Spássían - 2012, Síða 46

Spássían - 2012, Síða 46
 46 „ og prinsessulegt fyrir stúlkur. Ég vildi bara kúl og sæt föt sem samræmdust hugmyndum mínum um tísku. Svo fór ég á bólakaf í hið skapandi ferli silkiprentsins. Silkiprent var einhvers konar þjóðbúningur í Punk Rock tískunni, af því að upphaflega gerði það fólki kleift að skapa sínar eigin myndir og klæðast þeim. Það þurfti ekki að kaupa sig inn í vörumerki eða stofnun einhvers annars. Þetta gerist ennþá að einhverju leyti. Það gladdi mig nýlega að sjá ný þrykk sköpuð á staðnum, meira eða minna gjaldfrjálst, hjá Occupy Wall Street.“ „Þegar ég fór að vinna með þrykk fór ég, eins og í ljósmyndunum, að sjá öll þessi mynstur og sjá myndir koma í ljós og ég leyfði ferlinu bara að leiða mig. Skyndilega fóru þessir fallegu og undraverðu hlutir að gerast, og þeir tóku sig vel út á fatnaði. Ég var stílisti hjá rokkhljómsveitum í mörg ár og stílisti fyrir myndatökur, þannig að tískan er í blóðinu á mér. Ég elska að taka íkoníska mynd, snúa uppá hana og klæðast henni!“ „Lífið, myndlist, ljóðlist, móðurhlutverkið, sköpun, dauði og kynlíf fléttast allt saman hjá mér. Ég hef fulla trú á því að móðurhlutverkið sé alveg jafn skapandi viðleitni og, segjum t.d. ljóð eða málverk. Samt vill það oft vera svo að mér finnst ég reyna örvæntingarfullt að krafsa saman einhverjum augnablikum þar sem ég hef tíma til að „gera eitthvað”. Ég gríp hvert augnablik til að skrifa ljóð. Ég skrifa mikið í neðanjarðarlestinni. Kannski er það þess vegna sem ég laðast svo að ljósmyndun um þessar mundir. Mér finnst ég vera að virða fyrir mér heiminn í kringum mig sem er stanslaust á hreyfingu, kannski hagræða honum aðeins eða bara sýna visst sjónarhorn sem ég sé á þeirri stundu - eða vil sjá, ef út í það er farið. Ég veit ekki nákvæmlega af hverju ég kýs einhvern ákveðinn miðil til að kynna ólíkar hugmyndir. Ég fæ bara tilfinningu eða uppljómun um hvernig ég vil sýna eitthvað og reyni að fljóta með því. Þetta „fylgja eftir” sjónarhorn listamannsins er eitthvað sem ég hef lært mikið um og af. Og sumar hugmyndir þarf maður að klæða sig í! Sumar þarf að ræða eða jafnvel öskra, aðrar þurfa aldrei að yfirgefa huga minn eða hjarta. Sumar tjái ég bara með því hvernig ég el upp son minn eða elda mat eða geng um hverfið mitt eða höndla misklíð milli vina.“ „Ég hef lesið ljóð mín hér og þar um New York-borg. Ég hef líka unnið óopinberlega að samvinnuverkefnum með ljóðlist og tónlist, en ég hef aldrei náð að einbeita mér að því fyrir sjálfa mig. Áður vann ég að hliðarverkefnum í hljómsveitum. Ein hét Slut og var í raun gjörningalist. Þetta var fyrir löngu síðan en vá, það var athyglisverð lífsreynsla! Í þá daga gerði ég fjöldann allan af stuttmyndum og myndbandsverkum með vinum mínum með okkur sjálf í aðalhlutverkum. Ég vona að einhver af næstu verkefnum mínum verði stuttmyndir og myndbandsverk. Ég er með ýmsar myndir og söguþræði í höfðinu sem ég held að sé einungis hægt að setja saman í myndbandi. Það er eins og ég heyri í þeim með líkama mínum og sál.“ „Ég trúi því að þegar ég skapa komist ég næst tilgangi mínum og dýpstu meiningu í tilvist minni. Ég hef fulla trú á því að við búum öll yfir þessum eiginleika. Þegar ég segi skapa þá meina ég svo marga hluti. Það þýðir svo margt annað en að búa til myndlist eða gjörning. Sem manneskja er ég í tengslum við hvert grjót og steinefni og tré á þessari jörð, þar sem við erum öll efniskennd og á endanum umkringd sama lofti og sömu bylgjum. Ég er tengd hverjum verðbréfamiðlara á Wall Street, heimilislausa krakkneytanda, kind, mörgæs eða nýfæddu barni. Þegar ég dreypi á þessari raun-orku með því að skapa, þá er ég alsæl.“ „Ég verð að segja að fæðing er stórvirkasta aðferðin til að koma sjálfum sér í samband við þessa alheimsorku. Þú ferð að sjá alla hluti á annan - frumulegan, genetískan og endurskapandi – hátt. Sérstaklega einstæðar mæður, en kannski finnst mér það bara af því það er mín reynsla. Ég held að við sækjumst öll eftir að tengjast einhverju - hvert öðru og umhverfi okkar - dýrum eða steinefni, heimsveldi eða fræðikenningu, sögu og framtíð. „Hverju ég leita eftir í lífinu? Öllu ofangreindu held ég. Meiningu og þeirri tilfinningu að finna fyrir ró í heiminum. Fyrir mér þýðir það að búa til þessa hluti – það færir mig að minnsta kosti nær takmarkinu. Og ég held að ferðin þangað, að finna skrefið í rétta átt, sé hluti af lokatakmarkinu hvort eð er. Að komast nær „því“ er kannski „það“ eftir allt saman.“ Tessa Lou Fix hefur nýlokið við stuttmynd í samvinnu við listamennina Puma Perl, Levi Lion og ljósmyndarann og leikarann Scott Patrick Green, og verður hún frumsýnd í New York í sumar. Lífið, myndlist, ljóðlist, móðurhlutverkið, sköpun, dauði og kynlíf fléttast allt saman hjá mér. Ég hef fulla trú á því að móðurhlutverkið sé alveg jafn skapandi viðleitni og, segjum t.d. ljóð eða málverk.

x

Spássían

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.