Sveitarstjórnarmál - 2019, Page 16
16
SVEITARSTJÓRNARMÁL
Fjölbreytt verkefni uppbyggingarsjóða
Alls hlutu 594 verkefni styrki úr uppbyggingarsjóðum landshlutanna á árinu 2017. Hér á eftir eru
nokkur dæmi um þau fjölbreyttu verkefni sem hlutu styrki.
Félag um lýðháskóla á Flateyri, 3.500.000 kr.
Styrkþegi: Runólfur Ágústsson/Óttar Guðjónsson.
Félag um lýðháskóla á Flateyri er stórhuga atvinnu- og
menntaþróunarverkefni sem miðar að því að koma lýðháskóla á
laggirnar á Flateyri. Verkefnið er mjög stórt í sniðum og gæti haft
verulega þýðingu fyrir samfélagið í Önundarfirði og sennilega um
alla norðanverða Vestfirði.
Sjómannagarðurinn Hellissandi, 600.000 kr.
Styrkþegi: Sjóminjasafnið á Hellissandi. Safnið hefur verið
starfrækt um árabil. Fjöldi einstaklinga hefur lagt safninu lið í
gegnum árin og unnið óeigingjarnt sjálfboðaliðastarf. Undanfarið
hefur verið unnið að því að efla safnið með því að bæta aðstöðu
og aðgengi, auk þess sem settar hafa veriðu upp tvær nýjar
sýningar. Annars vegar er það sýningin Sjósókn undir jökli og
hins vegar sýningin Náttúra. Stuðningur Uppbyggingarsjóðs
Vesturlands við verkefnið er til þess fallinn að gera safninu kleift
að lengja opnunartíma og auka þjónustu.
Vinlandssetur, 1.200.000 kr.
Styrkþegi: Eiríksstaðanefnd. Að undanförnu hefur verið unnið
að uppbyggingu Vínlandsseturs í Búðardal. Að verkefninu koma
Eiríksstaðanefnd, sveitarfélagið Dalabyggð og hjónin Kjartan
Ragnarsson og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir, eigendur
Landnámssetursins í Borgarnesi. Vínlandssetur verður staðsett í
Leifsbúð. Á jarðhæð hússins verður veitingasala. Á efri hæðinni
verður sögusýning af landnámi íslenskra/norrænna manna á
Grænlandi og af fundum þeirra og ferðum til Ameríku. Búið er að
hanna sýninguna. Vinna við hönnun á breytingu húsnæðis er á
lokametrum og verkefnið því komið á framkvæmdastig.
Listasafn Samúels, 1.200.000 kr.
Styrkþegi: Félag um Listasafn Samúels. Listasafn Samúels miðar að
endurgerð verka Samúels Jónssonar í Selárdal. Verkinu miðar vel
og hefur mikið starf verið unnið í sjálfboðavinnu. Listasafnið hefur
vakið talsverða athygli fyrir óvanalega og barnslega einlægni
listamannsins, sem hrífur safngesti. Árið 2017 var gerður þriggja
ára samningur um stuðning við verkefnið þar sem verkefnið er í
eðli sínu langtímaverkefni. Í umsókn skín í gegn einlægur áhugi
á verkefninu og stendur öflugur hópur áhugamanna að baki
uppbyggingu safnsins.
Galdrasýning á Ströndum, 3.500.000 kr.
Styrkþegi: Strandagaldur ses. Galdrasýningu á Ströndum
var komið upp um aldamótin og hefur hún verið í stöðugri
uppbyggingu og þróun síðan. Árlega dregur sýningin að sér
þúsundir ferðamanna. Í tengslum við sýninguna er rekið lítið en
afar vel heppnað veitingahús. Galdrasýning á Ströndum hefur
haldið Hólmavík á kortinu um árabil. Sýningin hefur jafnan hlotið
stofn- og rekstrarstyrk úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.
Gúmmísökka, 500.000 kr.
Styrkþegi: Steinþór Bragason. Gúmmísökka er gott dæmi um vel
heppnað einstaklingsverkefni í atvinnu- og vöruþróun. Sökkur
eru notaðar við handfæraveiðar til að sökkva önglinum til botns.
Þær hafa jafnan verið úr blýi og því skapað hávaðamengun
og óþægindi fyrir starfsfólk og hugsanlega fælt frá fiska sem
hafa vissulega heyrn og heyra háa hvelli er sakkan slæst utan
í bát eða harðan sjávarbotn. Því voru þróaðar gúmmíhúðaðar
sökkur úr galvaníseruðu járni, sem gera sama gagn, en eru
hljóðlátari, hlífa bátunum og eru þægilegri í notkun. Verkefnið
fékk styrk úr Uppbyggingarsjóði og er því lokið og telst hafa
heppnast mjög vel. Fyrir dyrum stendur að leita leiða til að lækka
framleiðslukostnað sem er enn nokkru hærri en á hefðbundnum
blýsökkum.
Söngleikurinn Móglí, 600.000 kr.
Styrkþegi: Tónlistarskóli Borgarfjarðar. Söngleikurinn Móglí var
settur upp í tilefni af 50 ára afmæli Tónlistarskóla Borgarfjarðar
árið 2017. Fjöldi nemenda tók þátt í uppfærslunni, kennarar
skólans bæði léku og skipuðu hljómsveit og leikarar úr
leikdeild Skallagríms voru í ýmsum hlutverkum. Leikstjóri var
Halldóra Björnsdóttir. Haldnar voru 10 sýningar í mennta- og
menningarhúsinu Hjálmakletti í Borgarnesi og er áætlað að um
1.200 gestir hafi séð sýninguna.