Tímarit Máls og menningar - 01.11.2004, Blaðsíða 91
Bókmenntir
Sem betur fer eru ekki allir greinarhöfundar jafnsmásmugulegir í upptaln-
ingum á æviatriðum höfunda sinna og vil ég sérstaklega nefna frábæra grein
Josephs C. Allard um Einar Má Guðmundsson. Hann rekur æviatriðin í fáeinum
setningum fyrst og einbeitir sér síðan að verkunum en er ekki sífellt að vaða úr
einu í annað. Þó skal nefnt að hann gefur líka upplýsingar um fæðingar barna.
Mikilvægasta athugasemd mín varðar val höfunda í ritið og rýmið sem þeim
er skammtað. Hér eru ákvarðanir ritstjóra augljósastar og auðveldast að
gagnrýna þær. Það er vitað mál að flestir þessara höfunda yrðu með á hvaða lista
sem væri yfir markverða íslenska rithöfunda á þessu tímabili. Flestir - en ekki
allir, þó dónalegt væri að tína upp nöfn þeirra sem mætti sleppa. En hver sá sem
er sæmilega kunnugur íslenskum samtímabókmenntum sér undir eins áberandi
göt á listanum hér að ofan. Sum götin eru jafnvel óskiljanleg miðað við hvað sagt
er í framhjáhlaupi í greinum um aðra höfunda í bókinni. Þórunn Sigurðardóttir
segir til dæmis að Jakobína Sigurðardóttir sé einn heisti rithöfundur landsins á
síðari hluta 20. aldar (bls. 56) og Silja Aðalsteinsdóttir kallar Hannes Sigfússon
einn af byltingarmönnum í íslenskri ljóðagerð (bls. 263), þó hafa hvorki Jakob-
ína né Hannes fengið inni í bókinni. Á mínum eigin lista yrðu auk þeirra að
minnsta kosti Hannes Pétursson, Þorsteinn frá Hamri, Vilborg Dagbjartsdóttir,
Ingibjörg Haraldsdóttir og Vigdís Grímsdóttir - án þeirra er valið á höfundum
tilviljanakennt og beinlínis óskiljanlegt. Bar ritstjóri val sitt undir íslenska fræði-
menn? Ég neita að trúa því að nolckur alvarlegur bókmenntafræðingur - ekki
einu sinni alvörulaus leikmaður - myndi búa til lista sem Hannes Pétursson væri
ekki á!
Val er alltaf að einhverju leyti tilviljanakennt, en það er munur á því að vera
tilviljanakenndur og fáránlegur. Tilfinning um fáránleika vinnubragða styrkist
þegar gáð er að því hve mikið rúm hver höfundur fær. Mér finnast bæði Gyrðir
Elíasson og Pétur Gunnarsson mikilvægir höfundar á okkar dögum og ekki
ófyrirsynju að úthluta þeim 9 og 12 blaðsíðum - eða það væri sanngjarnt ef höf-
undar á borð við Guðberg Bergsson og Svövu Jakobsdóttur þyrftu ekki að láta
sér nægja 7 og 6 blaðsíður. Hvað eiga svona geðþóttavinnubrögð að þýða? Ekki
þýðir að bera við takmörkunum á rými því ævinlega er hægt að úthluta því
öðruvísi. Til dæmis er ég ekki viss um að bókmenntasöguleg þyngd Jónasar
Hallgrímssonar réttlæti þær 22 síður sem hann fær þar sem meðal annars er
tekið rúm undir femíníska greiningu á Grasaferð. Sú greining á betur heima ann-
ars staðar en í venjulegu höfundatali. Yfirleitt tel ég að ritstjóri hefði átt að skipta
sér meira af innihaldi greinanna.
Þegar á heildina er litið er þetta bók sem ber að fagna. Þrátt fyrir gallana - sem
sumir eru vondir - munu lesendur taka henni þakksamlega. Vonandi verður
henni fylgt eftir með stærri, endurskoðaðri úgáfu. En jafnvel í fyrstu gerð er hún
markverður virðingarvottur við kraftmikið hugmyndaflug og ritsnilld íslenskra
skálda og rithöfunda.
TMM 2004 ■ 4
89