okkur það ekkert of oft.
Jóhanna Elísabet
Pálsdóttir
✝ Jóhanna El-ísabet Páls-
dóttir, alltaf kölluð
Lísa, fæddist 27.
janúar 1935. Hún
andaðist á Land-
spítalanum 22. júní
2019. Útförin fór
fram í kyrrþey.
Svo voru það allir tón-
leikarnir sem við fór-
um á og einu sinni á
tvenna sama daginn,
en toppurinn var í
sumarbúðum kirkj-
unnar á Löngumýri.
Við vorum reyndar
ekki ákjósanlegir her-
bergisfélagar, þar
sem Lísa var varla bú-
in að snerta koddann
þegar hún var sofnuð en þegar ég
opnaði augun daginn eftir var hún
kannski búin að lesa hálfa bók eða
prjóna hálfa flík. Við settum þetta
ekkert fyrir okkur heldur nutum
dvalarinnar til fulls og mikið
sakna ég elsku vinkonu minnar.
Við höfum gengið götu saman
glaðst og hryggst um lífsins svið.
Oft var hlegið, oft var gaman
alltaf sást þú bjarta hlið.
Þér við viljum þakkir senda
þinni er lokið strangri þraut.
Þegar gangan er á enda
upp til himna liggur braut.
(GJ)
Hvíldu í friði, elsku vinkona.
Vigdís.