Bændablaðið - 16.05.2019, Qupperneq 18

Bændablaðið - 16.05.2019, Qupperneq 18
Bændablaðið | Fimmtudagur 16. maí 201918 Íslensk hollusta: Hollustu- og sælkeravörur úr náttúru Íslands Fyrirtækið Íslensk hollusta var stofnað árið 2005 af hjónunum Eyjólfi Friðgeirssyni og Bergþóru Einarsdóttur. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í að vinna vörur beint úr náttúrunni og eru fjölmargar vörur nú í vörulínu fyrirtækisins. Allt byrjaði þetta með því að Eyjólfur prófaði sig áfram með eigin tejurtablöndu sem síðan sló í gegn, en hún samanstendur af fjallagrösum, birki og ætihvönn. Áður var fyrirtækið þeirra rekið undir nafninu Hollusta úr hafinu, enda var fyrst ætlunin að útfæra vörur úr þara fyrst og fremst. Þrátt fyrir nafnabreytinguna héldu þau áfram að safna þara; stórþara, beltisþara og fjörugrösum - en við bættist ýmiskonar jarðargróði eins og ber og blóðberg í margskonar útfærslum. Vörur Íslenskrar hollustu hafa margar hverjar notið vinsælda hjá virtum matreiðslumönnum. Meðal annarra hefur hinn kunni veitingastaður Noma í Kaupmannahöfn verið í föstum viðskiptum við fyrirtækið í mörg ár. „Við höfum selt þeim söl, beltisþara og fjallagrös meðal annars,“ segir Eyjólfur. Þangskeggið sem bragðast eins og jarðsveppur „Árið 2015 fórum við að vinna við vöruþróun og markaðssetningu á þangskeggi, sem við köllum Sea Truffles. Þangskeggið er rauðþörungur sem hefur lykt og bragð sem líkist mjög jarðsveppum eða trufflum. Þangskeggið hefur þó sjávarbragð; líkist gjarnan skelfiski og þá nálægt humri. Veitingamenn og kokkar eru út af þessum eiginleikum mjög áhugasamir um þetta til matargerðar. Við erum þegar komin með nokkrar vörur sem við erum að prófa okkur áfram með. Við höfum verið að leita eftir styrkjum til að halda þessari þróun áfram.“ Meira selt til veitingahúsa „Ég, og konan mín Bergþóra Einarsdóttir, höfum byggt fyrirtækið upp en erum að eldast. Árið 2016 kom dóttir okkar Ragnheiður Eyjólfsdóttir til starfa hjá Íslenskri hollustu ehf. Hún er menntuð í textílhönnun og hefur mikla og góða reynslu af stjórnun. Með henni kom nýtt líf og kraftur inn í fyrirtækið. Hún hefur góð sambönd í veitingageiranum og hefur lagt áherslu á að þjóna honum betur. Við seljum núna talsvert meira af vörum til veitingahúsa, meðal annars frosin ber, berjasafa, sultur, þurrkuð ber og jurtir eins og blóðberg, birki, ætihvönn, ætihvannarfræ og ætihvannarrót – fyrir utan nokkrar tegundir af þara. Það er sífellt að fjölga þeim jurtum sem við söfnum og erum með. Heildverslunin Garri hefur dreift þessum vörum fyrir okkur í veitingahús,“ segir Eyjólfur um þróun starfseminnar á síðustu árum. Bruggverksmiðja og lífrænt vottað te „Í vetur keyptum við og settum upp bruggverksmiðju til að framleiða bjór og vín í. Við – eða aðallega Ragnheiður – erum að þróa vörulínu og erum þegar komin með nokkrar tegundir af bjór, krækiberjavín, nokkra líkjöra meðal annars hrútaberjalíkjör sem hefur fengið góðar viðtökur og er núna seldur út á Keflavíkurflugvelli. Við köllum þessa áfengis-vörulínu Og natura. Ein ástæðan fyrir því að við fórum út í vínframleiðslu er að undanfarin ár höfum við selt talsvert af hráefni til brugghúsa og vildum koma sjálf með vín með áherslu á íslenskt hráefni.