Ljósmæðrablaðið - aug. 2020, Side 10
10 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - ÁGÚST 2020
Auk allrar faglegu þekkingarinnar hef ég þurft að tileinka
mér óteljandi verkleg atriði, og við flest þeirra finnst mér ég
þurfa að þróa með mér ný skynfæri. Má þar nefna að þreifa
óléttubumbur og leghálsa og sauma spangarrifur. Þetta eru
atriði sem ég bæti mig jafnt og þétt í þó það verði eflaust
eilífðarverkefni. Ég hef þó komist að því að þetta eru ekki
aðalatriðin heldur hugmyndafræðin, sem stýrir nálgun og
störfum ljósmæðra. Allt frá fyrstu kennslustundunum fann ég
að ég væri komin í alveg nýtt fag. Til að byrja með var mikið
rætt um hugtök eins og valdeflingu, salutogenesis og feminisma
sem og siðferðisleg mál sem tengjast sjálfsákvörðunarrétti o.fl.
Þessi hugtök og pælingar lituðu allt námið og ég finn í dag
að þau eru það greypt í mig og ég veit nákvæmlega hvað ég
stend fyrir sem verðandi ljósmóðir. Þó að þetta hljómi í raun
allt mjög “basic”, að bera virðingu fyrir konunni og standa
vörð um eðlilegt ferli er það hægara sagt en gert í flóknum og
tæknilegum heimi.
Ljósmóðurstörfin eru margvísleg, tilfinningarík og ákveðin
áhrifamikil reynsla á námstímanum stendur upp úr:
Þegar ég lít yfir námstímann finnst mér hann bæði hafa liðið
eins og korter og 100 ár, þar sem ég er búin að upplifa svo margt.
Ég hef fundið mig í óteljandi nýjum aðstæðum, t.d. í sendiferð
að kaupa DD batterí í fæðingar-vasaljós í Bónus með seðil
frá Kristbjörgu ljósmóður í miðri heimafæðingu. Einnig ösla
snjó upp að mitti á galtómum götum Akureyrar á leið í fæðingu
þar sem konan var flutt innanbæjar á björgunarsveitar-trukk.
Þegar ég mæti fólki eftir viðburðaríka vakt hugsa ég oft „ef þú
bara vissir“ og finnst ég stundum stödd í bíómynd, hvort sem
það er spennumynd þegar hlaupið er í bjöllukeisara, rómantísk
gamanmynd þegar ég aðstoða nýbakaðan og tárvotan pabba við
að skilja á milli eða falin myndavél þegar ég skófla storknuðu
blóði uppá bökunarvigt. Já, - það er alltaf stutt í húmorinn, en
hann hefur hjálpað mér í gegnum svo margt í náminu.
Ég hef tekið á móti tvíburum í dásamlegri fæðingu þar sem
allt gekk svo vel. Ég hef ekki verið við fyrirburafæðingu en ég
hef fengið óvænt slappt barn þar sem þurfti að hafa hraðar
hendur. Ég hef tekið á móti barni hjá hælisleitendum og ein
stendur uppi sem eftirminnilegasta fæðingin. Ég var með þeim
á næturvakt og vitað var að barnið væri vaxtarskert. Konan
var í gangsetningu og krílið þoldi syntoið illa. Konan kláraði
útvíkkun á vaktaskiptum og hún bað mig að fara ekki frá sér og
ég gat það ekki. Ég tók á móti þessu litla kríli þar sem að var
komin bradycardia í restina en allt endaði vel. Konan hringdi
í mig nokkrum dögum seinna til að þakka mér og sagði mér að
í öllu þessu fann hún aldrei fyrir að vanta fjölskyldu sína, ég
hafði verið henni eins og móðir, systir og ljósmóðir. Mér þótti
mjög vænt um þetta og verð að viðurkenna að þetta stendur
upp úr af því að þetta táknar hvað við stöndum fyrir. Það er
yfirsetan, umhyggjan og fagmennskan.
Að lokum hef ég einnig lagt mikla áherslu á að veita heildræna
umönnun og finnst mikilvægt að huga að mökum kvennanna
þar sem þeir eru oftast helsta stuðningsnet þeirra. Ég sinnti
pari á morgunvakt á fæðingarvaktinni í mars og ég man svo vel
þegar ég var búin að kynna mig og aðstoða konuna á klósett
að ég spurði manninn hennar hvernig hann hefði það. Þetta
var búið að vera langt ferli hjá þeim og ég bauð honum kodda
og teppi eða hvort hann vantaði eitthvað. Hann leit furðulega
á mig. Og sagði svo: Þú ert fyrsta ljósmóðirin sem hefur sinnt
okkur í þessu langa ferli sem spyr mig hvernig ég hafi það. Takk
kærlega fyrir það. Ég fékk kökk í hálsinn...
