Feykir


Feykir - 18.04.2018, Blaðsíða 7

Feykir - 18.04.2018, Blaðsíða 7
fiskvinnslufyrirtækjum og Tré- smiðjunni. Helgi ætlaði að setja hér upp einhverja verk- smiðju sem ekkert varð úr því að hrunið kom og það varð enginn grundvöllur fyrir því svo hann var bara með geymslu hér. Þegar hann keypti húsið var það í algjörri niðurníðslu en hann skipti hér um glugga og tók inn heita vatnið og var byrjaður að gera ýmislegt fyrir það en áður hafði því ekki verið haldið við árum saman eins og sjá má á myndunum sem eru á sýningu hér á veggjunum. Ég var að opna formlega lítið gallerí hér á göngunum þar sem ég ætla að vera með myndlistarsýningar. Fyrsta sýn- ingin er ljósmyndasýning Miu Hochrein frá Þýskalandi sem sérhæfir sig í að fara í gamlar byggingar og taka þar myndir og svo skúrar hún og tekur mynd af sér að skúra.“ Mia hafði verið tvisvar áður í Nes listamiðstöð þegar hún kom til Skagastrandar skömmu eftir að Hrafnhildur keypti Salthúsið og ætlaði að dvelja á tjaldsvæðinu í tvær til þrjár vikur. Þar sem veðurspáin var slæm bauð Hrafnhildur henni húsaskjól í nýja húsinu sínu þar sem Mia var í nokkurs konar útilegu og að sjálfsögðu tók hún til við að skúra. „Svo þegar hún var búin með neðri hæðina sagði hún. „Heyrðu Hrafnhildur, ég bara legg ekki í efri hæðina.“ Hér uppi var svona tveggja til þriggja sentimetra moldar- og sandlag því að þakið hélt hvorki veðri né vindum né nokkru öðru. Hún bjó hér og tók til og tók þessar myndir sem eru bara alveg dásamlegar og sýna hvernig þetta var. Þetta var sumarið 2016,“ segir Hrafnhildur. „Við verðum nú að byrja á að skipta um þak“ Í upphafi ársins 2017 fékk Hrafnhildur svo Þorgils Magn- ússon, sem nú er byggingar- fulltrúi á Blönduósi en var þá sjálfstætt starfandi tækni- fræðingur þar, til að koma og mæla og teikna húsið upp og skipuleggja húsnæðið í samráði við Hrafnhildi sem segir það hafa verið nokkuð sjálfgefið, húsið sé eins og skúffukaka, tekin í átta bita sem ráðist af gluggunum. „Það var alveg eins og þetta hefði verið hannað fyrir gistiheimili enda átti þetta að vera verbúð þannig að það getur bara vel verið en það voru engar teikningar til af þessu þannig að það þurfti að teikna þetta allt upp á nýtt. Þorgils ætlaði nú fyrst ekkert að taka þetta að sér en hann kom og leit á þetta og svo sagði hann: „Við verðum nú að byrja á að skipta um þak,“ og ég sagði, „voðalega er ég glöð að þú segir „við“ því þá veit ég að þú ætlar að taka þetta að þér.“ En þakið þurfti að fara því sperrurnar voru ónýtar svo það var tekið í febrúar,“ bætir Hrafnhildur við. Eftir mikla leit að bygg- ingarstjóra, vítt og breitt um landið, var Hrafnhildi bent á fyrirtækið Tveir smiðir á Hvammstanga sem tók verkið að sér og stjórnuðu því að hennar sögn alveg frábærlega. Eftir að kostnaðaráætlun lá fyrir kom í ljós að nauðsynlegt væri að fá hlutafé inn í fyrirtækið. „Þannig að ég ræddi við bæinn og þeir voru þá búnir að stofna fyrirtæki utan um þá hugmynd að byggja hótel á Skagaströnd og setja pening í sjóð og höfðu teiknað allt aðra byggingu en ekki búnir að fá neina fjárfesta til að koma að byggingunni. Þannig að þeir sáu það að hér væri tækifæri svo að þeir komu inn í fyrirtækið með hlutafé og eiga tæplega helming í þessu og það er búinn að vera mikill og góður stuðningur frá þeim, ég vil taka það sérstaklega fram. Þetta eru náttúrulega sömu menn og ég seldi hugmyndina að Nes listamiðstöð þannig að ég vissi við hverju ég ætti að búast, þeir eru bara jákvæðir. Þeir komu svo inn í þetta og þá var bara kýlt af stað og Tveir smiðir komu. Svo réðum við iðnaðarmenn og reyndum að fá þá úr næsta nágrenni, það voru tveir rafvirkjar héðan, feðgarnir Hallbjörn og Björn, svo sóttum við málarann inn á Blönduós, Magnús, og líka píparann, Guðmund hjá N1 píparanum. Hér voru stundum allt upp í 15 manns. Ég