“ Íslensk hollusta hefur allt frá byrjun selt jurtate og nýlega tóku þau yfir tefyrirtækið Arctic Mood ehf. sem hefur framleitt og selt lífrænt vottað te. Eyjólfur segir að sú staða gefi færi á að leggja áherslu á að vera með fleiri tegundir af lífrænt vottuðum vörum í framtíðinni. Verða með bás í Hörpu „Tilnefningin vekur athygli á okkur og er viðurkenning fyrir starf okkar. Við vorum búin að ákveða að vera með bás með vörurnum okkar á Emblu-ráðstefnunni. Tilnefningin beinir athyglinni að okkur í Hörpu og auðveldar okkur að mynda ný tengsl við fyrirtæki í veitingarekstri og matvælavinnslu á Norðurlöndunum,“ segir Eyjólfur að lokum. /smh Norrænu Emblu-matarverðlaunin: Íslensku tilnefningarnar kynntar Norrænu Emblu-matarverðlaunin verða afhent í Hörpu í Reykjavík 1. júní og Bændablaðið kynnir hér þrjár af sjö tilnefningum íslensku dómnefndarinnar. Í næsta blaði sem kemur út 29. maí verða svo hinar fjórar tilnefningarnar kynntar lesendum. Athöfnin er haldin á tveggja ára fresti og voru verðlaunin afhent í fyrsta skipti í Kaupmannahöfn í ágúst 2017. Á öllum Norðurlöndunum bárust nú 320 tilnefningar alls, þar af rúmlega 50 á Íslandi. Samstarfsverkefni norrænna bændasamtaka Embluverðlaunin eru samstarfs- verkefni allra bændasamtaka Norðurlandanna sem eru í NBC, samtökum norrænna bændasamtaka. Norræna ráðherranefndin er einn af bakhjörlum Embluverðlaunanna. Ful l t rúar f rá ö l lum Norðurlöndunum munu koma saman í lok maí og dómnefndir velja sigurvegarana. Í dómnefnd Embluverðlaunanna sitja fyrir Íslands hönd þau Guðrún S. Tryggvadóttir, formaður Bændasamtakanna, Brynja Laxdal, verkefnastjóri Matarauðs Íslands og Ólafur Helgi Kristjánsson, matreiðslumeistari á Hótel Sögu. /smh Tilnefningarnar eru eftirfarandi: • Matvælafrumkvöðull Norðurlanda 2019: Íslensk hollusta • Embluverðlaun fyrir mat fyrir börn og ungmenni 2019: Matartíminn • Matvælaiðnaðarmaður Norðurlanda 2019: Rjómabúið á Erpsstöðum • Miðlun um mat 2019: Gísli Matthías Auðunsson matreiðslumaður • Mataráfangastaður Norðurlanda 2019: Traustholtshólmi í Þjórsá • Embluverðlaun fyrir mat fyrir marga 2019: Veitingadeild IKEA í Garðabæ • Hráefnisframleiðandi Norðurlanda 2019: Vogabúið í Mývatnssveit Matartíminn: Auka hlut íslenskra búvara í skólamáltíðum Matartíminn er verkefni sem Sölufélag Garðyrkjumanna (SFG) rekur með það meðal annars að markmiðið að auka hlut íslenskra afurða á borðum íslenskra barna með áherslu á íslenskt grænmeti, einnig er stór hluti af verkefninu að minnka matarsóun og fækka kolefnisfótsporum. Matartíminn notar alltaf íslensk matvæli sé það hægt og til að sporna við matarsóun er grænmeti notað sem ratar ekki í búðirnar, ferskt og grænmeti af bestu gerð, sem þó mögulega uppfyllir ekki útlitsstaðla. Matartíminn hefur vaxið hratt á undanförnum árum og framleiðir nú mat fyrir fimm þúsund skólabörn og starfsfólk skólanna daglega, en þjónustar einnig heildsölur og veitingastaði. Matartíminn er starfræktur í höfuðstöðvum SFG að Brúarvogi 2, undir stjórn þeirra Herborgar Svönu Hjelm forstöðumanns og framleiðslustjórans Birgis Reynissonar – en hugmyndin að verkefninu er frá þeim komin. Verkefnið