Sveitarstjórnarmál

Ukioqatigiit

Sveitarstjórnarmál - 2019, Qupperneq 37

Sveitarstjórnarmál - 2019, Qupperneq 37
37 SVEITARSTJÓRNARMÁL Breytingar eru óhjákvæmilegar Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík og formaður borgarráðs Þórdís Lóa Þórhallsdóttir tók í fyrsta sinn sæti í borgarstjórn í fyrravor. Segja má að hún hafi byrjað á toppnum, en Þórdís Lóa hafði vart náð kjöri fyrr en hún var orðin formaður borgarráðs í nýjum meirihluta Viðreisnar, Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata. Henni finnst gaman að vera komin í sveitarstjórnarmálin og segir að margt hafi komið sér skemmtilega á óvart. „Sérstaklega hve borgarlífið hefur þróast á undanförnum árum. Þetta er sannarlega ekki sama borgin og fyrir nokkrum áratugum og það er frábært að sjá hvernig Reykjavík hefur þróast í fallega borg með þorpslegum blæ, ef svo má segja. Hún bendir jafnframt á að lýðfræði samfélaga sé að taka miklum breytingum og mikilvægt sé að vera vel á verði í þeim efnum. „Svo verðum við að passa að fylgja tækniþróun og alþjóðaþróuninni eftir og ekki síst að mæta fjölbreyttum þörfum borgaranna. Eitt af því fyrsta sem ég lærði, þegar ég starfaði sem yfirmaður öldrunarþjónustu Reykjavíkur á sínum tíma, var að það sem er í dag verður ekki á morgun. Breytingar eru óhjákvæmilegar og því verðum við að hafa kjark og þor til að standa andspænis því og taka góðar ákvarðanir fyrir nútíð og framtíð.“ Enda þótt Þórdís Lóa sé ný í borgarstjórn, er hún langt í frá nýliði í stjórnmálum. „Ég hef lengi verið í einhvers konar pólitík, s.s. stúdentapólitík og fagpólitík. Undanfarin 15 ár var ég aðallega í atvinnulífstengdri hagsmunapólitík, m.a. sem formaður Félags kvenna í atvinnulífinu á árunum 2013-2017 og formaður Finnsk-Íslenska viðskiptaráðsins 2009-2017,“ segir Þórdís Lóa um aðkomu sína að stjórnmálum. „Þá þekkti ég nokkuð vel til borgarmálanna, en ég starfaði um árabil hjá Reykjavíkurborg fyrst á íþrótta- og tómstundasviði og síðar sem framkvæmdastjóri á velferðarsviði. Einnig kenndi ég um sjö ára skeið við Háskóla Íslands m.a. rekstur, stjórnun, þjónustu og laga- og reglugerðarumhverfi í félagsþjónustu sveitarfélaga.” Um megináherslur sínar í stjórnmálum segir Þórdís Lóa, að þær hafi lengi verið frjálslyndi, jafnrétti og alþjóðamál. „Þessar áherslur tek ég auðvitað með mér í stjórnmálin. Þá hef ég mikinn áhuga á þróun samfélaga, allri þeirri dýpt og þeim fjölbreytileika sem því tengist og mér finnst ómetanlegt að hafa fengið þetta tækifæri til að móta framtíðarsýn fyrir stærsta sveitarfélag landsins,“ segir hún af einlægni. Reynslan af því að stjórna fyrirtækjum á Íslandi og í Finnlandi hafi í þessu sambandi reynst sér dýrmæt. „Ég kynntist þannig vel ólíkum efnahagslegum þáttum og alþjóðastarfi fyrirtækja. Ætli það hafi ekki ýtt enn frekar undir skilning minn á mikilvægi opins og fjölbreytts samfélags.” Sveitarstjórnarkosningar á síðasta ári voru þær fyrstu sem Viðreisn tók þátt í og liggur beint við að spyrja hvort Þórdís Lóa og félagar hafi átt von á því að komast inn? „Við fundum strax fyrir góðum stuðningi, bæði í Reykjavík og annars staðar á landinu. Ég ákvað að halda í bjartsýnina enda sýndu kannanir svo að segja frá upphafi, að okkar fólk kæmist inn. Í raun var spurningin bara hve margir. Í mínum huga voru tveir borgarfulltrúar markmiðið og miðað við kosningabaráttuna, sem var um margt sérstök enda með 16 flokka í framboði, held ég að við getum vel við unað – sem þriðji stærsti flokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur.“ Hvernig kann svo atorkukonan Þórdís Lóa við sig í nýja hlutverkinu? „Með starfsreynsluna úr velferðar- og tómstundamálum í farteskinu finnst mér svolítið eins og núna sé ég komin aftur heim,“ segir hún og brosir. „Auðvitað hefur ýmislegt breyst, samfara fjórðu iðnbyltingunni og nýjum áherslum í borgarþróun nútímans. Það eru forréttindi að fá að taka þátt í að móta samfélagið og þróa mikilvæga þjónustu á þeim tæknivæddu tímum sem við lifum,“ segir hún með áherslu. „Sem rekstrarhagfræðingi finnst mér efnahagsumhverfið og fjármálin óneitanlega skemmtileg og á því sviði eru margir afar spennandi hlutir að gerast.“ Sem dæmi um það nefnir hún tengingu fjármála og umhverfismála í borgarþróun. „Reykjavíkurborg varð á dögunum fyrsti aðilinn til að gefa út græn skuldabréf í íslenskum krónum og byggir sú útgáfa á alþjóðlegum grænum ramma og staðfestir grænar áherslur borgarmeirihlutans.“ SÍÐASTA ORÐIÐ Þórdís Lóa Þórhallsdóttir borgarfulltrúi.

x

Sveitarstjórnarmál

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Sveitarstjórnarmál
https://timarit.is/publication/1063

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.