var alltaf svo ægilega bjartsýn og langaði að byrja í sumar sem leið en það var kannski ekki alveg raunhæft,“ segir Hrafnhildur sem greinilega lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna og hefur farið langt á bjartsýninni. Upphaflega hugmyndin hjá Hrafnhildi var að koma á laggirnar gistihúsnæði fyrir Nes listamiðstöð. „Þetta er náttúrulega orðið of stórt fyrir Nes listamiðstöð að bera eitt,“ segir Hrafnhildur, „en þau koma samt mjög sterkt inn og eru að leigja fyrir staka listamenn. Þau auglýstu þetta sem „short term residency“, stutta vinnustofudvöl, af því að það eru ekkert allir sem eiga heimangengt í heilan mánuð, fólk sem er í vinnu eða kemst ekki frá börnum o.s.frv. En þetta virðist ætla að verða vinsælt, það eru alltaf fleiri og fleiri að hafa samband. Sú fyrsta sem er hér er sænsk, af finnskum ættum. Hún sagði að ástæðan fyrir því að hún kom hingað sé að Nes listamiðstöð sé búin að sanna sig, orðin tíu ára gömul, og svo vildi hún vera í svona stuttan tíma og þá passaði þetta algjörlega fyrir hana,“ segir Hrafnhildur sem er afar ánægð með nýtinguna á gistiheimilinu það sem af er og segir að sérstaklega hafi komið á óvart hve margir Íslendingar hafi gist hjá henni. Fólk sem heimsækir skíðasvæðið í Tindastóli hefur verið áberandi á gestalistanum enda stutt að fara og liggur vel við. Uppbyggingin veitir útrás fyrir sköpun Eins og áður hefur komið fram er Hrafnhildur myndlistarkona og er útskrifuð úr textíldeild Myndlista- og handíðaskólans. 1998-2000 lærði hún skúlptúr í Bandaríkjunum og segist blanda þessu tvennu saman í þrívíddartextílverkum. En varla hefur hún haft mikinn tíma fyrir myndlistina undanfarin ár. „Nei, þetta er búið að vera starfið mitt í tvö ár, þetta hefur ekki verið neitt 40% starf, frá því að ég keypti húsið í apríl 2016 þá er þetta búið að vera nánast fullt starf, að semja við banka og gera viðskiptaáætlanir. Ég var einmitt spurð að því í gær hvort ég saknaði þess ekki að vinna ekki meira í myndlistinni en þetta er bara eiginlega sama sköpunarferlið, að gera upp svona byggingu og koma þessu á koppinn, maður fær eiginlega sömu útrásina. Þetta er bara nákvæmlega sama ákvarðanatakan. Fyrst ertu með skissu, hvernig á þetta að líta út, hvað ætla ég að hafa mikið utan á þessu, þennan lit eða hinn litinn, þetta efni eða hitt efnið. Þannig bý ég til myndverk, ég plana allt ferlið, sé fyrir mér allt verkið, svo byrja ég að vinna, viða að mér efni í það. Stundum kemur eitthvað frábært út úr því, stundum kemur eitthvað ferlega ljótt út út því. En ég held að í þessu tilfelli hafi ég endað á fyrri skalanum,“ segir myndlistarkonan glöð í bragði og er að vonum ánægð með nýjasta sköpunarverkið sitt. Það hlýtur eiginlega að nálgast hámark bjartsýninnar að kaupa hús sem var að niðurlotum komið og ætla sé að gera það að fullbúnu gistiheimili á einu ári, ekki síst þegar haft er í huga að frumkvöðullinn er ekki einu sinni búsettur á staðnum. En skyldi Hrafnhildur hafa hugsað sér að setjast að á Skagaströnd? „Allt eins, já, allt eins. Þetta þarf eiginlega bara að þróast, ég veit ekkert hvað ég er að fara út í, ég er myndlistarkona,“ segir Hrafnhildur og skellihlær. „Þegar ég keypti þessa byggingu í hálfgerðu bríaríi fyrir tveimur árum síðan þá ætlaði ég ekkert að fara að reka hótel hér eða gistingu. Ég er bara komin á eitthvert lestarspor sem ég vissi ekki að væri til og lestin fór allt í einu til hægri og ég er bara komin í eitthvað allt annað en ég ætlaði mér,“ segir þessi kraftmikla kona að lokum. Aðstaðan og útsýnið er eins og best verður á kosið. MYND: HS Húsið stendur á besta stað í bænum þar sem stutt er í fjöruna, höfnina og höfðann. MYND: HS Hluti af myndum Miu Hochrein sem eru á sýningu í gistiheimilinu. MYND: FE 15/2018 7

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.