Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - aug. 2020, Blaðsíða 4

Ljósmæðrablaðið - aug. 2020, Blaðsíða 4
4 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - ÁGÚST 2020 Daginn sem þetta er ritað átti ég að vera í steikjandi hita við sundlaugarbakka á Spáni. Stórfjölskyldan ætlaði að fagna 70 ára afmæli tengdaforeldra minna. En heimurinn var með önnur plön. Í staðinn glími ég við ófyrirsjá- anlegt veður Íslands á ferðalögum mínum innanlands og kjarni fjölskyldunnar fer saman á fótboltamót sona minna – sem hægt er að kalla öðruvísi skemmtun. Það er ekkert dýrmætara en að vera í kringum fólk sem manni þykir vænt um, jafnvel í úrhellisrign- ingu. Hlutirnir hafa breyst rosalega hratt síðast- liðna mánuði, en er þessi breyting kannski til góðs? Það virðist sem þessi ósköp sem COVID-19 er hafi neytt okkur til að taka skref aftur á bak og virkilega hugsa út í hvað er mikilvægast í lífinu, til að róa okkur og læra að njóta þess sem er að gerast í kringum okkur. Oft hef ég hugsað hversu mikið hefur verið lagt á okkur ljósmæður og annað heil- brigðisfagfólk á þessum tíma. Við höfum þurft að hlaupa hraðar og finna tíma til að gera allt bæði í vinnunni og á heimilinu. Heimur- inn snérist stöðugt hraðar. Við Íslendingar vorum orðnir vanir því að yfirgefa landið reglulega og ferðast, fara í helgarferðir og vera í fríi þar sem við vildum. Nú höfum við fengið tækifæri til að tengjast aftur okkar fallega landi, fólki og þjóð. Að sjá undur Íslands án allra erlendu túristanna á sama hátt og sumir muna eftir í æsku. Ár hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra, sem svo var tilnefnt af Alþjóðaheilbrigðismála-stofnunni, gekk í garð og í lok febrúar 2020 greindist fyrsta tilfellið af COVID-19 á Íslandi. Síðan þá hefur faraldurinn sýnt fram á mikilvægi okkar starfa og við verið í svokall- aðri framlínu. Þessir fordæmalausu tímar og breyttar aðstæður í samfélaginu kölluðu á okkar frumkvæði, óhefðbundin viðbrögð og hagkvæmar heildarlausnir. Ráðleggingar og leiðbeiningar varðandi COVID-19 fyrir verð- andi mæður og börn hafa haft þau áhrif að fleiri konur hafa íhugað fæðingar utan spítala. Þær hafa fundið öryggi í því að vera heima, en reglur spítalans takmörkuðu viðveru föðurs eða stuðningsaðila í fæðingarferlinu til að bregðast við hættu á smiti. Alþjóðaráðstefnu ljósmæðra sem átti að vera í Balí í júní var frestað um ár en fjöldi ljósmæðra hafði áætlað að fara þangað til að fjalla um sínar rann- sóknir og kynnast nýjustu þekkingu innan ljósmóðurfræða. Ljósmæðrablaðið endurspeglar breytingar og fjölbreytileika í barneignarþjónustu samtímans. Nýjar áskoranir í ljósmóðurstarfi taka á, ekki síst á tímum COVID-19 heimsfaraldurs. Ritstjóri tók saman efni úr fjölmiðlum og frá ljósmæðrum sem þær sendu til blaðsins um áhrif og breytingar vegna COVID-19. Í fréttum er m.a. sagt frá nýrri bráðaþjónustu kvennadeilda Landspítalans, yfirlit gefið yfir rannsóknarstörf ljósmæðra og sagt frá Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda sem hefur styrkt doktorsrannsóknir ljósmæðra myndarlega og veitt var úr í 5. sinn á þessu ári. Björg starfaði sem ljósmóðir í Dalasýslu árabilið 1910-1951 við bágbornar aðstæður í sveitum landsins á þeim tíma og við minnumst þess hvernig heimsfaraldur spánsku veikinnar lagðist á barnshafandi konur árið 1918 mun harðar en sá sem við eigum við í dag. Á forsíðunni blaðsins er listaverk úr ljós- myndaseríu sem heitir Attempting to Disappear eftir myndlistarkonuna Ragnheiði Maísól Sturludóttur. Myndin talar sterkt til móðurhlut- verksins þar sem kona umbreytist í eitthvað yfirnáttúrulegt á einu augnabliki. Í ljósmóður- fræðináminu er lögð áhersla á eðlilegt barn- eignarferliog mjög skemmtileg dagbókabrot ljósmæðranema eru í þessu blaði sem lýsa þeirri áherslu, yfirsetunni og sambandinu við konur og fjölskyldur þeirra. Rannsóknir í ljósmóðurfræði eru nauðsyn- legar til að bæta við þekkingu í starfi og auka gæði barneignarþjónustunnar á Íslandi sem og víðar. Það var því ánægulegt að þann fallega dag 5. júní varði Valgerður Lísa Sigurðardóttir doktorsritgerð sína í ljósmóðurfræði en ritgerð hennar ber heitið: Neikvæð upplifun fæðingar og ljósmóðurmeð- ferð: Framtíðarsýn barneignarþjónustu. Á árinu 2020 útskrifast 11 ljósmæður og eru lokaverkefni þeirra eins og heiti þeirra bera með sér mikilvæg og áhugaverð. Í vor luku auk þess fjórar ljósmæður meistaragráðu í ljósmóðurfræði. Ritrýndar greinar eru afar mikilvægar til að dreifa upplýsingum og fræða okkur um nýjustu rannsóknir í ljósmóðurfræði í íslensku samhengi, til að innleiða jákvæðar breytingar á klínískum vettvangi. Í þessu blaði eru kynntar niðurstöður eigindlegrar rannsóknar um reynslu foreldra af hópmeðgönguvernd sem byggir á doktorsverk- efni Emmu Marie Swift sem hún og samstarfsfélagar skrifa. Vitnað er til foreldris sem sagði: Þetta var fyrir sálina og hjartað, þetta var mitt öryggi. Að lokum skrifar Hólmfríður Garðarsdóttir (Hófí) dásamlega hugleiðingu ljósmóður um starf ljósmóður í þróunarhjálp; með konum heima og á flótta. Hún minnir okkur á; að samsetning á hópi barnshafandi og fæðandi kvenna á Íslandi hefur tekið miklum breytingum á stuttum tíma og að rannsóknir sýni hvernig aðfluttar konur hafi minna að segja um eigin umönnun, finni fyrir óöryggi og upplifi mismunun í heilbrigðisþjónustu m.a. í löndum þar sem heilbrigðisþjónusta er á heimsmælikvarða. Ljósmæðrablaðið tekur undir með Hófí þegar hún skrifar að ljósmæður hafi ... þurft að finna lausnir á tímum og í aðstæðum þar sem bjargir hafa verið litlar eða engar ... og að ... í hjarta okkar vitum við að þótt hver móðir og hvert barn séu einstök og engum öðrum lík er okkar verk hvar sem er ætíð það sama; að veita móður og barni eins góða aðstoð og hægt er, á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu, á eins traustan, öruggan og mannlegan hátt og mögulegt er. Ljósmæðrablaðið óskar ljósmæðrum gleðilegs sumars. Njótum þess að ferðast innanlands og vera í kringum okkar fallegu og endurnærandi náttúru. BREYTTIR TÍMAR - BREYTT SAMFÉLAG R I T S T J Ó R N A R P I S T I L L Edythe L. Mangindin, ljósmóðir á Landspítala og doktorsnemi í H.Í.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.