Víkurfréttir - 22.08.2019, Síða 6
Skóli í hraðri uppbyggingu
Stapaskóli er nýr skóli við Dalsbraut
í Innri-Njarðvík sem er þessa dagana
í hraðri uppbyggingu. Stefnt er að
því að skólinn verði vígður haustið
2020, gangi áætlanir eftir, en kennsla
nemenda í 1.–4. bekk hófst þó fyrir
nokkrum mánuðum síðan. Áætlað
er að skólinn verði allt í senn leik- og
grunnskóli, frístunda- og tónlistar-
skóli, bókasafn, menningar- og félags-
miðstöð hverfsins. Þá er einnig stefnt
að því að íþróttahús og sundlaug verði
byggð við skólann.
Gróa Axelsdóttir er nýr skólastjóri
Stapaskóla en starfsemin er nú starf-
rækt í bráðabirgðahúsnæði sem áður
var nýtt sem viðbótarbygging fyrir
nemendur Akurskóla, þar sem Gróa
starfaði áður sem aðstoðarskóla-
stjóri. Áætlaður heildarkostnaður
við uppbyggingu skólans, sem skiptist
niður í þrjá áfanga, er rúmir fimm
miljarðar króna. Fjöldi nemenda
við fullsetinn skóla verður um 500
nemendur á grunnskólaaldri og 120 á
leikskólaaldri, þá er gert ráð fyrir um
100 starfsmönnum. Á næsta skólaári
verða um 130 nemendur í skólanum,
sem skiptast niður í 1.–5. bekk, og um
tuttugu starfsmenn.
Vill gera skólastarfið
skemmtilegra
„Þetta er annað skólaárið sem við
erum hér með útibú en ég byrjaði
1. apríl sem skólastjóri og síðan þá
höfum við verið Stapaskóli. Áður var
þetta Akurskóli við Dalsbraut og þeir
nemendur sem voru hér þá eru nú
orðnir nemendur Stapaskóla. Þetta
gengur mjög vel og hér er rosalega
notalegt. Við erum með hundrað
nemendur og sautján starfsmenn
og það fer vel um alla. Hér er bjart
og ágætlega hátt til lofts. Þetta snýst
þó rosalega mikið um það að vera
lausnamiðaður og að velja sér við-
horf. Matsalurinn okkar er einnig
nýttur undir íþróttir, dans, tónlist
og frístund eins og staðan er núna.
Í haust bætist svo við önnur eining
við skólann en hún verður reyndar
ekki sambyggð,“ segir Gróa sem hefur
starfað við kennslu síðan árið 2003.
„Ég byrjaði sem kennari í Sandgerði
og varð svo deildarstjóri þar. Ég fór
svo í Akurskóla þar sem ég starfaði
sem aðstoðarskólastjóri og tók svo
við skólastjórn Stapaskóla eftir það.“
Aðspurð hvað hafi orðið til þess að
hún sótti um skólastjórastöðuna seg-
ist hún hafa viljað taka við stjórninni.
„Mér finnst þetta rosalega spennandi
og ég hef ákveðna sýn á þetta. Mig
langar að breyta og gera skólastarfið
skemmtilegra. Ef það er gaman þá
lærum við og þetta er tækifæri til þess
að skapa og gera eitthvað nýtt. Ég hef
alltaf ætlað mér að verða stjórinn. Það
er mjög gaman og ég tala nú ekki um
í svona verkefni, þar sem maður fær
að byggja upp frá grunni.“
Námsumhverfið mætir
þörfum nemenda
Skólastjórastarfinu sjálfu lýsir Gróa
sem ákveðnum rekstri. Skólastjórinn
sé allt í senn; sálfræðingur, mann-
auðsstjóri, fjármálastjóri og fleira og
mikilvægt sé að vera tilbúin að hlaupa
í allt. „Ef það vantar manneskju í mat-
salinn þá fer ég í matsalinn. Þannig á
þetta að vera. Mannauðsmálin skipta
rosalega miklu máli, að reyna að gera
hluti þannig að allir séu ánægðir og
koma bros á vör. Kennarar og allir
aðrir starfsmenn skipta lykilmáli í
skólastarfi,“ segir hún og bætir því
við að hún sé mjög heppin með starfs-
fólkið í Stapaskóla.