hófst formlega í júní 2017. Stuðst er við ráðleggingar frá embætti Landlækni þegar matseðlar eru settir saman, þannig að máltíðirnar verði næringarríkar og mataræðið fjölbreytt. Að mestu gerður frá grunni Matartíminn leggur gríðarlega mikið uppúr gæðum hráefnis sem er notað í matargerðina, bæði það sem er í matinn og hvað er í honum. Maturinn sem Matartíminn framleiðir er að mestu leyti framleiddur frá grunni. „Þetta er í fyrsta lagi viðurkennig á því sem við erum að gera og hvetur okkur til að gera enn betur,“ segir Herborg. „Við vorum með þann draum að bjóða börnum og unglingum upp á bestu mögulegu gæði úr nærumhverfinu. Það skiptir svo miklu máli hvað við getum börnunum okkar að borða. Einnig erum umhverfismál ofarlega í hugum allra í dag. Við erum rosalega stolt af þessari tilnefninu – en Matartíminn samannstendur af flottu starfsfólki með mikla reynslu, þekkingu og menntun – og þetta hvetur okkur til að gera betur og halda áfram þessari vegðferð.“ /smh Tilnefningar Íslands til Embluverðlaunanna Rjómabúið Erpsstaðir: Hefðbundnu íslensku skyri hampað Rjómabúið Erpsstaðir í Dölum var stofnað vorið 2009 þegar kúabændurnir á Erpsstöðum hófu að framleiða ís úr mjólkinni sinni. Bændurnir Helga E. Guðmundsdóttir og Þorgrímur Einar Guðbjartsson, sem einnig er mjólkurfræðingur, hafa tekið á móti hópum allt frá fyrstu tíð. Árið 2010 hófst framleiðsla á gamaldags hefðbundnu skyri á rjómabúinu og í kjölfarið kom ostaframleiðsla og skyrkonfektsgerð. Samhliða var unnið að því að þróa gestamóttöku sem er þannig hönnuð að bæði er hægt að fylgjast með störfunum í heimavinnslunni og atferli kúanna í fjósinu á sama tíma. Var það þeim Þorgrími og Helgu kappsmál frá byrjun að taka vel á mót gestum og geta eftir fremsta megni frætt þá um íslenskan landbúnað, íslensku kúna og daglegt líf bænda. Um 15 þúsund ferðamenn sækja Erpsstaði heim ár hvert og er ísinn vinsælasta varan í sveitaversluninni í gestamóttökunni. Skyrstofa Erpsstaða Í byrjun apríl 2018 var formleg opnun á Skyrstofu Erpsstaða; sögusýningu, fræðslusetri og skyrbar til heiðurs hinu hefðbundna íslenska skyri. Á skyrbarnum gefst gestum kostur á að smakka slíkt fágætt skyr. Rjómabúið Erpsstaðir er einn fárra aðila í mjólkurvinnslu sem framleiðir slíkt skyr. „Við reynum að vinna með allt hráefnið og nota íslenskar náttúruafurðir eins og hægt er. Við notum til dæmis aðalbláber, rabarbara, mjaðjurt og fíflahunang sem bragð í ísinn, notum skyrmysuna í drykki og slíkt,“ segir Þorgrímur. Hann segir að í grófum dráttum megi segja að mjólkurvinnslan sé þannig að fyrst sé mjólkin skilin, rjóminn fari í ísinn, undanrennan í skyr, mysan í drykkinn og hratið úr drykknum í kexið. „Okkur er það mikill heiður að hljóta þessa tilnefningu og vonum svo sannarlega að við séum verðugir fulltrúar íslenskrar matvælaframleiðslu í keppninni að þessu sinni,“ segir Þorgrímur. /smh Bergþóra og Eyjólfur á matarmarkaði með vörur sínar. Mynd / úr einkasafni Þorgrímur Guðbjartsson. Mynd / smh Guðmundur Egill Ragnarsson matreiðslumeistari og Birgir Reynisson framleiðslustjóri Matartímans. Mynd / smh Herborg Svana Hjelm. Mynd / Matartíminn

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.