Hugur og hönd - 01.06.1971, Síða 5
garðar voru kallaðir hrýjugarðar. Á þessa garða var
steinbíturinn látinn, var þetta kallað að hrýja stein-
bít. Ur hrýjunum var hann svo tekinn, fullverkaður
sem skreið. Ekki var sá steinbítur hertur, er veiddist
eftir Messudaga (Jónsmessu). Mun aðalástæðan hafa
verið sú, að hann var þá mjög feitur og vildi þrána.
Þessi steinbítur var saltaður og þannig verkaður kall-
aður tros. Steinbítur er veiddist eftir Jónsmessu var
kallaður Messudagasteinbítur. Messudagar eru dag-
arnir frá Jónsmessu 24. júní, til Þingmaríumessu 2.
júlí.
Væri steinbítur fleginn nýr, og nota átti roðið í skó,
var hann fleginn þannig: Skorið var fyrir um eyrugga
þvert um fiskinn, þannig að eyruggarnir fylgdu roðinu,
tekið var í eyruggana með jöfnu átaki og roðinu þannig
flett af fiskinum. Uggi á baki skipti roðinu í sund-
ur. Hægara þótti að festa steinbítinn upp, þegar hann
var fleginn. Var hann þá settur á nagla í gegnum
augun, ýmist á staur, bæjar- eða skemmuþili. Þeg-
ar búið var að flá voru eyruggarnir skornir af roðinu,
roðið var síðan þvegið upp úr vatni, og látið á hurð,
bæjar- eða skemmuþil, breitt úr því mjög vel. Teygð-
ist þá úr því og festist sjálfkrafa, losnaði ekki fyrr en
það var orðið hert (hert roð).
Væri komið með steinbít að landi óslægðan, var
hann fleginn á sama hátt og að framan greinir, en
þó þannig, að roðið var í heild af fiskinum, skiptist
í sundur um ugga á baki, sporð og ugga að gotrauf.
Það var hert á sama hátt og áður er frá sagt.
Ég hef hér gert grein fyrir því, í aðalatriðum,
hvernig steinbíturinn var til hafður af hendi ver-
manna, í hendur húsmæðranna á heimilunum, víðs-
vegar um landið.
Farnar voru skreiðarferðir langa vegu. Til voru sér-
stök skreiðaskip, er aðallega voru notuð til skreiðar-
flutninga að vori og sumarlagi, en sem hákarlaskip
að vetri. Farnar voru lestarferðir langa vegu til að
sækja skreið, jafnvel úr fjarlægum landshlutum. Það
er ekki úr vegi að geta þess að seinasta lestarferðin
sem farin var til að sækja skreið, í Kollsvíkurver í
Rauðasandshreppi, V.-Barð., var farin af séra Guð-
mundi Guðmundssyni, þá presti í Gufudal A-Barð.,
hafði hann 14 hesta undir skreið.
Það var verk húsmæðranna að sjá um að hafa roð
í skó tiltækt, er þess þurfti. Venjulega voru það
vinnukonurnar, er sniðu og saumuðu roðskóna. Það
tók ekki langan tíma að gera hverja roðskó, hjá þeim
konum sem voru vanar þessari vinnu. Þrátt fyrir
það lá mikil vinna í því, að gera roðskó. Ástæðan
var sú, að roðskór entust illa, þurfti því að búa til
mörg pör af roðskóm daglega á sumum heimilum,
sérstaklega á þeim heimilum er höfðu lítið annað efni
í skó en roð.
Roðskór voru þannig búnir til, að roðið af hertum
steinbít, var flegið frá fiskinum áður en hann var
barinn á Barsmíðasteininum. Roðið var lagt í bleyti
áður en það var notað, það var látið liggja í vatni þar
til það var orðið lint og hægt var að teygja úr því,
þá var það sniðið niður í skó og saumað samtímis.
Þegar búið var að sníða roðið var það kallað skæði.
Skæðið var nú brotið saman þannig, að úthverfan á roð-
inu (skæðinu) snéri út, nú var tásaumur saumaður,
síðan var skæðinu snúið við. Þessu næst var skór-
inn þvengjaður með þveng úr roði, byrjað var að
þvengja við hæl og haldið að tásaum, og svo áfram
að hæl, endar hafðir það langir að þeir nægðu sem
þvengur yfir fótlegg. Skórinn var svo dreginn saman
með þvengnum, myndaðist þannig hæll á skónum af
sjálfu sér, enginn hælsaumur. Þegar var lítið um efni
í skæði, var hafður hælsaumur, var það kallað að
neyma skó. Væri um hert roð að ræða, var það einnig
lagt í bleyti áður en það var sniðið, saumað og þvengj-
að. Þvengir sniðnir niður og lagðir í bleyti.
Tásaumur var úr togþræði. Nálar við tásaum, voru
venjulegar skónálar, innlend smíði. Væri hælsaumur
var notaður togþráður, og nálar þær sömu og við
tásaum. Til að þvengja með voru notaðar sérstakar
nálar, er kallaðar voru þvengjanálar, þær voru innlend
smíði.
Ending á roðskóm var nokkuð misjöfn, fór það eft-
ir gangfæri og göngulagi, einnig var roðið misjafn-
lega endingargott, roð af hertum steinbít þótti end-
ingarbetra en hert roð.
Það mun hafa þótt nauðsvnlegt að vita, hvað roð-
skór entust vissar vegalengdir, því skólaus maður
er vegalaus, þetta mun hafa verið ástæðan fyrir því,
að vegalengdir voru mældar í roðskóaleiðum, talað var
um tveggja, þriggja, fjögra, fimm og sex roðskóa-
leiðir, var þá átt við þá leið er farin var fram og
til baka. Látraheiði V-Barðastrandasýslu er sex roð-
skóaleið, það er fjallvegurinn frá Hvallátrum bakatil
við Látrabjarg að Keflavík. Alltaf voru hafðar með
roðbætur til að leggja inn í skóna, ef með þurfti.
Ég hef reynt að gera hér grein fyrir verkun og með-
höndlun á steinbítsroði til skógerðar.
Heimildir: Frásagnir gamals fólks, er tók þátt í
þeirri lífsbaráttu, sem að nokkru er horfin í móðu
liðins tíma. Mér eru minnisstæð orð gamals manns,
er sagði mér frá því, að þegar roðskórnir voru orðnir
gatslitnir, ónýtir sem skór, voru þeir kallaðir um-
vörp. Umvörpin voru lögð i bleyti, síðan voru þau
þvegin og skafin upp úr mörgum vötnum og svo soð-
in upp úr soði af hangikjöti og borðuð með hangifloti.
Þannig var það, er harðæri og hungur steðjaði að
okkar elskulega landi elds og isa.
Egill Ólafsson, Hnjóti.
HUGUR OG HÖND
5