Spássían - 2012, Page 15

Spássían - 2012, Page 15
15 elska aðrar konur, eiginmanna sem halda framhjá, ömurlegrar atvinnu, ógreiddra námslána, blankheita og ástvinamissis. Þótt málefnin séu ekki sérlega upplífgandi er bókin langt í frá niðurdrepandi og raunar drepfyndin á köflum. Ástin er líka endurútgefin sumarið 2012. Um er að ræða þrjár skáldsögur sem ekki er hægt að kalla hefðbundnar ástarsögur þótt þær fjalli um þetta vinsæla söguefni. Þrjár bækur Auðar Övu Ólafsdóttur, Upphækkuð jörð, Rigning í nóvember og Afleggjarinn, koma út í fallegum kiljum. Upphækkuð jörð segir sögu Ágústínu sem hefur veikburða fætur og styðst við hækjur en hefur afar fjörugt ímyndunarafl. Þetta er saga um 13 ára stúlku sem er ólík flestum öðrum og ætlar sér eitthvað stórt og mikið og leggur í lokin í ferðalag upp Fjallið eina. Upphækkuð jörð er ekki ástarsaga og það er Rigning í nóvember ekki beinlínis heldur en hún snýst samt um þau þemu sem eru svo áberandi í slíkum bókum, ást og leit, og er sögð á afskaplega fallegu máli með indælum blæ. Enn betri er Afleggjarinn, þar sem segir frá ungum manni sem kynnist ungri dóttur sinni sem hann gat, alveg óvart, í gróðurhúsi. Svar við bréfi Helgu er einnig komin út í kilju fyrir lestrarþyrsta Íslendinga, en hún er saga um ást og aðskilnað, missi og það hvað gerist þegar við hikum, þar til allt er orðið um seinan. Titill ljóða- og örsagnabókarinnar Rómantískt andrúmsloft eftir Braga Ólafsson gefur sterkar vísbendingar um rómantík og kossa. Þetta eru þó engir hefðbundnir ástarsöngvar og oft þarf lesandinn að lesa aftur og aftur til að fá einhvern botn í textann. Bragi hefur þolinmæði eða seiglu til að gera sér mat úr hversdeginum, og útkoman er oft bráðsnjöll eins og í ljóðinu um nágrannann sem dó. Ljóðmælandi minnist samskipta sinna við nágrannann sem hvorugur nennti í raun að eiga í og kveðst nú geta, fyrst nágranninn er dáinn, „nýtt betur / þann tíma sem ég á eftir“ (Rómantískt andrúmsloft, 19). Í bókinni er jafnframt vísað í samfélag nútímans sem virðist aldrei vera rökrétt – og því er kannski ekki skrítið að ljóðin í bókinni séu það ekki heldur. ÁST Í ÚTLÖNDUM - VIÐKVÆM OG HÆTTULEG „Ef það hefði ekki verið vegna ástarinnar, ef ástin hefði ekki komið og breytt öllu, þá hefði ég aldrei staðið hérna: gegnsósa af framtíð og sögu, eltur uppi“ (Allt er ást, 10). Svona tekur sögumaður skáldsögunnar Allt er ást eftir Svíann Kristian Lundberg til orða undir lok formála bókarinnar. Ástin er ásinn sem allt snýst um þótt ekki sé haldin tryggð við hefðbundna sögufléttu slíkra sagna. Í sögunni fléttast saman raunveru- leiki og skáldskapur, sögupersóna og sjálfur maðurinn Kristian Lundberg. Rithöfundurinn Kristian og sögupersónan Kristian hafa átt geðsjúka móður, glímt við eiturlyfjafíkn og alkóhólisma og kynnst því sem kalla má neðstu lög samfélagsins. Og báðir reyna þeir að skrifa bók sem á að fanga þessa reynslu þar sem ástin, gömul kærasta frá eiturlyfjatímabilinu, er komin aftur. Hún hefur elt hann uppi og hann rifjar upp og kryfur, gegnsósa af framtíð og sögu, sjálfan sig og líf sitt. Á Bókmenntavefnum bendir Úlfhildur Dagsdóttir á að í sögunni sé byggður upp heimur andstæðna þar sem eyðilegging og niðurlæging speglast í ástinni. Ástin vegur upp á móti sjálfshatrinu en hún er líka brothætt, viðkvæm og erfitt að henda reiður á henni, enda spyr sögumaður undir lok bókar: „Er ástin bara hvítur, flöktandi logi í myrku herbergi?“ (157). Við þessu er svo sem ekkert svar en í bókarlok er lesandi nokkuð viss um að allt eigi eftir að fara vel – þótt alltaf þurfi að fara varlega. Aðalsöguhetja bókarinnar Konan sem hann elskaði áður hefur fulla ástæðu til fara varlega. Stórhættuleg ást er ekki það sem lesanda dettur í hug þegar hann horfir á kápuna sem er rósrauð og lokkandi, en við lestur formálans renna á hann tvær grímur: Ert þú hún? Ert þú sú sem hann er með núna? Er það þess vegna sem þú ert komin í leit að mér? Ef það eru ekki liðin fimmtíu eða sextíu ár síðan þetta var skrifað eru alla líkur á að ég sé dáin. Sennilega myrt (Konan sem hann elskaði áður, 5). Þannig hefst sagan af Libby sem gegn vilja sínum fellur fyrir hinum kokhrausta ekkli Jack, giftist honum og svífur um tíma á rósrauðu hamingjuskýi. Í kjölfar umferðarslyss, þar sem Libby slasast alvarlega, dregur ský fyrir sólu. Jack er grunaður um að hafa sett „bílslysið“ á svið sem og að hafa myrt fyrri eiginkonu sína, Eve. Þegar Libby finnur svo dagbækur Eve fer hún að efast um sakleysi og ást Jacks og óttast um líf sitt. Spurningin er hins vegar hver myrti Eve og hvers vegna. Með hverju leyndarmálinu sem Libby afhjúpar hefur hún ríkari ástæðu til að óttast um eigið líf.

x

Spássían

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.