Spássían - 2012, Page 44
44
„TESSA LOU FIX ÓLST UPP Í MILLJÓNABORGINNI SEM
ALDREI SEFUR, EN EINNIG Í GÖMLU HÚSI RÉTT VIÐ
DRAUGABÆINN SHARON SPRINGS Í NEW YORK-FYLKI.
AÐ UPPLIFA SHARON SPRINGS ER EINS OG AÐ RÖLTA
UM ÍSLENSKU LANDSBYGGÐINA; SJÁ EKKI NOKKURN
MANN, EN FINNA SAMT ALLRA AUGU Á SÉR. HÚSIN
ERU DRAUGAHÚS OG ÞARNA MÆTIR RAUFARHÖFN
THE SHINING. DÁIN GLÆSIHÓTEL, DRAUGAR LÁTINS
MIKILFENGLEIKA, STARA Á ÞIG MEÐ BROSTNUM AUGUM.
EF ÞÚ KÍKIR INN SÉRÐU EINSTAKA KRISTALSLJÓSAKRÓNU
HANGA ÚR LOFTINU, ÞRÍFÆTTA STÓLA OG BROTNA
SPEGLA. Í ÞESSU ÞORPI SÁ ÉG TESSU FYRST, GANGANDI
UM Á SUNDBOL OG LEIÐA NAKINN DRENG SÉR VIÐ
HÖND. EFTIR NOKKUR ÁR ÞEKKI ÉG HANA BETUR, OG
ÞÓ EKKI, EN REYNI AÐ VEIÐA UPP ÚR HENNI NOKKUR
SVÖR UM LIST OG LJÓÐ, EINN NÍSTANDI KALDAN
VETRARMORGUN Í CHELSEA.
TESSA LOU fæddist í New York 1977 og fyrir utan nokkra
vetur í Kaliforníu og Flórída, hefur hún búið þar alla sína
ævi. Hún hefur unnið á öllum sviðum skapandi lista. Ritlist,
ljósmyndun, collage, gjörningalist, stuttmyndir, þrykk og
hönnun eru bara toppurinn á ísjakanum ef maður byrjar
að skilgreina vinnu hennar. Hún hefur verið í samstarfi við
málara, ljóðskáld og gjörningalistamenn og setið fyrir
hjá öðrum myndlistarmönnum og -konum. Ekki má svo
gleyma því að hún var stílisti fyrir hljómsveitarmeðlimi
rokkhljómsveitanna Daddy og Blondie.
„Ég vinn með hugtök sem kanna fegurð og ófyrirsjáanlegt
myrkur, í stórfenglegum hlutum sem við sjáum dags daglega.
Til dæmis tré og byggingar. Ég held að hið mikilúðlega
og tignarlega, ára eilífðarinnar sem sveipast um þessa
hluti, höfði til mín. Ég gæti verið á gangi með þriggja
ára son minn og tekið eftir hversu stórar og yfirþyrmandi
byggingarnar við götuna okkar eru þegar maður er jafn
lítill og hann - en um leið fundið fyrir duttlungum og dulúð
þeirra.“
„Ég varð sérstaklega heilluð af dómshúsinu í smábæ sem
nefnist Knoxville í Iowa - faðir minn er fæddur og uppalinn
þar - heilluð af öllu því sem það stendur fyrir í byggingarstíl
sínum og í augum bæjarbúa; staðlaðar hugmyndir um hið
góða og hið illa, réttlæti. Mismunandi sjónarhorn þess vöktu
hjá mér skelfingu og það virtist gjörbreytast að nóttu til.
Mér finnst gott að láta myndavélina leiða mig inn í slíkar
sögur. Ég elska líka að nota þá vinnuaðferð þegar ég tek
myndir af trjám. Myndin dregur eitthvað upp á yfirborðið
sem ég sá ekki með beru auga. Ég er mjög heilluð af því
hversu mennsk tré geta verið.“
„Ljósmyndir mínar eru bæði borgar- og náttúrudýrkun.
Ég geri ráð fyrir að þetta komi frá tvöföldum bakgrunni
mínum. Þrátt fyrir að vera alin upp í New York-borg eyddi
ég líka hluta ársins í strjálbýlinu í norður New York-fylki.
Ég elskaði að vera í sveitinni og jafnvel sem barn var ég
meðvituð um þessa heljarmiklu gjá sem skildi að fólk í borg
og sveit, hvernig fólk hagaði lífi sínu. Ef til vill spilar þar
inn í að pabbi minn ólst upp á bóndabæ í miðvesturríkjum
Bandaríkjanna og kom til New York-borgar til að verða
rithöfundur. Bóndabæir, lækjarsprænur, hlöður, grátvíðir,
huldir epla-aldingarðar og húsbýlabyggð og fátækt
spila á móti hinum óneitanlega tilkomumikla New York-
sjóndeildarhring - fíkn og rokk og ról og fordómalaus
fjölbreytni; milljónamæringar og snillingar, bæjarblokkir
og þjóðfélagslegt óréttlæti.“
„Ég fór af stað með mína eigin fatalínu að hluta til vegna
þess að mér líkuðu ekki valkostirnir sem voru í boði
fyrir son minn. Ég var ekki hrifin af kynjaskiptingunni í
fataúrvalinu - fótboltar og rendur fyrir drengi og bleikt
myndavélin
leiðir mig inn
í sögurnar
Eftir Þórdísi Aðalsteinsdóttur
Ljósmyndir: Tessa Lou Fix