Ljósmæðrablaðið - aug. 2020, Síða 6
6 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - ÁGÚST 2020
Það er óhætt að segja að margt sé breytt
síðan síðasta tölublað Ljósmæðrablaðsins
kom út. Í byrjun árs lamaði covid-19 sjúk-
dómurinn smám saman allt samfélagið
og setti mark sitt á vinnu margra en þó
sérstaklega heilbrigðisstétta sem enn einu
sinni sýndu fram á mikilvægi sitt og nú á
fordæmalausum tímum, þó að það endur-
speglist engan veginn í launum fólks.
Eins og vonandi flestir vita hefur WHO,
alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, tileinkað
árið 2020 ljósmæðrum og hjúkrunar-
fræðingum til að vekja athygli á þessum
stéttum og mikilvægi þeirra. Þar sem vel
menntaðar ljósmæður eru að störfum hefur
dregið úr mæðra og nýburadauða og kven-
heilsa er betri. Þetta hefur WHO dregið
fram og undirstrikað. Þessar stéttir gegna
lykilhlutverki bæði í umönnun veikra og
forvörnum. Það er því svolítið umhugs-
unarvert að á þessu ári ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga skellur
á heimsfaraldur sem alls ekki er séð fyrir endann á.
Við hér á norðurslóðum búum þó betur en flestar aðrar
þjóðir því að vel hefur gengið að eiga við covid-19 smitin og
ekki hefur skort hlífðarfatnað. Þær fréttir hafa borist okkur
úr alþjóðastarfinu að margar ljósmæður hafa veikst og sumar
látið lífið þar sem þær hafa sinnt störfum sínum án viðeigandi
búnaðar og þar af leiðandi veikst. Þetta eru daprar fréttir á ári
sem er sérstaklega tileinkað okkur.
En að innanlandsmálum, starf félagsins hefur verið mikið til
í lágdeyðu vegna aðstæðnanna í þjóðfélaginu. Þeim viðburðum
sem voru á áætlun eins og aðalfundi og ljósmæðradeginum í
tengslum við 5. maí alþjóðadag ljósmæðra, höfum við þurft að
fresta til haustsins. Eins hluta kynningarátaks sem var hugsað
vegna ársins okkar 2020. Við horfum þó björtum augum til
haustsins og áætlum að drífa starfið í gang af krafti þegar
haustar.
Það var lærdómsríkt að reyna að leysa þau mál sem ekki
þoldu bið í gegnum fjarfundi, eins og kjarasamninga og hitta
þá ekki viðsemjendur augliti til auglitis. Það tókst þó eftir eins
árs samningaþóf að ganga frá og undirskrifa nýjan kjarasamn-
ing þar sem aðalsóknarfærin liggja í breytingum á vinnutíma
vaktavinnufólks. Því miður koma þær breytingar þó ekki til
framkvæmda fyrr en 1. maí á næsta ári en stýri- og innleiðing-
arhópar hafa nú þegar hafið störf. Það þarf að undirbúa þessar
breytingar vel, að mörgu er að hyggja, ekki síst því að vinna að
breytingum á kerfum sem halda utan um vinnutímann. Kjara-
samningar að þessu sinni voru á margan hátt sögulegir þar sem
unnið var þvert á bandalög um breytingu á vaktavinnunni og
samið var við ríkið, sveitarfélög og borgina í einu lagi. Segja
má að þarna hafi ákveðinn femínískur sigur unnist því að í
fyrsta sinn er stórum kvennastéttum eins hjúkrunarfræðingum,
sjúkraliðum og ljósmæðrum gert kleift að vera í fullu starfi
og þær sem vinna mest íþyngjandi vaktir
(næturvaktir) geta með nýju kerfi mögu-
lega unnið það sem nú telst 80% starf eða
32 klst. og fengið 100% laun fyrir.
Það verður spennandi að sjá hvernig
þetta nýja kerfi kemur til með að virka –
gamla kerfið var næstum orðið 50 ára og
rík þörf var komin á breytingar. Leiðar-
ljósið við breytinguna var að bæta jafn-
vægi milli vinnu og einkalífs og stuðla
að betri heilsu vaktavinnufólks. Vonandi
tekst það vel og gerir vaktavinnuna bæri-
legri og eftirsóknarverðari. Án efa verða
hnökrar á þessu, bæði sem hugsanlega
var búið að sjá fyrir og eins eitthvað sem
enginn kom auga á fyrir fram. Varnagli
var sleginn til að taka á því og munu
innleiðingarhópar hafa vakandi auga með
kerfinu og finna lausnir sem henta hverjum
hópi fyrir sig þegar tímanum vindur fram.
En víkjum aftur að árinu 2020, vonandi hafa einhverjar tekið
sér far með ljósmæðravagninum frá Spönginni, óhætt er að
segja að sá strætó hafi vakið mikla eftirtekt og að mestu leyti
jákvæða og er þá tilganginum náð. Mig langar líka til að vekja
athygli ykkar á Instagram- reikningnum Ljósmæðralíf 2020.
Það væri gaman ef sem flestar ljósmæður væru til í að veita
smá innsýn í sitt líf og starf og hafa samband við Ingu Maríu
varaformann sem sér um þetta verkefni. Við erum sterkastar
saman og með sameiginlegu átaki getum við vakið athygli á
okkar litlu en mikilvægu og sterku stétt.
Áslaug Valsdóttir formaður
Áslaug Íris Valsdóttir,
formaður Ljósmæðrafélags Íslands
Á VA R P F O R M A N N S L M F Í
LJÓSMÆÐRALÍF 2020
TWITTER/STRÆTÓ