Ljósmæðrablaðið - aug. 2020, Side 7
7LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - ÁGÚST 2020
F O R S Í Ð A
Verkið á forsíðunni er úr ljósmyndaseríu frá
2013 sem heitir Attempting to Disappear. Í
verkinu gerði ég atlögu að því að hverfa með
því að taka ljósmynd þegar ég hreyfi mig um
leið og ég þyrla upp hveitiskýi. Mig langaði
til þess að fanga augnablik sem ekki er hægt
að sjá með berum augum en við vitum þó að
er til.
Verkið var unnið áður en ég varð sjálf
mamma. Þegar ég var að leita að verkum sem
gætu hentað fyrir Ljósmæðrablaðið rakst ég
aftur á þessa mynd og mér fannst hún allt í
einu tala svo sterkt við móðurhlutverkið.
Á myndinni er kona sem umbreytist á einu
augnabliki í eitthvað yfirnáttúrulegt. Hún
er ennþá hún sjálf, bæði fyrir og eftir þetta
augnablik, en þó gjörbreytt. Ég á tvö börn,
öðru hef ég fengið að fylgja frá fimm ára
aldri og hitt fæddi ég sjálf. Þó að það hafi
verið ólíkt að verða móðir þeirra þá upplifði
ég samt þetta yfirnáttúrulega augnablik í báðum tilfellum. Að verða
móðir gjörbreytir heiminum. Hann er enn sá sami en hann er allt
annar. Og ég er enn sú sama en ég er þó allt önnur. Rétt eins og
augnablikið á myndinni, við sjáum þetta
augnablik ekki með berum augum en við
vitum að það er til.
Meðfylgjandi hér á síðunni eru einnig
tvö önnur verk. Annars vegar er ljósmynd
af textílverki eftir listahópinn minn IYFAC
sem samanstendur af fimm listakonum.
Hugmyndin að hópnum var að stofna einhvers
konar myndlistarklúbb en fljótlega fórum við
þó að sýna og skapa verk saman. IYFAC varð
til þegar við vorum allar nýútskrifaðar og
óreyndar í listheiminum, rétt eins og mömmu-
hópar fyrir nýbakaðar mæður. Í raun má segja
að IYFAC virki eins og mömmuhópur. Ég
leita í brunn vinkvenna minna við uppeldi
barnanna og leita ég í brunn vinkvenna minna
við listsköpun. Verkið á myndinni er ljós-
mynd af efnisbútum sem við unnum upp úr
litum himinsins en þetta tiltekna textílverk
líkist þó sköpum kvenna.
Hitt verkið sem fylgir með er skissa sem unnin var í tengslum
við dansverkið: Kæra manneskja og sýnir hringrás manneskjunnar
eða konunnar.
ATTEMPTING TO DISAPPEAR
NÁMS- OG STARFSFERILL
Ragnheiður Maísól Sturludóttir er myndlistarkona sem vinnur þvert á miðla, en síðustu ár hefur hún unnið að myndlist og sviðslist
til jafns. Auk þess hefur hún starfað sem listrænn stjórnandi og framkvæmdarstjóri menningarviðburða. Inntak verka hennar er
fagurfræði hversdagsleikans og samband mannsins við sjálfan sig og aðra. Hún lærði ljósmyndun og leiklist áður en hún lauk BA
prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands. Hún stundar nú mastersnám í hagnýtri þjóðfræði við Háskóla Íslands. Ragnheiður Maísól
er stofnmeðlimur í myndlistarhópnum IYFAC. Nánar má sjá um verk hennar á https://www.behance.net/maisol. Verk IYFAC má sjá
á http://www.iyfac.com
Ragnheiður Maísól Sturludóttir,
myndlistarkona