„Þetta er ungt fólk sem vill stíga út
fyrir kassann og prófa annað en að
vera föst í skólabókunum. Við erum
alltaf að stíga meira og meira út fyrir
og ég er með mjög góðan hóp til að
hefja þetta skólastarf. Ég get algjör-
lega mótað sýnina með þeim því þær
eru á sama stað. Þær vilja breyta og
gera þetta öðruvísi. Við erum að
velja inn húsgögnin innan skólans
og mér finnst mikilvægt að námsum-
hverfið sé alls konar, til dæmis borð
sem nemendur geta staðið við og
átt samræður, grjónapúðar öðrum
megin og borð hinum megin, þannig
við reynum að mæta þörfum allra.“
Áfram í samstarfi við
Akurskóla
Komandi skólaár verður hefðbundið
að sögn Gróu enda er starfsemin á
byrjunarreiti og margt sem á eftir að
koma í ljós á næstu misserum. „Við
kíkjum út um gluggann og sjáum
flottu bygginguna okkar rísa. Á
meðan förum við í markmiðasetn-
ingu og það er rosalega mikil vinna
sem fer í gang strax í haust. Að öðru
leyti verða viðburðir hefðbundnir;
skólasetning og þemadagar, jólahátíð
og svo framvegis. Við verðum með
sama dagatal og Akurskóli, sem við
köllum systurskóla okkar, þar sem
við erum í sama hverfi og krakkar
úr sömu fjölskyldunni stunda nám
við báða skólana. Það er ekki gott
ef við ætlum að vera með sitthvort
vetrarfríið og slíkt. Við ætlum einnig
að halda áfram að innleiða agastefnu
sem heitir „Uppeldi til ábyrgðar“ í
Stapaskóla en það er líka í Akurskóla.
Við höldum því samstarfi áfram og
verðum áfram í miklu samstarfi þó
við séum tvær aðskildar stofnanir.“
Sérfræðiþjónustu þarfnast
innan skólans
Gróa segir það gríðarlega mikilvægt
að hver og einn nemandi nái árangri
út frá sínum eigin markmiðum. Það
sé minna áhyggjuefni að allir fái A+
í einkunn á samræmdu prófunum
eða PISA. „Mér finnst lykilatriði að
krakkarnir nái árangri. Ég stefni
að því að búa til skóla sem nær að
þjónusta alla. Hvernig það tekst svo
veit ég ekki en það er mikilvægt að við
sköpum gott umhverfi fyrir börnin
í stað þess að troða þeim öllum inn í
einhvern fyrirfram ákveðinn pakka.
Það er fullt af börnum sem sitja aldrei
við matarborðið heima, borða aldrei
saman og eiga ekki þetta samtal um
það hvernig það hafi verið í skólanum,
eða eiga einhvern að sem kíkir inn í
herbergi til að athuga hvernig þeim
líði. Þar af leiðandi skiptir starfsfólk
skólans lykilmáli. Öll börn eiga heima
í sínum skólum og oft vantar meiri
sérfræðiþjónustu inn í skólana til
þess að styðja við bakið á þeim nem-
endum sem eiga erfitt. Auðvitað væri
frábært ef við gætum þjónustað alla
þannig en þá þurfum við líka meira
fjármagn og að fá sérfræðingana inn,“
bætir hún við.
Sætabrauð og kulnun í starfi
Mikilvægt er að starfsfólk skólans sé
ánægt og sátt í vinnunni og fái þann
stuðning sem þarf til að sögn Gróu.
Það sé lykilatriði að hafa sveigjanleika
í starfinu til að sporna gegn kulnun í
starfi sem hefur verið áberandi um-
ræðuefni innan kennarastéttarinnar.
„Bara það að vera með sætabrauð á
kaffistofunni eða að leyfa öllum að
fara heim klukkan tvö annað slagið
skiptir rosalega miklu máli. Sveigjan-
leikinn skiptir miklu.“
Alltaf ætlað
sér að verða
stjórinn
Sólborg Guðbrandsdóttir
vf@vf.is
VIÐTAL
Nú eru skólarnir að hefja starf á ný eftir sumarfrí.
Skólasetningar í grunnskólum bæjarins fara fram
þessa dagana og hafa nemendur við Fjölbrautaskóla
Suðurnesja nú þegar hafið skólaárið.
Mikil uppbygging hefur verið í skólum í Reykjanesbæ
á síðustu árum vegna þeirrar miklu íbúafjölgunar
sem hefur verið í bænum en þar á meðal er Stapaskóli
sem nú rís í Innri-Njarðvík. Víkurfréttir kíktu í heim-
sókn fyrir sumarfrí og ræddu við nýjan skólastjóra um
komandi verkefni.
Mig langar að breyta og
gera skólastarfið skemmti-
legra. Ef það er gaman þá
lærum við og þetta er tæki-
færi til þess að skapa og
gera eitthvað nýtt ...
6 MANNLÍF Á SUÐURNESJUM f immtudagur 22. ágúst 2019 // 31. tbl. // 40. árg.