Sveitarstjórnarmál

Ukioqatigiit

Sveitarstjórnarmál - 2019, Qupperneq 19

Sveitarstjórnarmál - 2019, Qupperneq 19
19 SVEITARSTJÓRNARMÁL Ekki gleyma áskriftinni Sveitarstjórnarmál eru málið. Fáðu fréttir, fróðleik og sveitarstjórnarmálin inn um lúguna fyrir aðeins kr. 4.000 á ári. Einstakt tímarit fyrir áhugafólk eins og þig um sveitarstjórnarmál og sveitarfélög landsins. Tryggðu þér áskrift með því að senda póst á netfangið samband@samband.is eða hringja í síma 515 4900. „Áður var meðferð fjármuna mun tilviljunarkenndari og menn höfðu ekki sömu yfirsýn yfir verkefnin og nú. Opinbert fé er í eigu okkar allra og því mikilvægt að það sé nýtt skynsamlega og hafi áhrif til vaxtar. Eitt af markmiðunum með sóknaráætlunum var að færa ráðstöfunarvaldið til svæðanna og það hefur tekist. Frá því fyrstu sóknaráætlanir litu dagsins ljós hafa nýjar ríkisstjórnir sem betur fer viðhaldið verkefninu og frekar nært það en hitt. Það var mikið gæfuspor að færa þetta verklag í lög og festa verkefnið þannig í sessi,“ segir Pétur. Stoltur Hann lítur stoltur yfir farinn veg þegar kemur að svæðasamstarfinu á Vestfjörðum. Hið sama gildir um störf hans sem sveitarstjóri í Súðavík. „Það hafa ýmis verkefni sprottið upp í kringum mann á þessum fimm árum. Það er gaman að fara frá þessu á réttum tíma og skilja eftir sig grósku og uppbyggingu sem skiptir máli, eitthvað sem mun lifa þótt ég fari frá því. Vestfjarðastofa er gott dæmi um það,“ segir hann. Þegar Pétur er spurður hvað standi uppúr í störfum hans sem sveitarstjóri í Súðavík nefnir hann fyrst kalkþörungaverksmiðjuna sem hefur verið í undirbúningi síðan 2014 en verður senn að veruleika og mun skapa 35-40 heilsársstörf auk afleiddra starfa. „Ef laxeldið er undanskilið er þessi nýja verksmiðja stærsta atvinnuþróunarverkefnið á Vestfjörðum um þessar mundir. Þetta er risastórt verkefni á vestfirska vísu og mun hafa mikil áhrif. Ekki bara í Súðavík heldur einnig á Ísafirði og í Bolungarvík. Við lítum á þessar byggðir sem eitt atvinnusvæði og þetta verkefni setur umræðu um jarðgöng á svæðinu í raun og veru í nýtt samhengi. Við höfum gefið okkur góðan tíma til undirbúnings. Verkefnið hefur verið kynnt mjög ítarlega fyrir íbúum og um það ríkir mikil sátt. Það er mikilvægt að hafa íbúana með í ráðum þegar unnið er að svo umfangsmiklu verkefni. Í mínum huga skiptir meginmáli að þetta verkefni tryggir atvinnu hér í þorpinu og þar með tilvist þorpsins til framtíðar.“ Björt framtíð byggðarinnar Pétur rifjar í þessu sambandi upp orð Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á landsþingi sambandsins síðastliðið haust um að sveitarfélögum muni fækka á næstu tíu árum. Spurningin væri aðeins um hvernig það myndi gerast. „Sigurður Ingi sló hárréttan tón með þessum orðum. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að tryggja tilvist byggðarinnar til framtíðar,“ segir hann. Annar liður í því að efla byggðina í Súðavík er að sögn Péturs að alger viðsnúningur hefur orðið í fjármálum sveitarfélagsins á undanförnum árum. „Okkur hefur tekist að nýta góðærið undanfarin ár til þess að styrkja fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins verulega. Súðavíkurhreppur er lítið sveitarfélag. Góður fjárhagslegur grunnur styrkir stöðu þess og sjálfstæði og auðveldar okkur að standa við skyldur sveitarfélagsins við íbúana. Við höfum á sama tíma unnið að endurskoðun aðalskipulags hreppsins. Það er kostnaðarsamt verkefni og auðvelt að humma það fram af sér en við tókum þá ákvörðun 2015 að vinda okkur í þetta verkefni og það er nú á lokametrunum. Ég er mjög stoltur af því. Nýtt skipulag tekur væntanlega gildi nú í sumar eða með haustinu. Þessi ár hér í Súðavík hafa verið afar annasöm og ég tel að okkur hafi tekist vel til í því að búa sveitarfélagið undir framtíðina. Hún er björt að mínu mati.“ Að velja næstu verkefni En hvers vegna sagði Pétur starfi sínu lausu og hvað tekur þá við? „Konan mín er í magisternámi í guðfræði og það kallar á að við flytjum suður með börnin okkar þrjú. Ég hef verið hér í fimm ár, hef beitt mér af alefli og átt velgengni að fagna en nú er góður tímapunktur til að takast á við eitthvað annað. Það er algerlega óákveðið hvað ég tek mér næst fyrir hendur. Ég sótti að vísu um og fékk þann starfa að vera með átta mánaða gamalli dóttur minni í fæðingarorlofi en annað liggur ekki fyrir. Kannski er ég bara af nýrri kynslóð sem starfar ekki lengi í senn hjá sama vinnuveitanda, velur sér ekki ævistarf. Ég ætla að leyfa mér að velja næstu verkefni. Maður á að leyfa sér þann munað ef það er hægt. Það þarf stundum hugrekki til en maður á að nýta sér þessi forréttindi ef maður getur,“ segir Pétur.

x

Sveitarstjórnarmál

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Sveitarstjórnarmál
https://timarit.is/publication/1063

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.