Sveitarstjórnarmál - 2019, Page 31
31
Með samþykkt Heimsmarkmiða Sameinuðu
þjóðanna árið 2015 stigu leiðtogar heimsins
eitt stærsta skrefið sem stigið hefur verið í
átt að betri heimi og bættum lífsgæðum.
Með þessum 17 markmiðum er stefnt að
því að minnka fátækt, berjast gegn ójöfnuði
og óréttlæti og stoppa loftslagsbreytingar
fyrir árið 2030. Með heimsmarkmiðunum er
lögð fram stefna fyrir okkur öll.
Það er mikilvægt að sem flestir geri sér
grein fyrir því að sveitarfélögin gegna
lykilhlutverki við að koma heimsmarkmiðum
í framkvæmd. Vonandi vita allir að
sveitarfélögin sinna mikilvægri nærþjónustu
við alla íbúa landsins. Rætt hefur verið um
að um það bil 65% af heimsmarkmiðunum
sé að einu eða öðru leyti háð framgöngu
sveitarfélaga. Staðreyndir sem þessar brýna
okkur öll til dáða.
Málþing um heimsmarkmiðin og
sveitarfélögin var haldið á vegum Sambands
íslenskra sveitarfélaga nýlega. Á málþingið
mættu yfir 170 einstaklingar sem sýndi vel
þann áhuga sem sveitarstjórnarmenn sýna
þessu mikilvæga verkefni. Á málþinginu
voru fluttar fjölmargar kynningar sem
kveiktu bæði umræður og vöktu spurningar
meðal fundargesta. Var það mál manna að
vel hafi tekist til og að málþingið hafi kveikt
áhuga og vakið jákvæða athygli á mikilvægi
þess að heimsmarkmiðin verði innleidd í alla
stefnumörkun sveitarfélaga.
Tvö sveitarfélög, Kópavogur og Mosfellsbær,
hafa vakið sérstaka athygli fyrir sína nálgun
á heimsmarkmiðin. Í úttekt Nordregio,
Norrænu byggðastofnunarinnar, sem gerð
var á síðasta ári á norrænum sveitarfélögum
og heimsmarkmiðunum kom í ljós að
Kópavogur og Mosfellsbær voru að mörgu
leyti gott dæmi um þá fjölbreyttu nálgun
sem einkennir vinnu norrænna sveitarfélaga
að heimsmarkmiðunum. Er vinna þessara
sveitarfélaga okkur hinum til eftirbreytni.
Megin niðurstaðan í Nordregio úttektinni
er þó að sveitarfélög kalla eftir stefnu og
mögulegu samstarfi.
Fullyrða má að sambandið sem
samstarfsvettvangur sveitarfélaga gegni
lykilhlutverki fyrir sameiginlega nálgun
okkar á heimsmarkmiðin.
Tilgangurinn með málþinginu var að hrinda
vinnu að heimsmarkmiðunum formlega
af stað sem verkefni sveitarfélaganna.
Sambandið mun í framhaldinu hafa
frumkvæði að frekara kynningarstarfi og
veita þeim sveitarfélögum aðstoð sem
eftir því leita. Þá verður á næstu vikum
kannað hvort setja megi á fót samstarfs- og
samráðsvettvang sveitarfélaga sem hefði
það hlutverk að marka sameiginlega stefnu
eða sýn sveitarfélaganna á heimsmarkmiðin
og innleiðingu þeirra.
Sveitarfélög vítt og breitt um landið eru
víða að gera virkilega góða hluti. Unnið
er að fjölmörgum góðum verkefnum
og mörg þeirra falla án efa lóðbeint að
heimsmarkmiðunum án þess kannski að
við gerum okkur grein fyrir því. Oft getur
einungis þurft að formgera það sem verið er
að gera, skrásetja árangur og láta síðan vita
af því sem vel er gert.
Það er óhætt að fullyrða að
sveitarstjórnarmenn munu ekki láta sitt eftir
liggja til að tryggja að Ísland geti með sem
bestum hætti uppfyllt Heimsmarkmiðin.
Það munum við gera með hagsmuni íbúa í
nútíð og framtíð að leiðarljósi.
Það er óhætt að fullyrða að
sveitarstjórnarmenn munu
ekki láta sitt eftir liggja til að
tryggja að Ísland geti með
sem bestum hætti uppfyllt
Heimsmarkmiðin.
Sveitarfélögin gegna lykil-
hlutverki við að koma heims-
markmiðunum í framkvæmd
Ávarp Aldísar Hafsteinsdóttur, formanns sambandsins, á
kynningarfundi um heimsmarkmiðin 15. febrúar2019
Fjölmennt var á kynningarfundi um heimsmarkmiðin í febrúar og myndaðist nokkur röð við innskráningu þátttakenda áður en fundurinn hófst.