Fréttablaðið - 07.12.2019, Síða 34
Jurij er 38 ára gamall, einstæð-ur og barnlaus, og f lutti til Íslands fyrir tveimur árum. Blaðamaður spyr hvort það sé rétt að hann hafi aðeins átt 100 evrur þegar hann lenti á
Keflavíkurflugvelli.
„120,“ segir Jurij og glottir. „En ég
þurfti að borga 22 í skutluna.“
Vinkona Jurij, Sandra að nafni,
hafði f lutt hingað á undan og talaði
vel um staðinn. „Ég þurfti eitthvað
nýtt í lífinu og norðlægar slóðir
heilluðu mig,“ segir Jurij en það var
líka annað sem kom til. „Þið Íslend-
ingar áttið ykkur kannski ekki á því
en búsáhaldabyltingin eftir banka-
hrunið 2008 vakti athygli í Evrópu,
og þar með talið Slóveníu. Þið ættuð
að vera stolt af þessu.“
Í Slóveníu stýrði Jurij góðgerðar-
samtökum sem studdu fólk sem
hafði lent í skuldum eða sektum.
Aðstoðaði hann það við að semja
og vinna af sér skuldirnar með
samfélagsþjónustu. Eins og annars
staðar hafði bankahrunið áhrif í
Slóveníu, en Jurij segir að andlega
hliðin hafi skipt meira máli en sú
fjárhagslega. Slóvenía er lítið land
en eitt það ríkasta í Austur-Evrópu.
Uppgangurinn þar tafðist á árunum
eftir hrun.
Þúsundþjalasmiður
Jurij er ánægður með lífið á Íslandi
og hyggst setjast hér að til fram-
búðar. Hann hefur þegar ákveðið að
festa kaup á íbúð í byrjun næsta árs
og hefur náð ágætis tökum á tungu-
málinu. Þúsundþjalasmiður er eitt
af orðunum sem hann hefur lært, og
það er það sem hann er.
„Mér líður mjög vel hérna. Ég veit
að ég hef viljann og hæfnina til að
skapa verðmæti og bjóða Íslending-
um þjónustu,“ segir hann. „Í byrjun
þurfti ég að leggja mikið á mig, bar
út póst og vaskaði upp á veitinga-
stöðum, til að safna fyrir verk-
færum og slíku. Í janúar á þessu ári
setti ég mitt eigið viðgerðafyrirtæki
á laggirnar, Pahernik ehf.“
Heimaborg Jurij er Maribor, í
norðausturhluta Slóveníu, upp við
austurrísku landamærin. Borg sem
er þekkt fyrir mikla fótboltahefð.
Hún er svipuð að stærð og Reykja-
vík en landslagið er allt öðruvísi. „Í
Slóveníu er allt skógi vaxið. Hvert
sem þú lítur eru tré. En Ísland
hefur aðra náttúrufegurð upp á að
bjóða. Vatnið er gott í Slóveníu, en
ég verð að viðurkenna að það er
betra hérna,“ segir hann og brosir.
„Ég kann líka mjög vel við íslenska
sumarið og hina eilífu birtu.“
Fyrsta ástin
Slóvenía er þekkt fyrir ríka íþrótta-
hefð, svo sem í handbolta, körfu-
bolta og skíðum, enda alparíki.
Sundknattleikur er þó íþróttin
sem Jurij hefur ástríðu fyrir og
hefur hann æft hana frá tólf ára
aldri. Sundknattleikur er breskur
að uppruna en er nú vinsælastur í
Mið-Evrópu og á Balkanskaga, svo
sem í Ungverjalandi, Serbíu, Króa-
tíu og Svartfjallalandi.
„Þetta var fyrsta ástin,“ segir
hann. „Ég varð ástfanginn af sund-
knattleik. Að eignast vini, æfa og
keppa saman, finna traustið. Þetta
var sérstakt og er enn.“
Á Íslandi æfa á fjórða tug sund-
knattleik og Jurij hefur tekið að sér
að þjálfa nýstofnað lið KR. Fyrir
voru tvö starfandi lið, Ármann og
Sundfélag Hafnarfjarðar.
