Spássían - 2012, Blaðsíða 10
10
Lestrarupplifuninni er oft líkt við ferðalag. Í gegnum
bækur kynnumst við nýjum stöðum, ólíkum viðhorfum
og framandi hugmyndum.
Þegar jeg les bækur góðra höfunda, sem birta
eðlilegar og sannar mannlífsmyndir, hvort sem
þær eru nýjar eða fleiri alda gamlar, þá er mjer
sem jeg heyri fótatak þúsund pílagríma, sem
allir ganga sama veginn, brautina miklu, sem
liggur út úr fornaldarmyrkrinu yfir nútíðina og
inn í ómælisgeim framtíðarinnar. — Öll erum
við með í þeirri fylgd; öll lútum við sömu lögum:
fæðumst, stríðum og deyjum. Öll hefjum við
augu okkar frá jörðu og stefnum á ljósin, sem
tendruð eru út um alla geima.
(Aðalbjörg Benediktsdóttir, „Erindi“, Hlín,
1927,108-109)
Ferðin í sjálfu sér er því vinsælt hugðarefni
höfunda; þetta millibilsástand þar sem allt er
á hreyfingu, ekkert öruggt og spenna í lofti.
Slíku ástandi fylgir frelsi frá hversdeginum – og
möguleiki á nýrri tegund innsæis:
Ætli maður hugsi mest á siglingu? Eða á ferð
yfirhöfuð? Ég var einmitt að lesa þessi orð hans
Ugga í Fjallkirkjunni: Það var vegna heimilisleysis
míns, að ég hafði farið að hugsa. Sá sem hugsar
er hvergi lengur sveitfastur, landbundinn né
safnaðarmaður. Hann stendur utan við. Hann er
einn sér. Hann er frjáls sem fuglinn.
(Oddný Eir Ævarsdóttir, Jarðnæði, Bjartur,
2011, 148)
Slíkar hugmyndir fá gjarnan á sig trúarlegan blæ og
bandarísku bítskáld 6. áratugar síðustu aldar, sem gerðu
ferðalagið að heimspeki sinni, sóttu mikið í Búddisma:
Ég er meiri hræsnari núna og dálítið þreyttur og
kaldhæðinn. [...] En þá trúði ég virkilega á gjafmildi
og góðmennsku og auðmýkt og kapp og hlutlausa
ró og visku og alsælu, og ég trúði að ég væri
gamaldags bhikku í nútímafötum á vafri um heiminn
(yfirleitt hinn gríðarstóra þríhyrning New York til
Mexíkóborgar til San Francisco) í því augnamiði að
snúa hjóli hinnar Sönnu Merkingar, eða Dharma, og
öðlast sjálfur verðleika sem framtíðar Búdda (Sá sem
er vaknaður) og sem framtíðarhetja í Paradís.
(Jack Kerouac, The Dharma Bums, London, Flamingo,
1994, 8)
Slíkt ferðalag endar reyndar furðu oft í afskekktum
fjallakofa þar sem sögupersónan nær upphöfnu ástandi
– eða gengur hreinlega af vitinu, eftir því hvernig á
það er litið – í einsemdinni í náttúrunni. Þær hugmyndir
eru vitanlega af mun eldri meiði, sækja til dæmis til
ritsins Walden eftir Henry David Thoreau um miðja 19.
öld, og skjóta alltaf reglulega upp kollinum. Ferðin
tekur því alltaf enda, jafnvel hjá þeim sem hafa kosið
sér líf flakkarans. En þangað til má reyna að gleyma
áfangastaðnum og njóta ferðarinnar.