Ljósmæðurnar sem útskrifuðust í júní 2020 voru tilbúnar. Þær
tóku fram hvernig þær hafa orðið fyrir hugmyndafræðilegum
áhrifum í náminu, farið í gegnum ákveðið breytingarferli og
hlotið sterka leiðsögn og stuðning frá umsjónarljósmæðrum. Þær
lýstu því einnig hvernig lærdómurinn muni halda áfram og að þær
muni eflast í starfi með öðrum ljósmæðrum til framtíðar.
Ég hef fengið að fylgja fullt af frábærum ljósmæðrum og tel
mig hafa valið úr það besta frá hverri og einni til að setja í
verkfæratöskuna mína en einnig sigtað frá það sem mér fannst
ekki svo gott.
Og nú er kominn tími til að fæðast [sjálf sem ljósmóðir]. Sem
er óhugnarleg tilhugsun, en bara í smá stund. Því hvað gerum
við við nýfædd börn? Ekki eru þau skilin eftir ein og óstudd.
Ég hef á tilfinngunni að ljósmæðurnar eigi eftir að leiða mig
í gegnum næstu ár í starfi, og eflaust um ókomna tíð. Eins og
mæður gera við börnin sín, og aðrar ljósmæður hafa gert fyrir
þær.
Frá upphafi gerði ég mér grein fyrir því að mitt hlutverk væri
að vera vakandi fyrir þáttum tengdum öryggi og heilbrigði
móður og barns og þætti aðstandenda. Þekking á því hvað
bendir til að ekki sé allt eins og það á að vera hefur aukist
mjög á námstímanum en ég á þó eftir að læra margt betur með
reynslunni.
Ég tel mig vera tilbúna eftir þennan námstíma til að takast
á við þær áskoranir að vera ein á vakt. Ég get einnig alveg
hugsað mér að fara og leysa af annarsstaðar á landinu og
treysti mér til þess. Já, það er smá kvíðahnútur að vera lengst
úti á landi, að leysa af alein, en við ljósmæður þurfum að
búa yfir sjálfsöryggi og það er mikilvægt að það sé lágmarks
ljósmæðraþjónusta fyrir allar konur í heimabyggð.
Nú sit ég í sófanum heima hjá mér og vinn svokallaða
lokadagbók sem gerir það að verkum að ég fer á hraðspóli í
huganum í gegnum síðustu 10 ár. Frá lítilli óöruggri stelpu sem
vissi ekki hvað hún vildi í lífinu í sterka, sjálfsörugga konu sem
veit nákvæmlega hvað hún vill gera í lífinu. Ljósmóðurfræðin
hefur nefnilega verið ofboðslega valdeflandi nám fyrir mig.
Frá því að vera hlédræg, passív og hafa ekki trú á eigin getu
yfir í það að hoppa á öll námstækifæri, krefjast þess að fá að
gera og vita að mér sé treystandi og að ég get. Það sem situr
mér efst í huga nú í lokin er þakklæti - þakklæti fyrir að hafa
leiðst á þessa braut, þakklæti fyrir að hlakka á hverjum degi til
að mæta til vinnu og þakklæti fyrir að fá að læra eitthvað nýtt
og verða betri með hverjum deginum. Takk fyrir mig!
Fyrir daglega umhirðu húðarinnar
Allar Decubal vörur eru öruggar, mildar og rakagefandi ásamt því að vinna gegn þurri húð. Decubal er alhliða húðvörulína og hentar
öllum í fjölskyldunni. Decubal er algjörlega laust við ilmefni, litarefni og parabena og er eingöngu selt í apótekum.
Decubal Face cream
Dagleg umhirða húðarinnar
getur komið í veg fyrir þurrk og
haldið húðinni heilli og teygjanlegri.
Nærið húðina með þessu milda
andlitskremi. Það inniheldur E-vítamín
sem mýkir húðina. Kremið smýgur
fljótt inn í húðina og er ekki
fitukennt – sem gerir það að
góðum grunni undir farða.
Decubal Face wash
Hreinsifroða sem hreinsar
húðina á mildan en jafnframt
áhrifaríkan hátt. Froðan hefur létta
og mjúka áferð og þurrkar ekki húðina
en skilur hana eftir mjúka og hreina.
Hún inniheldur rakagefandi glýserín
og allantóín sem hreinsar burtu
dauðar húðflögur og hvetur
til frumuendurnýjunar.