„Hingað til hefur stefnan verið
að reyna að fá fólk sem kann íþrótt-
ina fyrir að koma á æfingar, sem er
f lest innf lytjendur, en mig langar
til að kenna Íslendingum sjálfum
að kynna sér íþróttina og mæta
á æfingar. Þá myndast fótfesta og
hefð,“ segir Jurij. „Á aðeins tveimur
mánuðum höfum við náð fjöld-
anum upp í níu iðkendur hjá KR. En
ég vil fá f leiri inn og tel að þetta sé
mjög heilsusamleg íþrótt.“
Órannsakaður markaður
Íslendingar eiga sér nokkuð sér-
staka sögu í sundknattleik því
þetta var fyrsta liðsíþróttin sem
við kepptum í á Ólympíuleikum
og í fyrsta skipti sem við kepptum
sem fullvalda þjóð. Var það árið
1936 í Þriðja ríki Hitlers. Ellefu
manns skipuðu liðið, auk fjögurra
þjálfara og fararstjóra, en í því liði
voru meðal annars sundkennarar,
læknir, dómari, skókaupmaður og
píanisti. Íslenska liðið fékk skell í
öllum leikjunum þremur en fékk
líka mikið hrós, enda sett saman í
hvelli, æfingaaðstaða bágborin og
einungis 115 þúsund sálir í landinu.
Nú er öldin önnur, fólki hefur
fjölgað, meiri peningum er varið
til íþróttastarfsemi og sundlaugar
í hverju sveitarfélagi. Engu að síður
hefur lítið farið fyrir sundknattleik
síðan 1936.
„Sundknattleikur hvarf í marga
áratugi af því að það voru engir til
að dæma leiki hérna,“ segir Jurij. „Í
sundknattleik er mikil nánd á milli
liðanna, rétt eins og í handbolta, og
þegar enginn er að dæma leikina
brjótast út leiðindi og slagsmál. Þá
verður upplifunin neikvæð fyrir
alla.“
Jurij segir að Ísland sé í raun til-
valið land fyrir sundknattleik þó
að hefðin sé ekki til staðar. „Ísland
er hinn fullkomni órannsakaði
markaður. Allir kunna að synda, frá
smábörnum til gamalmenna og hér
eru sundlaugar alls staðar. Kannski
ekki keppnislaugar, en nýtast vel til
að kenna þeim yngri í. Þetta er full-
komið.“
Aðspurður hvort sundknattleik-
ur sé ekki krefjandi íþrótt, að troða
marvaða og kljást við aðra án þess
að snerta bakkann, segir Jurij það
vissulega svo. „Sumir segja að þetta
sé erfiðasta íþrótt í heimi, en það
ætti ekki að vera nein fyrirstaða.
Íslendingum finnst skemmtilegt
að fást við áskoranir, og eru hrifnir
af hasarnum,“ segir hann og brosir.
Jurij og félagar hans í sportinu
eru metnaðarfullir og vongóðir
um að íþróttin taki ærlega við sér
á komandi árum. Nú þegar þrjú lið
eru komin til sögunnar er hægt að
hafa alvöru deildarkeppni og senda
meistarana í Evrópukeppni. Þá sér
Jurij einnig fyrir sér að hægt verði að
koma landsliði á laggirnar í nálægri
framtíð.
Umgengst heimamenn
Samkvæmt Hagstofunni eru 65
íbúar af slóvenskum uppruna
á Íslandi og Jurij þekkir um 15
þeirra lítillega. Hann segist þó ekki
umgangast þá mikið heldur frekar
heimamenn. Hann ferðast heldur
ekki mikið heim til Slóveníu. Mest-
ur tími hans fer í vinnuna og íþrótt-
ina. „Þegar ég á frítíma reyni ég að
njóta lífsins. Hvíli mig, skemmti
mér og fer í göngur út á land. Ég er
mikill náttúruunnandi og lands-
lagið hér er hreint ótrúlegt.“
Til Íslands
með örfáar
evrur í
vasanum
Jurij Pahernik kom nær allslaus til Íslands
frá heimalandi sínu Slóveníu fyrir tveimur
árum en hefur nú stofnað eigin fyrirtæki.
Hann þjálfar einnig nýtt sundknattleikslið
KR og segir Ísland tilvalið fyrir íþróttina.
Jurij þjálfar nýtt sundknattleikslið KR í Laugardalslauginni þrisvar í viku, þriðjudags-, fimmtudags- og sunnudagskvöld . Frítt er að æfa og engin krafa um sundreynslu. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI
Í BYRJUN ÞURFTI ÉG AÐ
LEGGJA MIKIÐ Á MIG, BAR
ÚT PÓST OG VASKAÐI
UPP Á VEITINGASTÖÐUM,
TIL AÐ SAFNA FYRIR
VERKFÆRUM OG SLÍKU.
Í JANÚAR Á ÞESSU ÁRI
SETTI ÉG MITT EIGIÐ
VIÐGERÐAFYRIRTÆKI Á
LAGGIRNAR.
Kristinn Haukur
Guðnason
kristinnhaukur@frettabladid.is
7 . D E S E M B E R 2 0 1 9 L A U G A R D A G U R34 H E L G I N ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð