Sveitarstjórnarmál - 2019, Síða 18
18
Með stofnun Vestfjarðastofu tekst okkur að
samnýta þekkingu og hugvit starfsmanna
og skapa miklu betra flæði milli verkefna á
sviði atvinnu- og byggðamála. Nú fer þessi
vinna fram undir einum hatti en að mínu
viti var allt of langt á milli atvinnumála og
byggðamála þegar atvinnumálin voru undir
Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og menn
voru dálítið að vinna að þessum málum
hver í sínu horni. Ég var mikill talsmaður
þess að við Vestfirðingar völdum þessa leið
og að mínu mati hefur hún þegar sannað
gildi sitt á þessu rúma ári sem liðið er síðan
Vestfjarðastofa var sett á laggirnar
Þetta segir Pétur Markan, fyrsti formaður
stjórnar Vestfjarðastofu sem stofnuð var í
byrjun desember 2017. Við það sameinuðust
atvinnuþróunarfélagið og Markaðsstofa
Vestfjarða en stofnaðilar að Vestfjarðastofu
eru nokkrir tugir sveitarfélaga, stofnana og
fyrirtækja á Vestfjörðum.
Pétur hefur látið til sín taka í sveitarstjórnar-
og atvinnumálum á Vestfjörðum síðan
hann gerðist sveitarstjóri í Súðavík eftir
kosningarnar 2014. Hann stendur hins vegar
á tímamótum um þessar mundir. Hann
lét nýverið af embætti stjórnarformanns
Vestfjarðastofu og sagði starfi sínu sem
sveitarstjóri lausu nú í ársbyrjun. Hann
gegnir starfinu fram á vor eða uns nýr
sveitarstjóri verður ráðinn en síðan hefst nýr
kafli í lífi hans suður í Reykjavík.
Víðtækur tilgangur
„Ég hef verið virkur þátttakandi í samstarfi
sveitarfélaganna hér á Vestfjörðum. Þegar
ég var formaður Fjórðungssambands
Vestfjarða varð mér ljóst að við yrðum
að gera breytingar sem síðan leiddu til
stofnunar Vestfjarðastofu. Mín sannfæring
var sú að atvinnumálin og byggðamálin
almennt gætu ekki verið aðskilin. Við yrðum
að vinna að þessum málum undir einum
hatti. Sem dæmi um hverju þetta hefur
skilað er að nú hafa sveitarfélögin ákveðið
að vinna sameiginlegt svæðisskipulag
og það verður ekki gert nema í nánu
samhengi við þá atvinnuþróun sem rúmast
á innan svæðisins. Þessi vinna hefði áður
verið á vegum fjórðungssambandsins en
verður miklu skilvirkari nú undir umsjón
Vestfjarðastofu“, segir Pétur.
Vestfjarðastofa er sjálfseignarstofnun með
ákaflega víðtækan tilgang. Hann er að vinna
að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga,
stofnana og fyrirtækja á Vestfjörðum og
veita samræmda og þverfaglega ráðgjöf og
þjónustu tengda atvinnu- og byggðaþróun,
frumkvöðlastarfsemi og menningu í víðum
skilningi. Markmið Vestfjarðastofu er að efla
atvinnulíf á Vestfjörðum, stuðla að velferð
íbúa og styrkja Vestfirði sem búsetukost
og áfangastað ferðamanna. Markmiði
sínu hyggst Vestfjarðastofa ná með öflugu
samstarfi atvinnulífs, sveitarfélaga, ríkisvalds
og stoðkerfis hins opinbera.
Framfaraspor
„Já, Vestfjarðastofa vinnur á mjög
breiðum grunni. Þarna hefur verið búinn
til fyrirmyndar vettvangur fyrir skapandi
fólk sem getur með krafti sínum haft mikil
áhrif á umhverfi sitt. Þetta er að mínu mati
einn mest spennandi starfsvettvangur á
Vestfjörðum og þótt víðar væri leitað. Nú er
það mín ósk að sveitarfélögin kveiki betur á
þeim möguleikum sem felast í samvinnu á
vettvangi Vestfjarðastofu til að bæta mannlíf
og þjónustu á svæðinu,“ segir Pétur.
Fjórðungssambandið, samtök sveitarfélag-
anna í fjórðungnum, verður eftir sem
áður samningsaðili við ríkisvaldið vegna
sóknaráætlunar fyrir Vestfirði en verkefnin
verða unnin hjá Vestfjarðastofu. Pétur telur
að tilkoma sóknaráætlana hafi verið mikið
framfaraspor í stjórnsýslu og meðferð
opinbers fjár. Þær hafi leitt til mun skilvirkari
aðgerða en fyrra fyrirkomulag.
Pétur Markan, sveitarstjóri og fyrrverandi formaður Vestfjarðarstofu
Samnýtum þekkingu og hugvit í Vestfjarðarstofu
- Eftir Garðar H. Guðjónsson.
Pétur Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.